Framboð án flokks - jöfnuður og fullveldi

Eru stjórnmálaflokkar nauðsynlegir?

Við höfum nokkur rætt þann möguleika á undanförnum vikum að bjóða fram án þess að stofna stjórnmálaflokk. Regnhlífarsamtökunum Regnboganum er ætlað að vera brú milli frambjóðenda sem eiga sér ákveðinn samnefnara, samhljóm sem dugir til að atkvæði fari frá einu kjördæmi til annars.

Samnefnarinn er jöfnuður, félagshyggja og áhersla á fullveldi Íslands. Við viljum stöðva aðlögun Íslands að ESB, við viljum jafna kjör fólks og bæta úr kynbundnum launamun. Við viljum jafna kjör byggðanna og rétta hlut landsbyggðar. Við byggjum stefnu okkar á sjálfbærri þróun eins og hún birtist okkur í Ríó yfirlýsingunni. Við teljum brýnt að berjast gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi. Við teljum að enn sé mikið óunnið í skuldamálum heimila og rétti lántakenda. Þetta er það helsta en við kynnum stefnuna betur á allra næstu dögum.

Með því að koma fram án flokks teljum við okkur betur fær til að takast á við vankanta íslenskra klíkustjórnmála. Verstu afglöp í stjórnun þessa lands hafa verið ráðin á flokksskrifstofum,  EES, einkavæðing banka, ESB umsóknin, þjóðarsáttir sem gerðar voru á kostnað launþega og svo mætti áfram telja. Alþingi hefur svo verið stimpilstofnun fyrir ríkisstjórnir og flokksskrifstofur. Þessu fyrirkomulagi verður ekki breytt nema með því að höggva á alræði flokkakerfisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Samstaða þjóðar

Það er fullkomlega réttmætt að spyrja þeirrar spurningar hvort stjórnmálflokkar séu nauðsynlegir, en líklega verða svörin nokkuð mörg. Ekki auðveldar svarið, að spurningin er óræð og getur varðað fjölmargar ónefndar forsendur. Er spyrjandinn að spyrja hvort stjórnmálaflokkar séu nauðsynlegir fyrir hann sjálfan, fyrir samfélagið eða til að vinna ákveðnum málefnum brautargengi?

 

Er það svo, að Alþingi sé nauðsynlegt til að vinna málefnum brautarengi? Er Alþingi og höfðingja-ræðið (þingræðið), sem þar á sitt höfuðból, upphaf og endir allrar umræðu, ákvarðana og framkvæmda? Ég leyfi mér að hafna algeru forræði Alþingis, þótt þar séu unnin störf sem þarf að vinna.

 

Við þurfum ekki að leita lengi, til að finna  dæmi um frjálst framtak allmennra borgara. Við þurfum ekki heldur að leita lengi eftir dæmum um átök á milli frjálsra samtaka og stjórnmála-valdsins. Icesave-deilan var þessarar gerðar og almenningur fór með sigur af hólmi. Af þeim átökum dreg ég þá ályktun að stjórnmálaflokkum er ekki treystandi fyrir mikilvægum málum og að þeir sem hafa hugsjónir um betri lausnir í þágu þjóðar, ættu að íhuga hvort frjálst félagastarf er ekki betri vettvangur en stjórnmálaflokkarnir.

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

 

 

Samstaða þjóðar, 10.3.2013 kl. 17:34

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Sæll Bjarni.Ég hef viðrað þá hugmynd að stofnuð verði regnhlífarsamtök eða stjórnmálasamtök til að halda utan um einstaklingsframboð.Þau myndu auglýsa eftir framboðum.Síðan yrði prófkjör þar sem allir í kjördæminu mættu taka þátt .Kjósendur myndu kjósa sinn mann(eitt atkvæði á einn frambjóðenda.Og frambjóðendum yrði síðan raðað á lista regnhlífasamtakanna og þau myndu síðan bjóða fram í kosningum.Þetta myndi virka þannig að prófkjörið yrði hinar eiginlegu kosningar.Regnhlífarsamtökin væru ekki með neina stefnuskrá heldur myndi hver og einn frambjóðandi vera með sínar áherslur.Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað sem þú og aðrir eru að hugsa um en datt í hug að gauka þessu að þér.

Jósef Smári Ásmundsson, 10.3.2013 kl. 20:36

3 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Bjarni ég hef lengi talað um að alvöru lýðræði verði komið á hér á Íslandi. Slíkt kæmist ekki á nema með þátttökulýðræði á svæðisþingum. Þá þyrfti aðal þing miklu færri þingmenn.

Þetta er tvímælaust framtíðin. 

Guðni Karl Harðarson, 10.3.2013 kl. 21:43

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var heimilt 2007 að bjóða fram óraðaða lista og er það sjálfsagt enn.

Lög skilgreina samtök fólks sem "stjórnmálaflokka" ef þau bjóða fram til kosninga en sem "stjórnmálafélög" ef þau gera það ekki.

Engin leið er að komast hjá þessu með því að kalla framboð hreyfingar eða regnhlífarsamtök, enda er og verður það þannig, að fólk með líkar skoðanir binst samtökum, hvernig sem reynt er að koma í veg fyrir það.

Feimnin við orðið "flokkur" er svona álíka eins og þegar fólk var feimið við orðið "vitskertur" og fór að nota orðið "fáviti"sem líka fékk á sig óæskilegan blæ og breyttist í "þroskaheftur" sem aftur eru orðið að skammaryrði, svo að upphaflega orðið "vitskertur" gæti þess vegna orðið skást, því að það þýðir einfaldlega að eitthvað, lítið eða mikið eftir atvikum, skortir á vitið.

Nútíma þjóðfélag er það flókið að engin leið er að fækka þingmönnum þjóðþinga niður fyrir ákveðin mörk nema að færa verkefni þeirra yfir til fólks, sem ekki þarf að svara til ábyrgðar í lýðræðislegum kosningum.

Fjöldi þingmanna fer að mun minna leyti eftir stærð þjóðanna en eftir viðfangsefnunum og fundin hefur verið formúla fyrir heppilegri stærð.

Ef fjöldinn færi eftir stærð þyrfti ekki nema einn þingmann á Íslandi miðað við íbúafjölda Bandaríkjanna.

Formúlan leiðir í ljós að þingmannatala á bilinu 55 til 65 þingmenn er hæfileg á Íslandi og sömuleiðis að tala borgarfulltrúa í Reykjavík er alltof lág.

Enda er það svo að það að flestir varaborgarfulltrúar hafa jafn mikið að gera og aðalfulltrúarnir og sparnaðurinn þar af leiðandi lítill sem enginn og betra að fjölga aðalfulltrúunum svo að bein tengsl þeirra við kjósendur séu meiri og ábyrgðin beinni. 

Ómar Ragnarsson, 11.3.2013 kl. 00:12

5 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ómar ég sé ekki alveg hvernig óraðaður listi á að virka.Á fólk að kjósa listabókstafinn og merkja síðan við frambjóðendann sem yrði þá að vera á kjörseðlinum-30 nöfn.Þetta myndi örugglega leiða til ógildinga vegna slysni.Varðandi einstaklingsframboð þá er munur á þeim og flokkaframboðum að einstaklingarnir eru með sína stefnu,sínar áherslur og sína persónu.Þú sem kjósandi veist alltaf að þú ert að setja atkvæði þitt á þinn fulltrúa sem þú samsamar þig við en ekki eitthvert samkrull ólikra skoðana,áhersla og persóna sem allir/öll lofa öllu upp í ermina á sér og enginn þarf að standa við sitt af því að hinir komu í veg fyrir það.Það er meiri rekjanleiki á efndum.Þú getur borið þetta saman við þegar þú kaupir sauðaketið þitt beint frá bóndanum í stað þess að versla við stórmarkaðinn.

Jósef Smári Ásmundsson, 11.3.2013 kl. 06:59

6 identicon

Þið þurfið ekki að reikna með mér.

Hörður (IP-tala skráð) 11.3.2013 kl. 10:38

7 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Guð minn góður hvað þú ert lokaður Ómar.

>Nútíma þjóðfélag er það flókið að engin leið er að fækka þingmönnum þjóðþinga niður fyrir ákveðin mörk nema að færa verkefni þeirra yfir til fólks, sem ekki þarf að svara til ábyrgðar í lýðræðislegum kosningum.

Fjöldi þingmanna fer að mun minna leyti eftir stærð þjóðanna en eftir viðfangsefnunum og fundin hefur verið formúla fyrir heppilegri stærð. >

Er þetta ekki dálítið alhæfing hjá þér? Þetta sem þú nefnir telst undir það kerfi sem við búum við og formúlan í tengslum við það.  Það er alltaf til leið til að breyta. Skipta kerfinu niður. Tildæmis eins og að gefa svæðum landsins meiri tækfæri til sjálfsstjórnar. Staðreyndin er sú að ef þingmönnunum væri skipt niður þá væri í heildina mjög svipuð tala og 55 til 60 þingmenn þó færri væru á aðalþingi.

Varðandi "óraðað á lista" þá er það ekki einfaldlega hægt í þessu stjórnkerfi sem við búum við. Einfaldlega vegna þess til að ná kjöri (eins og kerfið er) þarf peninga að minnsta kosti 2 milljónir. Og svo er það nú þannig að fólk setur einhverjar 1. þekktar persónur 2. persónur sem aðhyllast eitthvað ákveðið málefni eins og tildæmis esb og 3. einhverjar sem eru mikið lærðar. í efstu sætin sem eiga meiri möguleika á að ná kjöri samkvæmt núverandi kerfi.

Borgarahreyfingin ætlaði tildæmis fyrst að koma inn óraðað á lista sem allir mættu bjóða sig fram. Síðan tóku peningarnir þar völdin. Óraðað á lista sem er leið sem í sjálfu sér var og er erfið vegna núverandi kerfis.

Það merki hinsvegar ekki að það sé ekki hægt að breyta þessu. Með meiri lýðræðisþátttöku almennings í alvöru þátttökulýðræði þá lærir fólk á hvernig kerfið virkar. Og framboð þyrftu þannig ekki að vera byggð á vinsældum eða peningum.

Varðandi það sem þú skrifar Ómar um samlíkinguna "flokkur - vitskertur - fávitar" kemur mér fyrir sjónir sem þú hafir verið að gera einhverskonar kaldhæðnislega athugasemd. En í stað þess virkar hún á mig sem dónaskapur og vanvirðing. 

Guðni Karl Harðarson, 11.3.2013 kl. 12:24

8 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Mikið er gaman að sjá að ég er ekki einn um að hafa skömm á flokkakerfinu á Íslandi. Í mörg ár hef ég haldið því fram að flest böl Íslenskrar þjóðar sé spilling flokksræðisins þar sem svo gott sem enginn þarf að bera ábyrgð á orðum og gjörðum sínum gagnvart kjósendum, svo framarlega sem þessi orð eða gjörðir hafi verið með vilja "flokksins". Ég hef engan flokk séð sem er undanskilinn þessu meini. Þeir sem einna helst hafa þurft að taka við höggum vegna verka sinna eru þeir sem ekki fylgja flokkslínum dagsins í dag, burtséð frá því hvort hann er að fylgja kosningaloforðum eða stefnuskrá flokks síns... og höggin koma frá flokknum en ekki kjósendum.

Það er ekkert athugavert við að til sé fólk á þingi sem hefur sömu skoðanir á sumum hlutum, en að spyrða það saman í kippur og fjarlægja einstaklingana úr hópnum veldur því að einstaklingarnir þurfa síður að bera ábyrgð gagnvart kjósendum. Mikið einfaldara væri að kjósa einstaklinga á þing sem svo fylgdu sinni eigin sannfæringu. Þannig væri ekkert mál að refsa þeim í næstu kosningum ef viðkomandi stæðu ekki við sína stefnu og loforð.

Ég hef oft fengið þau svör frá fólki að þetta sé ekki hægt sbr. lesninguna hans Ómars hér að ofan, en það þarf fyrst að vera vilji til að breyta þessu og meðan þessar flokksklíkur ráða hér lögum og lofum, þá er ekki líklegt að breytingar í þessa átt verði gerðar.

Og svona að lokum hefur mér fundist það grátbroslegt að sjá fullorðið fólk svo blindað af ást á "flokknum" sínum að það kýs hann alltaf aftur og aftur, alveg sama hvað tautar og raular. Þetta er svona álíka sorglegt og að horfa upp á fólkið sem er svo helsjúkt af ást til tiltekins íþróttaliðs (oftast boltaíþróttaliðs) að það er til í hvað sem er fyrir liðið.

Högni Elfar Gylfason, 12.3.2013 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband