Hafnfirðingum vorkennt

Ók í gegnum Hafnarfjörð áðan og gat eiginlega ekki að því gert að vorkenna fólki þar svoldið. Rennur líka blóðið til skyldunnar verandi af Hafnfirsku blóði, ömmur mínar í föðurætt voru Weldingar og ef að er gáð er ég skyldur mörgum í bæ þessum.

Nú þarf þetta veslings fólks að kjósa um álver. Fyrir nú utan það hvað þessi upprifna umræða um álver á Íslandi er húmorslaus og leiðinleg er hér verið að kjósa um eitthvað sem er eiginlega ekki hægt að svara með jái eða neii. Meira að segja bæjarstjórinn í Hafnarfirði lýsti því um daginn yfir yfir að hann geti eiginlega ekki ákveðið sig þar sem ekki liggi allar upplýsingar fyrir. Hvað mega þá venjulegir Weldingar segja.

Hreppsnefnd sem ekki þorir að taka af skarið í skipulagsmálum á miklu frekar að segja af sér en að henda boltanum frá sér með þessum hætti. Atkvæðagreiðslur almennings geta í einstöku tilfellum átt við en þetta er ekki gott dæmi um það. 

En þrátt fyrir þetta nöldur er ég nú heldur að vona að ekkert verði úr fyrirhugaðri álversstækkun. Við erum þegar komin á veg með mjög mikla álversuppbyggingu og einhæfni í atvinnulífi er ekki eftirsóknarverð. Og svo hitt að okkur vantar virkilega stóriðjuuppbyggingu á Norðausturhornið en áluppbygging hér dregur úr svigrúminu til þess að ráðast í framkvæmdir þar. Og það er hreint ekkert mikið svigrúm í efnahagslífinu eins og er....

Já og svo segir fólk að það sé mengun af þessari stækkun,- ég veit nú svo sem ekki hvað er til í því en það er vissulega einhver mengun af öllu. Líka frá íbúðabyggð og hótelum. Ég treysti nú einhvernveginn Rannveigu Rist öðrum betur til að passa upp á mengunina. Á sínum tíma töldu sumir að Hafnarfjörður yrði óbyggilegur við komu álversins þar í gamla daga en það hefur hann ekki orðið...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Bjarni, sé að þú ert í sögunni...hefur þú lesið "Creation" e. Gore Vidal?...eða trilogiuna um "ALEXANDER" e. Valero Massimo Manfredi?

1. The ends of the earth

2. The sands of ammon

3. Child of a dream

?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.2.2007 kl. 20:13

2 identicon

les það að þú virðist vera nokkuð jarðbundinn í þessari umræðu um álver, er starfsmaður hjá alcan og veit að ef einhverjum er treystandi  til að lágmarka mengun eins og kostur er í þessari atvinnugrein þá er það alcan, eftir að þeir keyptu álverið hefur aðal áherslan verið á öryggismál og mengunarmál, halda fundi reglulega með okkur og farið yfir öll svið mengunar og ef mengun hafi eitthvað aukist er farið yfir alla þætti og reynt að finna orsök. en hvort betra sé að byggja svona starfsemi annars staðar er annað mál, ef aðrir fá smjörþefinn af svona góðum vinnustað færu þeir sjálfsagt að heimta stækkun og aftur stækkun

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 22:07

3 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Einhvernvegin finnst mér skynsamlegra að stækka álver sem er komið en að planta niður nýju álveri. Væri ekki skynsamlegt að sleppa Helguvíkurálverinu og stækka í Straumsvíkinni frekar en að sleppa stækkun og byggja nýtt í Helguvík. Síðan er Húsavík allt annar kapituli og góð leið til atvinnuuppbyggingar á norðausturhorninu.

Guðmundur H. Bragason, 26.2.2007 kl. 23:44

4 Smámynd: Halldór Borgþórsson

þetta er gott innlegg frá þér. Ég á hálf erfitt að að sjá Hafnfirðinga  kjósa gegn stækkun.   Ég skil ekki bæjarstjórann, hann getur ekki tekiðafstöðu með stærsta atvinnurekanda staðarins.  Þetta virkar eins og lélegur hafnafjarðarbrandari

Halldór Borgþórsson, 27.2.2007 kl. 00:32

5 identicon

Hjartanlega sammála þér Bjarni; þetta er vond staða fyrir Hafnfirðinga og einnig réttur punktur hvað varðar mengun af álverinu; hún hefur ekki verið vandamál og verður það ekki fyrirsjáanlega þó ráðist verði í stækkunina.  Svifryksmengunin vegna bílana er eina mengunarvandamálið á höfuðborgarsvæðinu.

Einhæfni í atvinnulífinu er eins og þú bendir á er stór veikleiki í efnahagskerfinu okkar.   Fjölgun álvera hefur aðeins lagfært þá mynd en aðeins lítilega.  Í landinu eru núna tvö álver af smæstu gerð, það þriðja er að bætast við og kannski 2-3 í viðbót á næstu 20 árum – það getur varla talist mikið í jafn stóru landi og Ísland er.   Og ef Hafnfirðingar segja NEI, má mínusa þetta með 1, því ef það verður niðurstaðan skv. Rannveigu og hennar fólki verður þessari 40 ára gömlu verksmiðju lokað, þar sem hún verður ekki lengur samkeppnishæf.

Fjölgun álvera loksins núna, gerist aðeins vegna þess að við erum orðin samkeppnishæf á alþjóðlegum grundvelli hvað orkuna varðar og staðsetning okkar virðist heldur ekki skemma fyrir þegar dæmið er gert upp.   Álverin hafa mikil ruðningsáhrif í för með sér, alls kyns þjónustustarfssemi byggist upp í kringum þau, sem eykur á fjölbreytni í atvinnulífinu.  Næsta skref fyrir Íslendinga, hvað áliðnað varðar er að byggja upp virðisaukandi iðnað í kringum þau; fyrirtæki sem fullvinna verðmæta vöru úr álinu, en þar hefur verið gríðarlegur vöxtur á síðustu árum út í hinum stóra heimi.  Við ættum að geta verið samkeppnishæf á því sviði.

Ég held að það væri ábyrgðarleysi að gera eins og Steingrímur J. Sigfússon vill, þ.e.a.s. banna alla frekari uppbyggingu á orkufrekum iðnaði.   Það væri svipað og ef Sádi Arabar tæku þá ákvörðun að banna frekar dælingu á olíu hjá sér.  

Þennsla síðustu ára er að mjög litlu leyti framkvæmdunum fyrir austan að kenna, hún er miklu frekar tilkomin vegna skuldafyllerís þjóðarinnar, en bankarnar hafa dælt hvorki meira né minna en 1400 milljörðum króna í formi lána inn í efnahagskerfið okkar síðan 2003, þar af stór hluti til einstaklinga í formi húsnæðislána. Því miður hefur lítið af þessu fjármagni skilað sér í nýsköpun í íslensku atvinnulífi.   Fjármagnseigendur á Íslandi keppast við að fjárfesta fyrst og fremst í atvinnulífi erlendis.  Áhættufjármagn til nýsköpunar hérlendis í t.d. hátækniiðnaði er varla til.   Verslana- og bankahallir eru byggðir, sem ekki eru stoðir undir raunverulega verðmætasköpun í þjóðfélaginu, a.m.k. ekki til að brúa ójafnvægi í viðskiptum okkar við útlönd.  Á meðan svo er lifum við um efni fram og söfnum skuldum, sem stýrir ekki góðri lukku.Á hátíðastundum eða kannski öllu heldur í framboðsræðum, tala óábyrgir stjórnmálamenn, sem eru á móti nýtingu orkunnar til atvinnuuppbygginar,  gjarnan um að byggja eigi upp þekkingariðnað í staðinn (sumir hafa reyndar boðið upp á fjallagrasatínslu og prjónastofur), sem eigi að leiða þjóðina til farsældar um ókomna tíð.  Þeir gleyma gjarnan að geta þess í leiðinni, að byggja upp slík fyrirtæki getur tekið tugi ára áður en þau fara að skila arði og að u.þ.b. 90% af þeim ná aldrei þeim áfanga; þau fara s.s. á hausinn áður.   Þeir sem tala af meiri skynsemi vilja gera hvoru tveggja í senn.  Byggja upp öfluga kjölfestustarfsemi og rækta sprotafyrirtæki í á sama tíma.   En það þarf að laga margt áður en við getum farið að virkja hinn mikla frumkvöðlakraft sem við eigum í fólkinu okkar í sprotafyrirtækjum.   Umhverfið í dag er vægast sagt óhliðholt slíkum fyrirtækjum fyrir margar sakir og kannski helst þá er nefnd var áðan; áhættufjármagn (venture capital) hefur ekki verið til á Íslandi.   Þó ríkisreknu sjóðirnir, séu góðra gjalda verðir, hafa þeir því miður skilað mjög takmörkuðum árangri – úttakið úr þeim er minna en inntakið hefði gefið tilefni til.    Hér verður að breyta um taktík.

Setja ætti upp ramma til að beina einhverju af því mikla fjármagni sem til er í landinu til uppbyggingar sprotafyrirtækja; ekki bara halda því í landinu til að geta skattlagt það.  

Einnig mætti reyna leiðir til að flýta uppbyggingu sprotafyrirtækja.  Fjármagnið er ekki eina vandamál þeirra.  Oftar en ekki eru þetta fyrirtæki með snjallar lausnir, en eiga samt í erfiðleikum með að hala inn fyrstu almennilegu viðskiptavinum sínum (þau eru lítil og máttlaus og því ekki treyst); notendum sem geta náð fram arðsemi með nýtingu afurðana og orðið þannig góð sýnidæmi fyrir næstu viðskiptavini, sem þá gætu e.t.v. verið erlend stórfyrirtæki.  Tökum sem dæmi ef Baugur Group innleiddi í verslanir sínar smásölutæknilausn sem þróuð væri af íslensku hugbúnaðarfyrirtæki.  Slíkt hugbúnaðarfyrirtæki yrði strax arðsamt, næði fótfestu erlendis og sennilega milljarða virði innan fárra ára og myndi skapa fjöldan allan af hálauna störfum fyrir háskólamenntað fólk.   Þarna væri um dæmi að ræða þar sem útrásin yrði nýtt til uppbyggingar á íslenskum hátækniiðnaði.  Samskonar dæmi mætti stilla upp t.d. hvað bankana varðar.Jæja, þetta er orðið allt of langt hjá mér.   Átti bara að vera nokkrar línur en stundum fær maður munnræpu, jafnvel þó það sé í gegnum hnappaborð.Lifðu heill. 

Sigurður J. (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 01:14

6 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ekki dettur mér í hug að þykjast hafa vit á vanda Hafnfirðinga.  Ætlaði bara að láta vita að ég var hér í heimsókn til að lesa skemmtileg skrif. En ég veit þó alla vega að ál rímar við kál og þar er ég á heimavelli.

Helga R. Einarsdóttir, 27.2.2007 kl. 19:58

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hefði átt að spyrja Bjarna í Gestabókinni...en hef ekki áhuga á stækkun álvers, sérstaklega ekki undir fölskum forsendum!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 27.2.2007 kl. 20:58

8 Smámynd: Bjarni Harðarson

hvaða gestabók anna - er ég með svoleiðis...

Bjarni Harðarson, 27.2.2007 kl. 21:33

9 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Völ og kvöl; ál og kál..

Sigríður Gunnarsdóttir, 27.2.2007 kl. 21:59

10 identicon

..........ekki hafa áhyggjur af okkur Hafnfirðingum við munum nokk spjara okkur............okkur finnst gaman að hafa þetta vald..... að geta kosið fyrir alla þjóðina hvort að hér skuli rísa álver eður ei.   Það er móðins að vera stjórnmálamaður sem setur´"íbúalýðræði" á oddinn............þetta kannist þið framsóknarmenn vel við er það ekki!           hvernig er það vorkennir þú ekkert sveitungum þínum þarna fyrir austan..........það er ekkert að gerast í neinu þarna  hjá ykkur!

Hafnfirðingurinn (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 10:13

11 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

...Nei sorry Bjarni

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.2.2007 kl. 12:13

12 Smámynd: Snorri Hansson

Bjarni ég er dapur yfir skrifum þínum. Þessi álvers kosning er í mínum augum voða atburður.
Voða atburður og vatn á millu þeirra sem stunda þá íþrótt að níða niður atvinnuvegi þessa lands

Snorri Hansson, 28.2.2007 kl. 14:24

13 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

jú annars Bjarni, þú ert með "svoleiðis"...

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.2.2007 kl. 16:50

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er sammála þér Bjarni að maður setur upp spurningamerki við svona kosningu. Það er alltaf hætt á að múgæsingur grípi um sig og niðurstaða kosninganna verði einhverju "trendi" í hag.

Ég er líka sammála Sigurði J. nema kannski með fullvinnslu álafurða. Vandamálið við álafurðir er að þær eru tiltölulega fyrirferðamiklar miðað við verð sem gerir langa flutninga óhagkvæma. En auðvitað skoðar þetta einhver, ef þetta er hagkvæmt þá verður það gert.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.3.2007 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband