Að leiða ESB málið til lykta

 

Krafan um að losna við ESB-málið í eitt skiptið fyrir öll með kosningum er eðlileg og styðst við það heilbrigða viðhorf okkar allra að nei þýði nei. En þegar glímt er við jafn óheilbrigt og andlýðræðislegt fyrirbæri og Evrópusambandið gildir þessi regla ekki og það er lítilli skuldugri þjóð afar hættulegt að leggja af stað í vegferð með fullveldi sitt í farteskinu.

 

Allar Evrópuþjóðir sem hafa hafnað ESB-aðild eða einstökum liðum í samrunaferli ESB hafa verið látnar kjósa aftur. Þetta á líka við um Norðmenn sem nú eru tvívegis búnir að hafna ESB-aðild en samt er málið enn á dagskrá þar ytra og ESB-sinnar bíða eftir tækifæri til að koma þriðju kosningunum að.

 

Svíar voru margspurðir að því hvort þeir vildu í ESB og allar skoðanakannanir um árabil bentu til að svo væri ekki. Í augnabliks örvæntingu bankahrunsins þar um síðustu aldamót stóð svo á að ESB-sinnum tókst að knýja fram ESB-kosningar og aðild var samþykkt með naumum meirihluta. Fljótlega á eftir var andstaðan aftur orðin meiri en fylgnin en það skiptir einfaldlega engu máli. Kostnaður ríkis og reglur við að fara út úr ESB er með þeim hætti að leiðin er ófær.

 

Það er því mikil afbökun þegar því er haldið fram að lýðræðið krefjist þess að fólk fái að kjósa um ESB-aðild. Þar með er verið að kjósa um það að afhenda útlendingum löggjafarvald yfir okkur og börnum okkar um ókomnar kynslóðir. Það er verið að kjósa af okkur lýðræðið.

 

Nú liggur fyrir að þeir tveir flokkar sem staðið hafa í fylkingabrjósti ESB-andstöðu, Sjálfstæðisflokkur og VG, vilja báðir leiða þjóðina inn í þetta ólýðræðislega kosningaferli. Og bera fyrir sig lýðræði þegar lýðskrum á betur við. Báðir munu koma knékrjúpandi að hásæti Samfylkingar eftir næstu kosningar. Fullveldi Íslands stafar hætta af slíkum stjórnmálaflokkum.

 

Setjum x við fullveldið og lýðveldið, setjum x við L-lista fullveldissinna.

 

 (Birt í Morgunblaðinu 31. mars 2009)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband