Hver er hann þessi Framsóknarflokkur?

Upphafsmaður Framsóknarflokksins, Jónas Jónsson frá Hriflu grundvallaði í reynd íslenska flokkakerfið þar sem hann taldi að grundvöllur væri fyrir tvo miðjuflokka, krata og Framsóknarmenn. Úrlausnarefni okkar á nýrri öld er vitaskuld hvort sú skipting eigi enn við og hvað hafi breyst á 90 árum. Kannski ögn klaufalega orðað því þegar Ísland 21. aldarinnar er borið saman við árið 1916 er nær að spyrja hvað hafi ekki breyst, svo gerólíkt sem samfélagið er því fátækralandi sem Hriflu-Jónas gekk á hólm við með framsýni og þrautseigju.jonas_hriflu

Flokkakerfið skilgreint

Hriflu-Jónas grundvallaði flokkakerfið á stéttaskiptingunni og mismunandi sýn þjóðfélagshópa á samfélagsþróunina. Verkalýðinn í krataflokkinn, bændur og búalið í Framsóknarflokkinn og burgeisana í íhaldsflokkinn. Þegar kom að kommunum taldi gamli maðurinn þá í raun ekki flokkstæka eða eiga sér tilverurétt innan okkar lýðræðiskerfis enda væru þeir andsnúnir lýðræðinu. Þar eins og í mörgu öðru var Jónas langt á undan sinni samtíð.

Strax á millistríðsárunum sáu menn nokkra missmíði á þeim hugmyndum að binda saman stéttir og pólitískar hugsjónir og enginn gerir það í reynd í dag. En hugsjónirnar sem bundnar voru íslenska flokkakerfinu lifðu þær hremmingar af og sömuleiðis lifði Framsóknarflokkurinn góðu lífi fram eftir 20. öldinni þó atkvæðavægi íslenskra bænda færi langt niður fyrir 5%. Það sem einkanlega hefur orðið Framsóknarflokknum að falli var ruglingur í hugsjónagrunninum. Þennan rugling þarf að leiðrétta og þá á Framsóknarflokkurinn ekkert framundan nema vöxt og viðgang. Raunar meiri vaxtamöguleika en nokkur annar flokkur íslenskur.

Förum aðeins yfir fjórflokkinn:

Grundvöllur Sjálfstæðisflokksins eru hugsjónir frjálshyggjunnar og þar með hagsmunagæsla auðmanna. Innan flokksins eru sífelldir hugsjónaárekstrar alþjóðakapítalisma og hins þjóðlega kapítalisma, nú síðast með átökum með afstöðunni til ES.

Grundvöllur sósíaldemókratismans sem Samfylkingin sækir sinn styrk til er samspil jafnaðarstefnu og alþjóðahyggju þar sem stefnt er að því að jafna beri kjör þvert á stéttir, þjóðir og ríki. Til þess að ná markmiðum þessum ber að fella niður landamæri og fela völdin yfirþjóðlegum embættisstofnunum.

Grundvöllur Framsóknarstefnunnar er samspil þjóðhyggju og jafnaðarstefnu sem byggir þannig á fullveldishugsjónum og héraðavaldi. Það er ekki af tilviljun sem Framsóknarflokkurinn hefur frá upphafi tengst baráttu landsbyggðarhéraða fyrir sjálfsforræði frá miðstjórnarvaldi Reykjavíkur eða að flokkurinn á sér rætur í Ungmennafélagshreyfingunni með kjörorðinu Íslandi allt. Það sem skilur milli miðjuflokkanna tveggja er afstaðan til þjóðhyggju og alþjóðahyggju.

Grundvöllur Vinstri grænna er að vera á móti hverju því sem gert er en innan þess flokks er líka mikið af mætum Framsóknarmönnum. (Já og innan sviga þá er grundvöllur Frjálslynda flokksins að skapa lýðræðislegan valkost á hægri vængnum en rétt eins og með VG geymir sá flokkur marga góða Framsóknarmenn.)

Rangur misskilningur

Jafnaðarstefnan sem báðir miðjuflokkarnir aðhyllast hefur staðið af sér alla storma 20. aldarinnar og kemur sterkari fram á nýrri öld en nokkru sinni. Þannig hefur jafnaðarstefnan skotið föstum rótum í hinum stóra Sjálfstæðisflokki og flokkar kommúnista allt frá Sósíalistaflokki til Vinstri grænna hafa skreytt sig fjöðrum sömu hugsjóna.anti-nazi

Öðru máli gegnir um þjóðhyggjuna. Hún hefur átt sér sínar kreppur og martraðir, versta með misnotkun nasista á hugtökum hennar á árum seinna stríðs. Síðan þá hafa hugtökin „folk" og „nation" verið nokkurskonar bannorð á meginlandi Evrópu og lengi var því spáð að þjóðríkishugsunin væri á enda runninn með aukinni alþjóðavæðingu. Smám saman myndi hið frjálsa flæði fjár, hlutabréfa og fólks afnema heimskuleg landamæri og uppræta þar með úlfúð og átök mismunandi málsvæða og þjóða.

Það var í þessu andrúmi seint á 20. öldinni sem margir mætir Framsóknarmenn sáu sæng sína uppreidda og tilvistarkreppu framundan. Ekki bara að það fjaraði undan sveitunum heldur undan hugsjónagrunni flokksins, þjóðernisrómantíkinni eða þjóðhyggjunni eins og Jón Sigurðsson fráfarandi formaður flokksins kallaði hana. Í þessu andartaki gerðist það sem vinir mínir vestan af fjörðum kalla rangan misskilning en hugtakið er haft um ruglanda á háu stigi.

Fyrsta og alvarlegasta merkið um þennan rugling var klofningur flokksins við atkvæðagreiðslu um EES samninginn árið 1993 en allar götur síðan hefur andstaða við þjóðhyggjunna og þau grundvallaratriði sem henni fylgja valdið flokknum alvarlegum skaða. Svo alvarlegum að hann er nú tæpur helmingur þess sem var árið 1993.

Hver er úreltur?

Það fólk er vissulega til sem ekki hefur tekið eftir veðrabreytingum í straumum og stefnum samtímans og telur enn að þjóðhyggjan og þjóðríkið sé komið á fallandi fót. Í heiminum er alltaf mikið af úreltu fólki og úreltum skoðunum.

Staðreyndir heimsfrétta, þjóðfélagspælinga og tískusveiflna tala allt öðru máli. Við sjáum þess merki um heim allan að þjóðhyggjan hefur aldrei verið sterkari og það á sér afar eðlilegar skýringar. Eftir því sem heimurinn skreppur saman með tækni, velmegun og auknum samskiptum eykst þörf hverrar þjóðar til að marka sér stöðu í fjölbreytilegum sirkus. Ekki með neinskonar einangrunarstefnu heldur stendur valið milli þess að finna fjöl sína í þjóðhyggjunni og verða þar með þjóðlegur alþjóðasinni eða hinu,- að týna sér í skrílmenningu sjónvarpsfjarstýringarinnar.

Þeir sem unnan lýðræði og mannréttindum gera sér á sama tíma æ betur ljóst að ekkert getur staðið vörð um þessi helgu réttindi mannhelginnar með sama hætti og þjóðríkið enda engin tilviljun að lýðræðiskrafan fæðist fyrst með þjóðríkishugsuninni í byrjun nýaldar. Bæling þjóðhyggjunnar kallar hvarvetna á sömu vandræðin og birtist okkur í hörmulegum átökum Balkansskagans og broslegri stjórnarkreppu Belga í Brusselborg,- þeirri borg þar sem útrýma átti allri þjóðhyggju.

Framsóknarflokkurinn á sér ekkert nema bjarta framtíð, en það er rétt sem einn af flokksfélögum mínir nefnir nýlega á bloggsíðu sinni að til þess þarf hann að gera upp við þau mistök sem honum urðu á með atkvæðagreiðslunni um EES samninginn árið 1993. Flokkurinn þarf að vera trúr sinni þjóðhyggju í bráð og lengd.

(Birt í blaði Framsóknarmanna á Suðurnesjum á aðventunni.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Sæll Bjarni. Fyrir þennan mjög svo ritskoðan en meiriháttaðan pistil Bjarni færð þú 9.9 sem er hámarkseinkun hér á bæ hjá okkur þjóð-
hyggjumönnum . Hvet þig að láta hann birtast sem víðast........

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 28.12.2007 kl. 01:05

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hvað er 'rangur misskilningur' ?

sama og 'réttur skilningur' ?

Brjánn Guðjónsson, 28.12.2007 kl. 01:22

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hér kveður við tón hjá þér, tón sem mér líkar en á ekkert land í Framsókn.

Þjóðhollustan og iðkun góðra gilda á sér óðöl í Sjálfstæðisflokknum en hvergi annarstaðar nú um stundir.

Annars góður pistill og að mörgu leiti orð í tíma töluð.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 28.12.2007 kl. 08:36

4 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Sæll Bjarni og gleðileg jól. Frábær þessi pistill hjá þér.   Ó já, framsókn á eftir að vaxa ef við höldum rétt um taumanna...

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 28.12.2007 kl. 08:37

5 Smámynd: Bjarni Harðarson

kommentera yfirleitt ekki á komment en verð þó að svara spurningu brjáns,- rangur misskilningur er bara lókal húmor og merkir bara misskilningur, semsagt tvöföld neitun án þess að snúa við merkingu! og úr því ég er byrjaður,- nafni minn og skoðanabróðir í mörgu,- ég hefi miklar áhyggjur af íhaldinu fyrir hönd okkar beggja, ekki hvað síst eftir að þeir lögðust í sæng þá sem mér þykir eðlilegast að kenna við þorgerði hina skörulegu. og arnþór,- ég hefi aldrei látið mér detta í hug að framsóknarflokkurinn nái meirihlutafylgi og held að það sé rangt hjá þér að hriflujónas hafi látið sig dreyma slíka drauma,- við framsóknarmenn erum einfaldlega lýðræðissinnaðri en svo að þrá hér eins flokks alræði. og bara svo það sé á hreinu,- það er rétt skilið að ég tel framsókn geta vaxið mest allra vegna þess hve langt hann fór niður,- og í öðru lagi það er líka rétt hjá þér að framsóknarmenn þurfa að velta því fyrir sér fyrir hvað flokkur þeirra stendur. og guð hjálpi okkar flokki daginn sem flokksmenn verða svo hrokafullir að telja sig ekki þurfa þess...

Bjarni Harðarson, 28.12.2007 kl. 16:11

6 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mikið sagt og margt gott,en það vantar þarna.lika ljóta sögu SIS sem ekkert er um talað/en eg vona samt að Framsóknarflokurin verði það sem honum var ætlað ,og það með nýrri forystu/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 28.12.2007 kl. 21:47

7 Smámynd: Skilningur

Ég skil.

Skilningur, 29.12.2007 kl. 18:25

8 identicon

Ég skil ekki alveg þetta hjá Halla gamla með ljóta sögu SÍS. Kaupfélögin og SÍS viðskiptavæddu sveitirnar, gerðu það kleyft að breyta fornaldar-sjálfsþurftarbúskap í viðskiptabúskap. Er það ljót saga? Ég held ekki. En allt hefur sinn tíma segir í Biblíunni og samvinnufélögin eru ekki endilega heppilegasta rekstrarform nú til dags. Þó eru Sláturfélag Suðurlands og Mjólkursamsalan rekin sem samvinnufélög enn í dag og ég er ekkert viss um að það væri endilega betra að Baugur ætti þau. Sem sagt: Kaupfélögin rifu sveitir landsins upp í nútímann. Það gerði Lefoli-verslunin á Eyrarbakka ekki.

Guðmundur Stefánsson (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 15:44

9 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Veldi og einokun SIS eyðilagði sig sjálft/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 30.12.2007 kl. 18:47

10 Smámynd: Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Ég held að SÍS og Kaupfélögin hafi ekki getað nútímavætt sig.  Ég man eftir því þegar ég var í sveitinni, hjá afa, sumarið 1993 þá var Kaupfélag Árnesinga enn í fullri aksjón.  Afi gamli var í viðskiptum hjá KÁ og þar var hægt að fá nánast allt sem þurfti á sveitaheimili.  Gífurleg þægindi.  En þetta ár átti að kaupa timbur í girðingastaura og að sjálfsögðu fór afi í kaupfélagið og ætlaði að panta það efni sem hann þurfti í þetta.  Karlarnir í timbursölunni voru eins og snúið roð í hund við hann og sögðu að þessi stærð af timbri væri ekki til í landinu og hefði ekki verið til lengi.  Afi sætti sig ekki við þetta og fór í SG búðina, sem var byggingavöruverslun hér á Selfossi sem seinna rann inn í Húsasmiðjunna, og spurðist þar fyrir um þessa stærð af efni og þá var hún til þar í miklu magni.  Þetta er eitt dæmið um það hvernig fjaraði undan Kaupfélagi Árnesinga.  Verslun sem hafði einokun á flestöllum sviðum sem bændur þurftu.  En verslunin var ekki tilbúin að mæta samkeppni og deildarstjórar og starfsmenn margra deilda, sem áður gátu sagt nánast hvað sem er við viðskiptavininn gátu það ekki lengur þegar komin var samkeppni frá öðrum verslunum.  Fólk leitar nú einu sinni þangað sem það fær góða þjónustu.  Þetta pössuðu ekki stjórnendur Kaupfélagsins upp á að mínu mati. 

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, 30.12.2007 kl. 19:29

11 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það á ekki að ljúga upp á Jónas þótt menn dýrki hann.Öllum sem hafa lesið eitthvað eftir Jónas, er það ljóst að Jónas boðaði aldrei neina einangrunar stefnu Íslands og gekk reyndar svo langt að hann hugleiddi meira að segja að ísland ætti að ganga í Bandaríkin.Hann var eindreginn andstæðingur þjóðrembings og var harður í andstöðu við nasismann þegar ýmsir lágu kylliflatir fyrir þjóðhyggju og þjórembingi.Þetta ætti þingmaður í Árborg sem kallar sig framsóknarmann að vita.Hann boðaði það heldur aldrei að það ætti að vera aðalsmerki framsóknarmanna að það fyndist af þeim fjósalykt,skitalykt..Gleðilegt nýtt ár, Bjarni.

Sigurgeir Jónsson, 30.12.2007 kl. 20:13

12 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

P.S.Ég hef hvergi rekist á þetta blað Framsóknarmanna á suðurnesjum, sem þú Bjarni segir að grein þín hafi birst í, var það kanski prentað í Árborg og bara dreift þar.Kveðja, með þökk feyri árið sem er að líða. 

Sigurgeir Jónsson, 30.12.2007 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband