Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Dýrmætur skandall

Sjálfstæðismenn leika undarlegan leik í Icesavemálinu og ekki trúverðugan þar sem ríkisstjórnin hefur þó náð fram samningi miklu mun betri en þeim sem Geir og Árni lögðu drög að fyrir ári síðan. Að ekki sé talað um að frumorsök Icesave eru afglöp Sjálfstæðisflokksins.

Það var þessvegna dýrmætt fyrir Birgi Ármannsson að' geta  baulað á Steingrím fyrir að hann skuli missa út úr sér ósmekklega pillu um vaxtarlag Tryggva Þór Herbertsson.

Illugi Gunnarsson var í fréttaviðtali á RÚV núna áðan og á honum að skilja að flokkur gæti þurft þennan vetur allan til að súrmúlera yfir nýja Icesave frumvarpinu. Það fer að gilda ágætlega um Sjálfstæðismenn það sem gömlu kreppukommarnir  sögðu:

Hvað varðar mig um þjóðarhag!


mbl.is Sagði framkomu Steingríms hneyksli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave er reikningur fyrir vonda pólitík

Nú í hádeginu fundar ríkisstjórnin um enn eina Icesave lausnina, heldur verri en þá sem Alþingi samþykkti í sumar. Eina góða lausnin á þessu máli væri að vísa greiðsluskyldu Íslands alfarið á bug en sá valkostur er ekki fyrir hendi lengur eftir ítrekuð fyrirheit íslenskra ríkisstjórna um að greiða. Ég fjallaði lítillega um þetta í Morgunblaðsgrein í vikunni, sem lesa má hér.

Hvað sem segja má um Svavar Gestsson, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og ESB-rörsýn íslenskra krata þá stendur samt upp úr að Icesave er fyrst og síðast reikningur fyrir þá vondu pólitík fyrri ára að gefa íslensku bankana vinum og kunningjum. 


Hneisa á tímum vinstristjórnar

Hroki Íslendinga gagnvart landflótta útlendingum er hefur lengi verið til skammar og ástandið hefur síst breyst til hins betra í tíð vinstri stjórnar.

Björn Bjarnason má eiga það að hafa tekið mark á mótmælum almennings og leyft Ramses Keníamanni að koma aftur. Spurningin er hvort núverandi dómsmálaráðherra er í þeim fílabeinsturni að þurfa ekki að hlusta á raddir almennings. Hún þarf allavega ekki að hugsa um atkvæði til eða frá!


mbl.is Mótmæla brottvísun flóttamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo skal dansa

svoskaldansa_copy.jpgÍ dag kom í búðir frumraun mín í skáldsagnagerð. Bókin sem heitir Svo skal dansa er saga um fátækar konur austur á fjörðum, í Hafnarfirði og Reykjavik.

Söguþráðurinn byggir á lífshlaupi langömmu minnar Sesselju Helgadóttur og hennar fólks. Frásögnin er sögð í fyrstu persónu konu sem var bæði ögrandi og skemmtilegt verkefni en ég læt öðrum um að dæma hvernig til hefur tekist.


Við kaffihlaðborð á ættarslóðum

nordurferdir09_saevarland_hafragil 193

Komst í gær að bænum Sævarlandi í Laxárdal í Skagafirði með vini mínum Karli Örvarssyni. Kvöldið áður var ég veislustjóri í sviðamessu úti á Vatnsnesi þar sem strjúpasöltuð húnvetnsk svið tóku fram öllum þeim kræsingum sem fást í höllum drottninga.

Minnugur þess að fólk eigi ekki að vinna á sunnudögum lögðum við Kalli upp daginn eftir í reisu í Laxárdalinn að skoða þar jarðeignir hans að Hafragili. Þetta eru mínar ættarslóðir í beinan karllegg sem ég rek til Björns Halldórssonar og þaðan enn um Birni og Halldóra allt norður um Skaga. Skagfirsk fræði segja að Björn þessi sem var frá Sævarlandi hafi verið hugvitsmaður og það urðu hans örlög að flækjast um milli örreytiskota í Dölum og Djúpi. Sonur hans var snikkarinn Halldór Skagfjörð sem fór roskinn vestur um haf og vann um árabil við smíðar í New York. Hefi ég ekki heyrt annað en gott handbragð þyki vera á þeirri borg.

Á Sævarlandi býr nú mikið heiðursfólk, systkinin Regína og Guðmundur ásamt Jósefínu Hansen dóttur Regínu, manni hennar Tryggva og dótturinni Regínu yngri. Hér er rammíslenskt heimilishald hjá greindu og hjartahlýju fólki sem býr við íburðarlausa skynsemi. Okkur bar að garði þar sem bændur voru að hala lambhrút af sillu þar sem heitir við Landsenda í Tindastóli. Myndin af Guðmundi er tekin þar úti við en efst er mynd af húsfreyjunni Regínu sem reiddi fram kaffihlaðborð fyrir langferðamenn af mikilli rausn. Ekki spillir fyrir að heimkominn sé ég að þau Sævarlandssystkini eru komin af Reginbalda frá Skálholti sem ég held helst að til séu vísur um og sögur einhversstaðar meðal Tungnamanna.

nordurferdir09_saevarland_hafragil 118 (Kalli jarðeigandi)

nordurferdir09_saevarland_hafragil 134 

(Guðmundur á Sævarlandi, mig minnir að dranginn sem sést hér á hafi heiti Sævarlandsstapi. Efsta myndin í greininni er af Regínu systur Guðmundar.)


Játningar og uppgjör við hrun!

...Ég var sjálfur blessunarlega heppinn að vera í stuttan tíma atvinnustjórnmálamaður en á þeim stutta tíma rann það smám saman upp fyrir mér að ég hafði verið líkt og margur bláeygur um of. Mér varð það smám saman ljóst að í bakherbergjum Framsóknarflokksins starfaði flokksvél sem vissi fullvel hvað var í gangi og hafði verið í gangi öll þau ár sem stjórnmál snerust meira um að útdeila gæðum en að vinna í anda kjósenda.

Ég varði þennan flokk í þeirri trú að hann væri þess verður og hélt því áfram eftir að mér átti að vera ljóst að það var illa forsvaranlegt. Eftir að fram komu vorboðar hrunsins eins og REI-málið mátti hverjum sem vildi sjá vera ljóst að innan bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks voru ástunduð vinnubrögð sem áttu sér enga málsvörn. Hrunið sjálft hefur svo staðfest að REI málið var hégómi hjá því sem kokkað hafði verið nokkrum árum fyrr með einkavæðingunni.

Sjá nánar í pistli á AMX, hér.


Fagnað í umboði alþýðunnar

Ég verð alltaf jafn undrandi þegar samtök launþega taka sig til og gefa út pólitískar línur. Í hvers umboði er það gert. Hér á landi er skylduaðild að verkalýðshreyfingunni og ég ætla ekki að leggja til að því skipulagi verði breytt. Það hefur augljósa kosti. En virkni hins almenna félagsmanns í verkalýðshreyfingunni er nánast engin og aðeins atvinnuverkalýðsrekendur sem tala þar fyrir munn alþýðunnar. Það getur gengið þegar kemur að þeim lögbundnu hlutverkum sem þessir aðilar hafa eins og að semja um laun, orlof og annað sem tilheyrir kjarasamningum. En að atvinnumenn í verkalýðshreyfingunni tali fyrir pólitískum skoðunum umbjóðenda sinna eins og Gylfi Arnbjörnsson hefur verið duglegur við og nú Starfsgreinasambandið.

Hinu megin hafa menn ekki verið skárri þar sem t.d. Samtök iðnaðarins hafa talað um ESB-aðild án þess að hafa fyrir því meirihlutafylgi sinna félagsmanna.


Hvað kosta símtöl?

Var að koma af heimasíðu símans þar sem ég leitaði að því hvað viðtalsbilið kostar. Hver væri kostnaðarmunurinn á farsímasamtali og beinlínusímtali o.s.frv. Vegna rekstrarverkefnis sem ég hefi þvælt mér inn í þarf ég að setja tölur þessar inn í áætlanagerð og taldi nú lítið mál að fletta þessu upp?

En þetta finnst ekki við einfalda leit á heimasíðu símans og ekki yfirleitt á heimasíðum nógu ofarlega til að mér takist að gúggla þessar upplysingar fram. Fann að vísu gjaldskrár en þær voru 5 og 10 ára gamlar. Að lokum fletti ég upp í símaskránni sem geymdi þessar upplýsingar í gamla daga en einnig hún brást. Dæmigert fyrir upplýsingasamtal sem er svo yfirfullt af gagnslausum upplýsingum að ekkert pláss er lengur fyrir þær sem skipta máli.

Á morgun þarf ég að hringja í símann og spyrja og þar með hefur nú síminn eitthvað fyrir sinn snúð!


Stjórnin lifir ef Ögmundur er tekinn inn aftur

Ég hef spáð því fyrr á þessari síðu að ríkisstjórnin lifi og ætla að gera það enn þó ég viðurkenni að sannfæringin bakvið þá spádóma er veikari en þegar ESB-umsókn og fyrri umferð Icesave skóku Alþingi.

Þessar endurteknu kreppur í stjórnarsamstarfinu verða öðrum þræði til að opna á efasemdir um verkstjórnina hjá Jóhönnu Sigurðardóttur sem stjórnar með hótunum um stjórnarslit. Það eina sem getur bjargað stjórninni nú er að Ögmundur taki þar sæti að nýju en um leið verða þau Jóhanna og Steingrímur að brjóta odd af oflæti sínu og virða þingræðislegar reglur.

Hinn möguleikinn að stjórnin hrökklist frá er ekki vænlegur fyrir land og þjóð þrátt fyrir að margt megi miður um þessa stjórn segja. Það verður enginn vinsæll af því að stjórna landinu við núverandi aðstæður.


Um gylliboð Íslandsbanka

Forsíðufrétt birtist í Morgunblaðinu í vikunni sem ótrúlega litla umræðu hefur hlotið og ekki málefnalega. Íslandsbanki sem einu sinni hét Glitnir býður skuldurum erlendra lána að taka fjórðung þeirra á sig gegn því að skuldrarar breyti þeim í innlend óverðtryggð lán.

Tónn fréttarinnar í Morgunblaðinu var að loksins væri nú eitthvað gert fyrir skuldara þessa lands. En er það svo? Á sínum tíma plötuðu bankarnir stóran hluta landsmanna til að taka erlend lán á tímum hágengis. Þegar að er gáð er það afar óskynsamlegt að skuldsetja sig í erlendri mynt þegar gengi krónunnar er mjög hátt og skuldabyrði þessa fólks er mikil í dag. Sjálfur er ég í þessum hópi þó í litlu sé því ég skulda um 8,5 milljónir í erlendu myntkörfuláni og gerði það í miklu grandaleysi að samþykkja uppástungu bankans um að lánið væri með þeim hætti.

En þó að slæmt hafi verið að taka erlent lán á hágengistíma er ennþá verra að vera svo vitlaus að skipta því láni yfir í innlent lán á lággengistíma. Með því að bjóða 25% afslátt af láninu er Íslandsbanki í raun og veru bara að veðja á að íslenska krónan muni hækka um 20-30%. Birna Einarsdóttir bankastjóri sagði í samtali við Morgunblaðið: "Við værum ekki að bjóða upp á þessi lán ef við teldum ekki að þetta hjálpaði okkar viðskiptavinum." Afhverju segir bankastjórinn ekkert um það hvernig þetta kemur við hagsmuni bankans, hvar bankinn ætlar að hafa fyrir þessum 25% en kemur fram eins og sá jólasveinn sem gefur fólki eftir 25% skulda.

Staðreyndin er að bankinn er ekki að gefa þessum skuldurum neitt, hann er að reyna að hafa enn meira af þeim. Ef og þegar krónan hefur styrkst um 40% þá hefur bankinn grætt umtalsvert á þessum lánabreytingum og lánþeginn sem áður var plataður til að taka erlent lán á hágengistíma situr aftur uppi með að hafa verið plataður. Það er vissulega mikil óvissa um gengisþróun næstu missera en miðað við að hér sé um að ræða lán til nokkurra ára er enginn vafi á að áhætta við að taka hinu frábæra tilboði er algerlega óásættanleg. Þannig sagði Baldur Pétursson hjá Endurreisnarbanka Evrópu í samtali Morgunblaðið í síðustu viku að gengi krónunnar væri í reynd 30% of lágt skráð og fullvíst má telja að innan fárra ára mun krónan hækka um að minnsta kosti þau 30%.

Þar fyrir utan er mér mjög til efs að hægt sé að lækka greiðslubyrði af láni með þessum hætti. Sjálfur prófaði ég að setja mitt 8,5 milljón króna lán í þennan reiknifarveg en mánaðarleg greiðslubyrði af því í dag eru 71 þúsund krónur og fer lækkandi. Lánið er til ársins 2022. Ef ég nú færi þessar 8,5 milljónir niður um 25% í 6,4 milljónir í íslensku óverðtryggðu láni með 12% vöxtum þá verður mánaðarleg afborgun 106 þúsund sem er síðast þegar ég vissi hærri tala en 71 þúsund. Ef ég stilli íslenska lánið af í jafngreiðslum verður afborgunin samt hærri en af því erlenda eða 82 þúsund. (Í fljótu yfirliti get ég ekki séð á heimasíðu Íslandsbanka hvaða vexti bankinn miðar við í þessu sambandi en jafnvel þó miðað sé við umtalsvert lægri vexti t.d. 7% þá verður afborgunarbyrði engu að síður liðlega 80 þúsund).

Ef krónan styrkist þó ekki sé nema um 25% þá lækkar afborgunarbyrðin hjá mér á erlenda láninu niður í um 53 þúsund meðan sá sem skiptir samskonar láni í krónulán hjá Birnu borgar áfram 80-105 þúsund og er því með allt að tvöfalda greiðslubyrði við það sem vera þyrfti.

Í einkavæddu bönkunum sem nú hafa sungið sinn söng ríkti einhver undarleg bábylja um að allir gætu alltaf grætt, skuldarar og fjármagnseigendur, bankar og viðskiptavinir. Greiningadeildir þessara banka stóðu í að halda að okkur glansmyndum skuldasöfnunar sem stóðust enga skoðun. Það er mín tilfinning að sami andi svífi enn yfir vötnum í Íslandsbanka og 25% niðurfellingin hafi verið sett fram með þeim öfugsnúna hugsunarhætti að báðir gætu grætt. Staðreyndin er að bankinn hefur samt reiknað sinn gróða út með meira öryggi og líklegast að þeir sem hlýða fagurgala Íslandsbanka nú sitji innan skamms uppi með enn verri stöðu. Samt er þetta einmitt sá hópur sem mál er að bankarnir hætti að hafa að féþúfu. Það er aldrei gott að höggva tvisvar í sama knérunn.

(Birt í Mbl. um liðna helgi)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband