Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Pólitíkin og landsbyggðin

Það er einkum tvennt sem ógnar landsbyggðinni. Annarsvegar skefjalaus markaðshyggja og reiknikúnstneratrú. Hinsvegar fjallagrasapólitík.

Íbúar á landsbyggðinni hafa á undanförnum árum fengið smjörþefinn af hinni köldu markaðshyggju þar sem stór þjónustufyrirtæki hafa verið einkavædd og þau síðan dregið stórlega úr þeirri þjónustu sem ríkisstofnanir veittu áður á landsbyggðinni.

frambjodendafundur 002 

Víst er að okkur Framsóknarmönnum hefur þar oftar en ekki þótt geyst farið en orðið að sæta forræði Sjálfstæðismanna yfir þeim ráðuneytum sem þeir hafa farið með. Þannig hefur verið erfitt um vik fyrir ráðherra flokksins að hamla á móti einkavæðingu í samgöngu- og fjarskiptafyrirtækjum en það hefur þó verið gert eftir mætti. Nú síðast þegar til stóð að bjóða út landsstöðvar Vegagerðarinnar.

Í þeim málefnum sem eru undir stjórn Framsóknarráðherra hefur verið hlúð að starfsstöðvum í hinum dreifðu byggðum þrátt fyrir tilhneigingu reiknimeistara ráðuneytanna til að fara aðrar leiðir. Það er rík sú trú að það megi reikna okkur til þeirrar hagræðingar að betra sé að þjappa byggðinni saman. Staðreyndin er aftur á móti sú að þær þjóðir eru ekki ríkari þar sem slíkum reiknimeisturum hefur verið gefinn laus taumur.

Fari svo að hér taki við ný Viðeyjarskotta, samstjórn krata og íhalds má búast við að reikniköllum þessum og hinni köldu markaðshyggju verði gefinn mun lausari taumur en verið hefur. Þá mun sverfa að hinum dreifðu byggðum þar sem meðaltöl reiknimeistaranna eru ekki innan staðla.

En lengi getur vont versnað. Verst landsbyggðinni er hin undarlega fjallagrasapólitík Vinstri grænna. Þar á bæ styrkir fylgisaukning forsvarsmenn flokksins í þeirri trú að ekkert megi hreyfa og engu megi breyta. Fjármálamenn hafa sumir lýst áhyggjum af viðhorfi þingmanna VG til bankanna og stórfyrirtækja. Sjálfur hef ég ekki minni áhyggjur af því hvaða áhrif öfgafull umhverfisstefna hefur á líf þess fólks sem berst við að lifa af landinu og í landinu. Friðun á hverjum steini, bann við hverskyns raski austan Elliðaáa eru ær og kýr þess hóps sem mótar stefnu Vinstri grænna. Nógar girðingar hafa þegar verið settar fyrir framkvæmdum landsbyggðarfólks af blýantsmönnum fyrir sunnan. Guð hjálpi okkur ef þeim pótintátum á enn eftir að fjölga.

(Myndin hér að ofan tilheyrir þessari grein ekki neitt en er birt hér að beiðni aðdáanda. Hún hefur reyndar birst hér á síðunni áður en á henni sést Hjálmar Árnason í léttri sveiflu með Elsu Ingjaldsdóttur í prófkjörsbaráttunni síðastliðið haust. Næst á myndinni eru þeir Gissur Jónsson til vinstri og Björn Bjarndal til hægri.)


Að leika hetju...

- Heimskinginn skelfur hálfnakinn og heldur að það sé fínt - hygginn maður klæðir af sér kulda.-

Eftirfarandi er úr gömlu almanaki vinar míns Helga Hannessonar kaupfélagsstjóra og mér varð hugsað til þess arna þegar ég vaknaði með kvef og ræfildóm á fimmtudaginn og hef verið eins síðan. Var nefnilega daginn áður í Þorlákshöfn þar sem Jóhanna Vigdís fréttakona fékk mig til að standa fyrir á mynd á bryggjunni og einhvernveginn hafði það lent í undandrætti að fara í frakkann, sem lá úti í bíl, enda veðrið eiginlega þannig að það var hvorki kalt né heitt en það vita þeir sem lent hafa fyrir framan sjónvarpsvélar að þar er alltaf kalt. Ég lét samt á engu bera og varð eins og fermingarstrákur þegar hin fagra fréttakona fór að dást að því hvað ég væri mikill nagli að þola þennan kulda á jakkanum einum.

En hetjuleikir hafa aldrei farið mér vel...

En kosningabaráttan gengur sinn gang þrátt fyrir nefrennsli og í gær lenti ég á kostulegum fundi í Þingborg þar sem saman voru komnir margir hinna rótttækustu í umhverfismálum hér í héraði. Innan um var líka margt af hófsömu góðu framsóknarfólki en það ber minna á því á svona fundi. Við fulltrúar flokkanna sátum fyrir svörum og þrátt fyrir að umræður væru sæmilega málefnalegar blöskraði mér skelfilega að sjá sveitunga mína marga sýna sínar verstu hliðar. Það var klappað í ákafa fyrir mestu öfgunum og flissað illkvitnislega þegar fjármálaráðherra talaði. Hvað sem pólitík er, þá megum við aldrei gleyma að sýna háttvísi og kurteisi. Auðvitað var það lítill hluti fundarmanna sem hagaði sér svona en til skammar samt.

Dagurinn endaði svo frábærlega með friðarbáli okkar Framsóknarmanna á Stokkseyri þar sem um 200 manns mættu og endaði á Draugabarnum þar sem Guðni Ágústsson fór á kostum í sögum frá Brúnastöðum og Bessastöðum!


Eyjamenn eru okkar menn

Lentum seint í gærkvöld á Bakkaflugvelli eftir vel heppnaðan dag í Eyjum þar sem þau heiðurshjón Sigurður Vilhelmsson og Eygló Harðardóttir opnuðu með okkur kosningaskrifstofu með pomp og pragt. Fjöldi kom þar í grillveislu og alltaf finnst mér Eyjarnar eiga meira í mér eftir hverja ferð þangað út.

Það er ekki bara að Eyjarnar eigi meira í mér ég held af viðtökunum að ég eigi þar meira eftir hverja ferð. Þó sagt sé að Eyjamenn kjósi margir aðra flokka en okkar er samt mikill samhljómur sem ég finn þegar ég tala við fólkið í þessari skemmtilegu byggð. Það á við bæði um fiskvinnslufólk og forstjóra. Hagsmunir þessa fólks eru hagsmunir landsbyggðarinnar og flokksafl þeirra hagsmuna er okkar Framsóknarflokkur.

Við þurfum á næstu árum að skilgreina þessa hagsmuni betur. Það eru mjög háir vextir á Íslandi, hátt verðlag og mikið launaskrið. Að nokkru eru þetta fylgifiskar mikils hagvaxtar sem við njótum á hagvaxtarsvæðunum. En það er ekki hagvöxtur allsstaðar í landinu. Og hvað má það fólk segja sem ekki býr við hagvöxtinn en tekur á sig hinar íþyngjandi byrðar hans. Meira um þetta síðar...

Í dag vorum við í Fjölbraut á Selfossi og víðar. Krakkarnir þar tóku okkur mjög vel og kvöldinu eyddum við Guðni svo í makindum á fundi með Skeiðamönnum í Hestakránni sem er á Húsatóftum en ekki Brautarholti eins og mér skriplaðist á að skrifa í auglýsingu...


Svo ergist hver sem eldist...

Svo ergist hver sem eldist segir í Hrafnkötlu og raunar klifað á þessum undarlega málshætti hér og þar í fornsögum og sýnist sitt hverjum hvað merkir. Þó svo að ergin hafi til forna merkt kynvillu er hér einkanlega átt við það að með aldri verði menn kvenlegri. Karlmannshormónarnir réna og í staðin kemur mildi öldungsins og allskonar líkamskvillar sem ekki er mjög karlmannlegt að þurfa að leiða hugann að...bjarni_a_indlandshafi

En sjálfum varð mér hugsað til þessa þegar ég enn einn morguninn þurfti að skrýðast sparifötum. Finnst einhvernveginn hálfvegis hinsegin að þurfa æ og alltaf að velta fyrir mér klæðaburði þessa dagana, skoða mig sjálfan jafnvel í spegli og gæta og sápuþvo minn ljóta haus daglega. Skreyttur eins og jólatré.

Framundir þetta eða þangað til ég fór í framboð hafði ég það frelsi að kæra mig kollóttan um minn klæðaburð þó ég gerði það að tillitssemi við umhverfið að vera spari í veislum og jólum. Og fannst reyndar oft hátíðlegt og skemmtilegt.

Núna verð ég að vera eins og á jólum alla daga og bæði fer sjarminn af sparifötunum við þetta og svo er þetta óttalegt tilstand,- þið fyrirgefið stelpur en stundum finnst mér ég vera farinn að haga mér eins og kelling...


Fundur með Johnsen og Grindavíkurdagur

  arni_johnsen

Í gær átti ég kappræðufund með Róbert Marshall í Vitanum í Sandgerði og í dag, þriðjudag, verður sambærilegur fundir í Liltu Kaffistofunni í hádeginu kl. 12 - 13. Þar mætumst við Árni Johnsen Fundurinn með Róberti var mjög skemmtilegur, hvass og fjörugur en samt skildum við sáttir og ósárir. Ég held að við getum báðir verið mjög ánægðir með og höfum tekist drengilega á.

Fundarstaðsetningin núna á eftir er svolítið skondin en líka skemmtileg. Það var Árni sem átti hugmyndina að þessum stað og ég hef heyrt að einhverjir ætli að gera sér ferð á staðinn.

Eftir hádegi liggur svo leiðin til Grindavíkur og þar verður endað með fundi Framsóknarmanna um kvöldið...


Spennandi heimur og afbragðs ástarpungar

Var á Suðurnesjum í dag þar sem við heilsuðum fólki í flugstöðinni og enduðum á að kynna okkur starf Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Ekki bara að þar hafi ég fengið þá bestu ástarpunga með kaffinu sem ég hefi komið tönnum í heldur var starf þessa merka félags áhugavert.

152_THFK-020

Raunar held ég að það sé ekkert eins spennandi og merkilegt í atvinnutækifærum framtíðarinnar. Þessi yfirgefna herstöð á Miðnesheiðinni býður upp á óteljandi möguleika til framsækinnar alþjóðlegrar starfssemi sem getur um leið haft margföldunaráhrif út um allt land. Og erindi Kjartans Þórs Eiríkssonar framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins sannfærði mig um að þar á bæ verður unnið að þessum málum af viti og framsýni. Það er mikils virði. Við megum alls ekki líta á fasteignirnar þarna sem stríðsgóss í hermang fyrir einkavinavæðingu...

 

Vinur minn og mikill Framsóknarmaður sagði mér draum sinn núna áðan. Hann var við Þjórsá og barg þar tveimur börnum frá drukknun og við vorum sammála um að þetta er fyrir úrslitum kosninganna. Annað barnið var öruggt á land en hitt bjargaðist naumlega. Gæti verið fyrir því að við Guðni förum báðir inn en líka gæti barnið sem bjargaðist naumlega sé Helga Sigrún og við verðum þá þrjú. Það gengur nefnilega ekki upp að landvættur eins og Guðni birtist sem barn í draumi...

 

En pólitíska lífið er skemmtilegt. Ég fæ til skiptis hrós og skammir og þannig á það að vera. Stærsta feilspor liðinnar viku var þegar ég hélt innblásna pólitíska ræðu á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands og sagði bændum sem satt er að þeir gætu ekki búist við sama góðærinu í landbúskapnum ef Framsóknarflokkurinn lyti í gras í þessum kosningum. Það var ekki ræðan sem var vond en mér skilst að þetta hafi þótt bratt af stjórnmálamanni á þessum stað þar sem menn í hæsta lagi ávarpa samkomu sem þessa með kurteisisorðum. Mér leiðist svoleiðis. Eftir mér komu í pontu íhaldsmenn og einn fyrrverandi framsóknarmaður taldi okkur fyrrum liðsmenn sína heimska. O, jæja...

 


Heimskan í góðærinu

Fyrir fám árum lofaði Framsóknarflokkurinn þjóðinni 12 þúsund nýjum störfum ef hann kæmist til valda og þótti bratt. Margir hlóu að kokhreysti þessa gamla sveitaflokks en einhverjir hrifust með og flokkurinn vann varnarsigur í hinum pólitíska slag.emu

Og án þess að eftir væri tekið komu 12 þúsund ný störf og miklu fleiri. Þenslan, góðærið og hagvöxturinn hefur verið langt fram úr öllum vonum í stjórnartíð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks síðastliðin 12 ár. Og hvað með það, segir þjóðin.

Doðinn gagnast íhaldinu...

Það þarf nefnilega sterk bein til að þola góða daga og óumflýjanlegur fylgifiskur hóglífisins er heimskan. Og samt ekki venjuleg heimska þess sem heimalinn er heldur meðvitundarleysi og firring þess sem alla daga hefur fullar hendur fjár. Engum þykir þá til um þau gæði sem fengin eru hvort sem það er nægilegt atvinnuframboð eða aukinn kaupmáttur. Afleiðingin er pólitískur doði.

Það eru nokkur misseri síðan ég heyrði á tal nokkurra ungmenna um pólitík. Flest í þeim hópi voru undrandi á jafnöldrum sem væru úr hófi pólitísk. Sjálf töldu þau sig ekki vera það og þegar ég truflaði samræðurnar og spurði hvað þau kysu þá í sínu hlutleysi kom svarið blátt áfram. Sjálfstæðisflokkinn. Það er furðu ríkjandi og nær raunar langt út fyrir okkar íslenska veruleika að það að kjósa stærsta flokkinn jafnist á við hlutleysi. Með því að styðja hinn ráðandi stóra flokk er bátnum ekki ruggað. Með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn leggur hinn hlutlausi, óvirki og hugsunarlausi kjósandi blessan sína yfir ríkjandi ástand og gefst valdinu í hlýðni.

Það þarf því engan að undra að í gegndarlausum hagvexti og góðæri undanfarinna ára fitni íhaldið og jaðri nú við að vera meirihlutaflokkur á öllu Suðvesturhorni landsins þar sem mangið og gullslátturinn er mestur.

...en firringin kommunum

En góðærið kallar líka á firringu og andóf sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og heilbrigðri sjálfsbjargarviðleitni. Góðæri hefur alltaf kallað á slíkan æringjahátt. Í firringunni er að finna fylgisaukningu Vinstri grænna sem boða þjóðinni fjallagrasapólitík þar sem aðeins skal eytt og einskis aflað. Aðeins gerðar kröfur á aðra en enginn skyldi gera neinar á sig sjálfan. Samfylkingin fylgir VG fast á eftir með kröfum sínum um ótakmarkaða samneyslu og stopp-áróður gagnvart atvinnuvegunum.

Það er raunar ekkert nýtt við það að skynsemin lúti í lægra haldi á fjáraflatímum. Þenslan elur á vitleysu en í hennar skjóli vill líka margt verða útundan. Framsóknarflokkurinn hefur eftir mætti reynt að halda hlífiskildi yfir byggðum sem standa höllum fæti og yfir þjóðfélagshópum sem staðið hafa höllum fæti þrátt fyrir að samstarfsflokkurinn hafi þar á köflum viljað heyja stríð. Þar þarf að gera betur og mörg verkefni óleyst. Þessum vandamálum verða ekki gerð betri skil í nýrri Viðeyjarskottu Íhalds og Samfylkingar þar sem saman fer blind markaðstrú og ómannlegur blýantskratinn.

Skynsemin er í Framsókn

Sjálfum hefur mér oft þótt minn Framsóknarflokkur dulítið hallærislegur. Hvorki eins töff og frjálshyggjugaurarnir eða vígmóðir kommar. En einmitt þessi jarðbundnu hallærislegheit eru mælikvarðinn á að flokkur þessi er afl skynseminnar,- líkt og í lífsins dansi að það hallærislega iðulega skynsamlegast.


Í austurvegi

Picture 002Duttum hér inn á Hótel Klaustur vel upp úr miðnætti, ráðherrann, Þórarinn bílstjóri hans og ég þingmannsefnið, eftir vel heppaðan dag í Rangárþingi. Ekki annað að sjá en að allir séu ennþá Framsóknarmenn þar hvað sem líður talnaspeki.

Hér á Klaustri duttum við inn á gleðskap vinstri stjórnarinnar á Selfossi, meirihlutans sem varð til eftir stuttan dans Sjálfstæðismanna og Framsóknar á síðasta ári. Ekki var að sjá annað en vel færi á með samstarfsflokkunum þremur sem hér sátu við samkvæmisleiki og spjall. Einna vinsælastur varð sá leikur okkar Hjördísar Leósdóttir að metast um fegurð táa en hún hafði þar vinninginn þó mig gruni hálfvegis að Margréti og bæjarstjóranum hafi verið starsýnna á mínar...

Í dag liggur svo leiðin austur í Öræfi þar sem Kvískerjabræður halda upp á afmæli sitt, þeir sagnfræðingurinn Sigurður er níræður, smiðurinn Helgi áttatíu og tveggja og náttúrufræðingurinn Hálfdán áttræður. Eins og ég hef áður sagt frá á vef þessum heimsótti ég þá í vetur sem var ógleymanlegt enda hér á ferðinni vitringar af því tagi sem aðeins er sagt frá í ævintýrum. Hlakka mikið til að hitta þá aftur í dag og fleiri góða vini í Öræfunum.

Leiðin liggur svo í stutta heimsókn austur á Höfn þar sem opnuð verður kosningaskrifstofa í kvöld og eftir það ökum við Guðni rakleitt suður enda bíður mín að mæta bæði í Kjördæmaþátt í Sjónvarpinu og Silfrinu hjá Agli á morgun. Þetta er þeytingur...


Mótvægi við íhaldið - eða hvað?

Samfylkingin er aðeins að skríða upp á við og einhvernveginn þykir mér ekkert ósennileg niðurstaða að þeir eigi í kosningunum eftir að halda þeirri stöðu sinni að vera næststærsti flokkurinn. Eiginlega sennilegra heldur en það að Vinstri grænir haldi sínu flugi vikum saman.

videy

Draumur Samfylkingarinnar hefur einmitt verið að mynda sterkt mótvægi við íhaldið í landinu. Mynda hinn turninn í pólitíkinni, eða hvað? Þetta kvað mjög við í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum og raunar lengur. En nú kveður við annan tón. Samfylkingin gætir sín endalaust á að styggja ekki stóra bróður, Sjálfstæðisflokkinn. Hann er helst ekki nefndur á nafn og alls ekki að til standi að klekkja á honum.

Ástæðan er einföld. Draumur Samfylkingarinnar er ekki lengur mótvægi við íhaldið,- heldur samstarf við það. Samfylkingin sem átti eins og nafnið bendir til að fylkja saman vinstri mönnum hefur nú áhuga á öllu öðru en því að mynda í landinu vinstri stjórn. Þetta eru frekar dapurleg örlög að flokkur þessi eigi sér nú þann draum helstan að viðhalda og framlengja 16 ára valdatíma íhaldsins með nýrri Viðeyjarskottu.

Obbobobb... kann einhver að segja. Hvað er Framsókn að rífa sig! Hafandi verið í stjórn með íhaldinu í meira en áratug! Hér er þó ólíku saman að jafna. Það hefur aldrei verið hugsjónamál Framsóknar að starfa bara til vinstri til þess erum við of skynsamir. Markmið Framsóknar er að viðhalda skynsamlegri og farsælli landsstjórn. Þar hefur margt tekist mjög vel í 12 ára samstjórn með Sjálfstæðisflokki þó óneitanlega séu þar hnökrar á.

Sjálfur óttast ég mjög um hag landsbyggðar og landbúnaðar undir samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks,- að ég tali nú ekki um það hvað staðan í Evrópumálum verður þá ótrygg því þar er ekki bara að íhaldið geti snúist á einni nóttu,- það er eiginlega víst að það mun gera það. Við vitum bara ekki hvaða nótt það verður...

Framsóknarflokkurinn er vitaskuld vinstri flokkur og það sem meira er. Sterk staða hans er alger forsenda þess að hægt sé að mynda ábyrga vinstri stjórn í landinu. Þetta veit Ingibjörg Sólrún og biðlar því sterkt til íhaldsins þessa dagana.

En þetta er nú nógu þungmelt í morgunsárið. Nú leggjum við Guðni í austurveg, höldum fund í Golfskálanum á Strönd á Rangárvöllum í kvöld og verðum svo við opnun kosningaskrifstofu á Höfn á morgun...

(Þessa fallegu mynd af Viðey fann ég á vef Hagaskóla en það var þarna sem síðasta samstjórn krata og íhalds varð til og hefur af því verið kölluð Viðeyjarskotta. Sú stjórn varð ekki farsæl og varla einu sinni fyndin.)


Það blæs nú ekki byrlega...

"Það blæs nú ekki byrlega fyrir okkur..."

Þessi setning datt upp í hausinn á mér yfir Mogganum og slöku skoðanakannanafylgi. Úr hripi daganna er ein og ein setning aftan úr árunum sem festist og ómar þar öðru hvoru, bæði þegar við á og þegar það er alls ekki viðeigandi. En allavega - ég var hálfgerður unglingur, svona tuttugu plús, og paufaðist niðri í skúr heima í Tungunum við að skrúfa sundur gírkassa í Trapant sem ég hafði mikið dálæti á. Og í sjónvarpinu þetta kvöld var Evróvísjón söngvakeppnin, sú fyrsta sem við Íslendingar tókum þátt í. Popp hefur aldrei höfðað sterkt til mín og glamúr enn síður og þessvegna fannst mér miklu skemmtilegra að glíma við Trapantinn þetta kvöld. Og var svo sem sama hvernig við færum að því að vinna þennan söngvaþátt suður í heimi en sá vinningur var fastmælum bundinn með þjóðinni. Það var svo ekki fyrr en seint um kvöldið að það gerðist eiginlega fyrir tilviljun að útvarpið á trapantinum mínum hrökk skyndilega í gang og þar var þá rödd flokksfélaga míns Helga Pé sem sagði heldur raunalega og afskaplega langdregið þessa setningu sem ég gleymi ekki síðan.

"Það blæs nú ekki byrlega fyrir okkur...skriiiiiiiiiiiiiiiii"

Svo tóku við skruðningar og útvarpið dó og ég gat ekki á mér setið að hlæja með sjálfum mér. Það var púki í mér og þetta var Þórðarhlátur en svo er kallaður hlátur sem hleginn er í Þórðargleði þess sem hlær eiginlega skelmislega að óförum annars. Þetta sinn heillrar þjóðar sem sat við skjáinn þetta kvöld. Eftir á var mér hálfilla við þennan hlátur vitandi að hann var ekki fallega hugsaður. Einhver sagði mér svo næsta dag sætanúmerið sem við lentum í þá en mér festist það illa í minni. Þetta var giska há tala.

En því er ég að skrifa þetta núna þegar Gallupinn og fleiri spá okkur Framsóknarmönnum seigfljótandi andláti. Jú, allt tengist þetta. Vinur minn, mikill Framsóknarmaður og rauðhærður fór um daginn til völvu og spurði þar um gengi Framsóknar í komandi kosningum. Hún var að því leyti erfiðari en Gallup að hún gaf honum enga tölu en fullyrti að þingmannatalan yrði að lokum sú sama og sæti okkar rauðhærða Eiríks Haukssonar þetta sama kvöld austur í Finnlandi. Það verður þá sigur hvernig sem fer!

Nú er að sjá og vona. Og við Framsóknarmenn þurfum engu að kvíða og eigum að kæra okkur kollóta. Það er þjóðarinnar að velja sér þing og henni sjálfri auðvitað verst ef valið verður mjög óskynsamlegt. Við sem erum í framboði förum ekki verr út úr því vali en næsti maður og eigum hér engan rétt. Getum ekkert kvartað og tökum því einfaldlega brosandi ef að hér er þjóð sem raunverulega vill leiða Vinstri Græna til öndvegis.

En það verður þá í Þórðargleði yfir okkar þjóð og mönnunum sem vita hreint ekki hvað þeir gjöra. Og svo fögnum við Eiríki Hauks...


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband