Hélt ég væri framsókn...

... en fékk svo strax í gærmorgun símtal úr Reykjavíkinni þar sem vinur minn Jón
Ársæll Þórðarson bað mig að vera sjálfstæðan Íslending. Og auðvitað gat ég
ekkert sagt nema já og er síðan búinn að vera eins og ofurmódel í tvo daga.
Vantaði bara að tökumaðurinn Steini væri með okkur Elínu í rúminu í gærkvöldi.
Eða vantaði eiginlega ekkert upp á það því þeir félagar náðu mér á brókinni í
morgun. Munaði engu að allt kæmi í mynd - þá værum við að tala um áhorf sagði
Jón Ársæll í grallaraskap. En ég átti hreinlega bágt með svefn í gærkvöldi fyrir
hausverk sem ég veit svosem ekki alveg hvaðan kom en hann er farinn núna.
Líklega ofhitnun því ég hugsaði í kaffitímanum þennan dag. Allavega þar sem ég
barðist við að sofna og gætti þess að hugsa alls ekki um pólitík gerðist það sem
einstöku sinnum gerist og er mér alltaf frekar hvumleitt. Elín tók að hrjóta.
Eftir að hafa snúið þessari yndislegu konu minni tvisvar ákvað ég að ekki væri
annað að gera en fara í stofuna og svaf þar draumlausum svefni frá 3 til 10. Þá
var barið dyra og sjónvarpsmenn komnir. Elín fór til dyra en ég varð að
skáskjóta mér framhjá drengjunum upp á loft því úr stofunni var engin önnur leið
að lörfunum mínum. Hjálpar að ég er ekki spéhræddur. Dagurinn fór svo í að
heimsækja æskuslóðir, þvælast með Þjórsá og endaði í kaffi í Heiðarbrúninni hjá
foreldrum mínum þar sem móðir mín kvað upp úr með að Rósa amma hefði spáð mér
því ófæddum að ég yrði ekki mjög rólegur. Man ekki að hafa heyrt það áður en
amma mín hefur auðvitað vitað lengra nefi sínu...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Gastu ekki beðið Jón um að breyta titlinum í "Framsæknir íslendingar"  ??

Eiður Ragnarsson, 23.1.2007 kl. 23:03

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Bjarni

Til hamingju með glæsilegan árangur í prófkjörinu um liðna helgi. Gangi þér vel á þingi.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2007 kl. 00:41

3 identicon

Þetta erfrábær árangur hjá þér félagi. Óska þér innilega til hamingju. Svo á bara eftir að taka kosningabaráttuna - ef þú ætlar eitthvað að svína á sveitunga mína í Fljótshlíðinni, eins og Gunnar á Hlíðarenda og þá kumpána, þá er mér að mæta. Til hamingju Bjarni!

Benóný Jónsson (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 00:54

4 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ég vona bara að J.Á. hafi ekki fattað að þið hjónin höfðuð sofið sitt í hvoru lagi.  Sögur eru svo fljótar að verða til. "Af hverju henti Elín honum úr rúminu"? "Þorðann ekki í rúmið sitt þegar hann laumaðist heim kl.3."? o.f.l.    Við skulum vona það besta.

Helga R. Einarsdóttir, 24.1.2007 kl. 09:25

5 Smámynd: Hrafn Jökulsson

Minn gamli vin! Þú algjörlega tannburstaðir þetta -- nú verður ekki þaggað niður í stödd skynseminnar á Alþingi!

Hrafn Jökulsson, 24.1.2007 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband