Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Skrýtin kirkja og kærleikur mannanna

Kirkjan er skrýtin stofnun - svo skrýtin að ég er því oft feginn að vera ekki í þeim klúbbi. Þau rök allmargra kirkjunnar manna að hjónaband tveggja karla gangi gegn siðaboðskap kirkjunnar stenst afar illa skoðun.

Það er rétt að Gamla Testamentið talar gegn samlífi karla og leggur það að líku við samlífi við dýr. En það er líka ótalmargt annað í Gamla Testamentinu sem við höfum fyrir löngu sagt skilið við og siðaboðskapur þeirrar bókar er víða í meira lagi vafasamur út frá nútíma vestrænum hugmyndum.

Ef kirkjunnar menn tryðu því í raun og veru að kærleikurinn væri ofar öllu ætti ekki að vera neitt að því að leyfa tveimur mönnum að innsigla kærleik sinn þó að líffræðileg fjölbreytni sé ekki hin sama í þeim hjónaböndum og var hér almennast áður og fyrr...


mbl.is Viðbrögð kirkjunnar komu ekki á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppulánasjóður hefði boðið aðra leið...

Það er mjög erfitt að setja sig inn í skuldamál annarra en sú saga sem Sigurgeir í Skáldabúðum segir okkur í Morgunblaðinu í dag er allt annað en falleg. Vinnubrögð nýju bankana eru í mörgum tilvikum óskiljanleg.

Aðalatriðið er þó að þær leiðir sem ríkið býður í skuldamálum einstaklinga og einyrkja eru ófullnægjandi og flækjustig þeirra er hátt. Skilvirkasta leiðin í þessu væri sú að koma á fót sjóði sambærilegum Kreppulánasjóðnum gamla sem einfaldlega yfirtekur eignir og leigir þær - á markaðsleigu - fyrri eigendum með forkaupsrétti. Með þeirri aðferð er ekki bara hægt að bjarga skuldugum bændum heldur og ekki síður fjölskyldum sem nú standa frammi fyrir niðurlægjandi og sársaukafullum útburði af eigum sínum. 


mbl.is Jörðin seld án auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi í glundroða

Glundroðaástand eru kjöraðstæður fyrir ofbeldi hverskonar, ekki bara líkamlegt heldur alveg eins pólitískt. Ögmundur Jónasson hefur nú opinberað þá umræðu sem var í gangi í hruninu þar sem nokkrir af ASÍ forkólfunum vildu nota bankahrunið til að knýja á um ESB-inngöngu. Umsóknin sem kom svo hálfu ári seinna var angi af sama ofbeldi en það er önnur saga. Ögmundur kallar þetta réttilega ofbeldi og það er mikilvægt að taka ofbeldismenn úr umferð, jafnt í pólitík sem annarsstaðar.

Sjá nánar á nýjum og frábærum fréttavef um Evrópumál, www.evropuvaktin.is 


Það kostar að spara!

Sparnaður í rekstri bæjarsjóðs hefur skilað umtalsverðum árangri og það er ljóst að nú hillir undir betri tið eftir áföll kreppunnar. En það kostar að spara og þá bitnar það á íbúum. Þannig urðu biðlistar á leikskóla um tíma í vetur og sundlaugin okkar hér á Selfossi var lokuð á sumardaginn fyrsta eins og ég fjalla aðeins um í nýjum pistli mínum á fréttavefnum Sunnlenska.is

Hart sótt að Steinunni en hvað með Össur?

Það er hart sótt að Steinunni Valdísi og hún er nú sú í liði Samfylkingarinnar sem spjótin beinast að vegna hárra styrkja sem hún fékk frá helstu leikendum í útrásarleikritinu. Ég ætla ekki að gerast dómari í þessu máli en séu styrkir þessir afsagnartilefni þá hefði Steinunn átt að axla þá ábyrgð miklu fyrr.

Hitt er miklu alvarlegra að nú hefur Össur Skarphéðinsson viðurkennt að meðan hann var formaður Samfylkingar hafi flokkur þessi ef til vill verið handbendi Jóns Ásgeirs. Hvergi meðal nágrannaþjóða okkar hefði stjórnmálaforingja liðist að gefa út aðra eins yfirlýsingu án þess að þurfa að svara betur fyrir hana. 

Ég tek það fram án þess að það skipti máli að mér hefur líkað mætavel við bæði Össur og Steinunni Valdísi og tel þau hina mætustu menn. En í ljósi þessara játninga Össurar fer að verða tímabært að krataflokkurinn taki alvarlega til skoðunar hugmynd þá sem Steinunn Valdís henti nýlega á lofti að allir í þeim flokki sem á þingi sátu fyrir hrun rými bekki. 

 


Af köttum, krötum og drykkjumönnum

Kötturinn minn Elvis er með böggum hildar. Vitaskuld útaf pólitík en þessi angurværi og sjálfselski einstaklingur er hægri krati og kysi Alþýðuflokkinn ef það væri ennþá hægt.

Nú alveg nýverið rakst hann á það að reglur um kattahald hafa verið hertar í Árborg þannig að kettir mega helst ekki vera á almannafæri nema í bandi og vitaskuld hefur kattarafmánin áhyggjur af þessu. Veit sem er kettir hljóta að hengjast af sjálfræðisfrekju sinni sé sett á þá tjóðurband.

Það kemur reyndar fram í blaðaviðtölum við kattafangara bæjarins að skepnur þessar séu látnar eiga sig meðan ekki er kvartað. Ég hef verið útskýra þetta fyrir Elvis að eðlilega gildi sömu reglur um ketti og drykkjumenn enda skyldleikinn augljós. Það er semsagt bannað vera drukkinn á almannafæri á Íslandi og hér á Selfossi er líka bannað vera köttur á götunni. En allir vita þó að kettir eiga til að skjótast milli húsa og ráða því nú tæpast sjálfur þó að það fljúgi páfagaukur eða annað fiðurfé upp í skoltinn á þeim.

Sama á við um drykkjumenn sem þurfa oft og einatt að færa sig frá heimili að knæpu í misjöfnu ástandi. Það er látið óátalið svo lengi sem þeir fara ekki akandi. Þetta síðastnefnda finnst Elvis reyndar algerlega óskiljanlegt því að úr því að vitaskuld er drykkjumaðurinn meira og lengur á almannafæri gangandi en keyrandi. Ég varð að syngja fyrir hann lagið góða, ég held ég gangi heim, ég held ég gangi heim.

Mjá, sagði kötturinn og ákvað að hætta sér út fremur en að leggja viðkvæm tóneyru sín undir þá pínsl að heyra mig syngja.


Skýrslan er komin að kveða burt...

Nei, nei nei, ég skal hlífa ykkur við yrkingum en fjórða sending af Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er nú komin í hús hér í bókabúðinni og loksins það mikið til af henni að ég þori loksins að vekja athygli á henni. Fram að þessu höfum við ekki annað pöntunum en við vonumst til að geta nú sinnt öllum.

Þetta er vitaskuld reifari ársins, lygasaga aldarinnar, biflía framtíðarinnar og lesefni á kvöldvökum barnabarna okkar eftir að öll rafmagnsljós hafa verið slökkt á Íslandi og þjóðin situr á ný í torfbæjargreni við grútarljós.

Þá verður lesið í þessum bókum um þá kappa sem borðuðu gullhúðaða glassúrsnúða meðan þjófstolnir milljarðar runnu ofan í peningatanka á enn fátækari eylendum suður í heimi, ráðherra sem tóku í nefið og viðurkenndu að þeir hefðu ekki vit á neinu því sem þeir létu kjósa sig til og forsetaólukku sem tekur langt fram þeim Merði Valgarðssyni og Loka Laufeyjarsyni til samans.

Hægt er að panta hér eða í síma 4823079 - þeir sem vilja sækja á staðinn merki við það í reit fyrir sendingarmáta. 


Gróðavænlegt sorp

Hér á Selfossi eins og víðar er mikil samkeppni í sorpinu og tvær móttökustöðvar rísa nú í okkar litla bæjarfélagi. Ég drap aðeins niður penna um þessi mál í Sunnlenska í vikunni, sjá hér.

Kjaftháttur og ófyrirleitni

Hafi einhverjum dottið í hug að við bankahrunið væri Björgólfur Thor og aðrir peningalegir hryðjuverkamenn þjóðarinnar stikkfrí og lausir undan öllu án eftirmála - þá getur verið að fyrir þeim hinum sama séu þetta einhver tíðindi.

Staðreyndin er aftur á móti sú að ef Björgólfur gæfi út yfirlýsingu um eitthvað annað, svo sem að hann ætlaði bara að borga hluta sinna skulda þá væri honum skylt að lýsa sig, eða viðkomandi félög, gjaldþrota. Víst eru þetta margar kennitölur, sautján sem eru nafngreindar og vafalaust fleiri. Það dettur engum heilvita manni í hug að trúa að trúa að þær muni allar lifa af en kannski gera einhverjar þeirra það.

Því er algerlega ósvarað eftir yfirlýsingu Björgólfs Thors hvaða ábyrgð hann telur sig bera á skuldum sem lenda á ríkissjóði vegna Landsbankans og Straums. Og í öðru lagi að hve miklu leyti umrædd fjárfestingafélög högnuðust á ævintýrum þessara stofnana t.d. á Icesave.

Það að Björgólfur yngri haldi áfram í vafasömu braski sínu út um allan heim eftir að hafa sviðið fjárhag Íslands niður í rót er ekkert annað en blaut tuska framan í íslenskan almenning.

Þetta slær ekki ryki í augu neinna, Björgólfur!


mbl.is Lánin verða gerð upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan og fátæktin

Mikilvægast í baráttunni við kreppuna er að hækka lægstu launin. Þeir lægstlaunuðu höfðu af engu að taka þegar krónan hrundi og því þarf engan að undra langar biðraðir eftir matargjöfum. Sjá nánar í grein minni á frábærum fréttavef Sunnlenska.is


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband