Af köttum, krötum og drykkjumönnum

Kötturinn minn Elvis er með böggum hildar. Vitaskuld útaf pólitík en þessi angurværi og sjálfselski einstaklingur er hægri krati og kysi Alþýðuflokkinn ef það væri ennþá hægt.

Nú alveg nýverið rakst hann á það að reglur um kattahald hafa verið hertar í Árborg þannig að kettir mega helst ekki vera á almannafæri nema í bandi og vitaskuld hefur kattarafmánin áhyggjur af þessu. Veit sem er kettir hljóta að hengjast af sjálfræðisfrekju sinni sé sett á þá tjóðurband.

Það kemur reyndar fram í blaðaviðtölum við kattafangara bæjarins að skepnur þessar séu látnar eiga sig meðan ekki er kvartað. Ég hef verið útskýra þetta fyrir Elvis að eðlilega gildi sömu reglur um ketti og drykkjumenn enda skyldleikinn augljós. Það er semsagt bannað vera drukkinn á almannafæri á Íslandi og hér á Selfossi er líka bannað vera köttur á götunni. En allir vita þó að kettir eiga til að skjótast milli húsa og ráða því nú tæpast sjálfur þó að það fljúgi páfagaukur eða annað fiðurfé upp í skoltinn á þeim.

Sama á við um drykkjumenn sem þurfa oft og einatt að færa sig frá heimili að knæpu í misjöfnu ástandi. Það er látið óátalið svo lengi sem þeir fara ekki akandi. Þetta síðastnefnda finnst Elvis reyndar algerlega óskiljanlegt því að úr því að vitaskuld er drykkjumaðurinn meira og lengur á almannafæri gangandi en keyrandi. Ég varð að syngja fyrir hann lagið góða, ég held ég gangi heim, ég held ég gangi heim.

Mjá, sagði kötturinn og ákvað að hætta sér út fremur en að leggja viðkvæm tóneyru sín undir þá pínsl að heyra mig syngja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

þetta var reynt her i henni Rvík og tókst ekki,vonandi að það gerist ekki aftur/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 23.4.2010 kl. 10:58

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það voru engar reglur á Íslandi þar sem áttu að vera reglur en svo eru of miklar reglur þar sem engar eiga að vera. 

Takk fyrir skemmtilegan pistil.

Anna Einarsdóttir, 23.4.2010 kl. 11:16

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ekki er nú framfylgt þeirri reglu hér í bæ að taka drukkna menn úr umferð svo ég held að þeir geti bara látið kettina í friði.

Ásdís Sigurðardóttir, 23.4.2010 kl. 12:13

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mali er öskureiður yfir öllum reglum sem banna lausagöngu katta.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.4.2010 kl. 18:50

5 identicon

Lýsi mig alfarið á móti lausagöngu þrasta og páfagauka í þéttbýli. á ekkert að gera í því? - eins og breski blaðamaðurinn spyurði varðandi eldgosið :-)

Helga Ág.

P.S. Kattaróbermið á allan minn stuðning.

Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 23.4.2010 kl. 22:42

6 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það skemmtilegasta við ketti er sjálfstæðið, sjálfsöryggið  og náttúruhyggjan , sem leiðir til þess að þeir nenna ekkert að vera að læra einhverja kjánalega mannasiði, nema svona rétt til að fá almennilega þjónustu.   

Ég er alveg viss um það Bjarni að hann Elvis þinn er hreinræktaður kapptallisti, og hafi hann sagt þér annað þá er hann bara að kaupa sér frið í þægindunum hjá þér.  

Tek undir öll orð Önnu.

Hrólfur Þ Hraundal, 23.4.2010 kl. 23:16

7 Smámynd: HP Foss

Ha,ha,ha..skemmtilegur pistill Bjarni..skrítið samt að sjá þig þarna með kommunum....en það er hvort eð er enginn Framsóknarmaður í Framsóknarflokknum lengur....bið að heilsa Jóni skólastjóra. Hann  var sá besti stærðfræðikennari sem ég hafði :)

kv-Helgi

HP Foss, 23.4.2010 kl. 23:17

8 identicon

Fráleitt kann " Kalli" kött að sjá, ef Elvís ekki harður, " hægri" högni !!

 Ekki krata-blóð í ketti !

 "Angurvær" bindindis-skepna. Passar alveg - hægri köttur !

 Hefði sómað sér vel með festu og ákveðni  í 2. sæti bæjarstjórnarlista íhaldsins , á eftir E. Arnalds !

 Eða sem Rómverjar sögðu.: " Audacter et sincere" - þ.e. " Með festu & ákveðni" !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 24.4.2010 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband