Falskur Þorlákur eða falskur Reykás

Spegillinn birti í gærkvöldi ágætt viðtal við Súsönnu Margréti Gestsdóttusagnfræðing um tilhneigingu manna til að falsa söguna og sveigja að sínum skoðunum og tíðaranda. Súsanna hafði margt ágætt fram að færa og var málefnaleg í tali framan af en skipti svo um þegar þegar hún fór að tala um Þorláksbúð. Orðrétt:

Já eigum við að tala aðeins um þetta kúnstuga mál um Þorláksbúðina sem allar heimildir segja að hafi verið skemma og reist snemma á 16. öld, - og það 350 árum eftir dauða Þorláks helga,  sem skemman hefur verið tengd við og látið í veðri vaka að skemman svona tengist honum og hafi jafnvel verið notuð sem dómkirkja frekar heldur geymsla.

Þetta er hlægileg uppákoma en svo hættir hún að vera hlægileg þegar maður sér að menn rjúka af stað og byrja að hlaða bygginguna upp að nýju með mikilli ánægju án þess einu sinni að vera búnir að fá til þess leyfi vegna þess að hún sé svo merkileg.

En afhverju getur góð skemma ekki verið merkileg eins og hvað sem er annað, afhverju þarf vera að kalla hana dómkirkju en þarna er verið að fara mjög frjálslega með söguna...

Ræða Súsönnu Margrétar líkist helst góðri klippu af Ragnari Reykás þar sem hún endar á að tala um að skemma geti nú verið merkileg eins og hvað annað.

Í fyrsta lagi hefur verið rætt um það að Þorláksbúð hafi einmitt verið skemma, t.d. hér og hér. Það er aftur á móti rangt hjá Súsönnu að húsið hafi aldrei verið notað sem dómkirkja, fyrir því eru heimildir þó enginn haldi að það hafi verið byggt til þeirra nota.

Og það er vafasamt að fullyrða mikið um það hvenær hús þetta var fyrst reist og eiginlega fráleit sögufölsun að efast um að bygging þessi tengist Þorláki helga þó vitaskuld hafi hann ekki verið sjálfur hér að verki.

Eða hvaða annar Þorlákur kemur til greina?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Bjarni Harðarson, rúst Þorláksbúðar var friðlýst árið 1927. Menn eru að byggja ofan á friðlýstum fornleifum, og það með blessun ráðherra sem á að þekkja viðurlögin við því.

Fornleifarannsókn á rústinni árið 2009 sýndi að undir rústinni eru rústir eldri byggingar og grafir. Rannsóknin, sem var gerð að fornleifaeinkafyritækinu "Fornleifastofnun Íslands" er því miður ekki nægilega góð tæknilega séð, en nógu góð samt til að sýna okkur að friðlýsingin frá 1927 og fræðileg rannsókn voru virtar að vettugi þegar leyfi var gefið til að byggja ofan á friðlýstum fornleifunum. 

Að byggja ofan á rústum friðlýstra minja, er vandalismi og lögbrot, en einnig birtingarmynd ný-þjóðernisstefnu á Íslandi meðal lítils hóps manna sem eru með léttbrenglaða mynd af fortíðinni. Þeir skammast sín jafnvel fyrir hana eða eru í versta falli sögulausar menningarómyndir. Svo eru það þeir sem halda að túrismi sé bestur þegar þegar ímyndunaraflið er tekið af ferðamanninum.

Skálholtsstað hnignaði í gegnum aldirnar, meira eða minna í takt við hnignum í íslensku þjóðfélagi. Steypukirkjan var viðleitni manna að reisa staðinn við. Kirkjan er barns síns tíma, eins og allar fyrri kirkjur staðarins. Endurgerð "Þorláksbúðar" er hins vegar anakrónismi, tímabrengl, sem stílfræðilega og fagurfræðilega eru í hrópandi mótsögn við þá dómkirkju sem nú stendur.

Ef menn vilja leika sér að tilgátum um fortíðina, eru vítin til að varast þau. Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal er rugl og kirkjan við hann er enn meiri firra. Það veit ég vegna þess að ég rannsakaði kirkjurústina. Leitað var til  mín um upplýsingar um endurgerð þeirrar kirkju og sendi ég stutta greinargerð. Hún var virt að vettugi af sama arkitektinum, Hjörleifi Stefánssyni, sem nú hefur sagt sig úr Húsafriðunarnefnd vegna Þorláksbúðar. En Hjörleifur má þó eiga það, að hann reisti ekki lélega tilgátu sína á Stöng. Yfirsmiður hans að kirkjuómyndinni við Þjóðveldisbæinn var víst sá sami, Gunnar Bjarnason, og hefur gert tillöguna að Þorláksbúð.

Kjarni málsins er, að lögbrot var framið er leyfi var gefið til að reisa tilgátuhús ofan á friðlýstum fornleifum. Það gerist bara ekki í siðmenntuðum löndum. Við höfum lögin, en sumir eru greinilega ekki nógu siðmenntaðir.

FORNLEIFUR, 8.12.2011 kl. 07:26

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

Sæll Vilhjálmur Örn og þakka þér innlitið. Ekki vantar þig stóryrðin þú hefur náð góðum tökum á þeim Birkilanska tærleik að telja alla menn illa.

Bjarni Harðarson, 8.12.2011 kl. 15:25

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Bjarni minn, þetta er nú ekkert svar!!

Sæmundur Bjarnason, 8.12.2011 kl. 15:47

4 Smámynd: Bjarni Harðarson

Það var að engu spurt!

Bjarni Harðarson, 9.12.2011 kl. 16:37

5 identicon

Og hvurju á þá að svara?

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband