Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Bankaáhlaupi afstýrt en almenningur blæðir

Það er fagnaðarefni að ESB hefur líklegast tekist að afstýra bankaáhlaupi í Kýpur. Slík staða er eins og sinueldur og hefði breiðst út um nálæg lönd, þrátt fyrir votan sjó millum landa. 

En björgunaraðgerðirnar þarna eru ekki gerðar án þess að það bitni á almenningi. Allt tal manna hér við upphaf bankakreppunnar á Íslandi um að okkur vantaði skjól verða hjákátlegar í ljósi frétta. Í evrulöndunum er ekkert skjól og engin miskunn fyrir lítilmagnann.


mbl.is Kýpur missir heilan áratug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lykilatriði að örva fjárfestingu

Þetta viðtal á Moggavefnum er athyglisvert og hér kemur vitaskuld fram að gjaldeyrishöftin hamla fjárfestingu. Það er engin ástæða til að efast um það en þau eru engu að síður óhjákvæmileg eins og er. Það er engin hókus pókus lausn til svo við getum losnað við þau strax og allar tilraunir í þá átt geta orðið heimilunum og hagkerfinu í heild hættulegar.

En hitt er að líta að almennt eru fjárfestingar milli landa litlar og vandamálið er ekki bundið við litla Ísland. Miðað við íbúafjölda er hún meiri hér en í Danmörku og Frakklandi en nær vitaskuld ekki austurevrópuríkinu Ungverjalandi (sjá nánar hér hjá AGS en tölur miðast við árslok 2011). 

En við vitum að það er mikið af fjármagni í kerfinu hér heima sem vantar farveg enda ávöxtun í bönkum léleg. Skattaafslættir fyrir innlenda fjárfesta eru lykilatriði til að koma fjarfestingum af stað og svo þarf að standa við loforð sem gefin voru um tímabundnar skattahækkanir í byrjun kreppunnar. 


mbl.is Draumórar um ríku útlendingana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður Böðvar og skrýtnir dómar

Það er svoldið tvíbent af mér að tala illa um bókadóma. Fékk nefnilega mjög góða dóma fyrir þessi jól, 4-5 stjörnur fyrir Mensalder sem er ansi gott. 

Ein sú bóka sem ekki hlaut góða dóma var aftur á móti Töfrahöllin eftir Böðvar Guðmundsson. Samt er þetta með betri bókum þessara jóla. Vitaskuld mjög epísk og blátt áfram framsetning en um leið ágætis samtímalýsing. Þarna koma saman allir hinir venjulegu þátttakendur lífsins í kringum okkur, lúserinn, gæran, oflátungurinn, svarti sauðurinn, krakkaskíturinn, hóran, dílerinn og bara allir.

Þetta er hressileg bók eftir Böðvar og ég sé mest eftir að hafa ekki lesið hana fyrr. Ef ég hefði lesið hana strax í haust hefði ég getað selt slatta af henni fyrir jólin en svona er líf bóksalans... 


Gegn fátækt á Íslandi

Nú á lönguföstu hefur farið fram mjög virk og mikil umræða um stöðu heimilanna í landinu og er það vel. Sitjandi ríkisstjórn hefur þrátt fyrir mörg góð verk brugðist í því verki að endurreisa fjárhag og eignastöðu heimilanna. Endurreisnarverkefni næsta kjörtímabils eru fjölmörg.

Heil kynslóð íbúðarkaupenda var við hrunið skilin eftir með neikvæða eiginfjárstöðu eftir að hafa keypt á þenslutíma og lent síðan í stökkbreytingu lána. Lítill hópur þessara fékk leiðréttingu fyrir atbeina Hæstaréttar en stór hluti situr eftir með óbærilega skuldastöðu. Eðlilegast er að stjórnvöld bæti úr með því að gefa embætti umboðsmanns skuldara raunverulegar laga- og fjárheimildir til að létta af ákveðnum skuldum eða niðurgreiða þær með almannafé. Flöt afturvirk endurgreiðsla getur vitaskuld aldrei náð til allra óháð tekjum og íbúðastærð enda er slíkt ekki endilega réttlátt.

Í framhaldi af aðgerðum í þágu þessa hóps þarf að losa um bönd verðtryggingar, tryggja stöðugleika og létta á landlægu vaxtaokri. Það var miður að ekki var notað tækifærið við gjaldþrot banka og bankakerfið dregið saman í eðlilega stærð miðað við fólksfjölda en hátt verðlag á vöru og þjónustu liggur öðru fremur í offjárfestingu í þjónustu- og verslunargreinum.

Stétt fátækra

En íslenskt samfélag á sér annan misgengishóp hrunsins sem er algert forgangsverkefni að mæta með skilvirkum aðgerðum. Staðreyndin er að það kostar okkur miklu mun minna en að mæta misgengishóp verðtryggingar en samt er umræðan um þennan hóp sáralítil. Kannski af því að hann þykir ekki nógu töff.

Þetta eru hinir lægst launuðu í landinu. Fyrir hrun voru heimili láglaunafólks og bótaþega á mörkum þess að geta framfleytt sér. Við kaupmáttarhrunið 2008 lenti þessi sami hópur langt undir framfærslumörkum með tekjur sínar og hefur síðan átt um sárt að binda. Sitjandi ríkisstjórn hefur vissulega komið lítillega hér til móts en miklu betur má ef duga skal

Skilvirkasta leiðin er vitaskuld hækkun skattleysismarka og í framhaldinu þurfum við að lækka og helst afnema matarskatt.

Skömm Íslands

Þegar horft er til þess hverjir töpuðu mestu í hruninu verða ef til vill á vegi okkar gamlir og ærulausir útrásarvíkingar. En þeir hinir sömu áttu í leyni poka með skotsilfri. Sá hópur sem lifir við nauð eftir hrunið eru þeir sem lægstu tekjurnar hafa. Lægstu launin gátu dugað fyrir húsaleigu og mat á velmegunartímanum meðan krónan var sterk en eru langt frá því marki nú.

Skömm okkar er mikil að á sama tíma og við heyrum af stórfelldum kjarabótum hálaunaaðals og sérgæðinga sitja hinir lægstu enn eftir og við tökum því sem gefnu að hér sé stór hópur réttlítilla bónbjargarmanna.

(Birt í Morgunblaðinu 21. mars 2013)


Um Moggann og ósköp vondar vinstri stjórnir

Kjartan Kjartansson blaðamaður skrifar í Moggann í dag skemmtilegan pistil um sitjandi ríkisstjórn og hefur af því nokkra skemmtan hvað allar stjórnir sem kenna sig við vinstri eru að mati Morgunblaðsins vondar. Það eru einkum tvær fullyrðingar blaðamannsins sem þurfa nánari skoðun:

Þó að fólk kunni að greina á um ýmis verk, verkleysur og vitleysur núverandi ríkisstjórnar eru líklega flestir á einu máli um það - og ekki síst stjórnin sjálf - að hún er vinstristjórn.

Hér skriplar á skötu eins og jafnan þegar menn telja sig geta sagt fyrir um skoðanir „flestra." Greinarhöfundur fjallar í framhaldinu svolítið um vinstri og hægri hugtökin og bendir þá meðal annars á að vinstri menn séu flestir horfnir frá þjóðnýtingu og byltingu en fer svo ekki lengra út í þá sálma.

Staðreyndin er að hugtökin hægri og vinstri eru langt því frá merkingarlaus og það sem einkanlega skilur milli hægri og vinstri manna er trú hægri manna á ágæti markaðssamfélagsins og hinar réttlátu ósýnilegu hendur þess. Bankahrunið sem nú hefur staðið samfellt yfir í Vesturheimi frá 2008 hefur leitt alla sjáandi menn í sannleika um að frjálshyggjukenningar þessar eru bábylja, markaðurinn er tilviljanakenndur, hendurnar sem stjórna honum skítugar og hvergi meiri gripdeildir.

Það sem gleymist í greiningu á íslenskum ríkisstjórnum er að í enga flokka hafa safnast heitari markaðstrúarmenn en í gamla Alþýðuflokkinn og síðar arftaka hans, Samfylkinguna. Slíkt er ekki einsdæmi hér á landi því meðal granna okkar höfum við ESB trú, Blair-isma og sænskan kratisma sem byggja á sama missklingi um mannlegt eðli. Allir þessir hægri kratar eru í sínum kapítalisma kaþólskari en páfadómurinn Ameríski.

Ríkisstjórn sem leggur ofurkapp á að koma Íslandi undir stórkapítalisma ESB með öllu sínu markaðsregluverki er vitaskuld eins langt frá vinstri stefnu og frekast getur.

Seinni fullyrðing Kjartans sem hér verður að aðeins tekin til skoðunar er þessi:

Stjórnmálaskoðanir flestra vinstrimanna byggjast á ofur einfaldri samfélagssýn sem þess vegna er óraunsæ. Vinstrimenn hafa lengst af litið á samfélagið eins og Matador-spil: tiltölulega einfalt og lokað kerfi endanlegra verðmæta þar sem sú regla gildir alltaf að eins dauði sé annars brauð.

Þessa yrðingu er reyndar ekkert auðvelt að rökræða því hún skilur eftir fleiri spurningar en svör. Sjálfur er ég mikill aðdáandi matadors og heyrði ungur að hann væri kaupmannaleikur en heyri nú að með honum séu grundvallaðar ranghugmyndir vinstri manna. Mikil er þá speki þess teningaleiks.

En hafi einhverntíma ráðið hér fyrir landi menn með einfeldningslega samfélagssýn þá var það í hægri stjórninni sem hér réði um langt árabil fyrir og eftir síðustu aldamót. Þá réðu þeir menn sem trúðu því að það væri til hagsbóta fyrir almenning að gefa flokksgæðingum íslensku bankana. Þetta væru jú vinir ríkisstjórnar og þar með vinir þjóðarinnar og því gæti ekki verið annað en gott fyrir þjóðina að vinir hennar eignuðust fyrir ekki neitt verðmætustu fyrirtæki landsins.

Og svo var spilaður matador...


Sænskur talnaspekingur í Ríkisútvarpinu

Carl Bild utanríkisráðherra Svía er staddur hér á landi og Evrópusinnum líður eins og hingað sé komin poppstjarna. Aðspurður um andstöðu Íslendinga við ESB aðild telur hinn sænski talnaspekingur að svoleiðis sé ekkert til að hafa áhyggjur af enda skoðanakannanir bara ómark. Það hafi einhverjir Svíar líka verið á móti en nú séu allir með og aðildin tóm hamingja.

Sama dag birtir sænsku fréttavefurinn  europaportalen.se könnun sem sýnir að nú í byrjun mars vildi meirihluti Svía út úr Evrópusambandinu. En hin ríkisrekna áróðursmiðstöð í Efstaleitinu kann nú svar við því. Hún boðar bara fleiri viðtöl við Carl Bild þar sem hann segir sömu fallegu söguna sína aftur og aftur og aftur... 


Ljós í myrkri spillingar og óréttlætis

Ormaveitan sem opnaðist við hrun bankanna hefur eðlilega dregið úr tiltrú margra okkar á landinu og getu okkar sjálfra til að stjórna eigin málum. Seinagangur í kerfinu, vanhæf löggjöf til að mæta hvítflibbum og síðan óþolandi endurkoma sömu manna inn í atvinnulífið misbýður algerlega réttlætiskennd okkar. Hrossakaup stjórnmálaflokka til að komast undan uppgjöri hafa kórónað ósköpin.

Það er þessvegna ljós í myrkrinu að sjá að "sérstaki" kemst þó hægt fari.  


mbl.is Mikið mæðir á Kaupþingstoppum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvirðing við lýðræði og stjórnskipan

Öll framganga ríkisstjórnarinnar við Stjórnarskrármálið er óvirðing við lýðræðið, lýðveldið og stjórnskipan okkar. En afhverju? Jú, hér átti að hespa af einhverju ódýru ferli til þess að lauma inn ákvæðum sem tryggðu að selja mætti ESB fullveldi landsins á mettíma. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem haldin var um stjórnarskrárdrögin var skripaleikur þar sem spurt var leiðandi spurninga um aukaatriði málsins. Nú er þessi flausturslega tilraun Evrópukrata að renna út í sandinn og þá er leitað að sökudólgum. 
mbl.is Óvirðing við stjórnarskrá landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kýpur undir járnhæl

Innistæðueigendur á Kýpur mega nú þola gripdeildir ESB og AGS á bankainnistæðum. Og þó Rússar séu umdeildir í sínum verkum hafa þeir verið velgjörðarmenn Kýpverja.

Nú hefur ríkisstjórn Kýpur ekkert um það að segja að Rússum er haldið utan við allt og mega bara tapa því sem þeir hafa lagt í púkkið. Evrópusambandið er jafnvel ruddalegra í sínum utanríkissamskiptum en gamla Sovétið var gagnvart sínum leppríkjum.


mbl.is Bönkum lokað fram á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðfrelsisbaráttan er vinstri barátta

Drifkraftur gamla aðalsins í Evrópu og síðar nýlenduherranna var græðgi í það sem öðrum tilheyrir. Þessi þörf gömlu nýlenduveldanna er óröskuð og tekur sífellt á sig nýjar myndir.

Til þess að endurvekja hinn alþjóðlega yfirstéttaraðal hefur elíta Evrópu búið til sitt fríríki í Brussel þar sem menn sitja skattfrjálsir við þægilega innivinnu og gera sitt til að endurvekja það andrúm aðalsins að þjóðahugtakið sé misskilningur, lýðurinn sé framleiðsluvél og valdið sé fagleg vísindagrein embættismanna.

Sjá nánar í grein minni um hina vinstri sinnuðu þjóðfrelsisbaráttu, http://smugan.is/2013/03/thjodfrelsisbarattan-er-vinstri-baratta/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband