Veiðileyfi á mig, enda af nógu að taka!

 

 

Hluti af því að gefa sig í stjórnmál er að verða allra skotspónn. Komast í almannaeigu.

 

Þó svo að það þurfi veiðikort til að skjóta svartfugl og máv og enginn megi lengur drepa sér álft til matar skulu stjórnmálamenn án kvóta. Þingmenn og ráðherrar hafa látið þetta yfir sig ganga og lúbast undan eins og barðir hundar. Eins og það sé þeirra aðal að hneigja sig fyrir vitleysum. Skýrustu dæmin um þetta í seinni tíð eru Einar Guðfinnsson lundabani annarsvegar og kvennaljóminn Clinton hinsvegar. Hvorugur gerði nokkuð það af sér sem orð var á gerandi en voru samt báðir svo aumir að hengja haus. Það var ljótt. Það er alltaf ljótt að beygja sig fyrir heimsku.

 

Sjálfur get ég nú varla talist stjórnmálamaður en samt finnast þeir margir sem hafa á mig sjálfskipað veiðileyfi. Þannig sagði ég í gær í sakleysi af því að ég hefði farið, eins og barn, út að leika mér. Tryllt og tætt á 600 kúbika mótorhjóli og reyndar í ofanálag leyft fötluðum syni mínum próflausum að gera það sama.

 

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og mér bárust hér á bloggsíðunni allrahanda skammir. Aðallega á þeim nótum að svona menn gætu nú ekki farið á Alþingi, svona lögbrjótur.

 

Ég vil nú fyrst til að fyrirbyggja allan misskilning koma því skýrt að, að það er auðvitað lygi að allir torfæru mótorhjólamenn séu landníðingar eins og margir bloggarar halda og það er líka lygi að ég hafi í þessari ferð gerst stórkostlegur lögbrjótur. Ég ek ekki utan vega á þessu hjóli nema hvað ég fer þar sem ég kem því við eftir sjávarsöndum, t.d. á Eyrarbakka, Þykkvabæ og Hraunsskeiði. Ég ek ekki utan vega innan sandgræðslu á þessum stöðum en það eru vegir um þessar sandgræðslur. Og ég ek ekki um viðkvæm fuglafriðlönd á varptíma en ég ók eftir vegum í kríuvarpinu á Eyrarbakka í gær. Krían er farfugl og ég taldi litlar líkur á að hitta hana fyrir í janúarmánuði.

 

Eitt enn: Ég ek á torfæruhjóli og hef gert lengi. Þetta er ekki krossari og þessvegna ekki ekið innan afmarkaðra keppnissvæða. Hjól sem þetta er ferðatæki líkt og fjallajeppar og á því fer ég þvers og kruss um landið. Ég hef lengi talað fyrir bættri umferðarmenningu hjólamanna og mun gera áfram. Ég hef líka lengi talað fyrir auknu umburðarlyndi í samfélaginu sem er á hröðu undanhaldi eins og athugasemdirnar sem ég fékk í gær eru gott dæmi um.

 

En ég er oft lögbrjótur og ég ætla samt á Alþingi. Til dæmis leyfði ég syni mínum að aka hjólinu í fyrsta gír undir minni tilsjón eftir öruggum vegi á mjúkum sandi. En ég veit að það er lögbrot. Svona svipað eins og það að drepa lunda án þess að hafa veiðileyfi,- sem ég myndi gera ef svo stæði á. Hef reyndar haft mjög gaman af lundadrápi þó ég hafi ekki komist í það lengi.

 

Ég er einfaldlega ekki trúaður á öfga þegar kemur að því hvað sé löglegt og hvað sé ólöglegt. Í torfæruakstrinum á ég til dæmis til að aka á meira en 90 á sléttum sandvegum. Það kemur líka fyrir að ég snúi við bíl án þess að setja á mig belti. Og svo á ég til að ganga yfir götu án þess að það sé þar gangbraut. Er líka latur að taka til og skipti sjaldan um sokka. O.s.frv. O.s.frv.

 

Bara eins og venjulegur maður. Ég er venjulegur breiskur maður. Kannski óvenjulega breiskur meira að segja því að ég reyki, ég safna spiki, ég skila skattframtalinu alltaf of seint og það kemur fyrir að ég hugsi girndarlega um alls óviðkomandi og þroskaðar konur. Svo er ég í tilbót trúlaus og fer aldrei svo mikið sem í anddyri á leikfimihúsum.

 

Ég man ekki hvað ég get talið fleira en ef það er ætlun hæstvirtra kjósenda að ekki skuli aðrir en vammlausir menn fara á Alþingi þá er ég ekki rétti maðurinn. Það getur vel verið að þessir vammlausu menn séu til einhversstaðar en það hefur ekki verið sannað. Flestir þeirra sem taldir eru vammlausir reynast undir smásjá lygarar og sumir segja að summa lastanna hjá okkur sé jöfn!

 

En jafnvel þó til væru 63 vammlausir menn í landinu, 100% löghlýðnir og sléttgreiddir þá efast ég um að það séu alveg réttu mennirnir á Alþingi Íslendinga. Aðallega vegna þess að þá verður nú ósköp leiðinlegt þar.

 

Og guð forði okkur frá því að þeir snillingar sem höfuðsátu mig fyrir mótorhjólaferðina komist svo mikið sem niður á Austurvöll því engir eru leiðinlegri en það lið sem skortir umburðarlyndi. Það er einmitt þessi skortur á umburðarlyndi sem notast þegar við reykingamenn, hjólamenn og aðrir tilfallandi eineltishópar erum reknir út og suður. Svo er það þessi sami skortur á umburðarlyndi og jákvæðni sem mestu veldur um vandræði og óhöpp í umferðinni, kröfugerðar og hlutafrekju í samfélaginu og yfirleitt fjölmörgum öðrum leiðindum í lífi okkar allra.

 

Og ég veit að þetta lið - ef það er enn að lesa - gnístir nú tönnum og hugsar,- dettur honum í hug að lögbrjótur geti setið á löggjafarsamkomu. Það eru jú alþingismenn sem samþykkja lögin. Þeir hinir sömu geta þá ekki leyft sér að brjóta þau. En þetta er nú álíka vitlaust og að tannlæknar megi ekki borða nammi, eða leirkerasmiðir brjóta disk.

 

Og reyndar vitlausara því það er einfaldlega pólitísk afstaða sem ræður því hversu miklir laga- og reglugerðarþrælar við viljum vera. Ég er sjálfur afskaplega svag fyrir einhverskonar viturlegu framsóknarlegu blandi af skynsemi og anarkisma. Og ég ætla að verða stjórnmálamaður sem alltaf tekur sér sjálfskipað skotleyfi á alla þá sem fara að mér með leiðindum og nöldri. Og hana nú!

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svona rökfastann mann vil ég sjá á þingi!

Skemmtilegur þátturinn með þér í sjónvarpinu.  Ég sá þessa ísklumpa þarna á safninu og vil benda á að þeir rýrna, þrátt fyrir frost.  Ég myndi treysta mér í að skapa svona ísheim úr gerfiefnum án þess að það líti neitt feik út. Þannig er líka betra að kontrólera og móta unhverfið lýsingu og andrúm.

Máske yrði það svolítið dýrt en varla jafn dýrt og hin hugmyndin til langs tíma litið. 

Jón Steinar Ragnarsson, 30.1.2007 kl. 04:01

2 identicon

Góður pstill Bjarni og þátturinn var einnig fínn.

Mbk

 Gunnlaugur

Gunnlaugur Júlíusson (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 08:37

3 identicon

Ég er fuglaáhugamaður og hef fylgst með fuglalífinu í fjörunni við Stokkseyri og Eyrarbakka síðustu 3 ár. Umferð mótorhjóla í fjörunni á þeim tíma hefur stóraukist.  Það er mikið fuglalif þarna á hvaða árstíma sem er.http://www.fuglatalningar.sudurkot.com/

kv. Vigfús Eyjólfsson

Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 09:07

4 identicon

Bjarni ég held að ráðamenn í okkar ágæta sveitafélagi ættu að þarfari umhverfismálum t.d landbroti við Ölfusárósa og eins að skoða vel hvernig grefur undan sjóvarnargarðinum. Það ætti að koma málum svo fyrir að sandur komist aftur austur fjöruna. Fuglalíf er ekki í hættu þó einn pólutíkus skemmti sér og sínum stutta stund í fjöru. Kveðja Eyrbekkingur

Eyrbekk (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 10:09

5 identicon

klapp, klapp, klapp, klapp. klapp.....

ká (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 11:54

6 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Hvar viltu setja mörkin Bjarni?

Mátt bara þú brjóta lögin eða mega það aðrir?

Treystir þú þér til að segja hvaða lög má brjóta og hvaða ekki?

Þetta snýst ekki um þennan eina verknað, þ.e.a.s að hjóla í fjörunni, heldur snýst þetta um að fylgja lögum og bera virðingu fyrir þeim.

Ef þú Bjarni er ósáttur við lögin væri rétta leiðin að reyna að breyta þeim ef þú kemst á þing. Meira að segja gætir þú reynt að breyta þeim þó þú sért ekki á þingi.

Segi bara eins og þeir sem voru að nýta sér veiðileyfi sitt á þig. Ég kýs ekki fólk inn á þing sem ber ekki virðingu fyrir lögum en þú hefur gert öllum ljóst með þessu bloggi að þú berð enga virðingu fyrir þeim.

Skora á þig í vinsemd að sjá að þér í þessum efnum.

Ágúst Dalkvist, 30.1.2007 kl. 13:21

7 identicon

Ótrúlega fyndin umræða - Áfram Bjarni !!!

Eym (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 13:46

8 identicon

Góður !

Ásgeir (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 21:19

9 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Og meira góður

Helga R. Einarsdóttir, 30.1.2007 kl. 21:44

10 Smámynd: Sveinn Arnarsson

"Skýrustu dæmin um þetta í seinni tíð eru Einar Guðfinnsson lundabani annarsvegar og kvennaljóminn Clinton hinsvegar. Hvorugur gerði nokkuð það af sér sem orð var á gerandi en voru samt báðir svo aumir að hengja haus. Það var ljótt."

Ertu virkilega að segja mér það Bjarni, að þér finnist allt í lagi að brjóta lög?? Þá er ég auðvitað að vitna í ólöglegar veiðar Einars K. Guðfinnssonar. 

"Það er alltaf ljótt að beygja sig fyrir heimsku."

Ertu hér með að segja að það hafi verið bæði lélegt af honum að viðurkenna lögbrot og ertu einnig að segja að ég og margir séum "heimskir" fyrir að hafa staðið upp á afturlappirnar og andmælt þessum veiðum?

Með kveðju.

Sveinn Arnarsson, 30.1.2007 kl. 22:36

11 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll Bjarni.

Heyrðu, ég var að sjá það að ég byrjaði á einfaldri spurningu, sem var meira grín! Hvort þú varst að spæna upp landið! Svo er karlinn bara komin með veiðileyfi á sig. Suss og svei.... Best að hefja umræðu á annan hátt næst! Farðu varlega á hjólinu. Mæli með því, ÞEGAR þú ferð á þing, að mæta á hjólinu. Það væri frábært....

Sveinn Hjörtur , 30.1.2007 kl. 23:37

12 identicon

Skrambinn Bjarni!  Þú ert skynsamari en þetta.

Sigurjón (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 23:42

13 Smámynd: Ellert V. Harðarson

Nei er það semsagt þín skoðun að það sé í lagi að brjóta þau lög sem þér finnast t.d. of ströng, asnaleg eða óþörf.
Eins og lög um ökuréttindi, hámarkshraða, veiðikort og eða útanvegaakstur o.fl.

Ég held að það sé eðlileg krafa til þeirra sem sitja á, eða ætla sér að reyna að komast á, háa alþingi Íslendinga, að þeir reyni í það minnsta að fara eftir þeim lögum sem eru í gildi, eða allavega skammist sín til að segja ekki frá því brjóti þeir lög landsins með ásetningi.

Og reyni því næst að leggja þá til afnám þeirra laga er þeir telja of ströng, asnaleg eða óþörf, eftir að á þing er komið.

Kveðja,

Ellert V. Harðarson, 31.1.2007 kl. 00:39

14 identicon

Trúi því ekki að nokkur maður sé svo heimskur að halda að allir alþingismenn hafi ekki framið nein smávægileg lögbrot.

Leiðinda fordómar að dæma þúsundir hjólamanna út frá nokkrum svörtum sauðum.  Ekki álít ég alla stjórnmálamenn spilta þó svo að Árni Johnsen sé það. Sandurinn í fjörunni verður aftur eins og hann var við næsta flóð. Hvernig væri að reyna að bæta löglega aðstöðu hjólamanna í stað þess að vera í endalausri leit að sökudólgum. Þó svo það væri ekki nema hluti af því fé notað er í að elta hjólamenn á þyrlum færi í uppbyggingu á hjólasvæðum væri ég sáttur maður.

Gunnar (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 11:28

15 Smámynd: Mótokross Fréttir

Góð grein, Vil benda mönnum á að hann Eyþór A. Todmobítill, ef ske kynni að menn hafi gleymt því já og svo hann Mr. Árni forseti Vestmannaeyja.. en ætla ekki að fara kasta steinum hér.

Mótocross/endúró í fjöru er svipað og að skrifa á blað með blýanti og stroka út aftur, en í þessu tilviki sér náttúran um að stroka út.

Að banna það útaf nokkrum sem aka utanvega eins og hálfvitar er eins og að banna bíla vegna þeirra sem aka fullir,Eða jafnvel banna hesta vegna hófafara utanvega! og mjög lítill hluti Mótocross/Endúro manna aka utanvega  þar sem ekki eru slóðar,

Munið bara hver kjósandi skiptir máli og margir þeirra eru hjólafólk.

kveðja S.R.G. 

Mótokross Fréttir, 31.1.2007 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband