Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Þór Vigfússon 1936-2013

Þennan morgun er af með glennulæti sólarinnar. Þess í stað er nú suddalega þungbúið. Við Flóamenn sem alla jafna göngum álútir gerum það af enn meiri festu þennan dag en aðra, horfum ofan í moldina sem nú verður heimkynni okkar besta manns. Hér duga engin orð og einhvernveginn skuldum við meistara Þór að sjúga ekki upp í nefið. Hann var sá maður sem á það skilið að við höldum geði okkar og gleði.

IMG_8283 (2)

Fyrir liðlega mánuði síðan kom hann síðast í heimsókn til mín, aldrei þessu vant ekki í bókakaffið heldur hingað heim og þó var það ekki andskotalaus ferð. Hann hafði hringt og ég sagt honum að ég yrði úti í skúr hér bakvið að raga í bókum. Þór og unglingskonan Þórhildur Kristjánsdóttir fóru fyrst bakvið búð og leituðu að skúr þar en komust um síðir hingað heim á hlað á Sólbakka. Vitaskuld fyrirvarð ég mig svolítið fyrir að hafa vísað honum svo rangt til og sagnameistarinn var ekki laus við að vera móður þar sem hann heilsaði okkur Guðmundi Brynjólfssyni djákna.

Segir svo við guðsmanninn til afsökunar á þreytu sinni og kannski vegna orða sem féllu um hið óþarfa ferðalag í bakgarða við Austurveg:

-  Það er ekkert að mér, ég er bara að drepast!

Svo var ekki meira um það rætt og með sjálfum mér neitaði ég að trúa orðum meistarans. Kannski í eina skipti sem ég ákvað svo blákalt að Þór færi með staðleysur.

Nokkrum vikum seinna átti ég ánægjulega stund heima hjá þeim Hildi á Straumum og það var bjart yfir. Þá leyfðum við okkur að trúa því að Þór væri að hafa þetta, hann var málhress og sagði okkur sögur. Enginn okkar komst með tærnar þar sem Þór hafði hælana í sagnamennsku. Kom þar allt til, frábært næmi og minni, raddstyrkur sem lagði hvaða skvaldur sem var að velli, orðfæri og skopskyn sem öllu tók fram.

Röddin, sagnagáfan og þekkingarbrunnur Þórs var íslenskari en allt sem íslenskt er. En það kom til af því einu að meistarinn var alþjóðasinni í bestu merkingu þess orðs. Á kráarrölti um Brusselborg fyrir áratug fengum við ferðafélagar úr Drauga- og tröllaskoðunarfélagi Evrópu að kynnast sýn þess sem víða hafði farið og margt numið. Allt verður það okkur ógleymanlegt - já, allt það sem utan er endimarka þess óminnishegra sem býr í ölstofum Brusselskum.

--- 

Ofan á allt þetta var meistari Þór Vigfússon Tungnamaður, sonur þess Fúsa-Fells sem hét Hallæris-Fúsi eftir að hann kom í Flóann. Og það var við Tungnamanninn Þór sem ég átti erindi í janúar síðastliðnum í puði við að draga upp löngu týnda ættarsögu sem enginn þekkir lengur. Ekki fyrr en á Straumum var upp lokið fyrir mér dyrum þegar Þór tók glaðlega undir og sagðist hafa skrifað niður eftir föður sínum frásögn af Halldóri ríka á Vatnsleysu og Einari húsmanni sem voru forvitnilegar en gleymdar persónur í sögu okkar sveitar.

Fyrir það sem þá komst á þurrt er sá sem hér ritar þakklátur en ennnú meir fyrir þá kennslu sem Þór gaf okkur öllum í því að segja sögur og því að vera til. Þakklæti fylgir gleði og gleði er það sem minning um einstakan mann skilur eftir í hjörtum vorum. 

(Myndina hér að ofan tók Elín mín síðastliðinn öskudag í Bókakaffinu.)


Mæðradagsblogg 2013

hor_ur_og_ingibjorg.jpgMeð því að orð þetta er í fleirtölu verður hér að blogga um margar mæður en móðir mín sem fædd er á Drumboddsstöðum í Biskupstungum 1940 ól þar á bæ sinn aldur í fá misseri en síðan tvo áratugi í Hveragerði og eftir það næstum fjóra í Tungum þar sem við þrjú komumst á legg og áttum barnæskuleiki breksama en síðar okkar afspringir þrefalt fleiri og var þá oft kátt í höllinni en þegar nóg var um hoppulæti þau og ofvöxt jafnt fólks sem trjáa settust þau hin gömlu hjón í steinenda þar sem heitir Heiðarbrún í Hveragerði sem er hið sama landspláss og átti lengstum heimili móðir minnar móður sem Sigurrós hét og tók hérmegin við fjöllin sjö öllum fram í kleinubakstri og flatköku svo engar eru nú nema hálfsæt minning þeirra sem hún gerði og var af þeim bakstri góður rómur ger og rekið um hann kaupfélag í Hveragerði að allir mættu njóta en list sína hafði hún vísast numið í sínum hrakningssama uppeldi í Þykkvabæ þar hennar móðir var lengstum húskona og stutt bóndi í Gvendarkoti en sú hét Jórunn og almennilegast kölluð Stóra Jóka enda meira en hálf þriðja alin á hæð meðan bóndanefna hennar var varla nema tvær og eru af konu þeirri sögur um dugnað og sjálfræði en hennar móðir var Þorbjörg frá Háarima sem lengstum bjó í Gvendarkoti og átti föður göldróttan af ætt Ragnheiðar-Daða og var móðir þeirrar Þorbjargar hún Elín í Háarima sem var eins og flestar þessar kerlingar Jónsdóttir og móðir þeirrar konu var Sigríður í Norður Nýjabæ dóttir Ragnhildar í Búð sem átti Ólöfu þá sem bjó í Hábæ fyrir móður en sú hafði fyrir sinn karl þann sem Árni hét en hann strauk til Hollands og er þar vísast enn á röltinu, karlskömmin.


Krónustjórnin - en eru strákarnir ekki að villast...

Það er vonandi að ríkisstjórnin sem er að fæðast einhversstaðar uppi í Borgarfirði beri þetta nafn sitt með rentu. Það sem þessa þjóð vantar einmitt er ríkisstjórn sem byggir undir hagkerfi krónunnar og skapar þessum ágæta gjaldmiðli okkar tiltrú og traust. 

Alla þessa öld höfum við haft við völd ríkisstjórnir sem hafa sparkað í krónuna og talið henni allt til foráttu. Jafnt þó að nær öll afrek og allt erfiði ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms hafi verið unnið af sömu krónu. Þegar við tókum gjaldmiðil þennan í brúk vorum við fátækastir allra í Evrópu en höfum þrátt fyrir skrens og pus siglt framúr flestum á íslenskri krónu. 

En af þeim Bjarna og Sigmundi - auðvitað sárnar okkur austanfjallsmönnum dulítið að þessir kónar sem báðir rekja ættir sínar hingað í sveitir skuli ekki hafa farið austur yfir fjall til funda. Kannski eru þeir bara að villast, -átti þessi fundur ekki að vera á Móeiðarhvoli!


mbl.is Fóru saman í Krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband