Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Kreppusjóður er lausnin - fráleitt að gefa öllum skuldurum pening

Þórhallur Heimisson stóð sig vel í Vikulokum á Rás 1 í morgun og kynnti þar lauslega hugmynd okkar félaganna um frjálst framboð endurreisnarmanna til Alþingis.

Kreppusjóður í anda gömlu heimskreppunnar var það sem Þórhallur nefndi sem raunhæfari leið til bjargar heimilunum heldur en 20% niðurfærslu allra skulda. Niðurfærsluleiðin er nú boðin fram saman af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og dæmi um yfirboð rétt fyrir kosningar. Það er einfalt reikningsdæmi að ef við þurfum 400 milljarða (=ein fjárlög) til að færa allar skuldir heimila og fyrirtækja niður um 20% þá getum við náð sama árangri í baráttunni við fjárhagsvanda skuldara með helmingi lægri upphæð í gegnum kreppusjóð. 

Hversvegna? Jú, með því að taka hvert mál fyrir sig og skoða hvert tilvik sleppum við því að hjálpa þeim sem ekki þurfa hjálp af því að þeir eru með jákvæða eiginfjárstöðu og í öðru lagi þeim sem ekki verður hjálpað öðru vísi en með aðstoð við gjaldþrot. Það getur enginn lokað augunum fyrir því að bæði í heimilum og fyrirtækja eru því miður aðilar sem þannig er komið fyrir og þá er að vinna út frá því - einkanlega með því að milda hina ómannlegu meðferð sem hér er á þrotamönnum. 

Réttlætið, hvar er það kann einhver að spyrja? Er eitthvert réttlæti í því að hjálpa einum meira en öðrum? Auðvitað ekki en við skulum gá að því að 20% niðurfærsluleiðin gerir ekki ráð fyrir að gefa öllum pening heldur bara þeim sem skulda og því meira sem þeir skulda meira. Þannig fengju í sumum tilvikum hinir efnamestu sem búa í stærstu húsunum mest!

Eina vitræna leiðin í þessum vanda er að hver sá sem vill fá aðstoð leggi öll sín spil á borðið og aðstoð til viðkomandi verði undanþegin þeirri bankaleynd sem við annars getum haft yfir okkar persónulegu fjármálum. Viðkomandi væri þá að vissu leyti í stöðu þrotamanns - en óneitanlega yrði það léttbærara þegar um er að ræða opinbera leið sem þúsundir færu. Allir sem fengju niðurfellingu yrðu að sæta því að þær upplýsingar lægju fyrir sem opin gögn, svipað og álagningarskrá skattanna gerir í dag. Þar með væri afstýrt óánægju hinna og möguleikum á spillingu. 

Mér er reyndar til efs að leið sem þessi ætti að vera fær fyrirtækjunum og tala þar sjálfur sem stórskuldsettur smá-atvinnurekandi. Fyrirtækin geta áfram farið hefðbundna leið nauðasamninga.

En það er algerlega nauðsynlegt að fara leið sem þessa gagnvart fjármálum heimilanna og það þarf að fara hana sem allra fyrst. Þetta verður mikil vinna og mun þá líka um leið skapa mörg störf - gæti trúað að við Kreppusjóðinn þyrfti ekki færri en 100 starfsmenn og mikilsvert að dreifa þeim sem mest um landið.

En er nokkur von til að ríkisstjórnin nú komi sér saman um slíkt? Þetta er bæði erfitt og umdeilt og ekki eins töff og að reka Davíð...


ESB flokkurinn í lykilstöðu eftir kosningar

esb_fani2_nei_copy.jpgUm langt árabil hefur Sjálfstæðisflokkur haft heljartök á íslenskum stjórnmálum þar sem allir flokkar hafa komið að fótskör hans eftir kosningar og sagt, viltu vera memm. Nú bendir margt til að Samfylkingin verði í þessari stöðu á komandi kjörtímabili og geti þá valið þann sem best vill dansa í átt að ESB og fullveldisafsali. 

Ég fjalla meira um þetta í úttekt á flokkunum í nýrri grein á Smugunni um ESB klæki flokkanna.

http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/1117


Frábærar viðtökur væntanlegra kjósenda...

L - listinn fær frábærar viðtökur á fyrsta degi og ekki hægt að kvarta yfir fjölmiðlum. Ég var sjálfur að koma úr viðtali á Rás 2 og Þórhallur félagi minn er að fara í Vikulokin á Rás 1 klukkan 11 í fyrramálið. Og samt erum við alls ekki byrjuð að kynna framtakið.

Valgerður Sverrisdóttir sendi mér frekar hlýlega kveðju í gær og óskaði okkur L - listamönnum um leið til hamingju með að hafa fengið Kristinn H. Gunnarsson í liðið. Sem við aldrei fengum og ég verð að senda þessar hamingjuóskir til baka norður að Lómatjörn því mínar heimildir herma að Kristinn sé nú kominn til baka, - hvort sem honum verður nú fagnað með kossi eins og þegar hann gekk fyrst í flokkinn.

L - listinn er ekki flokkur heldur bandalag sjálfstæðra og frjálsra stjórnmálamanna. Fyrir vikið skiptast kjósendur ekki í þær stéttir sem hér hefur tíðkast, yfirstétt  háttsettra flokksmanna og réttlausa stétt óflokksbundinna kjósenda. Yfirstéttin myndar í raun og veru einhverskonar eignarhaldsfélag alþingismanna og getur til dæmis breytt skoðunum þeirra og þar með atkvæðum hinna óflokksbundnu og reyndar almennra flokksmanna líka. Ef miðstjórn eða flokksþing samþykkir eitthvað sem gengur þvert á kosningaloforð þá gilda kosningaloforðin ekki lengur. 

Því er auðvitað haldið fram að bakvið þessar ákvarðanir sé lýðræðislegar stofnanir  stjórnmálaflokksins  en ef einhver  trúir því í raun og veru að stjórnmálaflokkar séu lýðræðislegir þá er til eitt ráð við slíkum misskilningi. Það er hægt að ganga í flokk og hver sem það gerir sannfærist um að það eru allt önnur lögmál en lýðræðisins sem ráða vegferð flokka.

Eina leiðin út úr þessu kerfi er að kjósa á þing menn sem standa engum nema almennum kjósendum sínum reikningsskil gjörða sinna og getur aldrei skýlt sér bakvið flokkssamþykktir.

 

 


L listinn er endurreisnarhreyfing

L - listinn er endurreisnarhreyfing sem stefnir að framboði í öllum kjördæmum.

Við sem að L - listanum stöndum teljum tímabært að bjóða fram raunhæfan valkost þeirra sem sjá endurreisn íslenskra stjórnmála og efnahags best tryggða með varðveislu fullveldisins. Við höfnum öllum tilraunum til að koma Íslandi undir stjórn ESB og teljum að hag Íslands sé best borgið með fullum yfirráðum landsmanna yfir gögnum okkar til lands og sjávar.

Við sem stöndum að L - listanum teljum að endurreisn íslenskra stjórnmála geti ekki orðið nema dregið verði úr áhrifum flokksræðis og beitum okkur fyrir persónukjöri til Alþingis. 

Við sem stöndum að L - listanum byggjum málflutning okkar á hófsömum borgaralegum gildum og höfnum öfgum frá hægri og vinstri.

Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með geta skráð sig á póstlista hjá okkur í gegnum netfangið frjalstframbod@gmail.com Skilyrði er að þeir sem skrá sig gefi upp fullt nafn ásamt netfangi.


Ábyrgð Seðlabankans og játning Davíðs

Fjölmiðlaumræðan um efnahagsmál er aðallega út úr öllu samhengi og þannig hefur þessi dagur aðallega farið í karp fjölmiðlamanna við Geir Haarde og fleiri um það hvort að Davíð hafi varað menn við. Sem við vitum alveg að hann gerði og það gerðu það margir aðrir. Við stjórnarandstöðunni gerðum það, Ragnar Önundarson gerði það og nafni hans Árnason. Jafnvel Þorvaldur Gylfason á síðustu metrunum.

Ábyrgð og ábyrgðarleysi Seðlabankans verður ekki metið eftir því hvort menn þar sögðu eitthvað á síðustu metrunum áður en bankarnir hrundu - þegar það var í raun og veru ekki hægt að bjarga þeim. Afglöp Seðlabankans liggja í hávaxtastefnu bankans og rörsýn á vita vonlaus verðbólgumarkmið.  Hágengisstefnan stuðlaði beinlínis að skuldasöfnun þjóðarinnar, veikingu framleiðsluatvinnuvega og líka því að bankarnir einkavæddu gætu gamblað meira en góðu hófi gengdi. Hágengisstefnan var drifin áfram af hávaxtastefnu og þó svo að þessi stefna hafi verið eldri Davíð í bankanum þá kepptist hann við að verja þessa alvarlegu vitleysu sem varð þjóðarbúinu dýrkeypt. Jöklabréfin eru skilgetið afkvæmi þessa.

Illt skal með illu út reka, sagði Davíð fyrir tæpum tveimur árum og var þá að verja þá reginfirru að halda uppi ofurháum vöxtum. Í reynd viðurkenndi karlinn þetta óbeint í Kastljósviðtalinu í gær þegar hann sagði að kannski hefði verið lögð of mikil áhersla á verðbólgumarkmiðin. En Sigmari - sem hefur oft verið betri -  brást bogalistin við að fylgja þeirri játningu eftir. Það er í þessari röngu 


Konubók og þjóðháttabók

alda_armanna.jpgBóksali hlýtur að blogga um bækur. Tvær eru á náttborðinu hjá mér þessa dagana og eiga það sammerkt að vera gefnar út af litlum forlögum. Önnur er merkilegt þjóðháttarit sem gefin var út af kortaútgáfufyrirtækinu Karton árið 1998. Hún heitir Horfin handtök og er eftir Pétur G. Kristbergsson. Rit þetta fjallar um vinnubrögð við saltfisk og kol á kreppuárunum. Hér er mikilli þekkingu um verkmenningu þjóðarinnar bjargað á land og ritið hið vandaðasta.

Hin bókin á náttborðinu er sjálfsævisaga og listaverkabók listakonunnar Öldu Ármönnu Sveinsdóttur. Bókina sem heitir Kona í forgrunni gaf listakonan sjálf út nú fyrir jólin síðustu. Alda er mér ekki ókunnug en systir mín á fyrir mann son hennar Jón Júlíus Elíasson. Bók þessi er jafn skemmtileg og höfundurinn en einnig mikið og merkilegt framlag í þjóðfélagsumræðu. 

Alda lýsir hér baráttu við heilbrigðiskerfi og stofnanir. Maður hennar glímir ævilangt við alvarlega sjúkdóma og yngsta barn þeirra hjóna fæðist mikið fatlað  inn í samfélag þar sem þjónusta við fötluð börn er mjög af skornum skammti. Hér er sögð saga sem stendur okkur mjög nærri í tíma en er þó sem betur fer um margt fjarlæg þeim sem nú lenda í svipuðum sporum. Tilfinningar foreldris eru þó líkar á öllum tímum og sagan er holl lesning öllum sem staðið hafa í svipuðum sporum. 


Hvaða stjórnmálamenn voru í bankaklíkunum

Davíð Oddsson upplýsti - eða hélt fram ef menn vilja draga þessi orð hans í efa - að stjórnmálamenn hafi fengið sérstæka og jafnvel óeðlilega fyrirgreiðslu í einkareknu bönkunum. Þeir hafi semsagt fengið fyrirgreiðslu umfram það sem bauðst almenningi og þá væntanlega vegna þess að þeir voru stjórnmálamenn.

Þjóðin getur ekki gengið að kjörborði og varla prófkjörum nema það verði upplýst hverjir þessir stjórnmálamenn eru og það liggur meira á að upplýsa það heldur en að snúa upp á hendina á Höskuldi eða ráða nýjan Seðlabankastjóra.

Ég er fjarri því að skrifa undir allt sem Davíð sagði í þessu viðtali en ég óttast að það sé full innistæða fyrir þessari tilteknu fullyrðingu gömlu kempunnar.


Gríðarleg áhrif okkar í ESB!

Byrjaði daginn inni í stúdíói á Bylgjunni þar sem við Friðrik Jónsson skagamaður ræddum hvaða áhrif Ísland hefði inni í ESB ef við gengjum þar inn. Friðrik sem keppir nú að þingsæti fyrir Framsókn i Norðvesturkjördæmi er einn þeirra sem trúir staðfastlega að Ísland hefði mikil áhrif innan Evrópusambandsins með sínum 5 eða 6 fulltrúum á 750 manna þingi. Þessutan fengjum við líklega þrjá fulltrúa í hundrað manna ráðherraráði...

Sumt er reyndar svo vitlaust að það telst varla tækt til umræðu. Hugmyndin um hin miklu áhrif Íslendinga í ESB er af þeirri sort og það þarf einfaldlega mikinn trúarhita til að tala upphátt fyrir slíku máli. Þetta eru kannski síðustu leifarnar af því mikilmennskubrjálæði sem einkennt hefur hluta þjóðarinnar undanfarin ár.Íslendingar séu einfaldlega svo klárir að útlendingar hljóti að gera eins og þeir segja...

Með Lissabonsamningi er nú enn stefnt að minni áhrifum smáríkjum innan ESB og þeir sem kynnt hafa sér skrifræðisbáknið í Brussel gera sér flestir grein fyrir að áhrif eru bundin við þrýstiaðgerðir í embættismannakerfinu. Slíkum aðgerðum gætum við Íslendingar þegar beitt í gegnum EES samninginn en til þess þarf að kosta til heilum her skrifstofumanna suður þar. Nú þegar runnið er af þjóðinni gera sér flestir grein fyrir að fjármunum skattgreiðenda er betur varið til annarra og þarfari verkefna. 


Alþingi virkar ekki...

Vinstri sinnaðar fréttastofur hafa staðið á öndinni í dag yfir að Alþingi virki bara ekki. Ríkisstjórnin er búin að samþykkja frumvarp og svo kemur þingmaður og stoppar málið bara af því að hann hefur sannfæringu. Þetta er alveg hræðilegt og svona er Alþingi orðið óstarfhæft...

Eða hvað? Ef að það er rétt að Alþingi sé færiband fyrir framkvæmdavaldið þá er alveg rétt að það virkaði ekki sem skyldi í dag. En í raun og veru er þetta hinn mesti misskilningur og það er ekkert sem segir að það geri neitt til að hinkra aðeins með þetta dæmalausa Seðlabankamál. Yfirleitt þegar ráðherrar lenda á innsoginu yfir að þeir  verði að ná einhverju í gegnum þingið fyrir háttatíma þá er einmitt ástæða til að þingið staldri við. 

Í þessu tilviki þá breytir engu hvort að Davíð situr í Seðlabankanum vikunni lengur eða skemur. Seta hans þar er nú öll orðin frekar fyndin því Alþingi er að mestu leyti valdalaust eftir tilkomu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. En auðvitað liggur Samfylkingu á og það mikið einkanlega til þess að Davíð fari nú fyrr úr stólnum en Jóhanna - en fyrir þjóðina er það hégómi og skiptir meiru að lög séu skikkanlega gerð. 


Allir hoppa á ESB vagninn - VG stefnulaus!

Vinstri græn hafa rætt þann möguleika að ganga inn í ESB og taka upp evruna en hafa ákveðið að það þyrfti fyrst að fara fram málefnaleg umræða um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu og síðan þá upptöku evrunnar og að slíkt ákvörðunarferli þurfi að vera lýðræðislegt þannig að á þessari stundu er ekki alveg ljóst hvert flokkurinn muni stefna varðandi aðild að Evrópusambandinu þar sem flokkurinn er í raun og veru að leggja þessa ákvörðun í hendurnar á þjóðinni.

 

Ofanritað er tilvitnun í Lilju Mósesdóttur hagfræðing og frambjóðanda hjá VG í samtali við Gunnar Gunnarsson fréttamann hjá Speglinum á RÚV. Gunnar er svoldið áfram um að menn játist ESB með einum eða öðrum hætti og það reyndist ótrúlega auðvelt í þessu tilviki. Samt er Lilja sá hagfræðingur sem hefur talað af einurð gegn því að ESB og evra hefði leyst kreppuna okkar. En ég er hálfhræddur um að þetta sé einfaldlega rétt lýsing á þokukenndri stefnu VG í sjálfstæðismálunum. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan menntamálaráðherra sem er líka varaformaður VG sagði að VG og Samfylkingin þyrftu að ná saman í ESB málum.

 

Á yfirstandandi vetri urðum við vitni að því hvernig þingflokkur Sjálfstæðisflokks molaðist undan ESB umræðunni þannig að undir lokin stóðu ekki eftir nema fjórir þingmenn sem þorðu og voru heilsteyptir í því að vera á móti ESB aðild og aðilarviðræðum. Þetta voru heimastjórnarmennirnir Björn, Birgir, Pétur og Sigurður Kári. Formannsefnið nýja, Bjarni Benediktsson var um tíma farinn að tala eins og Evrópukrati og virtist eiga létt með gíraskiptingar í þessu máli að ekki sé nú talað um varaformann sama flokks og Illuga Gunnarsson vonarstjörnu.

 

Á sama vetri samþykkti minn gamli flokkur aðildarviðræður á flokksþingi og  þeir fáu ESB andstæðingar sem töluðu á því þingi voru púaðir niður með 10% atkvæðafylgi gegn öllum þorra Framsóknarmanna. Þá skiptir litlu þó að flokkurinn hafi sett ýmis kátleg skilyrði. Það hefur Samfylkingin líka gert og raunar allir ESB sinnaðir flokkar í Evrópu hafa sett allskonar skilyrði bara til að geta svo sagt,- nei við náðum því reyndar ekki fram en það er aukaatriði því við fengum góðan hljómgrunn við hugmyndir okkar um aðlögun að umræðu um gerð áætlunar sem miðar að hagsmunum þjóðarinnar í alþjóðlegu samhengi sem er mikilvægt í ljósi breyttra aðstæðna o.s.frv. o.s.frv.þangað til það eru allir örugglega hættir að hlusta.

 

Í þriðja sinn tekst Evrópukrötunum að svæfa ESB málið fyrir kosningar þannig að það verður ekki kosið beint um það. Það þýðir um leið að allskonar ESB sinnar ná fótfestu í öllum flokkum og hefur svo sér við hlið hina linu sem láta hrekja sig eins og Lilja Mósesdóttir gerði svo átakanalega í nefndu RÚV viðtali.

 

En það er eins gott að það sé ekki kosið um þetta því þjóðin hefur alveg áttað sig og nú er mikill meirihluti gegn ESB aðild. Það er eins gott fyrir ESB sinnana að það fari nú ekki að rugla myndinni í sjálfum kosningunum!

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband