Ríkið getur ráðstafað kvóta til sjávarbyggðanna

Í umræðu um niðurskurð þorskkvóta hafa nokkrir stjórnmálamenn stigið á stokk og talað um að hægt væri að láta slíkan niðurskurð koma með mismunandi hætti niður á byggðum landsins. Frægust er í því sambandi lýðveldisræða Sturlu Böðvarssonar en raunar er hægt að benda á fleiri sambærilegar. Öllum er þó ljóst að þessi leið er ófær. Þriðjungsniðurskurður verður auðvitað að bitna jafnt á öllum og allir kvótaeigendur verða að eiga jafnan rétt á viðbótinni þegar að þeim dögum kemur. En það er ekki þar með sagt að ríkisvaldið geti ekki ráðstafað kvóta til sjávarbyggða í landinu. Til þess þarf pólitískan vilja og ég ber í brjósti von um að slíkur vilji sé til staðar hjá núverandi ráðherrum.

Á hverju ári kemur mikið af kvóta á leigu- og sölumarkað. Það er viðbúið að þessi markaður dragist saman nú við skerðinguna en hann verður samt til. Það skiptir miklu máli hvert sá kvóti fer og það skiptir líka máli að hið frjálsa framsal á kvóta verði ekki afnumið. En hvernig fer þetta tvennt saman?

Skylda við komandi kynslóðirnks2_1088x1024

Flestir sem fylgst hafa með gengi sjávarútvegsins undanfarin ár skilja að hið frjálsa framsal kvótans er grundvöllurinn að hagræðingu í greininni. Til langs tíma er því ekki fær leið að hafa þar mikil opinber afskipti. Slíkt getur kallað yfir okkur að sjávarútvegurinn lendi á ný á þeim brauðfótum sem hann var á fyrir aldarfjórðungi síðan.

Að þessu sögðu er engu að síður mikilvægt að aðilar í sjávarútvegi og stjórnmálum geri sér grein fyrir að sá gríðarlegi niðurskurður aflaheimilda sem nú er staðreynd kallar fram neyðarástand sem getur orðið þjóðarbúinu og íslenskri menningu mjög dýrt. Það eru alvarlegir hlutir og kostnaðarsamir ef byggð leggst af á Vestfjörðum svo dæmi sé tekið.

Okkur sem nú göngum hér um íslenska storð ber mikil skylda til að skila landinu til afkomenda okkar í því ástandi að möguleikar þeirra séu ekki lakari en okkar. Ef við högum málum þannig að stór hluti af landinu fer í eyði þá höfum við brugðist í því hlutverki.

Ódýrast að kaupa kvóta handa byggðunum

Auðveldasta og örugglega ódýrasta leiðin til að afstýra alvarlegum ógöngum byggðanna nú er að opinber sjóður undir stjórn ríkis og hagsmunaaðila kaupi kvóta út úr kerfinu, á markaðsverði, til úthlutunar til einstakra byggðarlaga. Það getur gerst með forkaupsrétti eða útboði,- allt er það útfærsluatriði.

Ég geri mér fulla grein fyrir að það þarf mikinn pólitískan kjark til að fara þessa leið. Gagnrýnt verður að ríkissjóður kosti þannig kaup á þorskkvóta, sameign þjóðarinnar, af sægreifum þessa lands. Og pólitískar úthlutanir verða aldrei hafnar yfir gagnrýni. Það er engu að síður nauðsynlegt við þær aðstæður sem nú ríkja að grípa til ráðstafna á þessum nótum.

Núverandi byggðakvóti gagnrýndur

Flestir eru sammála um að núverandi skerðing á kvóta bjóði ekki upp á aukinn byggðakvóta af heildinni. Það er einfaldlega ekki af neinu að taka til þess og krafa útgerðarmanna er raunar að byggðakvótinn verði með öllu afnuminn. Það skiljanleg krafa þó ég geti ekki tekið undir hana.

Með sérstökum tímabundnum forkaupsrétti á kvóta mætti engu að síður koma því á að afnema allan annan byggðakvóta og ráðstafa þess í stað hluta af þeim kvóta sem kemur á markað til byggðatengdra verkefna.

Til lengri tíma litið þarf vitaskuld aðrar og róttækari aðgerðir í byggðamálum og margt af því sem ríkisstjórnin leggur þar til er góðra gjalda vert. Guð láti þar gott á vita og að efndir fylgi þar orðum.

Byggðirnar í landinu þurfa þess við.

(Birt í Blaðinu í Reykjavík 21. júlí 2007 - að vísu án kortsins sem er hér er ætlað að minna stjórnarliða þessa lands á að Ísland er stórt og vogskorið...)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll, Bjarni !

Hvaðan úr ósköpunum ert þú sprottinn ?  ''Ríkið getur ráðstafað kvóta til sjávarbyggðanna'' ......... hvers lags ambögur eru þetta hjá þér; Bjarni ? Hélt, að þú vissir, að fullreynt væri, með ''bjargráð'' Reykvísku stjórnanna, undanfarna áratugi. Hverjir hafa verið duglegastir í, að níða niður landsbyggðina ?; jú þeir flokksbræður þínir margir, með skálkinn Halldór Ásgrímsson, hinn makráða, í broddi fylkingar. Hvar hefir þú verið Bjarni, síðan á árunum 1983 - 1984; og til dagsins í dag ? Ekki má gleyma þætti uppskafningsins Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, í harmkvælum íslenzkra lands- og þjóðhátta. 

Það er, úr því sem komið er; skárra,, að fræðingastóðið, á Hafrannsóknastofnun Íslands og Fiskistofu fari á atvinnuleysis  bætur, og sjómenn og landverkafólk fái frið til þess, að vinna þau verðmæti, hver úr hafinu gefast, og vísustu menn útvegsmanna og skipstjórnenda ákvarði veiðar, hvers árs, og hætt verði að fylgja ''ráðgjöf'' Reykvískra pappírakontórista, með eðal drenginn Jóhann nokkurn Sigurjónsson; frænda minn, í broddi fylkingar. 

Við Sunnlendingar (ég að vísu, að hálfu), eigum að taka undir með þeim Vestfirðingum, hverjir hunza vilja með öllu, ''stofnanir'' Reykjavíkur ráðríkisins, í fiskveiðistjórnun og aflabragða. Það er nóg komið, Bjarni Harðarson !  

Jæja, rétt að hleypa Já kórnum þínum að, Bjarni minn.

Með andskoti blendnum kveðjum / Óskar Helgi Helgason  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 23:08

2 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

"Ríkið getur" er ekki komið nóg af ríkisafskiptum. Eru þau ekki undirrót vandans? Er ekki best að gefa sjómönnum kost á að veiða sinn fisk án frekari ríkisafskipta. Þessi afskiptasemi hefur fært nokkrum útvöldum allar veiðiheimildir og rústað einstaklingsframtakinu í hinum smærri byggðum landsins. Á að laga það með enn frekari ríkisafskiptum?

Gunnar Skúli Ármannsson, 29.7.2007 kl. 00:18

3 identicon

Hverslags bull er þetta Bjarni ? Ríkið leigi það sem kemur á leigumarkaðinn og deilir því út fyrir vestan ??? Hvað með okkur hinna sem ekki búum fyrir vestan enn sækjum sjóinn eins og þeir og eigum allt okkar undir því að geta leigt kvóta ??? Eigum við að taka skellinn ? Þér að segja Bjarni þá höfum við blætt nóg fyrir lífið svo svona nokkuð bætist ekki við.

Jón Ölver Magnússon (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 02:23

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Við skulum taka í okkur kjark og hætta að tala um stjórnun fiskveiða og rýrnun veiðiheimilda ár eftir ár eins og eitthvert óleysanlegt vandamál.

1. Úthlutun aflaheimilda skapar ekki eignarrétt. Þrátt fyrir það er fjöldi útgerða að græða stórfé á leigu þessara réttinda. Og þrátt fyrir er búið að rölta með 400 milljarða af seldum kvóta út úr greininni. FYRIR AUGUNUM Á LÖGGJAFANUM!!!!!

2. Ástand fiskstofnanna er komið í alvarlega kreppu að mati fiskifræðinga. Flestir sjómenn segja að þetta eigi ekki við rök að styðjast og fréttir berast hvaðanæva að af mikilli þorskgengd.

3. Hver heilvita maður veit, já VEIT að botntrollið í dag eyðileggur allt lífríki botnsins sem það er dregið yfir. Þau troll sem við vorum að fjargviðrast yfir á dögum erlendu togaranna  við Íslandvoru eins og meinlaus silunganet í samanburði við þennan hrylling. og togkraftur gömlu togaranna eins og hjá tvírónum árabáti í þeim samanburði. Er líklegt að beitilöndin okkar skiluðu góðri nýtingu ef við drægjum yfir þau margra tonna ávinnsluherfi árum saman?

Ég vil banna notkun orðsins hagræðing þegar fiskveiðistjórnun okkar er í umræðunni. Þessi hagræðng svonefnd er nefnilega orðin að þjóðarlygi. Og það fyrirbæri er skaðlegt hjá sæmilega upplýstum þjóðum.

Árni Gunnarsson, 29.7.2007 kl. 09:00

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Það er vandrataður meðalvegurinn í þessum málum Bjarni/Þessi kvótaleiga fer  nú  minnkandi mjög við aflaskerðinguna/En Rikið getur samt aukið kvóta til þeirra sem verst eru settir,bara arlega´,meðan á þessari skerðingu stendur,sem nátturlega akki átti að vera!!!Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 29.7.2007 kl. 17:22

6 Smámynd: Bjarni Harðarson

þetta er svo afdráttarlaust þegar gunnar vinur minn á núpi segir að ég skuldi mönnum svar - veit ekki hvar á að byrja enda margt óljóst í spurningum. ég get ekki skilið að það rýri kjör annarra sem leigja kvóta þó svo að ríkið leigi eitthvað af þeim kvóta sem kemur á markað til þeirra sem eru í jaðarbyggðum. eftirspurn getur auðvitað aukist lítillega en ekki svo neinu skipti. það er svar við athugasemdum jóns ölvers. varðandi það sem gunnar, árni og fleiri segja: vitaskuld eru ríkisafskipti ekki alltaf til góðs en ef ég skil komment hér að ofan rétt vilja menn helst afnema allan kvóta og leyfa öllum að veiða eins og þeim sýnist enda séu allir sérfræðingar í rvík ómarktækir. en þetta er ekki mín skoðun og ég efa að nokkurntíma náist samstaða um svo róttæka lausn. meðan það er kvóti ákveðinn af hinu opinbera hljótum við að ræða hvernig honum er ráðstafað og hvort rétt sé að breyta þar í einhverju útaf því sem gert er í dag. kæri halli; þú nefnir að ríkið geti aukið kvóta til þeirra verst settu - já ég held að það sé rétt en það verður þá að gera það með einhverskonar kvótaleigu. dæmið frá flateyri sannfærir mig um það að byggðakvóta megum við aldrei gefa til varanlegrar eignar. það er nóg komið af slíku óréttlæti...

Bjarni Harðarson, 29.7.2007 kl. 22:13

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

1. gr. fiskveiðistj. laganna segir að úthlutun veiðimeimilda sé ekki varanleg og "myndi ekki eignarétt".   Getur þetta verið skýrara? 

Er Halldór ekki annars hættur sem formaður?

Sigurður Þórðarson, 30.7.2007 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband