Pólitíkin og landsbyggðin

Það er einkum tvennt sem ógnar landsbyggðinni. Annarsvegar skefjalaus markaðshyggja og reiknikúnstneratrú. Hinsvegar fjallagrasapólitík.

Íbúar á landsbyggðinni hafa á undanförnum árum fengið smjörþefinn af hinni köldu markaðshyggju þar sem stór þjónustufyrirtæki hafa verið einkavædd og þau síðan dregið stórlega úr þeirri þjónustu sem ríkisstofnanir veittu áður á landsbyggðinni.

frambjodendafundur 002 

Víst er að okkur Framsóknarmönnum hefur þar oftar en ekki þótt geyst farið en orðið að sæta forræði Sjálfstæðismanna yfir þeim ráðuneytum sem þeir hafa farið með. Þannig hefur verið erfitt um vik fyrir ráðherra flokksins að hamla á móti einkavæðingu í samgöngu- og fjarskiptafyrirtækjum en það hefur þó verið gert eftir mætti. Nú síðast þegar til stóð að bjóða út landsstöðvar Vegagerðarinnar.

Í þeim málefnum sem eru undir stjórn Framsóknarráðherra hefur verið hlúð að starfsstöðvum í hinum dreifðu byggðum þrátt fyrir tilhneigingu reiknimeistara ráðuneytanna til að fara aðrar leiðir. Það er rík sú trú að það megi reikna okkur til þeirrar hagræðingar að betra sé að þjappa byggðinni saman. Staðreyndin er aftur á móti sú að þær þjóðir eru ekki ríkari þar sem slíkum reiknimeisturum hefur verið gefinn laus taumur.

Fari svo að hér taki við ný Viðeyjarskotta, samstjórn krata og íhalds má búast við að reikniköllum þessum og hinni köldu markaðshyggju verði gefinn mun lausari taumur en verið hefur. Þá mun sverfa að hinum dreifðu byggðum þar sem meðaltöl reiknimeistaranna eru ekki innan staðla.

En lengi getur vont versnað. Verst landsbyggðinni er hin undarlega fjallagrasapólitík Vinstri grænna. Þar á bæ styrkir fylgisaukning forsvarsmenn flokksins í þeirri trú að ekkert megi hreyfa og engu megi breyta. Fjármálamenn hafa sumir lýst áhyggjum af viðhorfi þingmanna VG til bankanna og stórfyrirtækja. Sjálfur hef ég ekki minni áhyggjur af því hvaða áhrif öfgafull umhverfisstefna hefur á líf þess fólks sem berst við að lifa af landinu og í landinu. Friðun á hverjum steini, bann við hverskyns raski austan Elliðaáa eru ær og kýr þess hóps sem mótar stefnu Vinstri grænna. Nógar girðingar hafa þegar verið settar fyrir framkvæmdum landsbyggðarfólks af blýantsmönnum fyrir sunnan. Guð hjálpi okkur ef þeim pótintátum á enn eftir að fjölga.

(Myndin hér að ofan tilheyrir þessari grein ekki neitt en er birt hér að beiðni aðdáanda. Hún hefur reyndar birst hér á síðunni áður en á henni sést Hjálmar Árnason í léttri sveiflu með Elsu Ingjaldsdóttur í prófkjörsbaráttunni síðastliðið haust. Næst á myndinni eru þeir Gissur Jónsson til vinstri og Björn Bjarndal til hægri.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HP Foss

Ég er þeirrar skoðunar að Framsóknarflokkurinn eigi ekki að bjóða fram í höfuðborginni. Hann á að vera landsbyggðarflokkur og standa sig vel í því. Hann á ekki að reyna að vera einn af þeim hérna í bænum, það er ekki einu sinni hægt að vera framóknarmaður í bænum, hvað þá heill flokkur.
Kveðja úr kratabænum.

HP Foss, 29.4.2007 kl. 21:43

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Bjarni, á hvaða öld lifir þú? Ég fæ ekki betur séð en að þú gleymir að nefna höfuðógn landsbyggðarinnar, sjálfan Framsóknarflokkinn. Eina gagnið sem sá flokkur gerir er með ó- fyrir framan.

Sigurður Hrellir, 29.4.2007 kl. 22:41

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Vaxtapólitíkin sem hindrar alla nýsköpun atvinnulífs á landsbyggðinni, heitir hún fjallagrasapólitík? Þegar ungur maður á Kópaskeri ákveður að feta í fótspor forfeðra sinna og verða sjómaður. Ræðst í að kaupa sér fallegan bát með fullkomnum tækjabúnaði og kaupir síðan 100 tonn af varanlegum þorskkvóta fyrir 300 milljónir, heitir það ekki áreiðanlega fjallagrasapólitík sem veldur því að hann fer á hausinn áður en hann kemur með fyrsta fiskinn að landi?

Hvert starf í álbræðslu á Reyðarfirði kostar 250 milljónir. Í deyjandi þorpi úti á landi eru tveir ötulir athafnamenn búnir að kaupa aflagða mjólkurstöð sem bíður nú tilbúin eftir vélabúnaði til vatnspökkunar. Fyrirtæki sem myndi skapa umtalsverða atvinnu í þorpinu og útflutningstekjur sem numið gætu milljarðatugum á nokkrum árum. Þetta kallast líklega fjallagrasapólitík því þær 300 milljónir sem til þarf að koma dæminu af stað eru að sjálfsögðu ekki fáanlegar hjá íslenskum bönkum eða fésýslustofnunum því tryggingu vantar! 

Árni Gunnarsson, 30.4.2007 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband