Aðalatriði og aukaatriði í stóra REI málinu

Flokksbróðir minn Björn Ingi var í Kastljósviðtali í gærkvöldi um hið umtalaða REI-mál og lagði þar áherslu á að menn horfðu á aðalatriði málsins sem er sá mikli ávinningur sem Íslendingar geta haft af útrás orkufyrirtækjanna. Ég er sammála Birni að mögulegur og reyndar næsta vís ávinningur okkar af orkuútrásinni er mikilvægur. En hin pólitíska hlið þess máls snýr ekki að þeim ávinningi. Hin pólitíska hlið snýr að því að fulltrúar fólksins í borginni hafa orðið uppvísir að spillingu og óheiðarlegu gróðabralli með það sem almenningur á. Það er ekki hægt að skjóta sér undan þeirri umræðu og sinni ábyrgð með því að tala um eitthvað annað.bjorn_ingi

Björn Ingi vék líka að því aðspurður að ég hefði einhverjar sérskoðanir á orkumálum sem ekki væru nú í samræmi við samþykktir flokksins. Það er algerlega fráleitt enda veit ég ekki hverjar þær sérskoðanir ættu að vera. Ég hef eins og Björn Ingi talið að við Íslendingar eigum að hasla okkur völl í alþjóðlegri orkuútrás og að þar sé fullkomnlega eðlilegt að til komi samstarf einkafyrirtækja og opinberra. Innan þessa starfs geta menn svo rætt það hvort útlendingar megi eignast hluti í íslenskum orkufyrirtækjum og eins hvort æskilegt sé að einkaaðilar eigi í fyrirtæki eins og Hitaveitu Suðurnesja. Það er enginn stórfelldur ágreiningur um þessi mál innan Framsóknarflokksins.

Gagnrýni mín og annarra Framsóknarmanna á stóra REI-málinu snýr að aðferðafræðinni sem viðhöfð hefur verið og ég ætla ekki að dæma um það í smáatriðum hverjir hafi verið gerendur í einstökum leikþáttum þessa máls, kauprétti Bjarna Ármannssonar, áformuðum kaupum annarra o.s.frv. Að ég tali ekki um þá ákvörðun að þessi stóru fyrirtæki voru aldrei verðmetin af viðurkenndum aðilum. Í málflutningi rekst hvað í annars horn. En ég fullyrði að þeir menn sem að öllu þessu ferli stóðu hafa ekki gætt hagsmuna sinna umbjóðenda og þeir hafa einnig unnið útrás íslenskra orkufyrirtækja ómældan skaða því að fyrirtækið REI verður ekki svipur hjá sjón á eftir. Á Vesturlöndum hefur það tíðkast um áratugaskeið að stjórnmálamenn axli ábyrgð sinna gerða. Það sama á að gilda á Íslandi.

Að lokum þetta: Í daglegum störfum legg ég mig fram um að styðja eigin flokksmenn og á það til að sitja á mér og mínum skoðunum af tillitssemi við þá og þeirra sjónarmið. Reyni þá frekar að ræða slíkt á lokuðum vettvangi. Þetta á við um skoðanamun innan heilbrigðra stjórnmálahreyfinga. Þegar kemur að spillingu gilda þessi lögmál samstöðunnar alls ekki nema stjórnmálaflokkur sjálfur sé í eðli sínu spilltur. Bara svo það sé á hreinu, þá er Framsóknarflokkurinn það ekki. Þessvegna er þetta rætt hér.

PS: Vegna komments við síðustu grein; Jóhann, það styttist í að greinaskrif mín um spillingu í stjórnmálum líti dagsins ljós,- geymt en ekki gleymt. Þakka kommentið.

PPS: Það verður viðtal við mig á Stöð2 núna á eftir, frekar tvö en eitt reyndar, eitt í fréttatíma og annað í magasínþættinum...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er óskyljanlegur málflutningur. Þú rekur það að í öllum grundvallaratriðum hafi þessi gjörningur verið takt við stefnu framsóknarflokksins. Samt segir þú að að málið hafi ekki verið unnið með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi og að spillingin ein hafi leitt menn áfram. Það er nú samt fátt sem þú bendir á sem rökstyðja þessa niðurstöðu og hvað þá þá ótrúlegu yfirlýsingu þína í fréttum áðan að Björn Ingi eigi að segja af sér. Þú bendir á að aðferðarfræðin hafi ekki verið sú rétta og þegar rigerðin er skoðuð þá situr í raun aðeins eitt eftir þ.e. kaupréttarsamningarnir. Bjarni; Það er fullt af fólki sem hefur reynslu úr viðskiptalífinu sem myndi telja það sem þú setur mest útá góða aðferðarfræði og það er ekki endilega spillt. Þetta nýstofnaða fyrirtæki á að starfa á almennum fyrirtækjamarakaði og þrátt fyrir opinbera eign að hluta þá verða að gilda um slík fyrirtæki sömu lögmál og um önnur fyrirtæki á sama markaði. Það er almennt talið skynsamlegt að tengja fjárhagslega afkomu stjórnenda og lykilstarfsmanna við fjárhagslega afkomu fyrirtækjanna og er alvanlegt á hinum almenna markaði. Eins og margoft hefur komið fram þá er þekking aðaleign þessa nýja fyrirtækis. Þessi þekking er ekki efnisleg eign sem hægt er að loka inn í peningaskáp heldur felst í umræddum starfsmönnum. Þeir geta farið annað hvenær sem er. Þessir samningar geta því verið góðir og skynsamlegir þegar horft er til þess markmiðs að auka eign borgarbúa og er það ekki sem við viljum öll.

 Ég get alls ekki botnað í framgöngu þinni Bjarni í þessu máli. Ég er framsóknarmaður og þú ert svo sannarlega ekki að tala fyrir minn munn. Getur verið að að hún tengist fyrirhuguðu formannslag í flokknum?

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 19:43

2 identicon

Sæll Bjarni.

Ágætt blogg hjá þér.

Spurt er hins vegar, af hverju eiga opinber fyrirtæki að taka þátt í útrás. Fyrirtæki sem er með skýrt afmarkað hlutverk, af hverju ætti það að vera að þvælast í verkefnum sem koma grunnstarfsemi ekkert við?

Vil benda á bloggfærslu mína (Mögnuð útrás í almannaþjónustu) um þetta efni sem vonandi gefur einhver svör.  

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 20:26

3 identicon

Haltu áfram að standa með eigin samfæringu Bjarni, þá mun þér farnast vel.

Það hefur oft verið erfitt að sitja undir því að maður sé í spiltasta flokknum, en aldrei eins og nú!  Þá er gott að geta bent á, þó ekki sé nema einn þingmann, sem ÞORIR að standa á móti og mótmæla þeim augljósa spillingar gjörningi, sem alþjóð hefur fylgst með undanfarið. 

Miðað við bolgg framsóknarmanna í dag mætti halda að dagskipun forrráðamanna flokksins sé að þeim finnist sökin öll vera Sjálfstæðismanna, en að "okkar" fulltrúi hafi ekkert rangt gert!  Það er vægast sagt ömurlegt að horfa upp á þetta.  "það er ekki einum bót, þótt annar sé verri" er máltæki sem forysta okkar ætti að hafa að leiðarljósi.  Við tökum til í eigin ranni, áður en að við ráðumst á ruslið hjá nágrannanum!  Hvað er Guðni að hugsa???

með bestu kveðju, Sigrún Jóns.

Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 21:50

4 identicon

Sæll Bjarni Harðarson

 

Íslendingar eiga að taka þátt í alþjóðlegri orkuútrás og fullkomlega eðlilegt í því samhengi að til komi samstarf einkafyrirtækja og opinberra. Þetta segir m.a. í samþykktum Framsóknarflokksins. Á vettvangi borgarmála og innan Orkuveitunnar hefur Björn Ingi fylgt þessum hugmyndum eftir. Í þessu stóra REI máli eins og þú kallar það á heimasíðu þinni gerði Björn Ingi hins vegar þau mistök að standa að mjög umdeilanlegum kaupréttarsamningum. Ég get verið sammála þér um það. Og það er alveg ljóst að allt fárið í kringum þetta mál snýst um þessi kaupréttarmistök, ekki um þau markmið að nýta mannauðinn og þekkinguna til orkuútrásar.

Ég er hins vegar undrandi á því hvernig þú tekur á þessu máli. Þú flýtur með í fárinu og hneyksluninni og hrópar hiklaust að flokksfélaga þínum: Burt með hann, burt með hann. Þú gefur honum ekki tækifæri til að útskýra málin heldur smjattar á orðinu spilling. Ég geri þá lágmarkskröfu til þín sem þingmanns að þú kynnir þér málin til hlítar áður en þú kemur hofmóðugur í sjónvarpsviðtal og setur nánast fram þá kröfu að Björn Ingi verði rekinn með skömm, væntanlega úr borgarstjórn og síðan úr flokknum. Á annan hátt var varla hægt að skilja þinn málflutning. Ég minni þig á, að Steingrímur Hermannsson hlaut í byrjun síns ferils talsverða ágjöf í frægu baunamáli. Björn Ingi gerði mistök Í REI málinu en mun draga lærdóma af því eins og Steingrímur gerði forðum.

Ég hlýt að velta því fyrir mér eins og fleiri hvað fyrir þér vakir. Ég velti því líka fyrir mér hvað Guðna gengur til í upphafi síns formannsferils að gefa út ævisögu sína nú í haust þar sem boðað er opinskátt uppgjör við Halldór Ásgrímsson. Er það aðferðin til þess að efla og styrkja flokkinn eftir hrunið mikla í síðustu kosningum. Eilífur ófriður og bræðravíg.

Mér dettur í hug sagan af Friðriki í Kálfagerði. Á safnaðarfundi á Möðruvöllum var deilt um kirkjubyggingu og voru umræðurnar harðar og hvassar. Vildu þá einhverjir bera klæði á vopnin en Friðrik brýndi þá raustina og sagði: „Engan frið, engan frið, heldur einlægan, andskotans ófrið”. Eru það ær og kýr ykkar Sunnlendinganna?

 

Gísli Steinar Sighvatsson

Gísli Steinar Sighvatsson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 23:21

5 identicon

var sáttur við þetta viðtal hjá þér í prinsippinu. Gott að einhver sér að Björn Ingi þarf að fara.

Held að PR-lega séð hefði framsókn grætt heilmikið á því að Björn Ingi myndi segja af sér, standa upp og fara. Ef hann hefði gert það fengi Framsókn töluvert fylgi og myndi sína í verki að hann hefði áhuga betrun.

Guðni formaður blés þetta af í viðtalinu sem kom á eftir þér í fréttatímanum í kvöld. Ef hann hefði sagt sama og þú, að Björn Ingi þyrfti að segja af sér væri framsókn í góðum málum.

Er nokkuð viss um að Villti Spillti Villi verði farin áður en vikan er öll. Hverjir standa þá með Pálma í höndum? Ekki verður það framsókn með sinn spillta borgarfulltrúa á kafi í gumsinu? Þá verða Sjálfstæðismenn enn og aftur búnir að varpa sökinni á Framsókn. Þið ætlið aldrei að læra. Menn komu eftir þingkosningar og í minnihluta á þingi grátklökkir í hvert viðtalið á fætur öðru, og töluðu um óréttlæti heimsins að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið allt sem jákvætt hefði þótt í samstarfinu, en framsókn allt það neikvæða. Sama fléttan verður uppi á teningnum í borginni. Villti Spillti Villi segir af sér, Sjallarnir fá fylgi, VG fá fylgi út á sinn málflutning og bingo, framsókn tapar aftur.

Er ekki kominn tími á almennilegt PR í framsókn?

Johann (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 23:31

6 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Sæll Bjarni. Vísa til bloggs míns í kvöld um sama málefni...........

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 10.10.2007 kl. 01:13

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég get ekki skilið þig örðuvísi Bjarni en þannig að þú viljir að villi vitlausi og Björn spillti verði látnir taka pokann sinn þótt þú segir það ekki berum orðum.. ef svo er þá mæltu manna heilastur og gerðu þá kröfu opinbera þótt Guðni Ágústson hafi af gunguskap skipað sér á bak við spillinguna..

Þú átt ærið verkefni fyrir höndum því Framsóknarflórinn er bæði djúpur og fullur af skít undanfarna áratuga en einhverstaðar verður að byrja.

Óskar Þorkelsson, 10.10.2007 kl. 08:03

8 identicon

Sæll Bjarni

Mér fannst nú Björn Ingi komast vel frá sínu í viðtalinu í Kastljósi. Yfirvegað fór hann yfir málið frá A-Ö. Greindi hismið frá aðalatriðunum og útskýrði það sem skipti máli.

Mér fannst hann útskýra vel tilkomu þessa kaupréttasamninga og upplýsti meðal annars að fyrirtæki í eigu OR þ.e. Ennex hefði slíkt fyrirkomulag sem og GGE og því óeðlilegt að þegar þrjú fyrirtæki sameinuðust að þá væru starfsmenn eins fyrirtækisins ekki með sömu tækifæri og hinir þ.e. starfsmönnum væri mismunað.

Aðalatriðið í þessu er að nú virðast Sjálfstæðismenn ætla að nýta tækifærið til að einkavæða orkugeirann á þeirri forsendu að einkageirinn og sá opinberi gætu ekki starfað saman. Þetta er hið stóra pólitíska mál og má ekki verða.

Við Framsóknarmenn verðum að standa vörð um það sem ríkisstjórnin setti af stað þ.e. sölu orkufyrirtækja. Slíkt hófst ekki hjá Birni Inga heldur alþingismönnum vorum.

Ég hef mikla trú á þér sem þingmanni fyrir okkur Framsóknarmenn en við verðum að vita hverju sinni fyrir hvað við stöndum og greina hismið frá. Ég hef trú á því að þú standir með okkur Framsóknarmönnum fyrir því að orkugeirinn á Íslandi hverfi ekki í einkahendur.

Björn Ingi er að standa sig vel í þessu máli, traustur og yfirvegaður.

Með kveðju frá köldu svæði... hehe
Ísafirði

Björgmundur (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 11:04

9 Smámynd: Ég

Jibbí að það er e-r stjórnmálamaður sem þorir að segja það sem við hin erum að hugsa.   Ekki láta PR-liðið þagga niður í þessu.  Þetta snýst um aðferðarfræði og siðferðiskennd kjörinna fulltrúa þegar þeir fá óvænt tækifæri til að taka þátt í peningadansi auðmanna Íslands.  Þetta eru bullandi klárir menn (auðmennirnir :)) með mikinn sannfæringar/sölu- kraft en það er ætlast til að stjórnmálamenn í valdastöðum hafi gáfur og þor til að leggja sjálfstætt siðferðislegt mat á hlutina!

Ég, 10.10.2007 kl. 13:41

10 identicon

Heyrist þessi Björmundur vera þessi framsóknarmaður af gamla skólanum sem er ánægður með allt sem goðin hans gera. Hann getur meira segja í ánægjutón um það sem sjálfur Björn Ingi hefur verið að bralla. Held það fyrirfinnist ekki margir menn sem þannig er ástatt fyrir, hvorki á köldum né heitum svæðum.

Framsókn ætti að láta Björn Inga fara. Hann sér greinilega ekkert að því sem hann var að gera, skammtandi sínum náunustu bitlingum og annað í þeim dúr

Johann (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband