Af tannlitlum manni sem drekkur af undirskál

18. janúar klukkan 23:49 að staðartíma.

Hef stundum velt því fyrir mér hvernig það hefur verið að liggja án sængurfata undir grófu brekáni líkt og áar okkur gerðu. Nú veit ég hvernig það er. Meðal pakistana eru rúmföt óþekkt fyrirbæri. Hér fylgja gróf teppi með herberginu og það er full ástæða til að vefja þeim fast að sér.

Það er kalt í Rawalapindi, 10 stiga hiti í dag og fer niður undir 0 á nóttunni. Ég lenti hérna um tvöleytið og var að berjast í hótelmálum fyrstu tvo tímana eftir að ég komst inn í landið. Leigubílstjórinn reyndist hinn mesti hrappur og fór með mig allt annað en ég bað hann um. Þegar til átti að taka voru fyrstu hótelin sem ég vildi kanna full og þegar komum aftur til frænda leigubílstjórans sem stýrir hótelgreni i milliflokki var þar ómögulegt að hýsa mig vegna þess að ég er ekki með vegabréfsáritun. Þad vill til að íslendingar þurfa ekki vegabréfsáritun til Pakistan. Það geta greinilega verið vafasöm hlunnindi.

Undir morgun var mér holað niður í frekar vondu og dýru hóteli sem heitir Islamabad þó að það sé í Rawalapindi. Fór svo á stúfana í dag og fann skemmtilegt hótel hér í Raja basarnum, ódýrt og mjög hlýtt samanborið við það sem ég var á í nótt. Enda er herbergið hvergi við útvegg en gluggar snúa inn á hótelgang!

Reynslan er sú sama hér og víða í þriðja heiminum að milliklassahótelin eru yfirleitt verri en þau ódýru. Munurinn liggur í mublum og herbergjastærð en sturturnar eru jafn óvirkar, þjónustan hraklegri o.s.frv. Hér í Ansalat hóteli eru líflegir drengir við stjórn og umhverfið mjög litríkt. Borgin er ekki enn sofnuð þó komið sé að miðnætti.

Í kvöld sat ég á móti tannlitlum manni sem drakk af undirskál eins og hann væri alinn upp í íslenskri sveit.

19. jan. – hádegi

Ég er fastur í íslenskum tíma, vakti fram á Pakistanska nótt og skrifaði og var að vakna nú á hádegi. Hér er enn svalt, smá gola og sólin nær ekki að hita loftið. Og það er rafmagnslaust í miðbænum en lífið gengur sinn gang. Matur er allur eldaður á gasi og kolum. Ég er eini ferðamaðurinn hér á staðnum og eftir því bera heimamenn mig á höndum sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að heyra frá þér Bjarni á fjarlægum slóðum. Láttu ekki pretta þig og enn síður að slá að þér.

Gunnlaugur Júlíusson (IP-tala skráð) 20.1.2012 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband