ESB flokkur í kreppu

(Eftrifarandi birtist í Morgunblaðinu í gær.)

Niðurstað í prófkjörum VG um helgina er öllum andstæðingum vinstri stefnu á Íslandi mikil Þórðargleði. ESB sinnar unnu ekki þann sigur að flokkur Steingríms J. Sigfússonar geti hér eftir gengið í takti með Ólaf Þór Gunnarsson og Björn Val Gíslason í broddi fylkinga í höfuðstaðnum. Raunar er útreið þeirra félaga harður dómur formanni sem hefur margbjargað Íslandi með píslarvætti sínu og sértækum skilningi á heiðarleika.

En þó svo að Ögmundur Jónasson hafi unnið nauman sigur í Kraganum þá fer því fjarri að flokkurinn verði við það trúverðugur valkostur. Vinstri vaktin sem er vefsíða vinstri sinnaðra ESB andstæðinga lagði í vikunni spurningar fyrir frambjóðendur VG í forvali sem fóru fram nú um helgina. Er fljótsagt að nær allir frambjóðendur flokksins hafa gengist undir jarðarmen ESB og vilja í orði kveðnu halda aðlögunarferlinu til streitu. Ögmundur einn var þar í öðru liði og er þó sá maður sem mesta sök á upphafi ESB mála með launmálum við Össur Skarphéðinsson.

Átök eða pissukeppni

Fyrr á þessu ári stigu þrír þingmenn VG óvænt fram og töluðu fyrir þeirri skoðun að ESB vegferðin yrði að taka enda á kjörtímabilinu. Þetta voru þau Árni Þór Sigurðsson, Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir. Um stund var eins og þjófstartað væri til nokkurrar keppni um það hver myndi nú best hina yfirlýstu og samþykktu stefnu flokksins. Þessir atburðir gerðust einmitt meðan formaður flokksins dvaldi erlendis og allt var skjótlega leiðrétt þegar hann kom heim.

En glæðurnar lifa. Ekki vegna þess að fyrrnefndir þingmenn séu svo ákafir hugsjónamenn fyrir fullveldi landsins heldur miklu frekar hafa þeir hugsjónir sem tengjast þingsætum. Nú korteri fyrir kosningar er líklegt að umrædd keppni hefjist að nýju og er það vel, sér í lagi ef það mætti verða til þess að ESB málið færi í pappírskörfuna.

En þessi keppni mun engu breyta um það að Steingrími J. Sigfússyni hefur á undraskömmum tíma tekist að eyðileggja flokk sinn til nokkurrar framtíðar. Það er raun og veru snöfurmannlega gert á ekki lengri tíma en fyrir aðeins fjórum árum horfðu landsmenn með velþóknun og trausti á VG og formanninn. Á sama tíma hefur áætlunin um að búa til einn stóran ESB flokk með samruna við Samfylkinguna runnið út í sandinn. Þórðargleði íhaldsins er því mikil og að óbreyttu stefnir í stórsigur Sjálfstæðismanna sem nýlega keyrðu þó íslenskt efnahagslíf fram af bjargbrún. Það verður einstæður sigur sem Sjálfstæðismennirnir sjálfur eiga engan þátt í að skapa.

Skömm vinstri stjórnar

Svokölluð vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur sáralítið á afrekaskrá sinni. Kraftur hennar hefur farið í slagsmál um ESB aðlögun og almenna þjónkun við erlend stórríki. Mestur efnahagsbati okkar Íslendinga verður annarsvegar rakinn til neyðarlaganna svokölluðu annarsvegar og krónunnar sem vinnur sitt verk þegjandi og þrátt fyrir snuprur húsbænda.

Í bankamálum og atvinnumálum hefur ríkisstjórnin fylgt úreltum Blair-isma hægri krata sem hefur fátt fram yfir klíku-kapítalisma hægri stjórna. Í stað þess að nýta hrunið til að brjóta upp einokun og fákeppni hefur stjórnin eftirlátið útrásarvíkingum að hramsa í sínu gamla góssi. Vinstri stefnu sér hvergi stað en ómaklegu óorði hefur verið komið á félagshyggju.

Þaulsætnir villikettir

Það sem lengst situr eftir í arfleifð stjórnarinnar verða nafngiftir. Þannig kallaði forsætisráðherra stefnufasta VG menn villiketti og Steingrímur J. gaf eigin armi flokksins skúrkanafnið, óviljandi þó! Það er ekki slæmt að vera talinn til villikatta enda fáar skepnur jafn aðdáunarverðar og kötturinn sem fer sínar eigin leiðir. Eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið hefur fækkað í villikattadeildinni og nú erum við aðeins örfáir eftir og ekki seinna vænna en að skrifa sig út svo enginn láti sér detta í hug að við kettirnir gefum út heilbrigðisvottorð á þá pissukeppni sem framundan er. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Félagi Bjarni !

 Sjaldan hefur stjarna þín risið hærra !

 Það þarf mikla karlmennsku og kjark til að yfirgefa flokk - hvað þá tvo, samanber sjálfan þig !

 Þarna birtis Tungnamaðurinn, fornaldardýrkandinn ( sjá. sturlungaöld!) sveitamaðurinn, bóksalinn og kjaftaskurinn, best í öllu sínu veldi.

 Heill þér !

 Nú bíða þínir aðdáendur sprengmál efir næsta flokki sem þú haslr þér völd hjá !

 Gleymdu þá ekki íhaldinu, samanber orð Ritningarinnar: Í húsi föður míns eru mörg hýbýli" !

 Rómverjar til forna sögðu hinsvegar, stutt og laggott um manngerð sem þig:"Invictus maneo" - þ.e. " +Eg er ósigraður" !

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 30.11.2012 kl. 17:53

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni.

Sjálfur hef ég aldrei aðhyllst hina svokölluðu tæru vinstristefnu. Tel þá stefnu ekki hennta mínum hugsjónum, ekki frekar en hörð hægristefna.

En stjórnmál væru lítilsvirð ef allir væru sammála. Því verður það ekkert gott fyrir íslensk stjórnmál þegar sá eini stjórnmálaflokkur sem staðið hefur vörð um þessa stefnu hverfur af yfirborði jarðar, eins og nú stefnir í.

Því spyr ég; er ekki kominn tími fyrir ykkur sem aðhyllist þá stefnu sem VG var fyrir, en hefur horfið frá, að stofna nýjann flokk? Er ekki ykkar skylda að halda uppi því merki í stjórnmálum sem fyrrverandi formaður þinn og núverandi formaður VG hefur yfirgefið?

Það er engin launung hvert VG stefnir á pólitíska sviðinu, þ.e. það litla sem mun lifa af þeim flokk eftir næstu kosningar. Sú stefna er yfir til kratana, þeirra sem láta flest annað ráða en hugsjón eða stefnu.

Ef þið sem hafið staðið á stefnu VG og eruð nú að yfirgefa flokkinn í hópum, stofnið ekki nýjan flokk um þá stefnu, eruð þið í raun að yfirgefa hana. Þá verður hið pólitíska litróf hér á landi orðið ansi sviplaust.

Gunnar Heiðarsson, 30.11.2012 kl. 23:18

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þurfum við ekki að fara betur yfir stöðu mála?

Þegar ágreiningur þrímenninganna kom fram á flokksfundi VG þá lagði eg til að Atli Gísla & Co drægu tillögu sína til baka. Eg hvatti fundinn til að velja Atla til að móta tillögur að skilyrðum okkar fyrir inngöngu í EBE. Auðvitað eigum við sem hluti Evrópu að hafa samleið með EBE en á OKKAR FORSENDUM! Sérstaða okkar er margvísleg og eigi trúi eg því en að á það verði fallist þegar á hólminn er komið.

Afstaða með eða móti EBE er skiljanleg. En við erum hluti þessarar álfu of ef við stöndum utan við erum við mun veikari að geta staðist ágengni annarra ríkja á borð við Kína. Við skulumj hafa það hugfast að Tíbet var auðveld bráð þessa ágenga vaxandi heimsveldis. Ísland getur orðið jafnvel enn auðveldari bráð þessa sívaxandi heimsveldis stöndum við utan EBE.

Þessi gamaldags hugsunarháttur að við séum eyland, eitt í heiminum er löngu liðin tíð. Við verðum að huga að framtíðinni ekki næstu vikur eða mánuði heldur ár, áratugi og aldir. Kínverjar hugsa í öldum. Þeir vilja tryggja hagsmuni sína hvarvetna í heiminum þar sem möguleiki er að koma ár sinni betur fyrir borð. Ísland hefur marga möguleika fyrir þetta heimsveldi þar sem meira en milljarður býr. Þá vantar „Lebensraum“ svo vísað er í nasísk fræði sem enn eru sígild þar sem heimspólitíkina varðar. Heimóttaháttur getur verið svo sem ágætur en dugar okkur ekki þar sem ágengi og ágirnd varðar.

Mér þykja tíðindi að þú hafir stokkið fyrir borð og þykir miður. Góður drengur ætti að reyna að skríða aftur um borð enda vistin tæplega betri annars staðar.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 1.12.2012 kl. 20:48

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Við Íslendingar erum ekki Evrópumenn frekar en að Ameríku menn eru Evrópumenn. 

Forfeður okkar flúðu hingað undan ofríki og þar með landleysi löngu áður en forfeður Ameríkumanna lögðu af stað vestur og löngu áður en Evrópumenn ákváðu að Ísland væri í Evrópu. Við skulum líka athuga að lengra verður ekki flúið á þessari jörð.

 Af þeirri einföldu ástæðu er það upp á líf og dauða að við gætum þeirra eigna sem forfeður okkar og mæður skildu eftir handa okkur til að gæta til handa eftirkomandi Íslendingum, en allseki handa Evrópu og þaðan afsíður Kína.

Það er líka vert að hafa í huga að í tvígang hafa flóttamennirnir frá Evrópu þurft að koma frá Ameríku til að hjálpa við að bjarga Evrópu frá sjálfri sér og við flóttamennirnir frá Evrópu bjuggum svo vel að geta veitt hér aðstöðu í þeim hyldarleik. 

Það sem gerst hefur einu sinni og að ekki sé talað um tvisvar getur gerst í hið þriðja sinn.  Grundvöllurinn er enn á sama stað og óstöðugleikin og hagfræðin er enn í sama stíl. 

Hrólfur Þ Hraundal, 2.12.2012 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband