Annarskonar virkjun Þjórsár

Afgreiðsla rammaáætlunar er fagnaðarefni fyrir okkur sem höfum haft efasemdir um ágæti virkjunar neðri hluta Þjórsár. Með því að þær eru allar settar í bið skapast staða sem kallar á umræðu og athafnir.

Í þeirri kreppu sem verktakageirinn er í hafa margir horft til þess að æskilegt væri að ráðast í umræddar virkjanir. Í draumsýn hefur þá einnig verið brú milli Gnúpverjahrepps og Holta og víst myndi slík samgöngubót skila miklu. En til lengri tíma litið er framkvæmdahugur af þessu tagi litaður skammsýni. Við sem höfum verið á Suðurlandi báða dagana munum vel hvaða áhrif tarnaframkvæmdir hafa á byggðalögin. Kauptúnin í Rangárþingi bjuggu við margra ára kreppu eftir fyrstu tarnir í Þjórsárvirkjunum. Þann leik þurfum við ekki að endurtaka.

Líklegt er að á næstu árum fari fram endurmat umhverfisáhrifa virkjana í neðri hluta árinnar og það er vafamál að hugmyndir Landsvirkjunar standist slíka skoðun. Þessvegna er brýnt að Sunnlendingar fari að horfa á þessa miklu móðu, Þjórsána, sem annarskonar auðlind. Efra framleiðir hún helftina af raforku landsmanna en hér á heimaslóð getur hún orðið mikil lyftistöng í atvinnulífi þar sem ekki væri tjaldað til einnar nætur.

Laxastofn Þjórsár er einn sá stærsti í okkar heimshluta og með útfellingu á seti og gruggi yfir hásumarið má auka viðkomu laxastofnins enn meira og þar með gera bakkana beggja vegna að frábærum veiðistöðum stangveiðimanna yfir verðmætasta veiðitímann. Stangveiðar innlendra og erlendra veiðimanna skila mjög miklu til þjóðarbúsins og skapa margs konar atvinnu við bakka veiðiánna. Talið er að 50 veiddir laxar á stöng skapi eitt ársverk og því ljóst að Þjórsá getur skilað Sunnlendingum tugum varanlegra starfa ef rétt er á málum haldið.

Nú þegar Urriðafossvirkjun er að þokast út af borðinu getum við því lagt á ráðin um að nýta neðri hluta Þjórsár til raunverulegrar atvinnusköpunar í héraði. Sú uppbygging og atvinna sem yrði í kringum þessa nýtingu árinnar kallar auðvitað á samgöngur og það er fráleitt að raforkuvirkjun sé skilyrði þess að lögð sé ný brú yfir Þjórsá. 

(Birt í Morgunblaðinu 19. jan.2013) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Upphaflegu áætlanir voru að virkjun við Urriðafoss væri venjuleg rennslisvirkjun. Síðar vor áætlanir sem gengu út á vatnsmiðlun og hærri fallhæð með stíflum og tilheyrandi lónum. Það hefði gerð eina fegurstu náttúruperlu í Rangárvallasýslu við Gíslhólsvatn að engu.

Þessar áætlanir þóttu of brattar og fengu að færast í biðflokkinn fyrir vikið.

Hvenær verður talið vera nógu mikið virkjað? Við framleiðum mest allra þjóða af rafmagniu en til hvers? Varla fyrir okkur? Er það kannski meira í þágu pólitískra braskara?

Guðjón Sigþór Jensson, 21.1.2013 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband