Ekki lengur blaðaútgefandi...

eigendaskipti_sunnlenska

Í júnímánuði 1987 byrjaði ég minn feril sem blaðaútgefandi og hef verið að síðan þá, alveg þar til nú að við hjónin seldum Sunnlenska fréttablaðið. Kaupendur eru núverandi ritstjóri Guðmundur Karl Sigurdórsson og Jóhanna S. Hannesdóttir en þau skötuhjú búa ásamt Nönnu sinni í Stóru Sandvík í  Flóa. 

Ég hætti reyndar að skipta mér af ritstjórn Sunnlenska um leið og ég fór í prófkjörsslag fyrir réttum tveimur árum en hef haft puttana í rekstrinum engu að síður og Elín mín hefur unnið við reksturinn en hún var víðs fjarri í dag þegar við Gummi og Jóhanna stilltum okkur upp í myndatöku.

Ég gaf mitt síðasta blað út í síðustu viku og fyrsta blað Guðmundar kom til áskrifenda nú kvöld. Þó svo að hann hafi nú um langt skeið séð um ritstjórnina þá finn ég samt fyrir eftirsjá - en líka feginleika að sjá blaðið í góðum höndum. Blað sem ég hef gefið út óslitið frá 1991 og var orðinn skelfilega samgróinn.

Áður stofnaði ég Bændablaðið og gaf út í nokkur ár en seinna keyptu bændasamtökin það blaðheiti af okkur Jóni Daníelssyni frá Tannastöðum sem áttum um þetta útgáfufélagið Bændasyni hf. 

Það er vitaskuld sagt betur frá þessu öllu í Sunnlenska en rétt að taka það fram að við Elín rekum áfram bókakaffið og styttist reyndar í að verslunin sú opni bloggsíðu hér á Moggablogginu...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Gangi ykkur vel.

Anna Ragna Alexandersdóttir, 3.9.2008 kl. 23:44

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Blaðið verður í góðum höndum, það er næstavíst!

Sigurlaug B. Gröndal, 4.9.2008 kl. 08:57

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Óska ykkur öllum til hamingju með viðskiptin -- en mótmæli því að Guðmundur Karl frændi minn og Jóhanna hans séu skötuhjú. Mér þykir það orð niðrandi.

Annars góð kveðja

Sigurður Hreiðar, 4.9.2008 kl. 13:57

4 Smámynd: Gísli Blöndal

Alltaf jafn gaman að lesa þig og heyra. En segðu mér eru hjón og skötuhjú það sama?  Hélt að hjón væru formlega saman gefin en skötuhjú væru í óvígðri sambúð, án þess að það sé nokkuð niðrandi eins og SH heldur fram - en þetta kannt þú örugglega betur en ég. Gangi ykkyr öllum allt í haginn

Gísli Blöndal, 4.9.2008 kl. 17:08

5 Smámynd: Bjarni Harðarson

í blogginu er talað um okkur hjónin því við elín voru vígð saman í hoffellskirkju í nesjum fyrir rúmlega tveimur áratugum. guðmundur karl og jóhanna búa saman í óvígðri sambúð, eru sambúðarfólk og sjálfsagt eitthvað fleira í stofnanamáli nútímans - ég kann betur við gamalgróin orð eins og skötuhjú eða kærustupar en hafði ekki gert mér grein fyrir að einhverjir gætu talið þau niðrandi. ef einhver á eitthvað annað orð sem ekki er asnalega stofnanalegt þá er það vel þegið...

Bjarni Harðarson, 4.9.2008 kl. 23:09

6 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni þú kemur manni mikið oft á óvart/ kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 5.9.2008 kl. 00:46

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Hvað segir þú um sambýlinga fyrir þá sem ekki hafa látið blessa samvist sína -- hvort sem það er nú prestur eða sýsli sem blessa...?

Sambýlisfólk er líka til.

Mér finnst skötuhjú eiga við um minniháttar pakk, sosum eins og Grýlu og Leppalúða.

Annars góð kveðja

Sigurður Hreiðar, 6.9.2008 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband