Hrepparnir eru sérstök heimsálfa

Frá blautu barnsbeini hef ég vitað að það væri eitthvað verulega dularfullt við Hreppana. Við þetta fjalllausa og meiningarlitla heiðarland handan við ána, land töffara og milljónera. Sem krakki millum þeirra vita að vera pæjum aðhlátur en húsfreyjum skelfir fékk ég stundum að fara á bíósýningar austur á Flúðum og gleymi því ekki meðan ég lifi hvað mér jafnan þóttu jafnaldrar mínir þar ógnvekjandi og skrýtnir enda sjálfur allra unglinga minnstur og pervisnastur. Franskbrauð fram eftir árum. Rumarnir sem áttu salinn voru stórir og stæðilegir, hávaðasamir eins og þeir einir geta verið sem eiga eitthvað undir sér. hreppaflekinn

 

En að ég skildi þá hvað það var sem þeir áttu var fjær mér en nokkuð og algerlega óskiljanlegt. Og hefur verið það til þessa þrátt fyrir að hafa í gegnum árin kynnst þjóðflokki þessum millum Þjórsár og Hvítár betur með ári hverju og líkað giska vel við. Lesið öll þau neftóbaksfræði sem fyrir liggja um Hreppana eins og aðrar sveitir Suðurlands og hvergi fundið neitt. Ekkert sem miklar þessa menn yfir alla aðra og samt halda þeir áfram að vera í huga mínum og líka sínum eigin einhverskonar aðall Suðurlands. Stórir, vambsíðir og flestir ófríðir sem karlkyns teljast en konur þar ægifríðar fjallkonur og tígulegar með sinn svellandi barm og dillandi hlátur. Ekki eru það minningar um Bjarna í Hörgsholti og sturlaða Reykjadalsklerka sem gefa þeim þetta allt. Nú eða lygin í séra Árna.

 

Ég hef vitaskuld aldrei nennt að lesa Hreppasögu Guðmundar Kjartanssonar frá Hruna enda fjallar hún um fjöll og jarðfræði en ekki fólk og bæjaferðir. Hefði þó betur gert því loksins nú rann upp fyrir mér hvað það er sem gerir hreppamenn að því sem okkur sýnist þeir vera og raunar miklu miklu meiru. Var semsagt að hlusta á erindi þess merka manns Páls Einarssonar á fundi á Laugalandi þar sem hann útskýrði jarðskjálftafræði Íslands útfrá landrekskenningunni sem í grófum dráttum gengur út á að Ameríkuflekann á vesturkanti Íslands rekur frá Asíuflekann (- Evróasíufleki þó að það taki nú varla að nefna Evrópu svo lítil sem hún er á heimsvísu- ) sem nær yfir landssvæðið austan Sprengisands en myndin er samt ekki svo einföld. Fyrir utan þessar tvo meginfleka jarðfræðinnar er til sá þriðji:

 

Hreppaflekinn sem liggur laus millum hinna tveggja og gerir bara það sem honum sýnist. Liggur í vestrinu í dag og getur kippt sér austur á morgun. Landrekssprungur alheimsins ganga semsagt upp sinn hvoru megin við Hreppana og enginn getur sagt að Hrepparnir tilheyri Ameríkuflekanum og ekki heldur að hann tilheyri Evróflekanum. Því hann gerir hvorugt og mun aldrei gera. Hann er sérstæður, einstætt fyrirbrigði í allri landrekskenningunni sem er sjálf veraldarsagan allt frá því heimsálfurnar urðu til úr einu landi sem fór að reka í sundur og aka ákveðna stefnu, sumt til austurs og annað til vesturs. Líklega þegar guð hrinti Babelturninum og allt fór á tjá og tundur. Allt nema Hrepparnir.

 

Ekki það að Hreppamenn viti þetta,- þeir hafa ekki frekar en ég nennt að lesa Guðmund sveitunga sinn almennilega enda aukaatriði. Þeir bara finna það í blóðinu, landrekinu, moldinni, loftinu sem þeir anda að sér og smælingjahætti nábúa sinna. Finna að þeir þurfa ekki að vera sérstök þjóð, ættbálkur, menningarkimi, klíka eða drykkjufélag. Nei, þeir eru meira en allt þetta. Þeir eru án þess að hafa nokkurntíma nokkuð fyrir því, sérstök heimsálfa og slíkt toppar enginn.

(Áður birt í Sunnlenska - myndin er úr jarðfræðiverkefni nemenda í Menntaskólanum við Sund sem útskýrir þessa flekamyndun Hreppanna.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi "vambsíðir" lýsing kemur nú úr hörðustu átt!

Þá væri gaman að sjá lýsingu á tungnastelpum, en nokkur dæmi eru vissulega um að hreppamenn hafi farið vestur yfir á að sækja sér kvonfang - og tekist vel upp. Kannski að hér sé komin ný sögn: að hreppafleka !

-sigm (IP-tala skráð) 9.6.2007 kl. 13:18

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Farðu afar varlega í að tala um lygina í honum afa mínum. Hann var svo hjartahreinn að eftir 48 ára starf sem sálusorgari Snæfellinga kunni hann engan sannleika betri en þann að Hreppamenn væru hjartahreinasta fólk sem þekktist á þessu guðsvolaða landi.

Hreppamenn eru góðir strákar og gaman að ferðast með þeim um Skagafjörð eftir vel heppnaða Laufskálarétt. Þá er venja að hafa koníakspela og söng að leiðarljósi. Hvorttveggja kunna þeir vel með að fara enda aufúsugestir norður þar.

En í dag heiðra menn 200 ára minningu Tómasar Sæmundssonar á Breiðabólstað. Hann var reyndar ömmubróðir séra Árna.

Svona eru nú "ýmislegheitin í kringumstæðunum", eins og meistari Kjarval sagði.

Árni Gunnarsson, 9.6.2007 kl. 15:28

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það fer ekki fram hjá neinum sem les ræðu Björns Inga að hann er ekkert annað en vindhani.Hann heldur greinilega að hann sé að veðja á réttann hest.Hann hefur greinilega séð hvernig þingmenn Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi hafa komið út úr skápnum eftir kosningar og boða nú þjóðnýtingu í sjávarútvegi sem er ekkert annað en gjaldþrotastefna fyrir landsbyggðina.Og Björn Ingi nuddar sér nú utan í þann sem nú er formaður, rétt eins og hann gerði við þann sem var formaður áður.En þið verðir að svara því og sér í lagi þú Bjarni, hvaða byggðir við íslenska strönd eru sjávarbyggðir og hverjar eru það ekki.

Sigurgeir Jónsson, 9.6.2007 kl. 17:48

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Pólítíkusar hafa mætur á orðalaginu- að greina vandann! Það er venja flestra alþingismanna að segja fólkinu á landsbyggðinni frá því hversu miklar áhyggjur þeir hafi af ástandinu þar.

Þetta vitum við báðir Sigurgeir.

Hinsvegar þegar þeir taka til máls um þennan vanda eyða þeir gjarnan mestum tíma í orðhengilshátt. Mest leggja þeir upp úr öllu öðru en því sem máli skiptir.

Ég hygg að fæstir þeirra sem nú sitja á Alþingi yrðu kosnir í hreppsnefnd í fámennu sveitarfélagi. Enda ættu þeir lítið erindi þangað.

Árni Gunnarsson, 9.6.2007 kl. 18:35

5 Smámynd: HP Foss

Maður þakkar nú bara Guði fyrir að Síðan liggur ekki að Hreppunum. Nóg er maður nú inn í sig.

HP Foss, 9.6.2007 kl. 22:01

6 identicon

Og Framsóknarflekinn hrekst á milli hinna tvegga, Ameríkuflekans (Sjálfst) og Evrópuflekans (Social)

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 9.6.2007 kl. 22:39

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Flott grein Bjarni/en mætti ekki skrifa svona um fleiri sveitir ef ekki allar/Nema Flekan þann arna/Hveð mættu Vestmanneyjingar segja og fleiri/Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 10.6.2007 kl. 15:10

8 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Hélt að Eyjafjöllin væru mest og best og bæru af öðrum sunnlennskum sveitum!

Ester Sveinbjarnardóttir, 11.6.2007 kl. 02:15

9 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Þessi grein er frábær. Mér er líka málið skylt.

Ég vona að þú látir pólitíkina ekki  spilla fyrir svona skrifum öðru hvoru, kv.

Helga R. Einarsdóttir, 13.6.2007 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband