Alltaf sami bankinn... og Bjarnabófarnir á mynd!

Atburðir dagsins eru ekki til þess að hafa í flimtingum og samstaðan um aðgerðir Seðlabankans í nótt sem leið mikilvæg fyrir þjóðarhag. Kannski þurfum við lexíu eins og þessa til að skilja að þrátt fyrir allt þrasið og alla ofgnóttina eigum við í raun og veru öll sameiginlega hagsmuni af því að halda hér hagkerfi á floti. Og það er verkefni dagsins.

Hitt er umhugsunarvert að það skuli alltaf vera svo gott sem sami bankinn sem lendir hér í hremmingum. Gamli Íslandsbanki var stofnaður af dönum fyrir liðlega 100 árum og fór á hausinn í kreppunni miklu um 1930. Á rústum hans reis svo Útvegsbankinn sem fór á hausinn í Hafskipsmálinu og upp úr þeim banka og nokkrum litlum öðrum litlum bönkum varð til Íslandsbanki síðari seint á síðustu öld og sá banki skipti svo um nafn í byrjun þessarar aldar og hefur síðan heitið Glitnir. Hann varð í dag ríkisbanki líkt og Útvegsbankinn sálugi var um áratugaskeið eða frá 1957 og fram að Hafskipsævintýri.

Hvort þessi endurteknu örlög eru tilviljun er rannsóknarefni.

Læt svo hér flakka með til gamans mynd af okkur Bjarnabófunum sem tekin var á Litla Hrauni þegar félagsmálanefnd Alþingis fór þangað í heimsókn í vikunni. Þar hitti ég meðal annarra heiðursmanna Bjarna þann sem í eina tíð var í Kjarnholtum og nafna hans,- nærstaddur heimamaður var ekki seinn á sér að bregða upp myndavél með þeim orðum að þar næði hann nú mynd af Bjarnabófunum og hún er birt hér með góðfúslegu leyfi, semsagt frá vinstri Bjarni, Bjarni og Bjarni.

bjarnabofarnir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarnabófarnir/þetta er frábært en grín einnig/en hitt er alvarlegra að Glitnir skuli fara svona og ekki allt komið i ljós þar,það spinnast ýmsar getgátur við þetta allt/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 29.9.2008 kl. 21:28

2 identicon

Er pláss fyrir frjálshyggjubófa á hrauninu núna? En í blogginu þínu "borðiði bara kökur" veltirðu fyrir þér stöðu bankanna, og leiddir að því getum að evran væri undirliggjandi áhrifavaldur í bankakreppu norðulandanna. Það má svo sem vera að svo sé, en þú mærðir blessaða krónuna okkar sem kostar nú andvirði eins cent (USA). Þú þarft að kaupa einn dollar á hundrað kall. Evruna á miklu meira. Krónan er að verða verðlaus gjaldmiðill.

Gæti það verið að seðlabankastjóri hafi með yfirtöku glitnis, verið að refsa bankanum fyrir að leika sér að því að fella krónuna í millibankaviðskiptum. Það vita allir hvaða brögðum bankarnir hafa beitt til að líta vel út í ársfjórðungsuppgjörum síðustu missiri, nema kannske þú!

Ég benti þér á að það væri ekki komið að skuldadögum hjá bönkunum, og það kom mér svosem ekkert á óvart að svona skyldi fara. En hvernig þetta atvikast er ekki eðlilegt, Atvinnupólitíkus eins og þú ættir að vera í aðstöðu til að fara dýpra í málið og upplýsa okkur hinum hvaðgerðist í raun.

Mig grunar að hver sá sem kæmist að hinu sanna gæti þar með upplýst sakamál aldarinnar. Inngrip stjórnvalda í þessu máli er dæmalaust og mun hafa verri afleiðingar fyrir þjóðarbúið en ef glitnir hefði fengið að fara á hausinn. Áhrifin munu ekki láta á sér standa.

Sigfús (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 22:10

3 Smámynd: Þorleifur Magnús Magnússon. ( Brói )

Er ekki bláa höndin að strjúka andstæðingum sínum um kinn...?

Þorleifur Magnús Magnússon. ( Brói ), 29.9.2008 kl. 22:15

4 Smámynd: Magnús Vignir Árnason

Er ekki best að halda þessari stöðu. Ég legg til að bankinn verði áfram í ríkiseigu og stjórnarandstaðan hverju sinni fái Glitni til umráða til mótvægis, eins og núna, við kapítalismann. Þá geta hinir f(j)ársjúku haldið áfram í peningaleik (leikur þessi er líka stundum kallaður,,heimskur heimskari" og gengur út á það að kaupa eitthvað og finna svo einhvern enn heimskari til að kaupa það aftur á aðeins hærra verði) en hinir siglt lygnan sjó í viðskiptum við ríkisbankann og öfugt. 

Magnús Vignir Árnason, 1.10.2008 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband