Furðufyrirbrigðið krónan og takmarkanir ESB

Athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson er viðskiptamaður ársins að mati Viðskiptablaðsins og vel að þeim titli kominn. Í viðtali sem tekið er af því tilefni ferst þessum færasta peningamanni þjóðarinnar svo orð um íslensku krónuna: bjorgolfur

„Íslenska krónan er furðufyrirbrigði. Þetta er málefni sem aldrei virðist mega ræða, en er þó rætt með furðu opinskáum hætti. Þetta er kannski svipað og með alkóhólisma, sem ekki mátti ræða í kringum 1970, en er nú á hvers manns vörum. Sama virðist vera með íslensku krónuna. Það sést vel hve einstakt fyrirbæri hún er, að af 200 sjálfstæðum þjóðum heimsins eru aðeins 40 sem hafa minna en eina milljón íbúa. Þar af er bara ein þjóð sem hefur sína eigin mynt, Ísland."

Samlíking Björgólfs við alkóhólismann er mjög góð og nær vel því undarlega andrúmslofti sem ríkir í umræðu um gjaldmiðilinn. Eitthvað sem ekki má ekki ræða um, er tabu, en samt rætt um í sleggjudómum og slagorðum. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs.

Hinn bleiki fíll íhaldsins

Mestu ræður hér að málefnið er algerlega sniðgengið í stærsta stjórnmálaflokki landsins, Sjálfstæðisflokki og raunar er krónan og hennar Seðlabanki orðin að stórum bleikum fíl innan þess herbergis, svo áfram sé notað líkingamál alkasálfræðinnar. Hinn bleiki fíll þrengir sér inn í alla umræðu, er alltaf aðalatriði,- en samt eitthvað sem ekki má ræða.

Í besta falli er því borið við í umræðum Sjálfstæðismanna að aðrir gjaldmiðlar sveiflist líka og því skuli krónan ekki mega það. Ekki séu kanar nú að hugsa um að hætta að nota dollarann þó hann sveiflist, skrifa stöku sjálfstæðismenn eins og til þess að eyða umræðunni. Í fyrrnefndu viðtali bendir Björgólfur Thor á að 85-90% af verðmyndun íslensku krónunnar sé nú í höndum spákaupmanna. Dollarinn sveiflast aftur á móti með hagkerfi Ameríkumanna.

pink-elephant
Undirritaður hefur bent á hættunni af hinni litlu krónu í greinum fyrst fyrir um ári (sbr. heimasíða mín, bjarnihardar.blog.is frá 12. janúar 2007) og jafnframt á möguleika Íslendinga á nýrri öld. Valgerður Sverrisdóttir var fyrst stjórnmálamanna hérlendra til að benda á þann sama möguleika um mitt síðasta kjörtímabil, sem Björgólfur Thor talar nú fyrir, að Íslendingar hreinlega taki upp annan gjaldmiðil en krónuna.

Nær alla 20. öld var íslenska krónan bundin pólitískri gengisskráningu og taldist lengi eðlilegt miðað þá strauma sem þá voru í fjármálaheiminum. Það eru þó varla forsendur fyrir að taka þá stefnu upp að nýju.

En það eru heldur ekki forsendur fyrir því að jafn lítill gjaldmiðlill sé fljótandi á alþjóðamörkuðum og ekki hægt að benda á neitt dæmi um að slíkt hafi lukkast. Íslenska krónan er einfaldlega langminnsti fljótandi gjaldmiðill í heimi. Þegar horft er á að genginu er í reynd stjórnað af alþjóðlegum spákaupmönnum eru rökin veik fyrir því að með krónunni höldum við fullveldi og innlendu stýritæki.

Hin alþjóðlega spákaupmennska hefur nú um langt skeið viðhaldið ofurháu gengi miðað við aðstæður innanlands og þannig blóðmjólkað hinar raunverulegu mjólkurkýr þjóðarbúsins, útflutningsatvinnuvegina. Fari svo að kreppi að á alþjóðlegum mörkuðum getur svo farið að eftirspurnin eftir svokölluðum jöklabréfum snarminnki og krónan lendi þá í frjálsu falli. Hvorugt er efnahagslegu fullveldi okkar til góðs.

Gamaldags Samfylking

Viðbrögð Sjálfstæðismanna í gjaldeyrisumræðunni minna vissulega á alkaumræðuna eins og hún var fyrir 30 árum en við þurfum að fara vel 50 ár aftur í tímann til að finna samlíkinguna við Samfylkinguna. Um miðja öldina var aðeins eitt gert við alkóhólista,- og það reyndar ekki fyrr en seint í ferlinu. Þeir voru sviptir sjálfræði,- og gagnaðist auðvitað ekki.
bjorgvin_g

Lík er lausn Evrópukrata sem sýna oft ótrúlega lítinn áhuga og skilning á uppbyggilegri umræðu um efnahags- og gjaldeyrismál en hrópa upp yfir sig með glýju í augum, göngum í Evrópusambandið, göngum í Evrópusambandið! Fremstur í þessum flokki fer nú vinur minn og granni Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra. Á meðan stefnan er sett á slíka sjálfræðissviptingu hins íslenska lýðveldis verður eðlilega lítill áhugi á umbótum og uppbyggingu innan þess fullvalda og frjálsa hagkerfis sem við enn eigum. Það er auðvitað orðin mjög gamaldags og úrelt hugsun að trúa á ríkjabandalög og halda að hægt sé að hundsa þjóðleg gildi. Sést best í heimahreppi ESB, Belgíu en um það hefi ég skrifað áður. Hér ætla ég að halda mig við hin viðskiptalegu rök.


Björgólfur Thor afgreiðir með mjög sannfærandi rökum athafnamannsins þá spurningu hvort við eigum að ganga í ESB. Ég tel rétt að enda grein þessa á beinni tilvitnun í viðskiptajöfur ársins. Hafi hann heila þökk fyrir:


„Ég tel að það myndi takmarka okkur. Við eigum að halda í þann sveigjanleika sem við höfum í dag. Við erum með margvíslega fríverslunarsamninga og við höfum möguleika á því að verða fjármálamiðstöð til langs tíma eins og margoft hefur verið talað um. Þannig getum við tekið við af Lúxemborg og Ermasundseyjunum, kjósum við svo. Það gerist hins vegar ekki ef við erum komnir inn í ESB."

(Birt í Morgunblaðinu 30. desember 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Furðulegt hvað þessi umræða er alltaf á lágu plani.  Maður hefði haldið að þú sjálfur og Björgólfur myndu átta sig á að bæði Lúxemborg og Ermasundseyjarnar eru hluti af Evrópusambandinu. 

Þorsteinn (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 13:57

2 identicon

Íslenska krónan er leiksoppur spákaupmanna og sveiflast í takt við þeirra viðskipti.  Er þetta eðlilegt og þess virði hvað áhættu varðar?  Af hverju er ómögulegt að vera fjármálamiðstöð innan evrópusambandsins þegar að önnur lönd innan þess geta það.  T.a.m. eru mjög lágir skattar í Lettlandi. 

Guðmundur (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 14:04

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Með hliðsjón af stöðugum fullyrðingum sumra manna um að Íslendingar geti tekið upp annan gjaldmiðil einhliða,þá er nú mál til komið að Bjarni Harðarson spyrji viðskiptaráðherra hvað það kostar íslenska ríkið að hætta skráningu íslensku krónunnar og kaupa annan gjaldmiðil og setja í staðinn og halda honum gangandi.Björgólfur Thór er að eins að hugsa um sig og sín fyrirtæki eins og honum ber að gera. Bjarni Harðarson á að hugsa um hag Suðurnesjamanna og Suðursveitunga, til þess var hann kosinn.

Sigurgeir Jónsson, 12.1.2008 kl. 17:50

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Maður verður að mæla með öðrum gjaldmiðli i framtíðinni,þessi verðtrygging sem Peningamenn og Bankar vilja verður að leggjast af,það gerist ekki með Krónunni/ Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 12.1.2008 kl. 23:13

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Íslenska eða ís-enska það er spurning.  Króna eða evra líka spurning.

Björn Heiðdal, 13.1.2008 kl. 00:31

6 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Þetta er afar flókið mál og margir fletir á því. Íslenzkt efnahagslíf er
um margt sérstakt, og sveflur þar oft í engu takt við aðrar efnahagsheildir. Við hefðum t.d aldrei getað farið í stórframkvæmdinar fyrir austan með erlendan gjaldmiðil og FAST GENGI. Það er alveg á hreinu t.d. Sú mikla spenna í hagkerfinu sem
við það myndaðist var pólitísk ákvörðun. Einmitt vegna þess að við
höfum sérstakan gjaldmiðil þá aðlagaðist hann furðuanlega þeim
efnahagsveruleika sem myndaðaist þannig að ekki kom til HARKALEGRAR lendingar í hagkerfinu. Vegna þess að VIÐ HÖFUM okkar gjaldmiðil getum við ráðið því ALFARIÐ hvernig hann skráist. Það er ekkert sem segir að við eigum að hafa hann algjörlega fljótandi í dag. Getum búið til allskonar myntkörfur, auk þess að binda hann við ákveðin gjaldmiðil eins og sumir gera, með ákveðum frávikum til eða frá, sbr, Danir.  Teldi það  mun skynsamlegra en að
taka upp erlendan gjaldmiðil sem við höfum engin áhrif á. Prufum
það alla vega fyrst, því ef það gengur illa með það, getum við
alltaf breytt því, sem við gætum ekki gert ef við værum komnir með
erlendan gjaldmiðil. Enda sjáum við í dag meiriháttar óstöðuleika
á peningamörkuðum heimsins í dag. Bæði hlutrabréf og gengi
annara ríkja er á meiriháttar flökti. Enginn veit hvenær getur skapast virkilegt hættuástand. Yrði þá ekki heillavænlegt fyrir okkur
Íslendinga að hafa yfir að ráða okkar eigin gjaldmiðli sem við getum
skráð með ákveðnu gengi til að bjarga ÞJÓÐARHAG á slíkum krísutímum? Því allir hugsa um sig þegar í harðbakkann slær, og þá
eru það yfirleitt þeir stóru og sterku sem ráða ferð. Enda telja nú
margir fjálmálafræðingar á meginlandinu að innan Evru-svæðisins
gæti myndast mikið misgengi í reynd milli norður-og suðursvæðisins
komi til efnahagslegra erfiðleika og óstöðuleika í heiminum í dag.
Því gengi evrunar tekur EKKERT mið á efnahagsástandi hvers ESB-
ríkis fyrir sig. Og þegar bláfátæk austantjaldsríki koma þarna inn
verður ástandið enn verra og kritiskara. Tel því BJarni að Framsókn
eigi að fara sér ákaflega varlega í þessu, og leita allra leiða áður
en farið er að huga að að taka upp erlendan gjaldmiðil sem mun
EKKERT tillit taka til efnahagslegra þátta á Íslandi.  EKKER! Auk
þess sem við hefðum um slíkaan gjaldmiðil EKKERT að segja!

Svo í lokin þetta með vextina. Það er með þá eins og gengið við
getum míkið haft um þá að segja ef PÓLITISKUR VILJI er fyrir
hendi. Komið hefur t.d fram að ef við hefðum notað svipaða verð-
bólgumælingaaðferð og t.d innan ESB hefði verðbólga og vextir
verið mjög svipaðir á Íslandi og þar á s.l árum. En af því við
höfum húsnæðisvísitöluna inni (en meiriháttar hækkun fasteiga
hefur verið hér s.l ár) en ekki ríki ESB hefur verðbólga mælst mun
meiri hér en þar og þar með vextir. Hvers vegna í ósköpunum er
þetta gert, því kaup á fasteign er EIGNAMYNDUN en ekki NEYSLA.

Það er svona ótal mörg  vitleysa sem er látin viðgangast
af mannavöldum, misvitrum stjórnmálamönnum, en svo er öllu öðru kennt um, t.d  krónu greyinu. 

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 13.1.2008 kl. 21:24

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nafni sæll.  Fyrst vil ég óska þér gleðilegs og farsæls komandi árs, með jafngóðri ósk um verkánægju að því loknu.

Við þá ákvörðun, að fleyta Krónunni út á ólguhaf Markaðarins, gerðist tvennt.  Útflutningsatvinnuvegirnir þurftu að velja kaupendur eftir því hvernig satða þeirra gjaldmiðla var.  ÞEtta hefðu menn átt að gaumgæfa betur.

Spákaupmenn, hlustuðu með athygli á söluræður bankaungmenna um VERÐTRYGGÐA Krónu, skildu það ekki fyrst en skildu svo.  Nýta sér vaxtamunin og Verðtrygginguna, kaupa Jöklabréf.

Betri var Einar Ben sölumaður, seldi Noðrurljósin sem ekki voru Verðtryggð, né í bréfum.

Krónan mun okkur erfiður samfeðamaður, þungur mjög á fóðrum en hvað er annað til ráða?

Ekki kemur til mála, að ganga Evrópusambandinu á hönd, til þess yrðu áhrif okkar á stefnu og löggjöf þess bandalags of lítil eða líkt og heiðabýli í Rvíkurkjördæmi.

Því vil ég skoða með rósemd hugans, hvort ekki væri ráð, að fara að dæmum svsslendinga og gera TVÍHLIÐA samninga vi Evrópusambandið,líkt og ég talaði mjög fyrir hér fyrrmeir.  Þá varð ofaná Kratisminn og sóknin í skriffinnskubákni, sem margur Kratinn sá í hyllingum og fýsti mjög, að sitja við Brusselska glugga og horfa út á mannlífið þar.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 15.1.2008 kl. 10:46

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Margt mælir með því að gamla krónan verði safngripur og að Íslendingar taki upp annan gjaldmiðil stöðugri. En við getum það ekki einhliða ef marka má fullyrðingar yfirblýantsnagara Seðlabanka.

Kannski að við eigum að undirbúa okkur til virkrar þátttöku Evrópusambandsins, öll lönd utan okkur og Noregs vilja gjarnan taka þátt í þessu bandalagi og þegar þjóðir eins og Tyrkir eru komnir með stóru tána inn í þetta bandalag, þá er virkilega spurning.

Annars væri fróðlegt að vita hvernig innvígðum framsóknarmanni lýst á þessi mál?

Með bestu kveðjum af klakanum suður í framsóknarnýlenduna á Grand Canari.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.1.2008 kl. 19:40

9 Smámynd: Halldór Jónsson

ég er sammál Björgólfi um ESB. Það er ómetanlegt að sitja svona á krossgötum og geta höndlað í allar áttir. Varðabdi krónuna er hún fyrir mér aðeins einn af gjaldmiðlum. Hér mega allir skipta sínum krónum fyrir evrur eða dollara, taka lán i sömu myntum etc. Það er aðeins smræmt vaxtaálag íslenzku bankanna, sem er versta hindrunin í þessu fyrir almenning. Björgólfur ætti bæði að koma hingað með erlendan banka og svo ValMart líka til að brjóta upp Baugseinokunina sem við búum við.

Halldór Jónsson, 16.1.2008 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband