... þá hló marbendill!

Marbendlar hlóu yfirleitt af meinfýsni og svoldið á maður að vara sig sjálfur á þessháttar hlátri. Ég get samt ekki varist því að mér er skemmt í þessari umræðu og tel hana samt snúast um háalvarlega hluti sem alltof lítið hefur verið talað um. Það er hvort viðurkenna megi að maður brjóti vísvitandi lög öðru hvoru eða hvort að maður eigi í lengstu lög að þegja um slíkt,- svona eins og forhertir kvennamenn gera þegar þeir eru staðnir að framhjáhaldi. Ég hallast að hreinskilninni, allavega þegar kemur að þessu með lögin. Ég þarf vonandi aldrei að hugsa um hitt.

Þetta snýst aðallega um skynhelgi (eða er það skinhelgi, ég veit það ekki). Ég held að það sé enginn svo vitlaus að halda að hann brjóti aldrei nein lög. Að minnsta kosti ætti ég erfitt með að treysta slíkum manni. Flestir brjóta einhverjar smá reglur, meðvitað eða ómeðvitað, en bera samt virðingu fyrir lögunum í heild. Hafa til dæmis keyrt um á bíl með bilað stefniljós eða drepið mink án veiðileyfis. En þó svo að allir geti verið sammála mér um þetta eru ótrúlega margir sem telja samt að vissar persónur samfélagsins verði að lifa á einhverju fjólublái astralplani þegar kemur að þessu. Og súpa svo hveljur yfir mætum mönnum eins og sjávarútvegsráðherra í lundaveiði, forsætisráðherra með bermúdaskál eða bandaríkjaforseta á kvennafari. Allt dauðans hégómi.

Einn bloggari sem hefur verið að skrifast á við mig hér í skeytunum spyr hvar ég vilji setja mörkin og hnýtir við að þetta snúist um virðingu fyrir lögunum ekki einhvern einn tiltekinn verknað. Ég get að vissu leyti skilið og tekið undir að þeir sem bjóða sig fram til Alþingis eigi að bera ákveðna lágmarksvirðingu fyrir lögum þessa lands. Með lögum skal land byggja og allt það. Ég tel mig líka vera fullkomnlega í þessum hópi og raunar töluvert snoppaður gagnvart fyrirbærum eins og lögum, fánum, faðirvorinu, íslensku krónunni og ýmsu öðru sem okkur er líka innrætt að bera virðingu fyrir. En ég geri mér grein fyrir að þetta eru mannanna verk og ekki til þess að fara á límingunum yfir. Og til guðs lukku held ég ekki að mörkin í minni hegðun stjórnist af lagafyrirmælum. Mörk mín og allra annarra siðaðra manna stjórnast af siðferði. Lögin eru svo meginreglur sem eru meðal annars sett til að fyrirbyggja árekstra og fá fram leiðir til að greiða úr þeim. Það er auðvitað svo að innan ramma þessara laga geta allskonar ódó þessa lands stundað andlegt ofbeldi, siðlaus viðskipti og almenn leiðindi. En það er allt siðlaust, - nema kannski leiðindin sem oft eru ósjálfráð.

Það fyndnasta í öllu þessu er svo að líklega er þetta upphaflega sprottið af misskilningi. Hið meinta lögbrot sem einhver bloggari benti hér á var það að ég hefði hjólað eftir fjöru þar sem enginn vegur er. En ég hef í þessu gert eins og svo margir aðrir jeppa- og hjólamenn að spæna í fjöruborðinu þar sem flóðið þurrkar út sporin. Nú ku það vera talið mikið vafamál að heimilt sé að banna umferð ökutækja um þetta fjörusvæði og einn sýslumaður hér skrifað um þetta mál lærða ritgerð þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að á þessu svæði megi keyra öll skráð ökutæki og nánast hvernig sem er...

 

ps. enn eitt blogg barst mér í framhaldi af þessu sem endar í já/nei spurningu, bara svo það sé á hreinu að svarið við þessari spurningu er já. (nema hvað sjávarútvegsráðherra þurfti ekkert að þræta fyrir að þetta hafi verið lögbrot enda á maður alltaf að segja satt en hann átti alls að hengja haus yfir því eða viðurkenna rétt manna til að tala um þetta eins gert var - maðurinn var að drepa nokkra fugla sér til matar... já bloggið sem ég er hér að svara er svohljóðandi:

"Skýrustu dæmin um þetta í seinni tíð eru Einar Guðfinnsson lundabani annarsvegar og kvennaljóminn Clinton hinsvegar. Hvorugur gerði nokkuð það af sér sem orð var á gerandi en voru samt báðir svo aumir að hengja haus. Það var ljótt."

Ertu virkilega að segja mér það Bjarni, að þér finnist allt í lagi að brjóta lög?? Þá er ég auðvitað að vitna í ólöglegar veiðar Einars K. Guðfinnssonar. 

"Það er alltaf ljótt að beygja sig fyrir heimsku."

Ertu hér með að segja að það hafi verið bæði lélegt af honum að viðurkenna lögbrot og ertu einnig að segja að ég og margir séum "heimskir" fyrir að hafa staðið upp á afturlappirnar og andmælt þessum veiðum?

Aftur, já ég er að segja það... - en þú sem fórst á afturlappirnar (merkilegt) yfir þessum lundum, fannst þér þá í lagi hvernig heimsbyggðin lét yfir ástarleikjum Clintons og Moníku... - bara svona til að geta haldið áfram í röfli um einskisverða hluti!

PPS: Þetta með heimskuna - ég tel þetta hafa verið heimskulæti að amast við títtnefndum lundum,- það er ekki þar með sagt að ég telji þig, sem ég ekki þekki eða aðra sem komu að þessu heimska. Greindasta fólk er oft uppvíst að ótrúlegri heimsku enda bæði greindin og heimskan með flóknustu fyrirbærum mannlífsins...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

"Skinhelgi" er það Bjarni, hvers vegna sem það nú er. Annars hefur mörgum mætum Íslendingi liðist að nota sína eigin stafsetningu, enda víst hvergi bundið í lögum. 

Helga R. Einarsdóttir, 31.1.2007 kl. 19:46

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Veit það núna. Skinhelgur er sá sem kemur fram undir SKINI  heilagleikans, en er í raun versti ódámur, slúbbert og hræsnari. Vonandi varast sem flestir að falla í þá gryfju.

Helga R. Einarsdóttir, 31.1.2007 kl. 20:15

3 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ef þingmenn væru óbreyskir eða óskeikulir með öllu, þyrftum við þá nokkurntíman að kjósa????

Það er að sjálfsögðu ekki í lagi að brjóta lög, en allir gera mistök.  Og það á ekki að dæma menn af mistökunum einum saman heldur einnig hvernig menn bregðast við þeim.... Hvort að mistökin séu tæknileg eða einhvers annars eðlis.....

Og með þessu er ég ekki að segja að mótorkrossakstur þinn Bjarni hafi verið ólölegur, ég veit um margar sandfjörur við strendur Íslands sem hafa veitt mótorhjólamönnum sem og öðrum ómældan fjölda ánægjustunda og ummerkin verða aldrei eldri en 6 klst gömul..

Eiður Ragnarsson, 1.2.2007 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband