Alvarleiki þenslunnar í þingræðu...

(Það eru margar þingræðurnar sem fluttar eru og ekkert alltaf fyrir stórtíðindum en þegar ég var að lesa próförk að ræðu núna áðan sem ég flutti á fimmtudag þá fannst mér hún það fjári góð að full ástæða væri til að skella henni hér inn en ég er hérna að býsnast yfir ríkisútgjöldum í umræðunni um fjáraukalög og veitir ekki af eins og fjárlagafrumvarpið er núna. Fyrr í þessari ræðu hafði ég reyndar orð á að fjármálaráðherra ætti að taka inn fjárveitingu í fjáraukalögin fyrir Grímseyjarferju og sama hafa aðrir Framsóknarmenn bent á í umræðuna. Þetta er reyndar bara niðurlag á ræðunni.)

Torbergur-Tordarsson-Espera

...Það sem er aftur á móti mikið umhugsunarefni eru þeir 70 milljarðar sem fundust í ríkiskassanum við endurmat á ríksreikningnum og koma fram í fjáraukalögum. Þessir 70 milljarðar og þessi góða staða ríkissjóðs hefur skapað mikla stemningu í hinni nýju ríkisstjórn. Það hefur svo sem lengi verið ákveðin Klondyke-stemning í íslensku efnahagslífi og það er máli að linni. Í stað þess að ríkisstjórnin taki á efnahagsvandanum og átti sig á því að vandamálið er ekki það að lítils háttar hefur safnast fyrir í ríkissjóði heldur er vandamálið ofkeyrsla hagkerfisins þá ákveða ríkisstjórnarflokkarnir að koma fram með þenslufjárlagafrumvarp og þarf í rauninni að fara aftur fyrir tíma þjóðarsáttar til að finna jafnmikla aukningu ríkisútgjalda milli ára og nú er boðuð.

Að hluta til er þetta byggt á spádómum sem voru hér aðeins til umræðu í svörum og andsvörum milli hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Ég get alveg tekið undir með hæstv. fjármálaráðherra að ég held að efnahagsskrifstofa þingsins, jafnvel þótt þær væru þrjár, mundu litlu breyta um þetta ástand, mundu lítið laga stöðuna. Við sem sitjum í fjárlaganefnd höfum kynnst því á undanförnum dögum að það koma fram mjög margar og mismunandi spár um efnahagsástandið. Það sem ríkisstjórnin gerir er að velja eina þeirra, fjármálaráðuneytið gerir mat á þessum spám og gerir sína eigin út frá þessu og út frá henni eru ríkisútgjöldin ákveðin.

Herra forseti. Við getum einfaldlega aldrei lagt þá ábyrgð á sérfræðinga þjóðarinnar hvernig ástandið verður í hagkerfinu og þess vegna erum við kjörnir til þeirra starfa sem við gegnum hér. Það sem er lykilatriði að komi til viðbótar er hið pólitíska mat. Hið pólitíska mat segir okkur að þessar spár um gang efnahagslífsins eru allar vanáætlaðar og hafa verið það um mjög langt skeið. Það er ekkert sem bendir til að þar sé að verða stórfelld breyting á og fjáraukalögin koma í rauninni þessu máli við þannig að þau sanna það að enn og aftur eru spár hagfræðinga og sérfræðinga, sem vinna þær eftir bestu samvisku, ég ætla ekki að gagnrýna þá og þeim að töluverðu leyti saman, ekki endanlegar, það þarf að leggja á þær pólitískt mat.

Þetta er alveg sami hlutur og við höfum rætt hér lítillega í sambandi við þorskstofninn, ég ætla ekki að fara út í það í smáatriðum en mundi gera það ef hér væri viðstaddur hæstv. byggðamálaráðherra vegna þess að honum hefur ekki gengið sem öðrum að skilja gildi þessa. Það er í rauninni ekkert undrunarefni í mínum huga að hv. þm. Jón Bjarnason og hæstv. byggðamálaráðherra skilji þetta svolítið öðruvísi. Þeir tímar voru að menn trúðu á vísindalega stjórnun samfélagsins og arfur af þeirri hugsun er víða í pólitískri hugsun samtímans að það sé einfaldlega hægt að reikna þetta allt út. (Gripið fram í: Með Byggðastofnun?) Byggðastofnun er ekki reiknistofnun eftir því sem ég best veit og kemur þessu máli ekki við. Þetta er ekki svo einfalt að við leggjum bara hina pólitísku ábyrgð og hagstjórnina alla í hendur hagfræðinga og segjum: Komið með vísindalega niðurstöðu.

Mitt helsta átrúnaðargoð í bókmenntum, Þórbergur heitinn Þórðarson, talar um þetta á einum stað, að þeir tímar muni koma að hér verði vísindaleg stjórnun á samfélaginu. Margir trúa á þetta enn, þeir eru farnir að trúa þessu í Brussel aftur núna. Það leysir ekki vandann að þrátta um það hér hvort spárnar séu réttar, það er ekki vandamálið varðandi fjárlagagerðina á Íslandi. Vandamálið er að það vantar kjark og raunsæi til að taka á efnahagsmálum. Það vantar þann kjark að leggja pólitískt mat á allar þessar spár, það þarf ekkert að horfa mjög lengi á þær og bera þær saman við það sem verið hefur undanfarin ár og ég held að allir hugsi það sama þegar þeir horfa á þessa spá: Þetta er vanáætlað, kreppan er ekkert að koma. Tilefni til að koma með kreppufjárlög er ekki fyrir hendi, herra forseti. Það er einfaldlega ekki þannig að við höfum leyfi til að keyra efnahagslífið upp með þeim hætti sem núverandi ríkisstjórn vill gera í kapp við einkageirann og í kapp við hið frjálsa efnahagslíf. Það er ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar.

Hitt skal ég fyrstur manna viðurkenna að þegar harðnar á dalnum þurfa stjórnvöld vissulega að grípa inn í, þá þurfa þau vissulega að vera tilbúin. Ég stóð sjálfur í kosningabaráttu minni margoft frammi fyrir þeirri spurningu frá kjósendum mínum og þeim sem kannski voru að hugsa um að kjósa mig og kannski hættu við að kjósa mig af því hvernig ég svaraði: Á ekki að ráðast í stórfelldar vegaframkvæmdir, á ekki að gera þetta allt á næstu árum? Svar mitt var alltaf það sama, að það ætti ekki að ráðast í stórfelldar vegaframkvæmdir við núverandi aðstæður í efnahagslífi. Það ætti ekki að ráðast í stórfellda þenslu ríkisútgjalda við núverandi aðstæður í efnahagslífinu en ríkisstjórnin metur hlutina öðruvísi og hún gerir það með tvennt að leiðarljósi, ákveðna óskhyggju og ákveðna tegund af kjarkleysi. Kannski er það samstöðuleysi en það gerðist auðvitað í ríkisfjármálunum núna í nýrri ríkisstjórn að gullgrafaralyktin af þessum 72 milljörðum skiptir miklu máli í þessari mynd, þessir 72 milljarðar sem fundust á miðju sumri. Um það erum við hæstv. fjármálaráðherra sammála og höfum báðir sagt í þessum stól á síðustu dögum að það þarf sterk bein til að þola góða daga. Gulllyktin af þessum 72 milljörðum er einfaldlega svo sterk að það er ekki auðvelt fyrir nýskipaða ráðherra, fyrir menn sem eru nýsestir í fallega stóla að eiga að sitja á sér en það þurfa þeir bara að gera. Ef aðstæður breytast skyndilega til hins verra, ef skyndilega verður samdráttur þá gerist það samt ekki svo hratt að það sé ekki fært, með þeim forsendum sem eru í stjórnkerfinu, með nýjum fjárlögum. Það koma nefnilega alltaf aftur ný fjárlög. Mér finnst reyndar að hv. þingmenn átti sig ekki alveg á afstæði tímans, stundum tala menn eins og allt sé endanlegt. Þannig fáum við framsóknarmenn oft og einatt að heyra þá gagnrýni að við höfum ekki mikið um þetta að segja af því að við vorum í ríkisstjórn fyrir tæpu ári og af hverju við löguðum þetta ekki þá. Ef menn trúa því að allt sé svo endanlegt, spyr ég á móti: Af hverju var verið að kjósa eftir síðustu ríkisstjórn fyrst hún var svona góð? Var ekki bara búið að ákveða þetta allt saman?

Auðvitað þarf sífellt að taka á hlutunum, auðvitað er þetta sífellt viðfangsefni. En þegar við komum að stöðunni núna og berum saman þau fjárlög sem nú eru til umræðu og þau fjárlög sem hafa verið til umræðu undanfarin ár, segjum undanfarin 12 ár, þá eru fjárlögin og fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar núna alveg einstök, kannski vegna þess hve búið frá Framsóknarflokki er gott, frá samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks svo öllu sé til skila haldið, og kannski vegna þess að samstaðan í ríkisstjórnunum tveimur, ríkisstjórn Samfylkingar og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks er ekki eins góð og vera ætti.

Ég er ekki viss um að þingið geri sér alltaf grein fyrir því hvað er svona alvarlegt við það að keyrt sé hratt í kapp við einkaframtakið, að keyrslunni sé haldið uppi með einkaframtakinu og þenslunni sé haldið uppi. Við höfum fregnir af því að í hverri viku sé verið að bera fátækt fólk út úr húsum sínum í Reykjavík. Við höfum fregnir af því að á Íslandi séu hæstu vextir í heimi. Allt eru þetta afleiðingar af of harðri keyrslu á efnahagslífinu. Það er langt í frá að það eina eftirsóknarverða í hagstjórn sé meiri og meiri hagvöxtur, það er ekki svo einfalt. Eitt það eftirsóknarverðasta í hagstjórn er jafnvægi. Fjáraukalagafrumvarpið sem nú er til umræðu sýnir okkur fullvel að hér hefur skort nokkuð á þetta jafnvægi en afleiðingarnar af þessum fjáraukalögum og þeim 72 milljörðum sem þar eru til staðar boða okkur að ríkisstjórnin ætlar að standa að enn meira ójafnvægi í hagkerfinu og af því hef ég áhyggjur, herra forseti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Jónsson

Góð ræða hjá þér Bjarni og alltaf er þörf á að minna men á að fara hægt um gleðinnar dyr.

Magnús Jónsson, 17.10.2007 kl. 22:16

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Ég sá mig tilneyddan að lesa þessa ræðu þegar ég rak augun í myndina sem prýðir.

Við sem búum utan svæða sem notið hafa nýríkidæmis þessarar þjóðar, mundum alveg þyggja og þola uppbyggingu atvinnureksturs þó hann kostaði nokkra milljarða og orsakaði pínulítið hækkaða reikninga annarra landsmanna. Við höfum heldur betur þurft að súpa á því eftir að gjaldskrá rafmagns tók jóðsótt og kenndi okkur óbreyttum krógan.

Þórbergur Torfason, 17.10.2007 kl. 22:41

3 identicon

Skemmtilegur penni Bjarni. En það er hálffyndið að sjá flokksbróðir þinn Birki Jón Jónsson,þenja sig vegna Grímseyjarferjunar,held að hann ætti að hugsa aðeins til baka.

Jensen (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 22:48

4 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála þér Bjarni mér fannst þetta mjög góð ræða hjá þér þegar ég hlustaði á hana og það er ekki verra að lesa hana. Það var eðlilegt miðað við aðstæður að kalla þetta kreppufjárlög.

Jón Magnússon, 17.10.2007 kl. 23:41

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Er ekki Bjarni örugglega á þingi fyrir Framsóknarflokkinn, þann sama og var hvað duglegastur í óráðsíunni á vordögum í aðdraganda kosninga? Það leið ekki dagur án þess að undirritaðir væru alskonar fjárbindingar og útlát langt fram á öldina. Það er meira að segja svo langt gengið, að fólk er farið að tala um lög sem komið gætu í veg fyrir svona sukk.

Ræðan er hinsvegar fín og Bjarni ber sjálfsagt enga ábyrgð á heimskupörum formanns eða varaformanns, hvað þá fyrrverandi??

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 18.10.2007 kl. 10:09

6 Smámynd: Haraldur Haraldsson

mjög goð ræða Bjarni/og lofar góðu/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 18.10.2007 kl. 22:12

7 Smámynd: Svanur Jóhannesson

Það er nú ekki allt ykkur að þakka framsóknarmönnunum að búið er gott hjá meirihlutanum í ríkisstjórninni. Þú gleymir þjóðarsáttinni og hlut verkalýðshreyfingarinnar í málinu. Hann var stór. En af því myndin sem fylgdi ræðunni vakti athygli mína og tilvitnunin í meistara Þórberg þá ætla ég að senda þér hérna erindi úr ljóði sem nýlega kom í leitirnar:

Það var hann Þórbergur Þórðarson

rauðhærði bingdátinn sá:

enga mellu í öllu Kína

hann rak sig á

- fagurt er heima á Íslandi

og fleira sem þar má.

TMM. 3. 2007 (bls.38-40)

Svanur Jóhannesson, 19.10.2007 kl. 09:52

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ósköp venjuleg almenn skynsemi segir mér að til þess að reka samfélagið Ísland þurfi fjármagn. Til þess að tryggja tekjur fyrir útgjöldum þarf góðan og hagsýnan ríkisrekstur.

Samfélagið ísland er orðið vandræðabarn stjórnvalda í dag. Það truflar svo ákafann við að reka fyrirtækið Ísland með gróða.

Í öllum hamaganginum sem þessum rekstri fylgir hafa stjórnvöld hætt að gera greinarmun á hagnaði ríkisins og hagnaði einstaklinga/fyrirtækja.

Auðlindir þjóðarinnar eru afhentar til einkavæðingar hver af annari, orkan í fallvötnum og jarðhiti er boðin útlendingum á spottprísum en jafnframt skýrt frá því hversu mikið verðmæti hennar aukist á næstu árum.

Auðlindir hafsins eru nú seldar af "eigendum" manna á milli og skuldir útgerðar eru að aukast frá einum degi til annars.

Til að halda sultarlífi sjávarbyggðanna réttu megin við dauðamörk er gripið til sértækra mótvægisaðgerða sem vafi er um að nokkru muni skila sem bitastætt er í.

Og stjórnvöld eru á einu máli um að til þess að halda moldríkum lukkudýrum þjóðarinnar inni, verði að meðhöndla þau af sérstakri varkárni við skattlagningu. Sultarlaun "lágstéttafólks" skulu bera hæstu skattaprósentur en milljarðahagnaður auðmanna helst sem allra minnsta skatta.

Hafa samfélagsleg vandamál minnkað í því sturlaða kapphlaupi um peninga, stærri jeppa og dýrari hús sem nú stendur yfir?

 Nei, þau hafa aukist að mun frá því ég ólst upp í sárri fátækt.

Nú eru stjórnvöld í spennu og angist vegna óvissu um hvort við náum kjöri í Öryggisráðið sem er nýjasta dæmið um hið ótrúlega bruðl í utanríkisþjónustunni sem er félagsmálastofnun fyrir vonlausa pólitíkusa og bestu vini þeirra.

Handa hverjum er þetta land? 

Árni Gunnarsson, 19.10.2007 kl. 15:34

9 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Árni Gunnarsson eg verð að taka undir þessi orð þin ,þú ferð þarna á kostum/Bjarni mun eflaust svara þessu/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 19.10.2007 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband