Stöðugleika í stjórn Árborgar

Sveitarfélagið Árborg stendur frammi fyrir vandasömu verkefni næstu árin líkt og landið allt og allir þeir sem þurfa að láta enda ná saman. Í landinu fer nú fram rústabjörgun eftir þann eyðingarmátt sem oflátungsháttur markaðshyggju og klíkustjórnmála hafa leitt yfir okkur.

Sveitarfélög eru vitaskuld afar misvel á vegi stödd og eðlilega er staðan hvað erfiðust þar sem fjölgun á bólutímanum var hvað mest. Það er þessvegna lofsvert að hér í Árborg er staðan þrátt fyrir allt viðundandi og því mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri braut varkárni og festu sem hefur ríkt. Sveitarfélagið er vitaskuld skuldsett en hefur á móti enn í sinni hendi veitufyrirtæki og fasteignir sem samsvara þeim skuldum og gott betur.

Því fer samt vitaskuld fjarri að allt sé samt í besta lagi í okkar sveitarfélagi. Atvinnuleysi er hér umtalsvert, fjölmörg fyrirtæki glíma við mikinn skuldavanda og sama gera fjölmörg heimili og einstaklingar. Þessar aðstæður verða ekki leystar með neinum töfrabrögðum en glíman við þau byggir á því að sveitarfélagið búi vel að fólki og fyrirtækjum. Sóknarfæri alls Árborgarsvæðisins eru gríðarleg á sviði ferðaþjónustu, iðnaðar og framleiðslu. Þar er sveitarfélagið ekki gerandi nema að litlu leyti en öllu varðar að sú umgjörð sem það skapar sé traust og áreiðanleg. Þar reynir mjög á alla þætti stjórnsýslunnar.

Sveitarfélagið er aftur á móti gerandi í því að mæta þörfum þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem þurfa aðstoð og leiðréttingu sinna mála á næstu misserum og árum. Slíkt tryggingarhlutverk er í reynd elsta og æðsta verkefni sveitarstjórna í landinu og það þarf að rækja af kostgæfni og sanngirni.

Með þetta að veganesti hefi ég ákveðið að bjóða fram krafta mína fyrir sveitarfélagið og geri það undir merkjum þeirrar þjóðlegu vinstristefnu sem er líklegust til að leiða þjóðina út úr ógöngum liðinna missera.

Höfundur er atvinnurekandi á Selfossi og skipar 2. sætið á lista VG í Árborg

(Áður birt í Dagskránni á Selfossi 25. mars 2010)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Bjarni, heldur þú virkilega að VG gangi eitthvað betur í sveitarstjórnarmálunum heldur en í landsmálunum eða að nærvera þín breyti nokkru þar um?????

Jóhann Elíasson, 25.3.2010 kl. 22:39

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þarna talar sannur frambjóðandi, sveitarfélagið okkar er í vondum málum.

Ásdís Sigurðardóttir, 26.3.2010 kl. 11:03

3 identicon

VG hefur ekki gengið vel í bæjarmálunum og ekki ástæða til að halda að það verði betra en í landsmálunum.Ætla bara að koma með einn smá minnis punkt að mörgum til að minna á atburði síðasta kjörtímabils varðandi fjármálastjórnun sveitarfélagsins

Eins og þú væntanlega veist voru veiturnar seldar fyrir 730 miljónir og ákveðið á bæjarstjórnarfundi að nota féð til lámörkunar á skuldum og til hagsbóta fyrir íbúana  sem var samþykkt af öllum bæjarfulltrúum bæði minni og meirihluta  Síðan eru 320 miljónir settar í peningamarkaðsbréf hjá landsbankanum þrátt fyrir samþykkt bæjarstjórnar og trúlega tapast 120 miljónir þetta skeður á vakt vg framsóknar og samfylkingar.Getur þetta talist góð og ábyrg fjármálastjórn.Ef betur hefði verið haldið á málefnum okkar væri ástandið væntanlega betra

Guðmundur Baldursson (IP-tala skráð) 26.3.2010 kl. 11:50

4 identicon

Félagi Bjarni !

 "Ólíkt hafast bændur að".

 Árborg undir stjórn vinstri-RAUÐRA, Framsóknar & Samfylkingar. Setja 320 milljónir á PM.,reikning. Tapa 120 milljónum !

 Seltjarnarnesbær fékk einn MILLJARÐ og tvö hundruð milljónir fyrir lóðir á Hrólfskálameli.

 Kaupandi voru Íslenskir aðalverktakar . Staðgreiddu !

 Allt sett á sparisjóðsvexti.

 Ekki ein króna tapaðist !

 Sjálfstæðisflokkurinn stjórnað bænum samfleitt í meira en hálfa öld !

 Já, "bændur" hafast ólíkt að !!

 Varfærni í fjármálum er dyggð og motto Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, enda sögðu Rómverjar.: " quidquid agas prudenter agas" , þ.e. " Gerðu alla hluti af varfærni" !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 26.3.2010 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband