Hin óspjallaða...

Sveinn vinur minn Sigurjónsson endaði snilldarlega fund sem haldinn var á Laugalandi í Holtum í gærkvöldi um virkjanir í Þjórsá með því að leggja þá spurningu fyrir viðstadda hvar væri hin óspjallaða náttúra. Liðið var fast að miðnætti og því voru svör manna við þessu stutt en fyrirlesarar voru auk þess sem hér skrifar Atli Gíslason VG, Þykkbæingurinn Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Þorsteinn Hilmarsson frá Landsvirkjun, Örn Þórðarson sveitarstjóri Rangárþings ytra og Páll Einarsson jarðskjálftafræðingur. Sá síðastnefndi benti á að náttúran væri sífellt og alltaf í sköpun og tortímingu en um hitt þyrfti ekki að efast að spjölluð náttúra væri það þegar hann hefði gengið fram á jarðýtuspor í Vonarskarði.

Víst rétt þetta með jarðýtuförin en þessi samlíking um óspjallaða náttúru minnir óneitanlega svoldið á þau hindurvitni sem sagt er að Íslendingar fyrri alda hafi haft um óspjallaðar meyjar en með þeim kemst náttúran hæst í sakleysi sínu og óspjölluðu eðli. Mig minnir að Blefken eða einhver ámóta hafi kjaftað frá því að Íslandi teldust konur öðlast meydóminn aftur ef þær væru siðsamar í sjö ár og sjálfum finnst mér hið óspjallaða hálendi vera svipuð svikamynd. heidarbrun_kerauga_bjola_hrafntoftir 030

Auðnir hálendisins eru ekki endilega eins og þær eru vegna þess að þar hafi allt verið ósnortið heldur miklu fremur vegna þess að við höfum notað þetta hálendi og í samvinnu við Heklu gömlu tortímt þar gróðurlendi. Með því er ég ekki að taka undir með þeim sem vilja ólmir græða upp alla svarta sanda hálendisins á Íslandi en bendi á öfgana sem liggja í því að líta á hálendið sem óspjallaðað. Og sú hugsun að náttúruvernd á Íslandi eigi einkanlega að ná til hálendisins vegna þess að það sé fyrir alveg óspjallað er mikil blekking malbiksins barna. Það rétta er að hálendið á Íslandi er hvevetna undirlagt af framkvæmdum, bæði vegum, húsum, línum og fjölmörgu öðru. Við þurfum vissulega að vernda ákveðna hluta þess en eigum fráleitt að hefta athafnir á því öllu. Það er mjög athugandi að taka frá ákveðna hluta þar sem hvorki ekkert fari um nema gangandi fólk og gaggandi tófa. Frekar spennandi hugmynd. En stóra hluta þess eigum við líka að nýta eins og hvert annað land. Og virkjanir okkar þjóðar eigum við að einkanlega að hafa á hálendinu,- ekki ofan í byggðum eins og gert verður með virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Meira um þær virkjanir síðar - Páll Einarsson kom með mjög athyglisvert sjónarhorn inn í þá umræðu.

En svo haldið sé áfram með spurningu Sveins Sigurjónssonar,- ég skrifaði í Frakklandi í vetur um fjöll og hvað þau líktust um margt konum og væru líkt og þær mun fegurri nakin en klædd. En útfrá umræðunni um hið óspjallaða vita allir hvað litlar líkur eru á að kona sem við sjáum nakta sé lengi óspjölluð eftir það... En nú finnst einhverjum að ég sé farinn að blogga útfyrir það velsæmi sem hæstvirtum alþingismanni leyfist!

(Myndin hér að ofan er frá Drápsvík við Ytri Rangá, rétt við Tólf kúa skák þar sem sagan talar í hverju fótmáli. Hér er náttúran svo sannarlega nöguð og spjölluð og spillt - en samt og kannski þrátt fyrir það spakvitur, vinaleg og hlý eins og margfróð átján barna kotkerling aftan úr öldum. Eða hvað!)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Það er hrikalegt til þess að vita, að klámvæðingin hefur nú teigt arma sína alla leið inn á Alþingi! (Bara grín).
Annars er þetta bráðskemmtilegur pistill hjá þér. Það er erfitt að segja hvað er óspjallað í nátturunni og hvað ekki. Það fer væntanlega eftir mælistikunni, sem notuð er. Mengun er einnig afstætt fyrirbæri. Nærvera lækjarpontunnar var nú einu talin merki um að öngvir slóttugir minkar væru á svæðinu eða veiðiglaðir fresskettir. E.t.v. segir tilvist bleikjunnar eitthvað um hreinleika nátturunnar með svipuðum hætti. Hver veit?    

Júlíus Valsson, 24.5.2007 kl. 18:52

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg er viss um að þu stendur fyrir verndun Islenskarar nátturu Bjarni/Baráttukveðjur /Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 25.5.2007 kl. 12:01

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þakka skynsamlega orðaðar hugleiðingar.

Biðst afsökunar að vera sífellt, að troða mér hingað inn  á bloggið þitt en mér líkar margt af því, sem af takkaborði þínu hrýtur.

Hinn Hæsti Höfuðsmiður er ekki hættur að móta og breyta sköpun sinni, hann er óstöðvandi.

Við verðum að bera virðngu fyrir vinnubrögðum Hans og taka því af jafnaðargeði, líkt og forfeður okkar gerðu, þegar þeir settu í axlirnar og skófu ösku af túnum og reyndu að hefta sem best þeir gátu afleiðngar umbrota.

Áar mínir undan Fljótshlíðinni gerðu það líklega og vestra, hélt lífið áfram, þótt brimaldan skilaði ekki sjóurunum fyrir Vestan.

Var að rífast við náttúru,,vini" frá mínum núverandi heimahögum 101 Rvík um náttúruvernd.  Viðkomandi álítur sig afar Grænan og fær nánast andatepu af æsingi þegar hann talar um ,,náttúruspjöll".  Var á vakningahátíð þinni við neðri Þjórsá og átti bara ekki til orð að lísa því hvað menn hefðu nú skemmt mikið á Suðurlandi, grafið í fjöll og skemmt ásýnd fjalla á leið til Selfoss.

Síðar um kvöldið var sami,  að bölsótast út í helvítis stjórnina, sem gerði ekkert í samgöngumálum, þannig að fjöldi saklausra léti lífið á liðinni milli Rvíkur og Selfoss.

Þá sísona hallaði ég mér yfir stofuborðið og spurði hann hvar í andskotanum menn ættu að ná í möl til að breikka vegarómyndina.

Lítið var um svör en tuð þónokkuð.

Það eru svo mörg dagsaugun.

Kvakkveðjur

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 25.5.2007 kl. 15:03

4 identicon

Afturbatapíka er nú vel þekkt hugtak, en sennilega ætti að færa tímann úr sjö árum í sjö mínútur miðað við klámvæðinguna.

Svo er þessi 2+2 sýn á slóðina til Selfoss bara pólitískt hindurvitni, ykkur væri hollt að lesa grein Rögnvaldar Jónssonar AFTUR.

Bjarni Pálsson (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 15:06

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Það má planta trjám...en alls ekki ofplanta og hálendið á sem guðlega fegurð eins og það er!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 25.5.2007 kl. 15:10

6 identicon

Allir þekkja græna áfram kallinn og rauða stopp kallinn - sem ekki má teikna -  en hér virðist kominn háttvirtur guli kallinn. (Ath ekki hæstvirtur.)

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 23:32

7 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Sæll Bjarni. Í þessu sambandi vísa ég á blogg mitt í dag um Tímamót
Framsóknar. Með báráttukveðju...........

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 26.5.2007 kl. 00:25

8 identicon

Heill og sæll Bjarni. 

Þú talar um að við eigum einkanlega að hafa virkjanir okkar uppi á hálendinu en ekki ofan í byggðum. Finnst þér þá að virkjanirnar okkar séu eitthvað sem við eigum að fela eða hver eru rökin fyrir því að hafa þessi mannvirki frekar fjær byggð?

Orkan frá þessum ágætu virkjunum er notuð í byggð og ef ég ætti að velja á milli þess að virkja í byggð eða á hálendinu þá held ég að ég myndi frekar velja að virkja nær notendanum. Mig langar að biðja um rök fyrir hinu gagnstæða.

Annars óska ég þér til hamingju með nýja starfið.

kv Helgi

Helgi Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 28.5.2007 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband