Össur skrifar um Framsókn

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra á það til að vera málefnalegur í bloggi sínu og nú eru á síðu hans nokkrir pistlar sem eru alveg þess virði að renna yfir þá. Ég er raunar sammála þeim Össuri og Steingrími Hermannssyni sem telja að Írakstríðið hafi verið sú eiturpilla sem mestu réði um fylgishrun flokksins.

Hitt er svo einfaldur útúrsnúningur iðnaðarráðherrans að gagnrýni framsóknarmanna á heimkvaðningu friðargæsluliða hafi verið einhverskonar staðfesting á stríðsvilja austur þar. Fyrst og fremst var þessi heimkvaðning óheppileg vegna þess að okkur ber að sýna samstöðu með öðrum þjóðum í uppbyggingu í Írak og því fer fjarri að friði í Írak hafi stafað ógn af sómastúlkunni Herdísi Sigurgrímsdóttur. Hún er eins og nafnið bendir til af Holtskyni hér úr Flóa og að nokkru leyti uppalin af prófasti okkar Árnesinga. Betra eintak finnst ekki til að koma lagi á hluti þar eystra.

Reyndar er allt það besta í pistli Össurar tilvitnun í Steingrím Hermannsson og góðra gjalda vert. Steingrímur telur í sjónvarpsviðtali að Framsóknarmenn hafi ekki staðið sig sem skyldi í velferðarmálum og undir það geta allir tekið,- að auðvitað vildu allir okkar flokksmenn gera þar betur. Hitt má ekki gleymast að íhaldið hefur í þessu sem öðru haldið um budduna og það er drýgst. Kannski var feill okkar að taka ekki fjármálaráðuneyti fyrir fjórum árum í stað forsætisráðuneytis.

En hafi Framsókn farið illa út úr velferðarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk þá horfir ekki betur fyrir Samfylkingu sem í fyrsta lagi gefur heilbrigðisráðuneytið eftir til íhaldsins,- svo lágt þurftum við aldrei að leggjast. Og í öðru lagi lætur Sjálfstæðisflokkinn leiða velferðarráðstafanir á vorþinginu sem eru margar þær vitlausustu sem framkvæmdar hafa verið. Ég er ekki viss um að krötum gangi hér betur en Framsóknarmönnum að koma vitinu fyrir súkkulaðidrengi íhaldsins. En guð láti samt gott á vita, Össur!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ekki voru nú tilburðir framsóknarmanna í þá veru að koma vitinu fyrir súkkulaðidrengi íhaldsins áberandi. Og talandi um súkkulaðifíkla er vert að minnast á tilgreinda framsóknarmenn sem tengjast S hópnum margnefndum.

Skuldar Guðni Ágústsson ekki sauðfjárbændum víðsvegar um land afsökunarbeiðni fyrir lokun allmargra sláturhúsa? Framkvæmdastjóri Kaupfélags Skagfirðinga míns fyrrum viðskiptafyrirtækis er líklega ekki í hópi súkkulaðidrengja Framsóknarflokksins.

Hvað áhrærir umræddan talsmann Samfylkingar kæmi mér á óvart ef ekki sannaðist á honum og flokki hans þegar fram í sækir að "djarfur er hverr um deildan verð."

Forgangsröðun við jólasveinapoka ríkiseignaúthlutunar var afar vel ígrunduð og vel skipulögð á valdatíma D og B.

Þar náðist næstum "hin fullkomna sátt."

Árni Gunnarsson, 24.9.2007 kl. 16:32

2 identicon

Velferðarráðstöfun er að setja upp tvö klósett við Austurveg þar sem áður var ekkert.

Vextir: Í gamla daga tók (fékk) fólk ekki lán en sparaði fyrir hlutunum. Ætli sparnaður heit ekki "Framsóknarmennska"  nú á dögum? 

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband