Beðið eftir skýrslu

Beðið eftir skýrslu

Íslenska þjóðin bíður nú eftir skýrslu í svipuðum fáránleika og þeir Vladimir og Estragon biðu á sínum tíma eftir Godot. Hvert mannsbarn veit að eftir engu er beðið. Staðreyndin er að við höfum fyrir löngu fengið að vita allt sem máli skiptir varðandi hrun bankanna á Íslandi og hinir refsiglöðu munu seint fullnægju fá. Þeir sem hér með sparifé landsmanna léku höfðu um sig þá hjörð lögfræðinga að ekkert hald verður á. Allt refsivaldið í þessum efnum í höndum kjósenda.

Við sem studdum á sínum tíma ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerðum það í þeirri trú að heiðarleiki hefði verið hafður að leiðarljósi við einkavæðingu banka og annarra fyrirtækja. Nú er öllum sem sjá vilja augljóst að það var ekki svo. Það er auðvitað mannlegt að berja hér hausnum við stein og segja víst, víst, víst - en það má deila um hvort það er stórmannlegt.

Staðreyndin er að við sem studdum þessa stjórn, einkavæðinguna og flokkana sem að þessu stóðu vorum öll höfð að fíflum. Rót þess gríðarlega vanda sem íslenskt hagkerfi lenti í haustið 2008 liggur ekki bara í göllu regluverki og EES-samningi. Sá samningur var líka í gildi í Noregi. Rótin liggur heldur ekki í falli einhverra Lehmansbræðra sem bjuggu hér frekar en í Guðbrandsdal.

Meginástæða þess hve fall íslenska hagkerfisins var mikið, óviðráðanlegt og óskiljanlegt var sú spilaborg sem hér varð til í kringum íslensku bankana. Það var ekki fyrr en eftir hrun sem almenningi varð ljóst að til þess að kaupa Búnaðarbankann var tekið lán í Landsbankanum og öfugt þegar Landsbankinn var keyptur. Þetta var mun glæpsamlegri mynd en stjórnarandstöðunni hafði nokkru sinni dottið í húg. Og þessi gerningur skýrir mjög margt í því sem á eftir kom.

Hefðu bankarnir verið seldir raunverulegum kapítalistum sem lagt hefðu sitt eigið fé í kaupin þá hefðu sömu eigendur gætt eðlilegrar varúðar. Í staðin voru þessar verðmætu peningastofnanir íslensku þjóðarinnar látnar af hendi í einkavinavæðingu til fjárhættuspilara sem komu að rekstrinum með skuldsettri yfirtöku. Það hefði um margt verið betra að gefa bankana algerlega því þannig hefði þá óhjákvæmilega skapast eign og þar með ögn af ábyrgð hjá hinum íslensku oflátungum.

En með hinum ofurskuldsettu og reynslulausu bankaeigendum skapaði íslenska ríkið viðskiptaleg villidýr sem gátu aðeins haldið lífi með vaxandi glannaskap og áhættusækni af því tagi sem við lesum nú daglega um í uppgjöri kreppunnar. Hér gildir að sá sem ekkert á, nema ókleyfar skuldir, getur tekið hvaða áhættu sem er og er engri skynsemi háður. Frjálshyggjumönnum er títt að tala um fé án hirðis en hér var bæði íslenskt og erlent sparifé fremur falið ræningjum en fjárhirðum.

Það er haldlaus vörn að tala um að hinir íslensku kapítalistar hafi misnotað það frelsi sem vel gerðir stjórnmálamenn gáfu þeim. Staðreyndin er að það voru íslenskir stjórnmálamenn sem misnotuðu það traust sem kjósendur þeirra gáfu þeim.

(Birt í Mbl. 29. mars 2010)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það má heldur ekki gleyma því að bankarnir voru ekki bara að lána sparifé manna, heldur voru þeir að lána peninga  sem ekki voru til í bönkunum.  Þetta voru bara millifærslur í tölvum sem endasentust banka á milli en engin verðmæti stóðu á bak við.  Og það gildir ekki bara um lánið til kaupa á bönkunum.

  Umræddir stjórnmálamenn voru klárlega arfavitlausir hvort sem það var með vilja eður ei, en það fyrrar ekki þá sem á eftir komu neinni ábyrgð að einhver á undan hafi verið verri en þeir og þar með sé þetta bara allt í lagi sem þeir gerðu. Hver og einn þessara manna/kvenna hefur heila til að hugsa með og þeim var því í sjálfsvald sett að vinna heiðarlega eður ei. Höfundur glæpsins er ekki endilega stóri glæpur allra glæpa, en á auðvitað að bera sína ábygrð og svo þarf að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Áhyggjuefnið er hvað margir voru tilbúnir að feta í fótspor höfundar og verða meðreiðarsveinar sem og hinir sem ekki tóku þátt en vissu samt af glæpnum og gátu  komið í veg fyrir það, það eru þeir aðilar sem ég hef miklar áhyggjur af því þeir/þær koma til með að leynast áfram í kerfinu voða saklaus og komast upp með það.

(IP-tala skráð) 29.3.2010 kl. 10:13

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Það má heldur ekki gleyma því að bankarnir voru ekki bara að lána sparifé manna, heldur voru þeir að lána peninga  sem ekki voru til í bönkunum.  Þetta voru bara millifærslur í tölvum sem endasentust banka á milli en engin verðmæti stóðu á bak við.  Og það gildir ekki bara um lánið til kaupa á bönkunum."

Tvennt óskylt og dæmigert fyrir ykkur sjalla í afneitun.

Útlánageta banka fer eftir ákv. kerfi sem búið er að vera við lýði lengi lengi - og er í raun dáldið furðulegt ef maður fer að hugsa útí það.  Peningamagn í umferð og hringrás þess.  Margfaldast allt þegar fer í gegnum bankana o.s.frv.  Það er ekkert þannig að þú leggir pening inní bankann - og þá setji bankinn hann ofaní skúffu og geymi þar.  Lánar,  að öllu jöfnu,  mest allt beint út aftur.

Atriðið sem Bjarni bendir á er, að þegar bankarnir voru einkavæddir sem kallað er - þá var það í raun eins og skuldsett yfirtaka og sló auðvitað tóninn fyrir framtíðina. 

Þessi kaup voru ekkrt eins pg flestir gerðu ráð fyrir að kaupendur legðu kapítal inní væntanlega eign sína - nema þá að litlu leiti.

Útfrá þessu var svo byggð spilaborg og öllu komið á hvínani hausinn á þvílíkum mettíma að fáheyrt ef ekki einsdæmi er.

Það var þá ekkert svo slæmt eftir allt saman að hafa bankana bara í ríkiseigu - allavega ekki ef borið er saman við reynsluna af einkaeign sjalla.  Ladið í rúst !

Enda ætlar Jóhanna að fara að rannsaka aðkomu sjalla að einkavæðingunni - þó fyrr hefði verið.

Og nei - ekkert í ESB/EES regluverki segir að einkavæða skuli banka eða aðrar ríkisstofnanir.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 29.3.2010 kl. 10:47

3 identicon

OMG!!! Bjarki minn ertu að kalla mig sjalla eða Bjarna?

Svona bara til gamans því mér þykir alltaf svo skemmtilegt að geta sett ofaní við svona upphrópunnar kalla eins og þig, sem býr til skoðanir fyrir fólk eins og ekkert sé,  að þá hef ég aldrei á ævi minni stutt sjalla og kem örugglega aldrei til með að gera. Ef þessu var beint til mín viltu þá vinsamlegast ekki vera ljúga blákalt upp á mig skoðanir sem ég hef ekki.

(IP-tala skráð) 29.3.2010 kl. 10:53

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Helsta ástæðan fyrir hruninu og hversu djúpt það varð er að 5. valdið  (auðvaldið) keypti upp öll hin völdin.

Sigurður Þórðarson, 29.3.2010 kl. 11:27

5 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Góð samantekt hjá þér Bjarni.

Ævar Rafn Kjartansson, 29.3.2010 kl. 13:49

6 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Það má heldur ekki gleyma eða sleppa brellu og blekkingaleiknum sem okkar Háskólamenntuðu hagfræðingar, lögfræðingar, viðskiptafræðingar og endurskoðendur léku.

Þetta eru starfsstéttir sem miklar faglegar kröfur eru gerðar til en litlar siðferðislegar kröfur virðast standast.

Það voru ráðgjafar sem vörðuðu veginn með ábendingum um laga glufur og bókhalds smugur, hverjum er refsað fyrir slíka sök eða telst sú ráðstöfun að setja þessa aðila svo í störf með skilanefndum á svimandi tímagjaldi refsing fyrir siðleysið.

Er ekki rétt að við lítum okkur nær til að finna rót vandans, er það ekki nánast þjóðaríþrótt að komast undan sköttum eftir besta mætti.

Er það ekki okkar eigið siðferði sem þarf að byrja á að lagfæra svo grunnur fyrir endurreisn siðferðis verði til.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 29.3.2010 kl. 18:57

7 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Bjarni, þetta er frábær grein hjá þér og góð samantekt á þessu rugli.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 30.3.2010 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband