Á tali við Ingólf...

Gekk á Inghól á sjálfan hvítasunnudaginn sem er hjassa eins og mér alveg nóg fyrir daginn. Bjóst reyndar við að ég yrði enn þyngri á mér því í kosningabaráttunni bætti ég á mig fjórðungi og reyndist þegar við frambjóðendur gengum um sali Sláturfélagsins á Hvolsvelli talsvert þyngri en formaðurinn núverandi sem var reyndar aðeins varaformaður og ráðherra á þeim tíma. Heilum vetri í kosningabaráttu fylgir endalaus skyndibiti, sætabrauð og óhollusta - og nú er að ganga það spik af sér!S5000242

Hef tvisvar áður komið á Inghól sem er semsagt hæsta þúfan á Ingólfsfjalli, um 550 metrar og þar undir segja sögur að fyrsti landnámsmaður okkar, Ingólfur Arnarson, sé heygður og hundur hans í öðrum hól þar hjá en skip kappans er í Kögunarhól. Auðvitað eru þetta mjög ævintýralegar sögur en ekki verri fyrir því. Þetta vafðist samt svoldið fyrir mér að staðsetja hundinn og húsbónda hans nema að hundur karls sé í formfagra hólnum sem Landmælingar ríkisins hafa notað sem viðmið og sjálfur Inghóllinn sé ólögulegt holt rétt norðan og vestan við. Holtið er miklu stærra og álíka hátt og hafi fornmenn ekki verið mikið upp á pjattið þá gætu þeir hafa grafið hundinn í fegurri hólnum. Nei, nei - auðvitað er það útilokað. LS5000240íklegast er að hundkvikindið liggi í lítilli dys sem ég fann rétt austan og norðan við Inghól og hefur þá ekki verið meiri um sig en venjulegur hundur. Ingólfur hefur aftur á móti verið risi eins og þjóðsögur af honum sýna og svo er um flestar munnmælasögur 19. aldar manna af landnámsmönnum. Rétt neðan við Inghól eru Leirdalir, miklar og glæsilegar sléttur þar sem halda mætti heilt útimót og hefur örugglega verið gert við útför þessa en engar samkomur kunnu heiðnir víkingar betur að halda en erfi. Sunnan í Ingólfsfjalli er illkleift skarð,- rétt vestan við Þórustaðanámu, sem heitir Ýmuskarð og þar á ambátt Ingólfs og frilla, Ýma að nafni að hafa farið til útfararinnar því henni hefur auðvitað verið meinað að ganga sömu götu og aðalborið hyski landnámsmannsins. S5000232

Auðvitað eru allar þessar sögur einhverskonar skrök og næsta útilokað að nokkur færi að drösla dauðum víkingi upp á fjall þetta og þaðan af síður að grjóthóllinn Inghóll sé dys. Sögur segja að einhverju sinni hafi Ölfusingar grafið eftir gulli Ingólfs í Inghól og komið böndum undir kistuna. Þá sagði einn þeirra sem þar var, nú tekst ef guð vill. Síðan er togað og rétt þegar kistan er að koma upp og allt virðist unnið segir ódóið hann Jón skottuskáld í Bakkárholti, nú tekst hvort sem guð vill eða ekki og í sama mund slitnaði festin, kistan hrapaði og moldin þeyttist yfir í gröfina aftur þannig að augabragði sáust engin nývirki á landinu. Ég man þegar ég las þessa sögu fyrst fannst mér hún hafa litlu að miðla mér hálfvegis trúlausum manninum en það er langt síðan ég gerði mér grein fyrir að það er í henni mikill sannleikur. Líka fyrir trúlausa. Hrokinn skilar nefnilega engu og það er aldrei neitt í hendi fyrir hrokann og oflátungsháttinn einan.

Og það er mikilvægt að hugsa svona sögur aftur og aftur, ganga að vettvangi þeirra og hlusta á söguna í vindinum. Vita hvað Ingólfur er að hugsa þó ég verði að viðurkenna að hann hefur svosem aldrei verið nein uppáhaldspersóna hjá mér, - bæði hégómlegur og lífhræddur. En samt, hann hefur tilheyrt okkur báða dagana og lengst af verið í Inghól með einhverjum hætti...

En þetta er nú orðið meira rausið. Í dag vann ég mitt fyrsta verk sem þingmaður þegar ég mætti sem fulltrúi Framsóknarflokksins fyrir rússneska þingnefnd sem hingað kemur til að kynna sér nýtingu náttúruauðlinda. Þó svo að fundur þessi hafi verið yfirborðslegur og mest formlegheit er enginn vafi að þetta er eitt af því sem alþingismenn verða að gera. Sigurður Kári sjálfstæðismaður hafði orð fyrir hópnum en auk hans voru á fundinum Ellert B. Scram frá Samfylkingu og Kolbrún Halldórsdóttir Vinstri græn. Á morgun er svo bæði þingflokksfundur og kynning fyrir nýliða á þinghúsinu þar sem við verðum leiddir þar um ganga, kennt á kaffivélina o.s.frv. Mér var strítt á því um helgina að þetta yrði svona aðlögun eins og ný leikskólabörnin ganga í gegnum. Kvenpeningur ættarinnar fylltist móðurlegri umhyggju og bauðst til að fylgja mér að þinghúsinu þennan fyrsta dag og jafnvel að vera með mér þar fyrsta klukkutímann...

(Myndina tók ég á litlu handhægu vélina hennar Elínar - af Inghól og dys hundsins og frábærum skilaboðum hins opinbera til göngugarpa sem ná upp á fjallið,- semsagt: röskun varðar refsingu!)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Þetta er enginn aldur!

Helga R. Einarsdóttir, 29.5.2007 kl. 21:36

2 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Hvaðan gengur þú upp Bjarni?

Sigfús Sigurþórsson., 30.5.2007 kl. 01:28

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sæll Bjarni þetta er gott að gera ,þetta er reyndar engin aldur ,bara ungur maður ,að vera Þingmaður/En þetta er byrjað og það gott/Eg gekk einu sinni þarna upp sumarið 1949 og var þá Kaupamaður i Laugardælum,farðafelaagi minn var engin annar en Arnór Hannibalsson/Hann ver klifurmaðu að vestan eg ekki/En við komum aftur niður hjá móti sem vara í Þrastarlundi þarc klettar og eg hræddur en hann ekki/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 30.5.2007 kl. 10:59

4 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta er nú ekki sú þúfan...fyrir unglinginn....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 30.5.2007 kl. 22:14

5 Smámynd: Bjarni Harðarson

sigfús - ég hef farið á fjallið frá nokkrum stöðum en oftast um þórustaðanámu. á hvítasunnudag fór ég frá torfastöðum í grafningi sem er mjög skemmtileg og falleg leið, auk þess ekki eins brött og leiðin upp námuna. en ég hef aldrei farið i klettaklifur í fjallinu eins og halli hefur lent í með arnóri hannibalssyni... enda yrði ég bara hræddur eins og hann!

Bjarni Harðarson, 31.5.2007 kl. 04:36

6 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Já ok,,torfastöðum í grafningi - Og er þá farið upp að bæ eða??? og gengið svo  upp -- er þetta eitthvað merkt?

Sigfús Sigurþórsson., 3.6.2007 kl. 02:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband