Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Loksins hjólað...

Langþráður draumurDSCN1281 - komst loksins á mótorhjólið í morgun eftir meira en hálfsárshlé eða alveg síðan hjólaferð inn af Þistilfirði endaði hrapalega með 20 saumasporum. Síðan hefur hjólið verið í lamasessi en komst loksins í lag í höndum Víðis viðgerðameistara á Stokkseyri. Er nú eins og nýtt - það sést hér í miðið á myndinni sem reyndar er frá síðasta vori. Hefi engar myndir frá ferðinni í dag sem farin var á Gljána við Þykkvabæ. Baldur Öræfingur tók reyndar eina mynd en auk hans voru í föruneytinu Karl Hoffritz og Guðmundur Tryggvi,- semsagt kjarninn í Dakarklúbbnum.

Eftir bauk og hálfgerða siglingu á ís og snjóhraungli frá vegi niður að sjó tók við rennisléttur sandur og ægifagurt sjónarspil öldunnar.

Héðan réru fátækir forfeður mínir í Þykkvabænum fyrir 100 árum og gengu þess í milli eftir rekafiski í birtingu. Rákust þá stundum á skrímsl. Nú sáum við ekki annað kvikt en haus á einum sel í ósi Þjórsár. Kannski sá sami og við hittum þar fyrir í síðustu reisu á sömu slóðum. Þá var óseyrin öðruvísi í laginu enda sandurinn hér er eins og leir sem aldan lagar til og mótar upp á grín. Kannski allt öðru vísi aftur í næstu viku.

Spottakorn frá ósnum er strandstaður Vikartinds og undanfarin ár hefur ekki sést þar tangur né tetur af þessu stóra skipi en í dag brá svo við að aldan hafði sleikt sandinum ofan af brakinu sem var skilið eftir. Vélin ku vera þarna sundursprengd og einhver ræfill af kilinum. Stórkarlalegt járn sem marar í sandinum og mér tekst að losa eitt ryðgað kranahandfang af til minja.

Frá Vikartindi liggur bæði beinn og breiður vegur alla leið að Hólsá. Það var hér sem langamma mín horfði á eftir ungum unnusta sínum í ána fyrir liðlega 100 árum. Hún þá ung stúlka í Gvendarkoti og giftist síðan sér eldri manni ofan frá Látalæti á Landi, langafa mínum. Einhvernveginn slær það mig núna þar sem ég hjóla á bakka árinnar að líklega drukknar enginn í Hólsá nema vera ósyndur. En það voru líka flestir fyrir öld síðan.

Bakki Hólsárinnar var þakinn litlum ísjökum og greinilega ekki gott að fara of nálægt þeim stærstu á hjólinu. Þar er sandurinn lausari og frekar hægt að festa sig á mínum þunga dakar (sem er reyndar Kawasaki). Minnir á að fyrir austan ku þeir hafa kallað það hveri þar sem kviksyndi myndaðist eftir bráðnaða jaka á jökulsandi. Slíkir hverir gátu verið skeinuhættir og einn frændi minn þar eystra aftur í öldum hvarf með þeim hætti af yfirborði jarðar. En hér er engin hætta á slíku.

Á leiðinni til baka heilsa ég upp á hvalskepnu sem legið hefur einhver misseri á sandkambinum, orðinn lítið meira en hrúgald upp úr sandinum. Kannski hálfmorkinn til átu en mætti allavega notast til ljósa...


Sá á kvölina...

 ,,Boltinn er hjá Geir Haarde. Hann verður að höggva á hnútinn áður en flokkurinn skaðast meira," sagði sjálfstæðismaður við DV í morgun. geir_haarde

Klausan hér að ofan er úr ágætri frétt á dv.is. Þar er því haldið fram að Geir verði nú að stugga við Villa. Allir sjá að Vilhjálmur er á leið út úr pólitík og bítur nú í örvæntingu í borgarstjórnarborðið - en það gleymist að það eru fleiri sem bíta sig þar fasta með honum.

Mér segir svo hugur að hér endurspeglist fylkingaskipan í Sjálfstæðisflokki þar sem formaður flokksins, Guðlaugur Þór og einhverjir fleiri leggja nú að vonum allt sitt undir að Villi fái að sitja. Ef að hann þarf að fara á formaðurinn engan úr sínu liði í þessari mikilvægustu hreppsnefnd landsins og ekki er það nú gott.

Síst fyrir forsætisráðherra sem hefur ekki einu sinni sýnt að hann hafi styrka eða myndarlega stjórn á þeirri ríkisstjórn sem honum er falið að halda saman...


Meiddi er ekki sama og meiddi...

Tvær telpuhnátur meiddu sig nýlega í sleðaferð,- slösuðust er kannski réttara sagt því áverkar voru talsverðir. Þær tvímenntu á sleðanum og lentu að ég held á ljósastaur á heldur mikilli ferð. Önnur braut nef og brákaði kinnbein. Hin braut tvær gullfallegar og nýfengnar framtennur sínar. Fullorðinstennur, einar af þeim fyrstu!tooth-bandaid

Velferðarkerfið okkar á Íslandi ætti ekkert að vera í vandræðum með að mæta svo smávægilegt vandamál eða hvað? Stelpan sem braut nef og brákaði bein fékk alla eðlilega þjónustu og kostnaður fjölskyldunnar hljóp á örfáum þúsundköllum.

Hin þurfti til tannlæknis og kostnaður foreldranna hleypur á tugum þúsunda og mun reyndar elta fjölskylduna og stúlkuna síðar fram eftir ævi. Hverslags heilbrigðiskerfi er það eiginlega sem flokkar sjúklinga eftir því hvaða bein brotnar.

Tilfellið er að tannheilsu þjóðarinnar fer hrakandi þannig að við erum þar að lenda í 20. sæti meðal nágrannaþjóða okkar, - á bekk með Bretum og Tyrkjum! Höfum hrapað niður frá því sem var meðan ríkið og tannlæknar voru þó með samninga sín í milli. Er þetta ásættanlegt. Í 12 ára stjórnartíð Framsóknar með íhaldinu var þetta einn sá málaflokkur sem Sjálfstæðisflokkurinn setti sparnaðarstólinn fyrir. Nú er að fylgjast með hvað Guðlaugur Þór gerir...


Af verðandi borgarstjóri og vísindalegum stjórnmálum!

REI málin halda áfram að gera stjórnmál á Íslandi ótrúverðug og almenningi er vitaskuld gróflega misboðið. Hin nýja skýrsla stýrihópsins staðfestir svo langt sem hún nær allar þær verstu grunsemdir og ásakanir sem fram komu í haust.svandis_svavarsdottir

Þegar mál þessi voru í hámæli hélt ég því fram að höfuðleikendum þessa máls bæri tafarlaust að segja af sér. Skýrslan nú staðfestir algerlega réttmæti þess og líklega er Vilhjálmur Þ. aleinn um þá skoðun að hann hafi stöðu til að taka aftur við stöðu borgarstjóra.

Það er síðan önnur saga að þau vinnubrögð eru umdeilanleg að skipa rannsóknarnefnd með þátttakendum í leikritinu sjálfu til þess að fara yfir málið. Pólitískt kjörnir fulltrúar að skoða sjálfa sig!

Ég er mikill talsmaður þess að menn afhenti ekki almenn pólitísk völd til embættismanna og þeirra sem telja sig óháða öllu og öllum. En í þessu tilviki eiga sjónarmið hinna pólitísku fulltrúa tæpast við og málflutningur þeirrar mætu konu, Svandísar Svavarsdóttur um samstöðustjórnmál er ekki mjög sannfærandi. Hún talar um þetta eins og einhver vísindi stjórnmálanna sem eigi að skila okkur framávið en hvernig sem ég velti þessu um í mínum kolli þá minna vinnubrögðin meira á samtryggingu og það í vægast sagt vondu máli. Samtryggingu sem Svandís þvældist eiginlega inn í vegna skammvinnrar setu í meirihluta og fékk þar eins og kerlingin forðum hlaup en ekkert kaup...


Að halda ró sinni

Úr minni heimasveit er til saga af bændum tveimur sem gengu yfir Tungufljót á ís og brast þá undan öðrum þeirra, Ingvari heitnum R. á Hvítárbakka sem var líkt og sá sem hér skrifar skrollmæltur. Félagi hans stendur spölkorn frá vökinni og horfir á þar sem bóndinn heldur sér í vakarbarminn, hálfur ofan í ísköldu vatninu, ráðalaus en segir þó;geirharde

  • - Rólegur, rólegur!
  • - Rrrrólegur, segir þú, rrrólegur. Það er auðvelt að segja það og standa á bakkanum, svaraði hinn snöfurmannlega og þótti nóg um tómlæti félaga síns við að sækja hjálp í þessum válegu aðstæðum. Sá skildi þá sneiðina og sótti hjálp þannig að allt fór vel að lokum.

Verr er farið í viðskiptalífi landsmanna þar sem forsætisráðherra stendur nú hugsi á einnættum ís hagkerfisins og hefur það eitt til ráða í efnahagsmálum að segja mönnum að halda ró sinni. Á sama tíma eru kollegar í hinu bandaríska hagkerfi á stöðugri vakt til beitingar allra þeirra tækja sem hagkerfið hefur upp á að bjóða. Hrun á hlutabréfamörkuðum vestanhafs er þó fráleitt líkt því eins og í hagkerfinu hér heima, munar þar rífum helming. Og engum þar vestra dettur í hug að með því að vinna að málum séu stjórnvöld að tala ástandið niður.

Í umræðu um málið sagði Pétur H. Blöndal alþingismaður fyrir nokkrum dögum að ef ekki kæmu til versnandi utankomandi aðstæður þyrfti ekkert að gera. Það má rétt vera en nú er það margfaldlega staðfest að hin alþjóðlega bankakreppa ríður yfir í íslensku hagkerfi. Utanaðkomandi aðstæður fara stöðugt versnandi og það þarf ekkert að ræða hvernig við gætum hagað okkur ef veruleikinn væri með öðrum hætti.

Einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokks spurði undirritaðan í umræðu um málið hvað ætti að gera. Því verður ekki svarað í stuttri blaðagrein en eins og jafnan þegar stór vandamál eru framundan þá eru orð til alls fyrst. Og skiptir miklu að einhver tilraun sé til samhljóms og festu við stjórnun.

Viðskiptaráðherra og aðrir talsmenn Samfylkingarinnar leggja reglulega til að brugðist sé við með inngöngu í ESB sem ekki getur talist vitrænt eða ábyrgt innlegg í umræðuna. Síst þegar stjórnarsáttmálinn gerir einmitt ráð fyrir að því máli sé alls ekki hreyft.

Fyrir nokkrum dögum boðaði viðskiptaráðherra svo að Seðlabankinn hlyti nú að lækka vexti og vissulega hefði það mikil áhrif í hagkerfinu þó vaxtabreytingar séu vandmeðfarið stjórntæki við núverandi aðstæður. Mestu skiptir þó að í þessari yfirlýsingu kveður við mjög holan tón. Útfrá þeim reglum um verðbólgumarkmið sem ríkisstjórn setur Seðlabanka er ósennilegt að hann lækki vexti að svo stöddu. Það er ríkisstjórnarinnar að taka verðbólgumarkmiðin til endurmats enda í reynd fráleit miðað við ríkjandi aðstæður.

Viðskiptaráðherra ræddi málið lítillega í þingræðu í vikunni og lofaði þar íslenskum bönkum að ríkissjóður myndi hlaupa undir bagga ef á bjátaði! Slík ráðherrayfirlýsing er einstök í vestrænu hagkerfi. Undir þessu sitja mæddir menn, forsætisráðherra og fjármálaráðherra og aðhafast ekki. Valdþreyta og starfsleiði einkenna mjög þessa gamalreyndu stjórnmálamenn.

Það er orðið augljóst að samstaða stjórnarflokkanna í efnahagsmálum er engin og samræður um þau mál í ábyrgðarlausu lágmarki. Samstaða ríkisstjórnar og Seðlabanka er heldur ekki til að dreifa og þar eru samræður um málið einnig í lágmarki og sama er raunar að segja um tengsl Seðlabanka og stjórnvalda við viðskiptalífið. Nýlega sagði einn af færustu hagfræðingum Landsbanka að þjóðin þurfi að búa sig undir verstu kreppu frá stríðslokum. Íslenskt stjórnkerfi mætir þeirri kreppu með tómlæti þess sem leiðir ekki einu sinni hugann að því hvort eitthvað sé til bjargar en stendur á vakarbarminum þar til allt brestur.


Pólitík og lágkúra og fleiri ráðherrar

Birti um daginn stutta grein í Morgunblaðinu um þann dæmafáa málflutning Össurar Skarphéðinssonar og Björns Bjarnasonar að telja fáránlega fatamálið dauðadóm yfir Framsóknarflokknum. Fannst svo eiginlega að greinin væri að verða full gömul til að ég endurtæki hana á blogginu en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerir gamla vísu nýja með helgarræðu sinni. Tal hennar um að Framsóknarmenn séu að kála sjálfum sér er ósmekklegt bull og ekki ráðherra sæmandi. ossur_skarpbjorn_bjarnasonthorgerdur

Það rétta er að fáfengileg deila milli fárra manna í Reykjavík hefur þróast yfir í mannlegan harmleik. Allt það hefur vitaskuld haft einhver örlítil áhrif á fylgi flokksins en þeirra áhrifa gætti raunar bara í örfáa daga eins og munurinn á Gallup og Fréttablaðskönnun sýna. Það að virðingaverðir ráðherrar í stórum flokki noti sér tækifæri eins og þetta til að sparka í Framsóknarflokkinn segir meira um þann sem sparkar en þann sem sparkað er í. Í forystusveit Framsóknar, þingliði og allri annarri forystu ríkir eindrægni og afleikir fráfarandi þingmanns eða annarra breyta þar engu um.

En hér að neðan birti ég svo moggagreinina sem var skrifuð fyrir réttri viku og birtist líklega á fimmtudaginn síðasta.:

-------------------------------------------------------------

Stjórnmál á Íslandi hafa lifað eina af sínum verstu vikum og víst er að við Framsóknarmenn höfum þar ekki farið varhluta af ómálefnalegri og rætinni umræðu. Umræðu sem kemur stjórnmálum í raun og veru ekki við. Flest var þar að vonum ef frá er talin þátttaka nokkurra kjörinna þingmanna í sjónarspili sem í reynd var langt fyrir neðan þeirra virðingu.

Skrif hæstvirts byggðamálaráðherra Össurar Skarphéðinssonar komu ekki stórlega á óvart enda varðveitir hann sína unglingslegu uppreisnarsál með
næturbloggi sínu og slettir þá jafnt á eigið stjórnarráð og annarra verk.
Vitaskuld eru fullyrðingar hans um að vinnubrögð örfárra framsóknarmanna í Reykjavík séu á ábyrgð Framsóknarflokksins ekki svaraverð og sambærileg sumu því versta sem birtist hér í síðdegispressu.

En fyrr hélt ég að fiskar gengju á land en að ég sæi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason skipa sér í þennan flokk í umræðu um fatamál Framsóknarflokksins. Björn hefur í senn verið og er í mínum huga einn besti ráðherra ríkisstjórnarinnar og í röð fremstu bloggara landsins. Það er því með miklum ólíkindum að lesa inni á síðu dómsmálaráðherrans í pistli 19. janúar að hann telji endemisumræðu Guðjóns Ólafs Jónssonar sýna að Framsóknarflokkurinn eigi ekki lengur pólitískt erindi á Íslandi. Í framhaldi af því rifjar ráðherrann upp öll ummæli helstu leikenda í Reykjavík, þeirra Guðjóns, Björns Inga og Önnu Kristinsdóttur. Með myndskreytingum gæti pistillinn sómt sér vel á síðum Séð og heyrt en stingur í stúf á hinni um margt góðu heimasíðu ráðherrans.

Í pistlinum 19. janúar vitnar Björn í áramótapistil um pólitíkina þar sem hann ræðir um meint erindisleysi Framsóknarflokksins í stjórnmálum. Öll er sú umræðu lituð af sárindum vegna meirihlutans sem sprakk á síðasta ári og hvergi vikið að málefnum. Með sömu rökum mætti taka undir með æstum sósíalistum sem segja atburði síðustu daga í borgarmálum sanna að Sjálfstæðisflokkurinn í heild sé ómerkileg valdaklíka. Kannski er hann það en gjörðir einnar sveitarstjórnar í landinu sannar ekkert né afsannar í þeim efnum. Sjálfstæðisflokkurinn er stærri en svo.

Sá sem hér skrifar hefur margoft skrifað um hugsjónir Framsóknarflokksins, skilin milli stjórnmálaflokkanna á Íslandi og nauðsynlegt hlutverk Framsóknarmanna í þeirri mynd. Miðjuflokkarnir á Íslandi eru tveir, Framsóknarflokkur og Samfylking. Framsókn er ábyrgt stjórnmálaafl með þjóðlega taug og tengsl við bæði landsbyggðina og atvinnulífið í landinu. Björn Bjarnason og félagar hans í Sjálfstæðisflokki komast nú að því fullkeyptu að allt þetta eru eiginleikar sem skortir á í Samfylkingunni þar sem áhuginn á efnahagslífi einskorðast við evrópska nauðhyggju og tengsl þess flokks við atvinnulífið eru jafnvel minni en var í gamla Alþýðubandalaginu. Ekkert er nú gert í efnahagsmálum í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og það eitt sýnir þá þörf sem er fyrir ábyrgan og traustan miðjuflokk. Tímabundin fylgislægð er ekki dauðadómur í lífi stjórnmálaflokks.

Framsóknarflokki verður ekki skákað út úr þessari mynd með lágkúrulegri umræðu um fatareikninga og það flokkast undir pólitíska lágkúru að notast við slíkan málflutning. Það er nöturlegt að jafnvel ráðherrar annarra flokka skuli að þarflausu óhreinka sig hér á þarflítilli fataumræðu.

PS: 4.feb.08: Tók eftir að Björn Bjarnason svarar mér og það málefnalega eins og hans er háttur á síðu sinni í síðustu viku. Um svar hans er ekkert meira að segja en ég birti það hér í heild svo öllu sé nú til haga haldið:

Framsóknarflokkurinn kemur að þessu sinni verst út úr flokkakönnuninni hjá Gallup. Augljóst er, að meirihlutaskiptin í borgarstjórn koma illa við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Er það enn og aftur til staðfestingar á því, hve misráðið var hjá Birni Inga Hrafnssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, að hverfa frá samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í október sl.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag og telur mig hafa farið ómaklegum orðum um flokk sinn hér á síðunni, þegar ég lýsti skoðun minni á fatavanda framsóknarmanna. Í greininni er þessi gullvæga setning: „Fyrr hélt ég að fiskar gengju á land en ég sæi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason skipa sér í þennan flokk með umræðu um fatamál Framsóknarflokksins.“

Eftir að hafa setið með framsóknarmönnum í ríkisstjórn í 12 ár og unnið að framgangi margra góðra mála, vil ég síður en svo gera á hlut þeirra. Svik Björns Inga við sjálfstæðismenn voru hins vegar á þann veg, að þau eru ekki hafin yfir gagnrýni. Í fatamálinu hafa framsóknarmenn  verið sér sjálfum sér verstir - sjálfskaparvítin eru alltaf verst. Ég er viss um, að Bjarni Harðarson samsinnir því.


Barnalegt oflæti og frábært þorrablót!

blaðar oft í bókinni
búmannslega gerður
bjarni á klæðisbrókinni
betri maður verður...

eiginlega of þreyttur til að blogga en í gærkvöld var ég á blóti í hreppnum þar sem þessari vísu var slengt á mig eftir að þær kvenfélagskonur höfðu fært mér prjónaðar nærbuxur að launum fyrir ræðu um sem fjallaði mest um konur sem eru eins og fjöll og fjallgöngur og aðrar göngur og samkoman var ljúf og góð eins og alltaf er þar efra. magga vinkona mín frá sunnuhlíð flutti frábært minni karla og guðbjörg fór á kostum.

í dag gekk ég á ingólfsfjall og langleiðina inn að inghól og kom endurnærður niður og sat svo stund í kaffi hjá meistara eyvindi erlendssyni. ræddum nýjar hugmyndir leikstjórans um skeggvöxt, konungdæmi á íslandi og tungnamenn.

fer í silfrið á morgun og velti fyrir mér hvað er í fréttum. jú, þorgerður katrín sló um sig með barnalegu oflæti í garð okkar framsóknarmanna - jú og svo ágæt komment sömu konu um viðskiptalífið! Kannski eitthvað um evrópufabúluna...


Ísland og umheimurinn

Útrás Íslendinga, samskipti okkar við aðrar þjóðir og þjóðabandalög hafa verið fyrirferðarmikið umfjöllunarefni í íslenskum stjórnmálum undanfarin ár og allt frá gildistöku EES samningsins 1994 sem nokkur átök urðu um bæði á þingi og í þjóðarumræðunni. Því er á stundum haldið fram að hér kallist á einangrunarsinnar og alþjóðasinnar. En í þeirri mynd er fólgin mikil einföldun og ekki ljóst hvað er hvurs ef sú mynd er greind til hlítar.

Evrópusambandið er tilorðið sem samstarf fullvalda ríkja en markmið þess hefur engu að síður verið samrunaþróun í átt að sambandsríki, líku því sem varð til með Bandaríkjum Norður Ameríku á 18. öld, Þýskalandi nútímans á 19. öld og á 20. öld í Júgóslavíu og Sovétríkjunum, svo dæmi séu tekin. Indland og Kanada eru líka dæmi um sambærileg ríkjabandalög. Sum þessara bandalaga hafa orðið farsæl, önnur ekki

Af fullveldi og ríkjasambandi

Innan Evrópusambandsins eru vitaskuld skiptar skoðanir um það hversu langt eigi að ganga í samruna en raunar enginn ágreiningur er um að ESB skerðir að einhverju leyti fullveldi þátttökuþjóða. Þannig hafa þjóðirnar ekki fulla heimild til milliríkjasamninga í dag og lagasetning er í mörgum veigamiklum tilvikum sameiginleg. Hluti ESB - þjóðanna eru svo saman um myntsláttu sem þýðir að efnahagsleg stjórn er að stórum hluta sameiginleg með þeim þjóðum. Söguleg og menningarleg rök kalla engu að síður á að við lítum enn á lönd eins og Frakkland, Þýskaland og Pólland sem sjálfstæð ríki án þess að velta fullveldishugtakinu allt of mikið fyrir okkur í því samhengi.

 Nú eru hugtökin fullveldi og sjálfstæði vitaskuld mjög teygjanleg og engin ein fullkomin skilgreining til á því hvað þau merkja. Flestir munu til dæmis viðurkenna að ríkisvald er aldrei algerlega fullvalda til að gera hvað sem er og takmarkast þar alltaf að einhverju leyti af alþjóðlegum samningum og eigin stjórnarskrá. Í tilviki Evrópusambandsins snýr spurningin um sjálfstæði Evrópuríkja að því hvort t.d. Belgía standi nær Kaliforníu eða Japan í þeim efnum. Kalifornía á sér sitt eigið þing, löggjafarvald og innanlandsstjórn en fer ekki með nein utanríkismál. Lagasetning lýtur að stórum hluta þeim ramma sem ákveðinn er í Washington DC. Japan er fullkomlega sjálfstætt í innanlandsmálum og sinni utanríkispólitík en Belgía er hér mitt á milli og stendur líklega nær Kaliforníu nú hin seinni ár. Belgía hefur t.d. töluvert minna sjálfstæði heldur en Íslendingar höfðu á tímabilinu 1918 til 1944 þegar við töldum okkur fullvalda en vorum enn hluti af Danska konungsveldinu.

Annað sem gerir Evrópusambandið sérstætt sem ríkjasamband í hinum vestræna heimi er hin flókna og viðamikla stjórnsýsla þess og tilhneiging þess til alræðis á öllum sviðum samfélagsins. Í þeim efnum líkist sambandið meira ríkjasamböndum austan járntjaldsins án þess að stefna að ríkiseinokun atvinnulífsins.

Sjálfræði þjóða og lýðræðið

Hugtökin lýðveldi og lýðræði eru nátengd þjóðahugtakinu. Fram yfir miðaldir töldu konungar sig langt yfir þegna sína hafna og fráleitt af sömu tegund. Nánast guðlegar verur og töluðu því oft annað tungumál og lifðu í annarri menningu. Þýsku við danska hirð en frönsku við þýska o.s.frv. Með tilslökun einveldis, þróun í menntun  og auknum kröfum borgaranna um frelsi óx jafnframt áhugi ráðandi afla á menningu sinna þjóða og þjóðahugtakið varð til. Allt frá lokum miðalda hefur þjóðhyggja og hverskyns sjónarhorn útfrá þjóðríkinu mótað þróun heimsins. Bandaríska félagsvísindakonan Lilah Greenfeld hefur í bók sinni „Nationalism, five roads to Modernity,"  leitt sannfærandi rök að því að þjóðhyggjan hafi aldrei verið sterkari en nú og vegur hennar fari vaxandi. Enginn vafi er á að sjálfræðisbarátta þjóða og þjóðarbrota er alltaf nátengd lýðræðishugmyndum og fjöldahreyfingu.

Það breytir ekki því að um nokkuð langt skeið hafa verið til stjórnmálastefnur sem talið hafa þjóðhyggjuna frumstæða, úrelta og deyjandi. Trotskíistar, sem voru angi af heimskommúnismanum, töldu þetta og sömuleiðis margir af spámönnum alþjóðavæðingar á síðari áratugum. Á síðustu áratugum eru þó fleiri sem átta sig á að þjóðhyggjan er hið heilbrigða og lýðræðislega mótvægi gegn markaðsmenningu hins alþjóðlega kapítalisma. Innan ESB hafa hugmyndir andstæðar þjóðhyggjunni verið ríkjandi en reka sig nú illilega á þar sem meira að segja heimaland sambandsins, Belgía logar í þjóðernisdeilum. Sannast þar líkt og á Balkanskaganum að bæling þjóðernishugmynda brýst um síðir út í átökum.

Samstaða og sameining þegna hvers lands um það sem greinir þá frá öðrum hefur þannig verið aflvaki þess að þeir láti sig samfélag sitt einhverju varða. Þannig hafa ríkjabandalögin í Norður Ameríku, Kanada og Bandaríkin, skilgreint fjölmarga þjóðlega sameiginlega hluti í stjórnarfari sínu sem svo aftur eru aflvaki lýðræðisvitundar í þeim löndum. Á sama hátt má benda á að stórveldisstjórnir sem lagt hafa áherslu á að bæla lýðræðið  hafa ýmist afneitað hinu þjóðlega eða lagt ofuráherslu á sundrungu innan ríkisins með afskræmilegri áherslu á einn kynþátt í ríkinu og hans eigindir á kostnað hinna. Skýrast er þetta í hinum illræmdu alræðisríkjum 20. aldar sem flest eru nú liðin undir lok.

Tilraun Evrópusambandsins til þess að skapa sameiginlega vitund allra Evrópuþjóða hefur fram til þessa átt örðugt uppdráttar sem lýsir sér meðal annars í áhugaleysi evrópsks almennings með það hvað gerist í stofnunum ESB, misheppnaðri sameiningu evrópsks vinnumarkaðar og ótölulegum fjölda af kærum ESB á hendur aðildarríkjunum fyrir að brjóta og hundsa lagasetningu sambandsins en sambærileg mál eru fátíð hjá öðrum ríkjasamböndum. Hin samevrópska þjóðarvitund hefur enn sem komið er lítt  náð út fyrir elítu embættis- og stjórnmálamanna. Eitt af því sem gerir þessari djörfu tilraun erfitt fyrir er að samhliða fer fram sífelld útþensla sambandsins. Önnur ástæða er svo vitaskuld neikvæð afstaða ESB hugmyndafræðinnar til þjóðahugtaksins.

Ísland og EES

Með aðild EFTA ríkjanna þriggja, (Íslands, Noregs og Lichtenstein) að EES skapast margvísleg tækifæri innan Evrópusamstarfsins. Sömu samningsmarkmið tók Svisslendinga mörg ár að fá fram í tvíhliða samningum. Fylgismenn samrunaþróunar telja EES samninginn um margt betri en þann tvíhliða samning sem Sviss náði við ESB en mat á því hvor samningurinn er betri er vitaskuld pólitíkst. Hér skal þó ekki dregið úr nauðsyn þess að Íslendingar eigi greiðan aðgang að mörkuðum og viðskiptalífi Evrópu.

En augljóst er að EES samningurinn er um margt íþyngjandi þegar kemur að innleiðingu laga sem eiga takmarkað erindi í íslenskt samfélag og samningurinn hefur orðið til að takmarka samskipti landanna við þjóðir utan Evrópu. Skýrasta dæmið um það er hvernig lokast hefur fyrir allan innflutning á verkafólki frá löndum utan hinnar gömlu álfu enda skapar samningurinn evrópskum borgurum forgang til allrar vinnu á öllu svæðinu. Gildir þá einu hvort leitað er að pitzasendli eða eðlisfræðiprófessor, af báðum er yfrið í atvinnuleysinu í gömlu Evrópu.

Kostir EES umfram ESB

Meðal kosta samningsins er þó að hann innleiðir aðeins mjög lítinn hluta af löggjöf Evrópusambandsins (um 7%) og aðeins á mjög afmörkuðu sviði sem lýtur að  markaðsviðskiptum og svokölluðu fjórfrelsi milli þjóða. 50-80% af þeim reglum sem innleiddar eru á EFTA svæðinu koma frá framkvæmdastjórn ESB. Í Evrópuskýrslu forsætisráðuneytisins sem er þverpólitísk og var m.a. unnin í ráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar og opinberuð árið 2007 kemur fram það mat að EES ríkin „...hafa formlega sömu tækifæri og aðildarríki ESB til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og hafa áhrif á mótun gerða ESB meðan þær eru á mótunarstigi hjá framkvæmdastjórninni." Þetta kann að koma mörgum heldur spánskt fyrir sjónir en helgast af því að meðlimum framkvæmdastjórnarinnar er óheimilt að taka við fyrirmælum frá nokkurri ríkisstjórn eða öðrum aðilum.

EES samningurinn hefur einnig þann mikilvæga kost sem ekki fylgir fullri aðild að halda opnum möguleikum íslensku þjóðarinnar til margskonar utanríkisviðskipta og fríverslunarsamninga við lönd utan Evrópu og raunar eru flestir fríverslunar- og tollasamningar okkar við Evrópu sjálfum EES samningnum óviðkomandi. Íslenska útrásin í viðskiptum og margskonar landnám okkar í viðskiptum nær þannig langt út fyrir Evrópu og helstu vaxtabroddar framtíðarinnar kunna að verða í löndum eins og Indlandi og Kína. Því fer fjarri að útrás íslenskra fyrirtækja á undanförnum áratug verði eignuð EES samningnum eða þeim breytingum á lagaumhverfi sem hann hefur leitt yfir íslenskt samfélag. Slíkt hlyti enda að flokkast undir það sem miðaldamenn kölluðu jarteiknir þar sem sömu breytingar á lagaumhverfi hafa á sama tíma ekki leitt sambærilegar framfarir yfir Evrópu.

Staðreyndin er að hagvöxtur undanfarinna ára á Íslandi er í fyrsta lagi eðlilegt framhald þess hagvaxtarskeiðs sem ríkt hefur í landinu frá seinna stríði og á sér samfellu allt frá 19. öld. Velsældarskeiðið síðustu 12 árin verður fyrst og fremst skýrt með þeim stöðugleika í stjórnarfari sem einkenndi stjórnartímabil fráfarandi ríkisstjórnar. Það er engin ástæða til að sjá umrætt hagvaxtarskeið í ýkjulitum enda vafamál að lífskjarabylting þjóðarinnar t.d. síðustu 20 ár, frá 1987 - 2007 sé meiri heldur en á 20 ára tímabilinu sem kemur þar á undan, 1967-1987. Framfarir í lífskjörum hafa á Íslandi hafa verið stórstígar allt frá því landið hlaut sjálfstæði og að meðaltali hafa vergar þjóðartekjur á mann vaxið um 2,5% á ári á þessu tímabili. Því fer fjarri að tímabilið eftir EES samning hafi hér meiri sérstöðu í hagtölum heldur en til dæmis fyrstu árin eftir stríð eða fyrstu árin eftir viðreisn.

Einangrun eða alþjóðavæðing

En víkjum aðeins að viðskiptasvæðinu sem EES samningurinn nær til. Lönd Evrópusambandsins telja nú um hálfan milljarð íbúa en til samanburðar eru íbúar allrar jarðarkringlunnar tæplega 7 milljarðar. Í Indlandi einu er liðlega milljarður en Íslendingar undirrituðu nýlega tvísköttunarsamning við Indverja og samningaviðræður um fríverslun standa yfir við Kínverja sem telja nær hálfan annan milljarð.

Nú er það vitaskuld svo að í hinum harða heimi kapítalismans þarf nokkra Kínverja til að mæta einum Evrópuborgara í neyslu en bilið þar á milli fer þó ört minnkandi. Hagvaxtarspá öflugustu landa Evrópu, Þýskalands og Frakklands, gerir ráð fyrir um 1% hagvexti en reiknað er með að hagvöxtur í Kína og Indlandi verði sá mesti í heiminum á næstu árum og áratugum. Hinn hægi vöxtur í Evrópu skapar fá sóknarfæri og mun trauðla duga þeim fyrirtækjum sem þar eru fyrir á fleti til framfærslu. Nýsköpun atvinnulífs í Asíulöndunum mun aftur á móti opna gáttir viðskipta og tækifæra.

Í fyrrnefndri Evrópuskýrslu kemur skýrt fram að aðild Íslendinga að ESB myndi sjálfkrafa útiloka og afnema þá fríverslunarsamninga sem þjóðin hefur gert utan ESB Það er m.a. á þeim forsendum sem íslenskir útrásarmenn hafa varað við aðild Íslendinga að Evrópusambandinu að óbreyttu. Orðrétt segir Björgólfur Thor Björgólfsson í Viðskiptablaðinu:

"...Ég tel að það myndi takmarka okkur. Við eigum að halda í þann sveigjanleika sem við höfum í dag. Við erum með margvíslega fríverslunarsamninga og við höfum möguleika á því að verða fjármálamiðstöð til langs tíma eins og margoft hefur verið talað um. Þannig getum við tekið við af Lúxemborg og Ermasundseyjunum, kjósum við svo. Það gerist hins vegar ekki ef við erum komnir inn í ESB."

Hér hljóma varnaðarorð viðskiptalífsins gegn einangrunarstefnu einstrengingslegra Evrópusinna.

Þjóðhyggjan og Evrópusamstarfið

Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins skrifar athyglisverða grein á heimasíðu Framsóknarflokksins fyrr í vetur um samspil þjóðhyggju og Evrópusamstarfs. Það er ástæða til að taka undir með Jóni í þeim efnum að aðild að Evrópusambandinu verður seint raunhæft útspil gegn tímabundinni hagsveiflu og að sjónarmið þjóðhyggjunnar eru grundvallaratriði þegar við metum kosti og galla alþjóðasamninga.

Það er einnig rétt hjá Jóni að það er engin ástæða til að útiloka um alla framtíð aðild Íslendinga að Evrópusamstarfinu. En eins og Evrópubandinu er varið í dag með skilyrðislausu afsali þjóða þess að samningagerð við útlönd og víðtæki löggjafarvaldi í innanlandsmálum er fólgin í aðildarviðræðum mikið fullveldisafsal og einangrunarstefna. Fullveldisafsalið sem liggur fyrir með aðild að ESB er ekki einasta andstætt þjóðhyggju Framsóknarmanna, það er í alvarlegri andstöðu við efnahagslega langtímahagsmuni þjóðarinnar.

Talsmenn aðildar að Evrópusambandinu hafa sjálfir kallað sig Evrópusinna en eðlilegra er að tala um sambandssinna í þessu tilviki þar sem mjög er komið undir pólitískri sýn á Evrópusambandið. Hvort eru það hvort sambandssinnar eða þeir sem vilja halda í fullveldi þjóðríkjanna teljist sem vinveittari Evrópu og íbúum hennar,. Sambandssinnar hafa margir lagt áherslu á að Íslendingar geti náð hagstæðum samningum í aðildarviðræðum og benda þar m.a. á sérákvæði ýmissa eyþjóða og íbúa í norðlægu strjálbýli.

 Af fyrrnefndri Evrópuskýrslu forsætisráðuneytisins sem unnin var af fulltrúum allra flokka má þó ráða að fæst ef nokkuð af þeim sérsamningum eiga við á Íslandi. Þannig snúa sérákvæði Maltverja í fiskveiðimálum eingöngu að verndun fiskveiðistofna en ekki hverjir nytja þá og flest í byggðaaðstoð Evrópu miðar að aðstoð við byggðir þar sem meðaltekjur eru miklu mun lægri en í okkar landi. Almennt hafa Íslendingar innleitt meira frjálsræði í viðskiptum en tíðkast í þeim löndum sem sótt hafa um undanþágur til Evrópusambandsins og sambærilegar undanþágur hér á landi væri afturhvarf til haftastefnu sem fáir hafa talað fyrir hér á landi hin seinni ár. Í þessu samhengi má nefna ýmislegt í sérreglum eyþjóða um húsakaup, sumarhúsareglur dana o.fl.

Þjóðhyggjan og einangrunarstefnan

Það er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart hverskyns einangrunarstefnu í viðskiptum og samskiptum við aðrar þjóðir. En varðveisla fullveldis þarf ekki að vera andstæð opnun viðskipta. Þvert á móti bendir margt til þess að með inngöngu Íslands í Evrópusambandið eins og það er núna gerðum við tvennt, - að fórna miklu af dýrmætu fullveldi okkar og einangra okkur í alþjóðlegum viðskiptum.

(Birtist í miðopnu Mbl. mánudaginn 28. janúar 2008)


Byggðaráðstöfun nútímans: Öll störf til Reykjavíkur!!!

Eitt snjallasta framlag Samfylkingarinnar í málefnum landsbyggðarinnar er hugmyndin um störf án staðsetningar sem var sett fram í þingsályktun af stjórnarandstöðuþingmannum Össuri Skarphéðinssyni og var samþykkt samhljóða á Alþingi vorið 2007.

Nú er Samfylkingin í stjórn og umhverfisráðherra auglýsir laust starf framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs og kallar það starf án staðsetningar - TIL ÞESS AÐ GETA SETT STÓLINN NIÐUR Í REYKJAVÍK! Málið kom til umræðu í sölum Alþingis í vikunni.IMG_1944_Orafajokull

Þjóðgarðsuppbyggingin er eitt það bjartasta sem horft er til í varðandi uppbyggingu atvinnulífs í Skaftafellssýslunum en á fundaferð þar eystra um daginn heyrði ég því fleygt að nú væri búið að ákveða að setja starf þetta niður í Reykjavík enda væri það eini staðurinn þar sem boðið væri upp á áætlunarflug á allar starfsstöðvar hins víðfeðma þjóðgarðs, þ.e. á Akureyri, Egilsstaði og austur á Höfn. 

Málið er tvíþætt - annarsvegar ákvörðun um að framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs verði að vera búsettur í Reykjavík. Það er auðvitað einhverskonar niðurstaða en ég tel hana hina mestu endileysu því við höfum reynslu af því að mun viðameiri stjórnunarstörf séu staðsett úti á landi, bæði skógræktarstjóra, landgræðslustjóra og fleiri til.

Hitt er svo dæmi um nöturleg vinnubrögð þegar hugtakið starf án staðsetningar er hérna notað til að réttlæta það að setja þennan tiltekna stól niður í Reykjavík eins og kemur glöggt fram í fundargerð Vatnajökulsþjóðgarðs frá 7. desember en þar lagði Hjalti bæjarstjóri á Höfn fram tillögu um að framkvæmdastjórinn yrði á Höfn eins og eðlilegast hlýtur að vera en formaður stjórnarinnar sem jafnframt er aðstoðarmaður umhverfisráðherra skaut þá tillögu í kaf...

Hjalti lagði fram tillögu þess efnis að framkvæmdastjóri yrði staðsettur á Hornafirði.  Formaður lagði til breytingartillögu um að starfið yrði auglýst án staðsetningar.  Mikil umræða skapaðist um málið í kjölfarið.  Að lokum var ákveðið að starfið verði auglýst án staðsetningar, en þess þó getið að starfsstöðin þurfi að þjóna hagsmunum þjóðgarðsins.  Er það sameiginlegur skilningur stjórnarmanna að það þýði að framkvæmdastjóri verði staðsettur í einu af þeim átta sveitarfélögum, sem eiga land að þjóðgarðinum eða á höfuðborgarsvæðinu.  Jafnframt var það samþykkt að staðsetning framkvæmdastjóra yrði endurskoðað um sama leyti og endurskoða á stjórnfyrirkomulag fyrir Vatnajökulsþjóðgarð eins og bráðarbirgðarákvæði í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð gera ráð fyrir.

Málið á svo allt eftir að verða hið flóknasta fyrir Samfylkinguna eftir þessa yfirlýsingu Katrínar Júlíusdóttir þar sem hún staðfestir að hér sé farið á skjön við hugtakið störf án staðsetningar og þessa yfirlýsingu þingflokksformannsins og vonandi að hann hafi yfirhöndina í þessum slag...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband