Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

ESB-sinnar allra flokka á túr...

Í veðrinu liggja fyrirheit um að enn muni vora,- hverju hreti fylgir nýtt vor og þau hafa eiginlega verið dagviss undanfarið. Óneitanlega skrýtið samt að moka sig út úr bænum í apríl! Verri eru þó ráðleysishryðjurnar sem ganga nú á í pólitíkinni þar sem Sjálfstæðismenn tala nefmæltir fyrir því að aðgerðarleysi sé aðgerð í sjálfu sér og Samfylkingin tönglast á að þeir séu á leið í ESB. Að ekki sé nú talað um blessaða mennina í Seðlabankanum sem ég er nýbúinn að skrafa um...

Fjær ESB en nokkru sinni!

En væntanlega er ESB aðild fjær okkur nú en nokkru sinni í þeim þrengingum sem þjóðarbúið á við að stríða og myndi raunar ekki leysa neinn vanda dagsins. Það er ýmislegt sem bendir til að lönd innan ESB,- eins og til dæmis Írar séu í mikið verri stöðu í sinni kreppu heldur en við og það mest vegna þess að þeir eiga sinn eigin gjaldmiðil. Íslenska hagkerfið fer nú í sjálfkrafa niðurfærslu á kjörum með gengissiginu og þó að slíkt sé ákaflega óréttlætt ef stjórnvöld koma ekkert að með samhliða jöfnunaraðgerðir, - já og þó að sú leið sé hættuleg stöðugleikanum er hún þó mildari gagnvart þeim sem verst standa heldur en leið atvinnuleysis og gjaldþrota. Slíkt blasir við í löndunum sem ekki hafa sjálfstæðan gjaldmiðil.

Kannski er krónan úrelt!

Það breytir ekki þeirri sannfæringu minni að við eigum þegar við stöndum upp frá þessum darraðardansi að huga vel að okkar gjaldmiðilsmálum og skoða það af alvöru að taka upp annan lögeyri,- eða jafnvel að gefa athafnalífinu frjálst að nota hvaða lögeyri sem er. En ESB - aðild er ekki lausn heldur helsi sem okkur ber að forðast meðan sá klúbbur er eins og hann er. Ef við göngum þar inn leiðum við yfir þjóðina atvinnuleysi, skrifræðisstjórn reglugerða og afsölum okkur fullveldi landsins og sjálfstæði. Svo einfalt er það.

Þó margt sé að hérna er ástandið þó margfalt betra en í stöðnun og atvinnuleysi ESB landanna. Hingað koma fleiri en Pólverjar til vinnu. Frétti um daginn af þýskri konu sem býr hér í lotum til að vinna ófaglærð á leikskóla,- til þess að safna peningum! Finnst það betra en atvinnuleysið heima. Hefði hún mikið að sækja ef ástandið hér yrði eins og í hennar heimalandi.

ESB sinnar á túr! 

Hef mjög á tilfinningunni að ESB - sinnarnir í öllum flokkum séu á túr þessar vikurnar. Skynji sem er að vagninn sé að skreppa frá þeim enn einu sinni. Þeim finnst að það eigi að vera lag í hörmungunum núna til að plata landsmenn með ESB draumum og verða margir svolítið skelkaðir þegar þeir finna að þetta er enn og aftur að mistakast. Skoðanakannanir sýna nú sem fyrr að það er minnihluti þjóðarinnar sem lætur glepjast og miðað við norsku reynsluna þá þýðir það að við kosningar yrði yfirgnæfandi meirihluti andvígur ef spurningin væri lögð fyrir þjóðina.

Hvimleiðast er þetta algera virðingarleysi fyrir staðreyndum. Því er þráfaldlega haldið fram að fylgi við ESB aðild sé að aukast þegar ekkert í tölum Gallup ýtir undir þá staðreynd, hvort sem horft er á fylgið meðal almennra kjósenda, meðal atvinnulífsins eða að ekki sé nú talað um afstöðuna meðal Framsóknarmanna. Það er helst að í þetta skiptið mældust óvenjulega margir fylgismenn ESB aðildar meðal Vinstri grænna og líka í fleira lagi andvígir meðal Samfylkingarmanna. Skondið!

Óspillt Stella ung og stök

Annars er þetta mikill hamingjudagur þrátt fyrir veðrið og eiginlega um of til að vera skrifa um pólitík. Eignaðist nefnilega Megasardisk sem ég hafði ekki heyrt áður og heitir Óspillt Stella ung og stök sem er hrá og óborganleg útgáfa á einum besta disk skáldsins sem dregur nafn af sömu glæpakonu, henni Stellu...

 


Guðinn Shiva í Seðlabankanum

Ef ég man indverska goðafræði rétt þá er það guðinn Shiva sem er í senn guð sköpunar og guð tortímingar og svosem alveg skiljanleg fræði. Sá sem ætlar að skapa mikið verður auðvitað að tortíma einhverju inn á milli til að rýma til fyrir sköpunarverkinu en heldur eru þetta nú samt grótesk trúarbrögð. En gleymum ekki að guð þessi er sá sem hindúar elska mest allra guða!Sivakempfort

Sjálfur er svo fyrir löngu ofandottinn yfir stefnu Seðlabankans að það er helst að ég leiti í þessi gömlu austurlandafræði til að skilja upp eða niður í hvað Seðlabankinn er að gera. Árás bankans á fasteignamarkaðinn nú kórónar samsvörunina við guðinn mikla ...

Og það er auðvitað ekki nokkurt vit að hækka stýrivexti í samdráttarskeiði eins og því sem nú ríkir og raunar ekkert hagfræðilegt samræmi í málflutningi bankans. Lengi vel dugðu stýrivextir til þess að halda hér uppi háu gengi sem aftur þýddi að verðbólgunni var haldið niðri á kostnað útflutningsatvinnuveganna. Og þýddi líka að bílar, snjósleðar og hárþurrkur voru hér á útsölu misserum saman og neyslan eftir því. Það má líkja þessu við niðurgreiðslur á innfluttum varningi sem fólk keypti jafnvel með erlendum lánum, ósnortið af stýrivöxtunum við Kalkofnsveg. Og þar í musterinu skildi enginn neitt í neyslufylleríinu. Sem var einfaldlega búið til með því að kolröng gengisskráning vó þyngra á metunum en háir vextir.

Nú þegar neyslan fer niður berja Seðlabankamenn sér á brjóst og segja, stefnan virkar, stefnan virkar. Sem eru hrein öfugmæli því einmitt vegna þess að nú þegar stýrivextirnir hættu að virka í þá veru að halda uppi gengi og það hrundi þrátt fyrir gengisfall þá skrúfaðist fyrir niðurgreiðslurnar og neyslan hrundi. Semsagt, loksins þegar stefnan hætti að virka þá hætti útsalan og þá hætti fylleríið. (Fyrir utan að bankarnir lokuðust sem hafði líka áhrif).

Seðlabankanum er löngu óhætt að hefja lækkunarferli vaxta en ef hann gerir það ekki - þá gerist það sem ég spáði raunar fyrir í pistli hér í haust - það verður banki þessi sem rekur þjóðina inn í evrusamfélag og jafnvel inn í Evrópusambandið. Er það meiningin, Davíð!?


Tíbetar eiga ekki talsmenn í stjórnarliðinu

Baráttumenn Tíbeta eiga ekki liðsmenn í stjórnarliðinu á Íslandi. Þetta kom ítrekað fram í þingumræðu í gær þar sem sá sem hér skrifar gagnrýndi málflutning utanríkisráðherra og kallaði einnig eftir afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins.tibet_map

Sjálfur hefi ég ekki verið róttækur í þessum efnum en tel engu að síður að Íslendingar eigi með afdráttarlausum hætti að lýsa yfir stuðningi við hina undirokuðu þjóð Tíbeta og baráttu þeirra við ógnarstjórn kommúnista. Engin slík yfirlýsing fékkst frá stjórnarliðum í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Eini liðsmaður okkar Framsóknar í þessu var fyrrverandi félagsmaður í Sjálfstæðisflokki, Jón Magnússon. Ingibjörg Sólrún vitnaði reyndar að hafa lýst yfir við Kínverja að þeim bæri að virða mannréttindi í Tíbet og það er vissulega skref í rétta átt en við þurfum að gera betur. Kínverjum ber að hlusta á réttmætar kröfur Tíbeta.

Umræðan um Tíbeta, áratuga kúgun þeirra og réttindabaráttu er mikil nú um allan heim. Það er mikilvægt að vestrænar þjóðir noti þetta lag til þess að þoka baráttu þessarar þjóðar fram á við hvort sem að lokaáfanginn er settur við aukna sjálfstjórn innan Kínverska alþýðulýðveldisins eða algert sjálfstæði. Reynslan kennir okkur að mikilvægasta vopnið í baráttu sem þessari er þrýstingur á viðkomandi stjórnvöld og það er eftir þeim þrýstingi sem ég kallaði í þingsölum í gær.

Reyndar held ég að þrýstingur af þessu tagi frá Bandaríkjamönnum og fleirum hafi þegar skilað okkur fram á veg en betur má ef duga skal. Ástandið í Tíbet er vitaskuld margfalt betra en það var á Maótímanum og það sama á reyndar við í Kína öllu þar sem mál hafa þokast fram á veg en því fer samt fjarri að mannréttindi og málfrelsi sé með þeim hætti að viðundandi sé.

Ísland getur komið fram af reisn í málum sem þessum og gagnrýnt án þess að horfa endalaust í stórlaxapólitík risaveldanna. Það læðist að mér að hér skipti máli að Pekingstjórnin hefur atkvæði þegar kemur að því að kjósa í öryggisráðið - en það hefur Tíbet ekki!

Nánar má lesa um þessa umræðu hér - sjá m.a. andsvör undirritaðs við ræðum Ingibjargar Sólrúnar, Jóns Gunnarssonar og Guðfinnu Bjarnadóttur.


Ríkið lækki matar- og bensínverð strax

Framsóknarflokkurinn lagði í síðustu viku fram heildstæðar tillögur um efnahagsaðgerðir sem miða m.a. að 3-5% verðhjöðnun með beinum aðgerðum ríkissjóðs samhliða því sem hrint verði í framkvæmd þjóðarsátt þar sem allir leggjast á eitt um að hrinda af þjóðinni verðbólguógninni.

Á sama tíma tilkynnti forsætisráðherra í fjórtánda sinn að stjórnarflokkarnir væru að tala saman og myndu standa vaktina. Eftir sameiginlegan fund fjárlaga- og efnahagsnefnda Alþingis tilkynnti fulltrúi stjórnarmeirihlutans að Ingibjörg Sólrún velti efnahagsvandanum fyrir sér í félagi við Geir H. Haarde.

Vandamálið er tviþætt. Annarsvegar ein dýpsta og alvarlegasta efnahagskreppa sem Ísland hefur staðið frammi fyrir og hinsvegar ein ráðlausasta ríkisstjórn sem setið hefur á lýðveldistímanum. Saman myndar þetta afar óhollan kokteil. Kreppuboðar hafa nú verið öllum ljósir frá síðastliðnu sumri en ennþá hefur ríkisstjórnin ekkert gert.

Ef ekki er gripið skjótt til aðgerða getur snjóbolti óðaverðbólgu oltið af stað á næstu vikum og þá verður mun dýrara að kveða þann draug niður.

Ríkissjóð gegn verðbólgunni

Ríkissjóður er ekki sjálfstæður lögaðili í eigu Sjálfstæðisflokksins eða sitjandi ríkisstjórnar. Kannski heldur það einhver en það er þá misskilningur. Það rétta er að ríkissjóður er sameign íslensku þjóðarinnar. Þegar svo er komið að efnahagsleg kreppa, óðaverðbólga og mögulegt hrun vegna skuldasöfnunar vofir yfir er algerlega óviðunandi að yfirvöld geri það eitt að metast við þegnana um það að þau hafi nú staðið sig betur en hinir skuldsettu. Ríkið hefur tekið aðra hverja krónu af veltufé landsmanna í sinn vasa og ekki skapað verðmæti með öðrum hætti. Þó landsmenn hafi margir bruðlað hefur ríkið samt gengið á undan í flottræfilshætti og bruðli á liðnum árum.

Og það er fólkið sem skapar verðmætin ekki stjórnmálamenn eða ríkið. Meðal heimila og fyrirtækja er skuldsetning nú sligandi og því er jafnvel haldið fram að bankarisar landsmanna riði til falls. Hér er ekki mælt með að innistæðu ríkissjóðs sé deilt út til þeirra sem mesta óráðssíu hafa stundað. En það er full ástæða til að létta skattheimtu á almenning. Einkum ef það má verða til að bæta hina efnahagslegu stöðu þjóðarbúsins.

Bensín og olíulítrar kosta nú um 150 krónur en þar af fer um helmingur þess fjár beint í ríkissjóð í formi vörugjalda og virðisaukaskatts. Framsóknarmenn hafa lagt til að helmingur af vörugjaldi sé felldur niður sem þýðir þá liðlega 20 króna verðlækkun á líter. Eftir sem áður færi um 40% af verðinu beint í ríkissjóð en verðhjöðnunaráhrif væru veruleg. Reiknað tekjutap ríkissjóðs vegna þessa getur numið 6 - 8 milljörðum króna.

Þá hefur Framsóknarflokkurinn lagt til að samhliða þjóðarsátt þar sem allir taka höndum saman um að sporna við verðhækkunum að ríkið leggi þar fram niðurfellingu á matarskatti sem er aðgerð sem getur numið liðlega 3% í neysluverðsvísitölu. Kostnaður er rétt um 6 milljarðar en um leið er hægt að gera þá kröfu til verslunarinnar að hún leggi ekki minna til verðhjöðnunar og hækki þar af leiðandi ekki verð vegna þeirrar gengisfellingar sem orðið hefur að undanförnu.

Verðbólga og okurvextir eru ekki ráðið

Seðlabankinn hefur einn tekið sér vald til að stjórna efnahagskerfi landsmanna og raunar hrifsað til sín meiri völd í stjórn landsins en dæmi eru um í sögu þeirrar stofnunar. Það er fljótsagt að peningastefna bankans hefur ekki virkað sem skyldi og raunar verið farin sú óheillaleið um mörg misseri að halda genginu í hæstu hæðum með hávaxtastefnu. Þetta hefur haft í för með sér langvarandi útsölu og niðurgreiðslu á innfluttum varningi sem kostuð er af atvinnulífinu. Um leið vex viðskiptahalli og bruðl.

Nú þegar svo ber við að ekki tekst lengur að handstýra genginu með þessum hætti dregur að vonum úr neyslu enda einnig þurrð á alþjóðlegum lánamörkuðum. Þá ber svo við að menn hreykja sér af að stefna Seðlabankans virki og því sé rétt að okra enn meira á vöxtum samhliða því að ná neyslunni niður með verðbólgu. Handfylli bankamanna og hagfræðinga hafa nú af flokkshollustunni einni lýst yfir stuðningi við þessa stefnu sem alþjóðleg greiningarfyrirtæki klóra sér í hausnum yfir.

Ráð væri þvert á móti að snúa þegar af hávaxtastefnunni en styrkja bankann verulega með lántökum ríkissjóðs líkt og forsætisráðherra boðaði á aðalfundi bankans. Meinið er að það er ekki nóg að boða slíka lántöku, hér er löngu orðið tímabært að orðum fylgi athafnir.

Í tillögum okkar Framsóknarmanna sem eru settar saman í samráði við hinna færustu sérfræðinga er gerð ítarlegri grein fyrir því hvernig við teljum að megi með þjóðarsátt og samverkandi aðgerðum forða íslensku þjóðarbúi frá verðbólgubáli, atvinnuleysi og bankahruni.


Allt Framsókn að kenna

Var spurður að því austur í sveitum hvað mér þætti um þá fullyrðingu borgarstjórans að ástandið í miðbæ Reykjavíkur væri allt Framsókn að kenna. Því er fljótsvarað,- mér þykir heldur vænt um þessa uppákomu. Ekki svo að skilja að mér þyki níð af þessu tagi í lagi. Það er hitt að þegar það verða svona yfirskot í nornaveiðum þá er það yfirleitt til marks um að élinu sé að linna. Sú tíska að hrauna yfir Framsóknarflokkinn fúkyrðum fer að verða úrelt og brosleg og það er gott. Afhjúpar fáránleikann. 

Grunnfærin umræða

Þessi tíska hefur ekki haft neitt með ytri veruleik eða staðreyndir að gera heldur aðeins þá tilhneigingu að grunnfærin umræða velur sér yfirleitt sökudólg og fórnarlamb eftir hentugleikum en ekki réttlæti eða eðli máls. Einfaldast er að geta notað sama sökudólginn í mörgum málum. Best að hann sé ekki of stór og hafi verið skammaður áður. Þessvegna var auðveldara að benda á Framsóknarflokkinn sem sökudólg þegar þjóðin varð þreytt á síðustu ríkisstjórn eftir 12 ára valdasetu.

Það er miklu erfiðara að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn með allri sinni magt jafnvel þó ábyrgð þeirra sé oft augljóslega meiri.  

Með höfuðið undir holöndinni

Þegar sá sem hér ritar var að byrja í blaðamennsku fyrir aldarfjórðungi var mjög í tísku að kenna bændum um allt sem aflaga fór. Alvitringar umræðuþáttanna voru vinsælastir ef þeir voru til í að kenna bændum um hátt matarverð, uppblástur á hálendinu, slæma stöðu ríkissjóðs og almenn leiðindi í samfélaginu. Það seldi.

Bændur sjálfur gengu með höfuðið undir holöndinni og sögðust vera skólabílstjórar. Það var breið almenn samstaða um að mótmæla því ekki að bændum væri ofaukið, þeir væru afætur og lífsform þeirra úrelt. Fjölmiðlar hlupu þá sem nú hratt eftir tískunni.

Þetta ástand þjappaði stéttinni ekki saman sem þó hefði þurft heldur logaði í ófriði og menn leituðu sökudólga meðal heiðarlegra talsmanna. Allir kenndu öllum um og voru vinsælir í blaðaviðtölum fyrir vikið. Svo hætti þetta og þá ber svo við að allir þakka sér. Allt í einu ganga bændur uppréttir. Skólabílstjórar sem eiga örfáar skjátur gera nú tilkall til að vera kallaðir bændur og sama gera menn á borð við forstjóra Össurar. Kratar meira að segja keppast við að skrökva því að þeir hafi aldrei verið á móti hefðbundnum bændum. 

Það styttir upp!

Hvað gerðist. Mjög margt örugglega. Kannski voru það menn á borð við Baldur Hermannsson, Jónas Kristjánsson og Jón Baldvin Hannibalsson sem sneru þróuninni við. Rétt eins og Ólafur F. kann að gera gagnvart Framsóknarflokknum því auðvitað var þetta allt vitleysa að kenna bændum um og enn meiri steypa að gera Framsóknarflokkinn að allsherjar pólitískum blóraböggli. Hann á auðvitað sitt hól og sínar skammir rétt eins og aðrir.

En það sem mestu skipti er að heimska kemur alltaf upp um sig og gengur á endanum fram af fólki. Svona eins og Samfylkingastubbarnir sem fyrir jól báru fyrir sig Framsóknarflokki því þá giltu ennþá fjárlög gömlu ríkisstjórnarinnar en gleymdu sér hinir glópskustu og spiluðu sömu plötuna eftir jól! 

En meðan hríðin stendur er mikilvægt að Framsóknarmenn haldi ró sinni - svo styttir upp!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband