Ósmekkleg yfirráð yfir umræðu

Meðan allt lék í lyndi réðu ESB-sæknir útrásarvíkingar yfir öllum fjölmiðlum landsins að Ríkisútvarpinu meðtöldu. Yfirráðin yfir ríkismiðlinum urðu sem framhald annarra yfirráða í landi þar sem blaðamannastéttin er lítil og einslit þannig að hér fór sem vill verða að sumir urðu kaþólskari en páfinn í sínum predikunum.

Nú hefur mjög skipt um í eignarhaldi og um landið leika kaldir vindar uppgjörs við þá menn sem misnotuðu sér viðskiptafrelsi innan EES svæðisins til bíræfinna áhættuviðskipta sem trauðla gátu farið nema á einn veg. Enginn efast í dag um að þeir hópar sem veita áttu aðhald í efnahagsundri nýrrar aldar brugðust.

Blaðamenn viðskiptablaða, þáttastjórnendur og leiðarahöfundar umgengust hina bíræfnu áhættufíkla viðskiptalífsins eins og poppstjörnur og reyndu hvað þeir gátu að læra utan að frekjukröfur sömu manna sem kröfðust meira frelsis, minni afskipta stjórnmálamanna og tafarlausrar inngöngu í ESB. Sama gerðu forsvarsmenn aðila vinnumarkaðarins í stórum stíl og fengu, til að syngja sína söngva, gott rými í fjölmiðlum. En ef þeir sungu „falskt" og vildu ekki líkt og stelpan á prestssetrinu forðum ‚lof‘ann að ofan‘ máttu þeir eiga von á útskúfun í almennri umræðu. Sama átti við um stjórnmálamenn og sumir þeirra sem hvatlegast gengu fram í gagnrýni uppskáru um leið háð og spé hinna alltumlykjandi ljósvakamiðla.

En hvað hafa blaðamennirnir eða talsmenn vinnumarkaðarins sem hraðast fóru með útrásarvíkingum okkar lands gert. Gert upp hina gömlu tíma, farið yfir hvar þeim sjálfum skjöplaðist í stjörnudýrkuninni, sagt af sér eða skipt um starfsvettvang? Nei, ekki almennt allavega.

Þeir eru enn við sama heygarðshornið og svosem ekki við því að búast að blaðamannastétt sem er svo skyni skroppinn sé fær um að veita öðrum aðhald. Það er afar slæmur siður á Íslandi að enginn axli nokkru sinni ábyrgð á nokkrum hlut og allir skuli alltaf fá að sitja í sínum stólum. Hvort sem horft er til vinstri eða hægri. Gömlu kommarnir sem lofuðu harðræði Stalíns skrúfuðu smám saman niður í þeim lofsöngvum en báðust aldrei forláts á að hafa varið þjóðfélagsbyltingar mannhaturs og morðæðis.

Þeir sem nú lærðu að kyrja ESB-söngva sína er eins farið, þó svo að gömlu kórstjórarnir séu á góðri leið með að lenda bak við lás og slá. Einn fárra sem gert hefur kröfu um uppgjör þessara afla var Davíð Oddsson þegar hann gagnrýndi endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins. Sú nefnd var undir forsæti samspillingarafla samfélagsins, sömu afla og halda enn kverkartaki um alla fjölmiðlaumfjöllun í landinu.

Ég mun í næstu greinum fjalla nánar um ESB-sótthita fjölmiðlamanna og hvað er þar til ráða.

(Birt í Mbl. 25. maí)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég þakka og hneigi mig.

Takk Bjarni.

Vel gert.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 25.5.2009 kl. 15:51

2 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Sama segi ég - takk Bjarni - frábær grein.

Sigurður Sigurðsson, 25.5.2009 kl. 16:10

3 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Fínt !

Ísleifur Gíslason, 25.5.2009 kl. 16:51

4 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Eimitt! Hér í Svíþjóð var lítið talað um það í fjölmiðlum að "stjórnmálamenn væru úr takt við almenning" þegar almenningur vildi ekki að Svíþjóð tæki upp Evruna en meirihluti þingsins var á þeirri skoðun. En núna er stór fyrirsögn í Dagens Nyheter (DN) um að stjórnmálamenn séu "úr takt við almenning" þegar skoðanakannanir sýna á þessu ákveðna augnabliki að Evrusinnar hafa rétt (innan skekkjumarka) rúman meirihluta. Þetta er afar sérkennilegt fyrirbæri.

Annað fjölmiðlafyrirbæri er að tala alltaf um fólk sem er fylgjandi fullveldi og fylgjandi því að hafa áfram krónuna, sem þá sem "eru á móti".

Dæmi um þetta er umfjöllun DN í dag þar sem fréttin er sett þannig fram að X% eru fylgjandi því að taka upp Evru á meðan X% eru á móti.

Það væri auðvita mun nærtækara að tala um þá sem eru fylgjandi því að halda sænsku krónunni þar sem hún er jú sá gjaldmiðill sem er í gildi.

En þetta er úthugsuð auglýsingasálfræði.

Ásgeir Rúnar Helgason, 25.5.2009 kl. 18:26

5 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Ég man eftir ungum og áhugasömum blaðamanni og ef ég man rétt stofnaði hann ,,Bændablaðið". Hann virtist vera áhugasamur um að stunda öfgalausa og heiðarlega blaðamennsku; vildi nálgast viðfangsefnið af hlutlægni og sanngirni. Þessi maður heitir Bjarni Harðarson og ég get allavega sagt það með góðri samvisku að er ég kynntist honum, þá stóð hann undir því að vera öfgalaus, heiðarlegur og sanngjarn.

Er það ESB hringhugsunin sem hefur þessi áhrif á þig Bjarni? 

Ingimundur Bergmann, 25.5.2009 kl. 19:46

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Fínt hjá þér Bjarni.

Ásdís Sigurðardóttir, 25.5.2009 kl. 20:37

7 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Frábær grein, eða eins og við segjum í boxinu "straight from the shoulder". Bíð eftir þeirri næstu.

Ragnhildur Kolka, 25.5.2009 kl. 21:48

8 identicon

Heill og sæll Bjarni

Mætti ég biðja um nöfn á þessum "ESB-sæknu útrásarvíkingum" sem réðu yfir Ríkisútvarpinu svo ég geti betur passað mig á þeim framvegis? Eða er ég kannski einn þeirra - þótt ég sé hvorki "ESB-sækinn" og þaðan af síður verið í "útrás"?

Bestu kveðjur,

Páll Magnússon 

Páll Magnússon (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 22:55

9 identicon

                               ÁFRAM ÍSLAND - EKKERT ESB- RUGL !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 08:41

10 identicon

Evrópusambandið: Feðrað af Bilderberg kapitalistum, Móðirin er sovét kommúnismi, maki sambandsins er Íslamtrú og þau eiga saman börnin Einræði og Spillingu.

http://euro-med.dk/?p=1277

Georg O. Well (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 09:17

11 Smámynd: Bjarni Harðarson

Sæll Páll

Ég held að útrásarvíkingarnir allir utan kannski Björgólfsfeðga hafi talað hart fyrir inngöngu í ESB þannig að þar er þeirri spurningu svarað. Yfirráð þessara víkinga yfir RÚV helgast af smæð blaðamannastéttarinnar og því að lengstum hefur verið vænlegra til launa að komast inn undir á fjölmiðlum þessara sömu víkinga. Þessvegna hafa jafnvel gamlir fréttahaukar á spegli RÚV hamast við og virst á köflum kaþólskari en páfinn í þessum efnum. Ég vona að þetta svari spurningum þínum! Bestu kv.-b.

Bjarni Harðarson, 26.5.2009 kl. 10:16

12 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Sennilega er fréttin um breytingar á sjávarútvegsstefnu ESB bara............. ESB-sótthiti íslenskra fjölmiðlamanna.

Páll A. Þorgeirsson, 26.5.2009 kl. 10:51

13 identicon

Sæll Bjarni.

Já stórfréttir RÚV um "breytingar á sjávarútvegsstefnu ESB" er enn eitt dæmið um það hvað þessi fjölmiðill dregur sífellt taum ESB- rétttrúnaðarins á Íslandi.

Þessar fréttir eru sagðar og settar upp í þvílíkum áróðursstíl og alveg jafn gagnrýnislaust og sjálft PRAVDA hefði sagt frá samþykktum ÆÐSTA RÁÐS Sovétríkjanna Gömlu á sínum tíma.

Sannleikurinn er sá að sjávarútvegsstefna ESB er dauðadæmt fyrirbæri og er búið að vera það í áratugi.

Stefnan og ekki síst stefnuleysið hefur sett þessa atvinnugrein á vonarvöl og gert flesta þá sem starfa í þessum atvinnuvegi að farlama betlurum og bófum.

Nánast öll fiskimið innan Sambandsins eru einnig rjúkandi rústir ofstjórnunar skriffinnanna. 

Síðan halda menn nú allt í einu eins og hendi sé veifað að það breyti einhverju þó að þessir einnota sjávarútvegsráðherrar aðildarlandana beini því enn einu sinni svona almennt orðaðri samþykkt  til Kómmízara Ráðsins að reyna nú að draga úr miðstýringunni og skrifræðinu.

Í svona kerfum gerist nefnilega allt afskaplega hægt, alveg eins og í blóðrásarkerfi risaeðlana sem dóu út.

ESB áróðursmeistarar RÚV eru ekki ólíkir senditíkum Stalíns á sínum tíma og túlka þetta allt þannig að nú sé þetta bara allt frágengið og flott.

Svo er alls ekki og það á eftir að líða ár og öld þangað til.

Svona samþykktir hafa verið gerðar áður og endalaust hefur verið unnið að úrbótum á þessu handónýta kerfi en allt kemur fyrir ekki, kerfið breytist EKKI svo auðveldlega, vegna innbyggðrar fyrirstöðu þess sjálfs.

Svona risavaxin og flókin kerfi hafa nefnilega þá náttúru að fara að lifa sínu eigin sjálfstæða lífi og hugsa fyrst og fremst um að þjóna sjálfum sér, hver sem vilji fólksins er og hversu mikið sem fólk vill breyta þá ganga þær breytingar bara EKKI í gegnum KERFIÐ ! 

Þetta er gömul saga og ný.

                         ÁFRAM ÍSLAND - EKKERT ESB- RUGL ! 

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband