Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Í minningu Ingu í Kjarnholtum

(Í dýrðlegu veðri og í fegurstu sveit landsins var Inga  vinkona mín borin til grafar í gær - að viðstöddu fjölmenni. Og þó að jarðarfarir eigi ekki að vera skemmtisamkomur þá var öll samkoman ánægjuleg og hlý. Skemmtileg fyrir það hvað allt það góða Kjarnholtafólk er eðlilegt og skemmtilegt. Minningu Ingu var sómi að því öllu. Sama dag birti ég minningagrein um Ingu í Mogganum en varð að stytta hana lítillega en hér birtist sama grein í fullri lengd.)inga_kjarnholtum

- Aldrei gleymi ég því þegar þú komst með blámanninn til mín Bjarni.

Þannig hófst samtal milli okkar Ingu í Kjarnholtum fyrir nokkrum árum og var svo sem ekki fólginn í orðavalinu neinn áfellisdómur yfir hörundslit manna. Frekar góðlátlegar skammir á undirritaðan að hafa látið heiminum rigna svo óforvarendis upp á heiðarlegt sveitafólk. Því þó heimsókn afríkumanns að afskekktum íslenskum sveitabæ teljist til hvunndagsatburða í dag þá var það ekki svo fyrir 25 árum. En verandi í hlutverki gestgjafa með jafnaldra frá Nígeríu var ómissandi að heimsækja bændahöfðingja sveitarinnar. Og undrun Ingu vinkonu minnar þegar hún opnaði fyrir okkur þennan vetrardag var mikil og samt síst meiri en margra annarra sem hittu Tona vin minn fyrir þessa daga. En hún var óspör að rifja þetta upp, brosti að löngu liðnum heimaóttaskap okkar Íslendinga og saman gátum við hlegið að minningunni.

Kannski hafði ég hér náð að borga fyrir mig því það var hjá Ingu sem ég fyrst sá þau dýr eigin augum sem mér þótti bæði óviðeigandi og óviðfelldin í þessari rammíslensku sveit. Fannst og finnst kannski enn. Svínin í Kjarnholtum voru furðudýr og ég var hræddur við þau. Leið svipað og Ingu áratug síðar þegar ég kom með blámanninn. Og skyldi þó enginn líkja saman húsdýrum þeim og vini mínum frá Nígeríu. Nema hvað hvorutveggja var einhvern veginn á skjön við Kjarnholtin sem sagt var að Diðrikarnir hafi skipt á fyrir Laugarásinn í fyrndinni og fundist kaupin góð.

Kjarhholt-main

Í Kjarnholtum. Staðurinn hefur alltaf verkað á mig sem endimörk veraldar, svo fjarri þjóðvegi og einn í viðerni eystri tungunnar. Heimreiðin heilir tveir kílómetrar. Verkaði þannig á mig og ég held jafnvel á Ingu vinkonu mína líka. Stundum.

Ég kom þar fyrst stubbur og naut gestrisni þeirra góðu hjóna sem bæði eru nú horfin okkur. Gísla Einarssonar þá sæðingamanns og síðar oddvita Biskupstungna um áratugi og konu hans Ingibjargar Jónsdóttur. Gísli var þjóðþekktur bændahöfðingi og valmenni. Innfæddur Tungnamaður og í gamla Kjarnholtahúsinu bjuggu þrjár kynslóðir undir sama þaki. Hér var gott að vera og Gylfi vinur minn njósnaði um hvor var að elda betra, mamma hans eða amma.

Inga var Húnvetningur, frá Skárastöðum í Miðfirði og gat oft séð Tungurnar með augum aðkomumannsins. Var samt meiri Tungnamaður en við flest og trygg sinni sveit. Bjó þar ekkja síðasta áratug ævi sinnar í íbúð sem hún og Gísli höfðu komið sér upp í Reykholti. Þar í hverfinu var vinnustaður bóndans í áratugi í umsvifamiklum stjórnunarstörfum. Í hans tíð breyttist rekstur Biskupstungnahrepps úr því að vera erilsamt stúss meðfram búskap yfir í að vera stjórnsýslustofnun með kostum þess og göllum. Það var enginn betur fallinn til að leiða það starf en Kjarnholtabóndinn. Hann var félagsmálagarpur, sveitamaður, söngmaður og sagnamaður.

Og vitaskuld ekkert af þessu án þess að eiga sér traustan lífsförunaut sem var Inga í Kjarnholtum. Hélt áfram að vera Kjarnholtakonan þó að hún væri á pappírunum löngu flutt þaðan. Kannski alltaf tilheyrandi þeim stað sem hafði verið í senn erilsamt oddvitaheimili og líka heimili baldinna krakka og vina þeirra. Þeim Ingu og Gísla varð fjögurra barna auðið og þau börn fóru ekki með veggjum. Það var skemmtan að komast í heyskap með Kjarnholtabræðrum og síðar urðu þar fræg útimót í túninu hjá Ingu. Vornætur var trallað þar og enginn undanskilinn. Á slíkum stundum gat húsfreyjan tekið hraustlega í með okkur Tungnakrökkunum.

Seinni árin bar fundum okkar Ingu saman á mannamótum í Tungunum og ekki við annað komandi en að ég heilsaði henni með kossi. Gagnkvæmt. Við rifjuðum upp liðna óþekkt og vissum bæði að tíminn kemur ekki til baka nema í minningunni. Og kannski hinumegin. Hver veit nema Inga sé þar nú að hlusta á Gísla sinn syngja upp Megasarmelódíur.

Kjarnholtasystkinum og öðrum aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ingibjargar Jónsdóttur í Kjarnholtum.


Desember-gjafirnar teknar til baka

Undir lok fjárlagagerðar í desember sl. gerðist það næsta óvænt að ríkisstjórnin tilkynnti óvænt um kjarabót til eldri borgara og öryrkja sem nam um 700 milljónum króna. Þessi fyrirheit voru gefin án umræðu við þingið og sett inn í fjárlög milli umræðna. Þau vinnubrögð voru vítaverð.

En nú kemur í ljós að aldraðir og öryrkjar greiða þetta til baka á útmánuðum og þá margfalt. Þannig er mál með vexti að við nýgerða kjarasamninga var horft til þess að hækka mest laun hinna lægstlaunuðu. Um þetta var mikil samstaða og bótaþegar í landinu horfðu til þessara samninga hafandi gert samkomulag við síðustu ríkisstjórn sem átti í raun og veru að tryggja þeim sambærilegar kjarabætur og fengjust á almennum vinnumarkaði.

En þá ber svo við að stjórnvöld bera nú fyrir sig að þessi hópur þurfi nú ekki að fá eins ríflegar bætur og ella hefði verið þar sem þeim var skenkt ríflega í desember síðastliðnum. Þannig notar ríkið það lag sem kjarasamningarnir skapa til að innheimta 700 milljón króna kjarabótina með 3,6 milljarða sparnaði. Sparnaði sem kostar hvern bótaþega um 10 þúsund á mánuði og þá sem ekki hafa mikið handa í milli munar um minna.

Málið var rætt í þinginu í vikunni að frumkvæði Guðna Ágústssonar og þar viðurkenndu fulltrúar Samfylkingarinnar svikin en forsætisráðherra hélt sig við að tala niður til stjórnarandstöðunnar og sýndi eins og fyrr einstaka meðferð á íslensku máli þegar hann sló um sig með afbökuðum orðatiltækjum!


Evrópuglufa Guðna Ágústssonar!

Fjölmiðlauppsláttur helgarinnar af okkur Framsóknarmönnum var að formaður flokksins hafi opnað glufu í umræðu um Evrópumálin. Það rétta er að sú umræða hefur alltaf verið mikil í flokki okkar og Guðni Ágústsson hefur alltaf tekið virkan þátt í þeirri umræðu sem virkur og staðfastur talsmaður fullveldis þjóðarinnar. Á því varð engin breyting um helgina.

Póstkosningar nýmæli

Hitt eru nýmæli að Guðni nefndi í ræðu sinni þann möguleika að efna til póstkosninga um málið meðal allra flokksbundinna Framsóknarmanna líkt og Samfylkingin gerði þegar hún mótaði sína afstöðu.

Hvað sem líður stefnumörkun einstakra stjórnmálaflokka er samt ljóst að innan flokkanna verður ákveðin breidd í málinu líkt og er í dag. Guðni vék  að þessu í sinni lokaræðu og sagði m.a. að forveri hans hefði reynt að gera flokkinn að hreinum Evrópusinnaflokki en mistekist og sjálfur hefði hann ekki vilja til að gera flokkinn að hreinum flokki Evrópuandstæðinga. Í þessu efni vitnaði Guðni til þróunar í Noregi þar sem afstaða til ESB - aðildar gengi þvert á flokkslínur líkt og hér á landi. Evrópuumræðan er því tekin út fyrir flokksaga og flokkslínu.

Glufa ESB eða varnir fullveldis

Annað atriði sem miðstjórnarfundurinn vék að var umræðan um Stjórnarskrána. Þar var ítrekuð fyrri afstaða að gera þyrfti breytingar til þess að mæta auknu alþjóðasamstarfi og það er raunar í samræmi við álit okkar Framsóknarmanna á EES samningnum. Einu nýmælin í þessu voru að Guðni minnti í þessu sambandi á að meðal sumra þjóða tíðkaðist að aukinn meirihluti þyrfti hjá þingi og þjóð til breytinga sem fela í sér valdaframsal. Með kröfunni um 2/3 hluta atkvæða er slegin sterkari vörn en ella um fullveldið sem er eðlilegt þegar til þess er horft að afsal þess er óafturkræft. Þannig getur eitt tiltekið ár myndast naumur meirihluti með valdaafsali sem bæði fyrir og eftir er minnihlutaskoðun.

Þá tók miðstjórnarfundur af öll tvímæli um að Framsóknarflokkurinn telur ekki fært að Ísland gangi inn í ESB í veikleika hagkerfisins og raunar slær það af alla umræðu um aðildarumsókn á yfirstandandi kjörtímabili. Þá telur flokkurinn alveg skýrt að ekki sé hægt að efna til þjóðaratkvæðisgreiðslu um aðild nema breyta stjórnarskránni fyrst sem tekur ekki gildi fyrr en eftir næstu Alþingiskosningar. Þá er ítrekað í ályktun okkar um málið að ríkisstjórnin getur ekki hafið aðildarviðræður fyrr en að lokinni slíkri atkvæðagreiðslu.

Þannig kom flokkurinn á móts við báða hópa með opinni umræðu um ESB - mál og traustum bautasteinum til varnar fullveldinu.


Staldrað við á Þjórsárbökkum

(Á morgun ætla Flóamenn að afhenda Landsvirkjun undirskriftalista vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár. Eftirfarandi grein mín birtist í 24 stundum um helgina. ) 

Um helmingur kosningabærra manna í Flóahreppi hafa nú skrifað undir áskorun til sveitarstjórnar um að taka Urriðafossvirkjun ekki inn á aðalskipulag sitt. Mjög skiptar skoðanir eru um málið og ljóst að margir hinna eru harðir talsmenn virkjunar og austan ár er fylgið við virkjanir mjög almennt.

Engu að síður kallar hin mikla andstaða sem er við virkjanaáformin á að Landsvirkjun og sveitarstjórn staldri við. Við núverandi aðstæður er erfitt að benda á nauðsyn þess að flýta þessum framkvæmdum en mikilvægt er að ekki sé ráðist í þær í blóra við mikinn fjölda íbúa á svæðinu. Á meðan getur Landsvirkjun lokið við sína Búðarhálsvirkjun sem er hálfköruð og ekki arðbær í því fari.

Margar leiðir færar

Hálft annað ár er nú síðan undirritaður hélt fjölmennan útifund við Urriðafoss til að vekja athygli á máli þessu. Ekki til að gera þar afgerandi kröfu um að hætt yrði við allt saman. Á fundinum sem sóttur var af miklum fjölda Árnesinga var mikill samhugur um að ekki skyldi flanað að verkinu. Náttúran ætti hér að njóta vafans og gæta yrði þess við virkjanaframkvæmdirnar að skemma sem allra minnst.

Þá hefur verið breið samstaða um það hér austanfjalls að þessi síðasti virkjanakostur Þjórsár verði ekki notaður til að knýja stóriðjur í öðrum landsfjórðungum.

Sjálfur hef ég allt frá því umhverfismat virkjananna rann hljóðalaust í gegn haft þá skoðun að erfitt verði að stöðva allar virkjanaframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár. Sú skoðun mín er óbreytt. En það breytir ekki hinu að við getum gert þær kröfur til Landsvirkjunar að hún setjist að samningaborði heimamanna um minni framkvæmdir en til stóðu, minni umhverfisspjöll og þá einkanlega að horfið verði frá lónstæðum í árfarveginum.

Það eru ekki síst háir varnargarðar og lón í farveginum sem munu breyta til muna ásýnd landsins. Að undanförnu hafa komið fram alvarlegar efasemdir fagmanna um að lón af fyrirhugaðri stærðargráðu séu ráðleg á því sprungu- og jarðskjálftasvæði sem hér um ræðir.

Það er ekki síst Hagalón Hvammsvirkjunar sem er mörgum okkar Árnesinga þyrnir í augum. Þar hverfa undir vatn afar fallegar klettamyndir og hólmar í Þjórsá við innkeyrsluna í Þjórsárdal. Þá þarf frekari úttektir og rök fyrir því að óhætt sé vegna byggðar í Flóa að mynda lón neðst á Skeiðunum fyrir Urriðafossvirkjun.

Efndir Samfylkingar

Í nýafstaðinni kosningabaráttu héldu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna mjög fram þeim sjónarmiðum að sjálfsagt og vandræðalaust væri að slá allar framkvæmdir í neðri hluta Þjórsár af. Samfylkingin situr nú að valdastólum með þennan málaflokk í gegnum iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti. En þjóðin er löngu hætt að gera ráð fyrir efndum á kosningaloforðum úr þeirri átt. Þannig fór lítið fyrir stóryrðum flokksins í Helguvíkurmáli og hróp einstakra þingmanna um að fyrri stjórnir hafi fylgt stóriðjustefnu eru hjáróma.

Takist ráðherrum Samfylkingarinnar að slá allar virkjanir í neðri hluta Þjórsár af mun ég hrósa þeim og fagna því með mörgum fleiri héraðsbúum. Torséð er þó hvaða leiðir eru til þess færar. Hitt er enginn vafi að ráðherrar Samfylkingar hafa það í hendi sér að milda til muna umhverfisspjöll virkjana á þessu svæði og geta þar leitt saman að samningaborði umhverfissinna og hina virkjanaglöðu. Notað þar samráðsstjórnmálin til annars en loforða.

Hér hefur verið drepið á virkjanaandstæðinga í Flóahreppi sem telja um helming kosningabærra manna þar. Mikil andstaða er einnig við virkjanirnar í efri byggðum og þá einkanlega í heimasveit viðskiptaráðherra. Allur sá hópur bíður þess að fagurgala Samfylkingarráðherra fylgi efndir. Sá tími er kominn.


Guðni talar fyrir sátt í Framsóknarflokknum

Guðni Ágústsson kom sterkur út úr miðstjórnarfundi í dag og það var mikill samhugur á fundinum. Að vonum var þar talsverð umræða um Evrópumál. Samþykkt var stjórnmálaályktun sem tók í Evrópumálunum mið af ræðu formanns. Þar var ákveðið:

1. Ekki er hægt að ráðast í atkvæðagreiðslur um ESB nema fyrst verði ráðist í breytingar á Stjórnarskránni. Sem fyrr viðurkennum við Framsóknarmenn nauðsyn þess að stjórnarskráin verði færð til nútímahorfs til þess að geta tekist á við aukið alþjóðasamstarf.

2. Flokkurinn telur ekki rétt að fara í aðildarviðræður við ESB í veikleika heldur í styrkleika. Það er samhljóða síðasta flokksþingi.

3. Ekki verður farið í aðildarviðræður nema fyrst fari fram atkvæðagreiðsla með þjóðinni um málið - sem fer ekki fram fyrr en eftir stjórnarskrárbreytingar.

Með þessu hefur Framsóknarflokkurinn markað sér braut í máli málanna á Íslandi í dag og alveg greinilegt af afstöðu fundarmanna að flokkur okkar er ekki á neinni hraðferð inn í Evrópusambandið. Þvert á móti kom fram vilji til þess að innan flokksins rúmist bæði ESB sinnar og andstæðingar. Í lokaorðum sínum vék formaðurinn meðal annars að því að í mörg ár hefði verið reynt að gera flokkinn að sérstökum flokki þeirra sem væru hlynntir aðild að ESB en það hefði ekki tekist. Sjálfur hefði hann ekki á stefnu sinni að gera flokkinn að sérstökum flokki andstæðinga aðildar.

Um þessa afstöðu formanns ríkti mikill einhugur. Um 150 manns mættu á fundinn og umræður voru bæði fjörugar og magnaðar. Nánar um málið á framsokn.is næstu daga og sjá ennfremur hjá bloggvini mínum Stefáni Boga.


mbl.is Þarf að breyta stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttupistill á verkalýðsdegi

Fram þjáðir menn í þúsund löndum...

Það er baráttu- og hátíðisdagur verkalýðsins í dag. Í velmegun undanfarinna áratuga hefur dagur þessi svolítið misst marks en grunnstef hans um atvinnu, jöfnuð og réttlæti eiga samt ætíð erindi til okkar. Reyndar hefur þróunin á öllum Vesturlöndum verið þessum gildum andstæð í mörg ár meðan frjálshyggjan hefur hér riðið húsum. En á þenslutímum og tímum vaxandi neysluhyggju vilja hugsjónir verða útundan. Ekki síst hinar mikilvægu manngildishugsjónir félagshyggjunnar um störf öllum til handa, jafnræði og réttláta tekjuskiptingu í samfélaginu.

Stéttaskiptingin og öryrkjavæðingin

Hér á Íslandi hefur þjóðarframleiðsla á mann aukist mikið á síðustu árum og því hefur sem betur fer fylgt framþróun í margskonar samneyslu og samhjálp. En á sama tíma höfum við horft á hákarlaleik yfirstéttarinnar sem er fjær almenningi nú en hún var á mínum fyrstu manndómsárum. Ég held að þegar sagan verður skrifuð sjái flestir að stéttaskipting fór mjög minnkandi hér á þriðja aldarfjórðungi 20. aldar og á fyrrihluta þess síðasta, eigum við að segja frá stríði fram til 1980. Síðan hefur auðhyggjan verið ráðandi, ekki bara hér á landi heldur um allan hinn vestræna heim og misskipting farið vaxandi - samfara vaxandi velmegun.

Nú stendur öll heimsbyggðin frammi fyrir því að stór hluti af verðmætaaukningu frjálshyggjutímans byggði á skuldasöfnun og froðu. Kreppan nú er mikill áfellisdómur yfir hinni blindu markaðsvæðingu.

Meðan kjör allra eru að batna erum við flest umburðarlynd fyrir því að þau batni mjög mikið hjá litlum hópi í samfélaginu. Í jafn litlu og samheldnu samfélagi og okkar getur þetta samt verið mjög bagalegt, raunar ekki síst fyrir hina efnameiri sem einangrast frá fjöldanum. Ekki bara af eigin hvötum heldur líka fyrir það að lífshættir þeirra eru svo mikið frábrugðnir lífsháttum alls almennings.

En það versta við vaxandi misskiptingu og mikla þenslu að bilið milli meðalmannsins og þeirra sem verst standa verður líka meira en áður og það höfum við séð á undanförnum árum. Á sama tíma höfum við horft upp gríðarlega fjölgun öryrkja og skjólstæðinga hverskyns fátækraaðstoðar.

Gerum upp við frjálshyggjuna

Það er löngu tímabært að við gerum upp við frjálshyggjuna,- sem hér á landi eins og allsstaðar gekk of langt. Vitaskuld eigum við Framsóknarmenn okkar hlut þar í en verst af öllu er ef nota á verkfæratösku frjálshyggjunnar gagnvart kreppunni sem nú ríður yfir. Í þeirri tösku er nefnilega ekkert því trú hinna blindu markaðsmanna er að leysa beri efnahagsvandann nú með gjaldþrotum, atvinnuleysi og hákarlaleik þar sem aðeins hinir hæfustu lifa af - og lifa flott.

 (Meira seinna - þessi pistill sem átti að fara inn í gærmorgun er orðinn nógu seinn fyrir því í stað þess að klára hann eftir skemmtilegt 1. maíkaffi á Hellu fór ég í vorblíðunni torfæruferð á mótorhjólgarminum mínum umhverfis Ingólfsfjall og sofnaði eins og ungabarn á eftir...)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband