Reikniskekkjur skjálfhentra ESB - sinna

Handarskjálfti getur tíðum leitt til þess að rangt er slegið inn á reiknivélum og svo virðist nú farið þeim aðildarsinnum sem reiknað hafa út að aldrei hafi fleiri Íslendingar verið hlynntir ESB - aðild en nú. Ef litið er á tölur á heimasíðu Samtaka iðnaðarins sést að þetta er rangt. Fylgið við aðild að ESB náði meiri hæðum í netbólukreppunni í byrjun þessarar aldar en rénaði fljótt um leið og um hægðist á mörkuðum.

Þannig töldu 67% þeirra sem tóku afstöðu í febrúar 2002 að Ísland ætti að ganga í ESB en nú er sambærileg tala 60%. Frændur okkar Svíar gengu í ESB í krafti einnar atkvæðagreiðslu sem sýndi meirihlutafylgi við aðild. Bæði fyrir og eftir þá kosningu hefur meirihlutinn verið andvígur ESB - aðild þar í landi en úr ESB er engin leið út.

Skrýtla í skrifræðinu

Í nýjum Lissabonsáttmála er reyndar ein skrýtla um úrsögn þar sem gert er ráð fyrir að þjóð megi ganga úr ESB en verði þá fyrst að sæta því að vera gíslingu hinna ESB landanna í tvö ár án þess að ráða nokkru um sín mál eða koma nokkuð að ákvörðunum innan sambandsins. Í öllu skrifræði sambandsins er þetta eitt af örfáum dæmum um skopskyn og enn fyndnara þegar einhver tekur reglu sem þessa alvarlega.

En áfram um talnafræðin. Þegar horft er til sögu Svía og niðurstöður skoðanakannanna á Íslandi síðustu ár er handarskjálfti ESB - sinna hér heima ofur skiljanlegur. Reynslan kennir þeim að meirihlutafylgi við ESB - aðild er mjög hverfult. Fæstir hafa skoðað málið til þrautar og fyrir flestum rennur upp önnur mynd þegar þeir átta sig á að með aðild að ESB hefur Ísland glatað nýfengnu fullveldi um alla framtíð. Fullveldi sem hefur skilað okkur svo fram á brautina að frá því að vera frumstæðust og fátækust allra Evrópuríkja erum við nú þau efnamestu.

Reynsla Norðmanna bendir raunar til að við kosningar sé þjóðleg hollusta og skynsemi mun meiri en í yfirborðslegum skoðanakönnunum. Meirihluti Norðmanna hefur samþykkt ESB aðild í könnunum en hafnað hinu sama í kosningum.

En hinu er ekki að neita að ef fjármálakreppan dýpkar enn og verðbólgan heldur áfram er líklegt að fylgi við ESB aðild eigi jafnvel enn eftir að aukast - áður en það hjaðnar hratt á ný, líkt og gerðist á árinu 2002. Þá gerðist það að fylgi við ESB féll mjög hratt um mitt ár 2002 og hefur síðan lónað í 40% allt fram til ársins 2006 að það fór að skríða hægt uppundir helming en sú þróun stöðvaðist í raun og veru fyrir ári síðan. Munurinn á ágústtölum Samtaka Iðnaðarins nú (48,8%) og ágústtölunum frá 2007 (47,9%) er innan skekkjumarka.

Almenningur á að hlýða ESB!

ESB - sinnar eiga ekki langt að sækja það að vera ónákvæmir á reiknivélum þegar kemur að skoðunum almennings. Hjá sjálfu Brusselvaldinu hefur aldrei tíðkast að farið sé eftir skoðunum almennings, - það er almenningur sem á að fara eftir skoðunum valdsins. Kosningar eru til að staðfesta þegar markaða stefnu og ef almenningur hafnar því sem fyrir hann er lagt er það vegna þess að sami almenningur hefur ekki skilið kosningarnar. Þessu er nú haldið fram um Lissabonkosningar Íra.

Frakkar höfðu hafnað sömu tillögum í þjóðaratkvæðagreiðslu með mjög afgerandi hætti og sama gerðu Hollendingar. Í stað þess að farið væri að vilja almennings var nafni á hinni nýju stjórnarskrá breytt og hún kölluð Lissabonsamningur. Síðan sjá þjóðþingin um að keyra það í gegn sem almenningur hafði hafnað.  Andstaða almennings við Evrópusamrunann innan ESB landanna er orðin áþreifanleg og feigðarmerki sambandsins flestum augljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er fín grein hjá þér, Bjarni minn og sýnir það sem ég hef áður sagt, að þú ert maður (yfirleitt) óvitlaus.

 En, það að halda því fram að Ísland tapi sjálfstæði sínu um alla framtíð er nú svoldið stór biti að taka sér í munn. Það er ég sannfærður um að jafnvel fávísustu stjórnmálamenn myndu setja klausu í samning eins og þann sem gerður væri á milli ESB og íslands um það að hann væri uppsegjanlegur. (Það væri nú aldeilis fínt líka ef að landsmenn gætu sagt upp einstaka stjórnmálamönnum)

Ég er fylgjandi inngöngu í ESB, en ég er samt ekki svo þröngsýnn að segja að við eigum að fara þangað í blindni. Það verður að láta gera óháða könnun hagfræðinga og fleiri fagaðila um kosti og galla og sjá til hvernig samninga við getum hugsanlega fengið. Svo á að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar skýrslan hefur verið gerð opinber. Því fyrr sem þetta gerist, því fyrr getum við einbeitt okkur að því að koma okkur á beinu brautina.

Það segir sig sjálft að þeir sem bera uppi þungan af gengishruni krónunnar eru fjölmennar fjölskyldur (s.b.r mín) sem þurf að nurla hverri krónu í húsnæði og fæði. Það má vel vera að laun alþingismanna séu á þann veg að það breyti engu hvort spaghettipakkinn kosti 100kr eða 200kr, en við stórfjölskyldurnar sem erum ekki á alþingismannataxta höfum aðeins fengið að finna fyrir því. Satt er það og rétt að þetta ástand er að hluta heimilunum í landinu að kenna, því með öllum lánunum sem við höfum tekið, öllum yfirdrættinum o.sv.frv. höfum við grafið okkur í skuldafen, en er það samt réttlætanlegt að við þurfum að hífa allt þotuliðið upp með okkur líka?

Kv, olíukallinn

Diesel (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 22:54

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þú hefðir átt að hlusta á Jón Sigurðsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins á þingi Neytendasamtakanna Bjarni.Hann talaði svo vel fyrir þjóðlegum gildum og auknu fullveldi með því að ganga í E.S.B.og ekki vantaði glærur og útreikninga,að allt þingið steinlá og úr varð rússnesk kosning með E.S.B. aðild. Mikill er máttur Framsóknar.

Sigurgeir Jónsson, 21.9.2008 kl. 23:24

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kærar þakkir Bjarni. Þú hittir 7" sauminn beint á hausinn með sleggjunni. Þú lætur ekki blekkjast.

1) ESB virkar ekki - því annars væri efnahagur ESB ekki sífellt að dragast svona mikið aftur úr efnahag bæði BNA og Íslands.

2) Til þess að ESB geti byrjað að virka eins og til er ætlast þá þarf að breyta því í eitt ríki (United States of Europe)

3) Þess vegna er nýja stjórnarskráin svona mikilvæg. Hún er stóra skrefið í átt að "einu ríki - eitt fólk".

4) Öll verk áætlunarmanna enda svona. Sem ríki fátæktar og forræðis. Við sjáum nú þegar hrörnunina eiga sér stað í ESB.

5) Það er engin leið út aftur

6) Íslendingar gera sér enga grein fyrir hversu heppnir þeir eru að vera EKKI landfræðilega bundnir ESB-meginlandinu - þeir þurfa ekki að búa við ofurrisa í túnfætinum , og jafnframt á alla kanta jarðarinnar. Þennan dýrmæta kost eiga Íslendingar að nýta sér til hins fyllsta.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 21.9.2008 kl. 23:29

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þetta með fullveldið er frekar einfalt mál. Það liggur fyrir að stofnanir Evrópusambandsins hafa í gegnum árin sankað að sér gríðarlegum völdum og sér ekki fyrir endann á því. Ef aðildarríki sambandsins væri fullvalda í raun og veru þá væru þessar sömu stofnanir valdalausar. Það er þó svo sannarlega ekki þannig heldur er það einmitt svo að ríkisstjórnir aðildarríkjanna geta varla hreyft sig orðið án þess að fá til þess leyfi Evrópusambandsins. Mikið fullveldi þar á ferð.

Hjörtur J. Guðmundsson, 22.9.2008 kl. 16:25

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góð grein Bjarni.

Það er langt síðan sú er þetta ritar taldi að stjórnarskrárhugmyndirnar yrðu upphaf að endalokum sambandsins.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 23.9.2008 kl. 00:02

6 Smámynd: Lýður Pálsson

Sæll kæri Bjarni.  Þetta blogg þitt er orðið hundleiðinlegt! Eintómt evru, dollara, ESB og EB kjaftæði. Hvað segir þú um eins og eina þjóðlega draugabloggfærslu? Og engin réttarbloggfærsla?  Kveðjur góðar, Lýður.

Lýður Pálsson, 23.9.2008 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband