Suðurnesin og Framsóknarflokkurinn

Suðurnesin,- á Framsóknarflokkurinn eitthvert erindi þangað, spurði kunningi minn mig um daginn þegar ég var að leggja í enn eina ferðina í Framsóknarhúsið á Hafnargötunni í Reykjanesbæ og það lá einhvernveginn í loftinu mikil vantrú á verki dagsins. 2

Af því ég ekki mátti vera að því að ræða málið þennan októberdag ákvað ég að svara spurningunni hér á þessum síðum. Spurningunni um erindi Framsóknarflokksins inn í samfélag okkar á Suðurnesjum og að breyttu breytanda önnur samfélög á Suðvesturhorninu. Á ekki síður við um Selfoss, Hveragerði, Þorlákshöfn og Grindavík.

Framsóknarflokkurinn er landsbyggðarflokkur og málsvari bænda í landinu. Á því er enginn efi í mínum huga og ég held að helftin af þjóðinni hafi þetta á hreinu. En í þeirri fullyrðingu felast engin neikvæð skilaboð gagnvart öðrum áhersluatriðum, atvinnugreinum eða byggðasvæðum.  Flokkur okkar á brýnt erindi við alla landsmenn og hin tæra Framsóknarstefna á erindi við öll byggðarlög.

Í landi okkar hefur sama flokkakerfið verið við lýði í frá því fyrir lýðveldisstofnun og hver þessara flokka stendur fyrir ákveðnar hugsjónir, ákveðna lífssýn sem allar hafa sitt hlutverk. Sá sem mest lagði að mörkum til þessarar flokkaskipunar var reyndar okkur maður, Hriflu Jónas.

Við höfum stóran hægri flokk, Sjálfstæðisflokkinn, sem rúmar mjög breytt bil skoðana allt frá frjálshyggjugengi til íhaldssamra hægri sinnaðra velferðarkrata. Við eigum svo flokk hægri sinnaðra Evrópukrata, Samfylkinguna sem áður hét Alþýðuflokkur, flokkur manna sem aðhyllist margt af sjónarmiðum jafnaðarstefnunnar en á það einnig sameiginlegt að trúin á landið, mátt þjóðarinnar og gildi þjóðernisins er í algeru lágmarki. Í öfgakantinum eigum við svo Vinstri græna sem líkt og Alþýðubandalagið sáluga heldur undir regnhlíf sinni megninu af því liði sem vill vera í stjórnmálum en verður samt aldrei almennilega stjórntækt vegna óbilgirni, sérvisku og einstrengingsháttar. Innan þessa flokks er reyndar einnig mikið af góðu Framsóknarfólki og þar er að nokkru leyti okkur Framsóknarmönnum sjálfum um að kenna.

80_025628102057

En hverjir erum við Framsóknarmennirnir. Jú, þjóðlegir, landsbyggðasinnaðir jafnaðarmenn með sterkar rætur í atvinnulífi, menningu og sögu okkar þjóðar. Þær raddir hafa vissulega verið til, jafnvel í okkar flokki að dagar hins þjóðlega jafnaðarmanns væru senn taldir. Þjóðhyggjan átti um áratugi undir högg að sækja og ekki að ósekju eins og ódámurinn hann Hitler nauðgaði því hugtaki. En það þarf bæði blinda menn og heyrnarsljóa til að taka ekki eftir því að tímarnir eru að breytast. Þjóðhyggjan er í nýrri endurreisn sem mikilvægt er að leidd verði af öfgalausum og víðsýnum alþjóðasinnum. Meira að segja heimsborgin Brussel er nú skekin af átökum Vallóna og Flæmingja.

Okkur á ekki að vera skemmtan að heiftúðugum átökum þjóðernishópa en besta leiðin til að stuðla að þeim er að afneita sérstöðu einstakra hópa og nauðga hér öllu saman. Sífellt fleiri fræðimenn gera sér nú grein fyrir að leið friðarins í heiminum er í gegnum þjóðhyggjuna en ekki gegn henni, með viðurkenningu sérkennanna, sjálfsstjórnarinnar, sjálfstæðisbaráttu landssvæða og auknu héraðavaldi.

Það verður enginn heimsborgari án þess að eiga sér rætur og enginn bústólpi síns héraðs án þess að hafa séð sig um. Þessvegna gegnir hérað eins og okkar með alþjóðaflugvellinum og gátt um veröld alla mikilvægu hlutverki og það gerir ekki síður hinn þjóðlegi framsækni og samt rótfasti Framsóknarflokkur.

Íslandi allt

(Birt í desember 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll ávallt Bjarni. Finnst vanta að tiltaka að við höfum "stóra Samfylkingu" . Það er klént að matreiða alltaf þá hugmynd að hún sé það sama og Alþýðuflokkur og kalla þannig fram gamla fordóma í sveitum landsins. Þá gerirðu lítið úr ljósmóðurhlutverki sýslunga þíns Margrétar Frímanns og auðvitað hlut forsetans Ólafs Ragnars í þessu ferli.

Þar var búið til hús, sem að hefur pláss fyrir alla með áherslur á jöfnuð meðal fólks og réttindi, en jafnframt mikið svigrúm fyrir sköpun og hugvit einstaklingsins. Þar er gott rými fyrir alla jafnaðarmenn, líka "þjóðlega jafnaðarmenn". Það eiga allir rætur og mönnum er eðlislægt að rækta þær. Hvert mannsbarn er hluti af stærri heild eða þjóð, en engin ástæða til að rembast neitt sérstkalega með það í stjórnmálum.   Mbk,  G.

Gunnlaugur B Ólafsson, 8.1.2008 kl. 00:33

2 Smámynd: Heimir Tómasson

"Framsoknarflokkurinn er landsbyggðarflokkur". Það var nefnilega það.

Var það þessvegna sem (fyrrum) formaðurinn færði sig í Reykjavík Norður hér um árið?

Heimir Tómasson, 8.1.2008 kl. 06:12

3 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

"og enginn bústólpi síns héraðs án þess að hafa séð sig um. "

Hér væri fróðlegt að vitna til Konungsskuggsjár, frá um 1240, sem leggur sérstaka áherslu á að norðmenn eigi að fara út í heim, sem ungir menn. læra á heiminn, afla fjár og tengsla og koma síðan til baka.

Þar hafa bændur landsins/framsóknarmenn stundum gleymt upprunanum.

Ef Vestfirðingar hefðu ekki verslað við erlenda sjómenn ætli við værum ekki enn að éta úldið korn og kjet og Framsókn stærst á þingi?

Með kveðju :)

Baldvin Kristjánsson, 8.1.2008 kl. 17:05

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Grindavík er ein af byggðunum á Suðurnesjum.Hinar eru Reykjanesbær,Sandgerði,Garður og Vogar.Framsóknarflokkurinn hefur til skamms tíma verið sterkur á Suðurnesjum,og er þar ekki nýr flokkur.Hvort Guðna og Bjarna tekst að vekja hrifningu Suðurnesjamanna á hinni nýju framsóknarstefnu sem þeir boða, á tíminn eftir að leiða í ljós.Ég held að þeim takist það ekki.Ef Framsóknarflokkurinn gluðrar niður fylgi sínu á suðurnesjum, þá má búast við að hann þurkist út við Faxaflóann.Framsóknarflokkurinn hefur ekki síðann á þriðja áratugnum skilgreint sig sem bændaflokk,það gerði aftur á móti Bændaflokkurinn sem var klofnings framboð úr Framsóknarflokknum á fjórða ártugnum.Framsóknarflokkurinn hefur heldur aldrei skilgreint sig sem jafnaðarmannaflokk,þótt hann hafi unnið þannig í raun.Framsóknarflokkurinn allt frá tímum Hriflu-Jónasar verið boðberi framfara og nýrra tíma,ekki afturhalds, fortíðar og fjóslyktar.

Sigurgeir Jónsson, 8.1.2008 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband