Færsluflokkur: Bloggar

Loksins út í vorið...

Kosningabaráttan hefur tekið allan minn tíma og ekki laust við að mér finnist ég hafa misst af vorinu þangað til núna á sunnudaginn að mér tókst að komast frá í klukkustund með Elínu og Gunnlaugi til að borða ís úti í guðsgrænni náttúrunni, spottakorn utan við Þrastalund.

Toppurinn var svo á sunnudagskvöldinu að moka úr lífræna haugnum sem hefur núna beðið ósnertur í nokkur ár. Reyndar ekkert nýtt að hann fái að malla lengi hér á bæ en það er hreint með ólíkindum hvað verður úr öllu lífrænu sorpi heimilisins þegar hann fær að gerjast vel og lengi í safntunnu í garðhorninu. Þarna tók ég heilt ár neðst úr eldri tunnunni og brytjaði það niður með gafli og skóflu. Líklega 3 ára gamalt. Allt nema nokkrir sviðakjammar orðnir að úrvals áburðarmold sem var skipt bróðurlega milli fjögurra fermetra gulrótagarðs og nokkurra rabbabarahnausa. Samtals var þetta, sem samt er helmingur af öllu eldhússorpi 5 manna fjölskyldu í heilt ár, orðið að hálfum rúmmetra af svörtum skít. Yndislega vorlegum skít. Við setjum allt sem flokkast getur undir að vera lífrænt í þennan haug og slatta af dagblöðum með. Merkilegast hvað sviðakjammarnir eru lengi að brotna niður meðan stórgripabein úr vikulegu hrossaketsáti hverfa.

Sæt er lykt úr sjálfs rassi segir í gömlum íslenskum málshætti sem ég hef alltaf tekið fyrir sönnun þess að smávegis pervertismi hafi alltaf verið til með þjóðinni. En þetta vorkvöld öðlaðist þessi orðskviður nýja merkingu fyrir mér þegar mér var hugsað til þess að ef þetta hefði verið lífrænn eldhúshaugur frá einhverjum öðrum hefði ég jafnvel viljað hafa hanska en þar sem þetta voru okkar eigin matarafgangar gekk lyktin hreint ekkert fram af mér. Andaði að mér vorinu og fann að hvað sem allri þingmennsku líður er lífið samt við sig...


Hjólað í vatni

DCP_6791

Góður dagur og fyrsti almennilegi frídagurinn í langan tíma. Fór á ströndina - hljómar ótrúlega sólarlandalegt - en við Magnús sonur minn fórum semsagt í fjöruna á Eyrarbakka og lékum okkur á torfæruhjólinu. Ferðina endaði ég svo með því að strauja eftir Hraunsskeiði og Skötubót á 100 km hraða í geðveikri rigningu. Það er ótrúlega góð tilfinning að leika sér á mótorhjóli niðurrigndur og hamingjusamur.

Eitthvað var hamingjan samt að skríða frá mér þegar ég horfði á sjálfan mig í sjónvarpinu í kvöld því þó þátturinn hafi verið góður stakk það mig illa að Jón Ársæll skyldi taka upp það sem ég sagði um Kolbrúnu frænku mína. Það var samt allt satt og rétt en stundum má satt kjurt liggja og ég get engum nema sjálfum mér um kennt að hafa verið að blaðra þetta. Hitt sem sagt var um mína eigin brennivínsnáttúru mátti vel koma fyrir almenning. Ég vil ekki eiga nein leyndarmál þar. En í heildina var þátturinn góður og Jón er frábær í að byggja upp skemmtilega stemmningu á mörkum gamans og alvöru. Það er nefnilega engin alvara góð nema henni fylgi eitthvað gaman og gamanmál án alvöru ná ekki almennilega máli.

Dagarnir hafa verið viðburðaríkir í pólitík og ekkert leyndarmál að þriðja sætið tók á samstöðu okkar Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. Ég er eftirá stoltur af því að hafa þar staðið með eigin sannfæringu sem var að við hefðum ekki leyfi til að láta kné fylgja kviði í þeirri baráttu sem átti sér stað um sætin. Úthlutun á þessum lausa stól til þeirrar mætu Njarðvíkurkonu Helgu Sigrúnar Harðardóttur er farsæl lausn í anda þeirrar sáttahyggju sem einkenna á okkar góða flokk. Og viðbrögð Eyglóar að þeim leik loknum aðdáunarverð og drengileg.

Semsagt, eins og sá vísi Altúnga sagði jafna, það er rangt að segja að allt sé í lagi, það rétta er að allt er í allrabesta lagi.

 Ps. Myndin hér að ofan er ekki úr ferðinni í dag heldur af hjólavinum mínum við Laka í sumar í ótrúlega skemmtilegri rigningu, f.v. Loftur, Hrafnkell, Guðmundur, Loftur yngri og Baldur en þeir voru allir fjarri góðu gamni í dag en eru yfirleitt miklu duglegri en ég á hjólunum...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband