Ógnarjafnvægi gjaldeyrisumræðunnar

Niðurstaða nokkurra sérfræðinga í pallborði viðskiptaþings um að Ísland ætti sér í raun bara tvær leiðir í gjaldeyrismálum sínum er athyglisverð. Ekki vegna þess að hún væri í nokkru samræmi við þær staðreyndir sem varpað var fram í afar fróðlegum fyrirlestrum þingsins og enn greinabetri skýrslu Viðskiptaráðs. Miklu frekar vegna þess að niðurstaðan var dæmi um það ógnarjafnvægi sem umræðan um stöðu krónunnar hefur ratað í og að báðar þær „leiðir" sem sérfræðingarnir ræddu um eru fullkomnlega útópískar og óraunhæfar og er þá tímabært að ég upplýsi hverjar þessar leiðir eru.

Hreiðar Már Sigurðsson bankastjóri hafði hér orð fyrir hópnum og taldi að Ísland ætti sér bara tvær leiðir í þeim vanda sem steðjar nú að hagkerfinu, annarsvegar að halda í krónuna sem lögeyri og gera hana betri og hinsvegar að ganga í ESB og taka upp evru. Af hinni ágætu viðskiptaráðs er samt augljóst sem vitað var fyrir að innganga í ESB mun taka að minnsta kosti 4 ár frá því þjóðin samþykkir aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. euro

Ef tekið er mið af reynslu Norðmanna og fleiri þjóða er ljóst að frá því þjóðþing samþykkir aðild til þess að þjóð gerir það í allsherjaratkvæðagreiðslu líða að minnsta kosti 5 og jafnvel allt að 15 ár. Dómsmálaráðherra hefur reyndar bent á þá augljósu staðreynd að á þeim tíma muni pólitískir bræður berjast og flokkakerfi riðlast. Við lok þeirrar þrautagöngu getur niðurstaðan reyndar hæglega verið sú sama og hjá Norðmönnum að við Íslendingar yrðum fjær aðild en nokkru sinni líkt og svo ágætlega er komið fyrir þeim frændum okkar nú.

Þegar rætt er um leiðir í hagfræðilegum vandamálum eru atburðir sem kannski geta átt sér stað eftir 10 ár ekki umræðuefni og í raun og veru í fáum fræðigreinum nema þá helst jarðfræði.

Hin leiðin sem bent var á að Íslendingar geti haldið sig við krónuna hér eftir sem hingað til er heldur ekki lausn í skilningi annarra en þeirra sem lausir eru undan jarðlegum skilningi hlutanna. Það er öllum sem hlýða á fréttir að erlendir gjaldmiðlar, einkum evra, lauma sér nú bakdyramegin inn í íslenskt hagkerfi af áður óþekktum skriðþunga. Það er því tómt mál um að tala að krónan verði allsráðandi á komandi tímum þó svo að stjórnvöld geti áfram kosið að hún verði eini viðurkenndi lögeyrir ríkisins. En eins og skýrt kemur fram í skýrslu Viðskiptaráðs um krónuna hefst þá á næstu misserum óformleg evruvæðing sem hagfræðingar eru sammála um að sé versta mögulega niðurstaða í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Samkvæmt skýrslunni er fyrsta stigi evruvæðingar í reynd náð í hagkerfinu og þó svo að ekki sé eins og skýrsluhöfundur nefnir sjálfgefið að hún gangi lengra verður af lestrinum að telja það í meira lagi sennilegt.

Hitt eru miklar ranghugmyndir að leiðirnar séu bara tvær og helgast af sama vandamáli og Tryggvi Þór Herbertsson forstjóri Askar Capital orðaði svo skemmtilega í pallborðsumræðunum þegar hann ræddi þá tilhneigingu Íslendinga að þegar mál koma til umræðu hvort sem það er kvótakerfi í sjávarútvegi eða staða krónunnar þá verði allir sérfræðingar í málinu. Það er rétt enda hluti af lýðræðinu og það er líka nauðsynlegur hluti af lýðræðinu að þegar kemur að umræðu um stórpólitískum málum verða allir pólitískir, líka hagfræðingar og bankastjórar. Hvorki stjórnmálamenn né sérfræðingar mega nokkurntíma einoka umræðuna.

Ástæðan fyrir því að hagfræðingar tala sig nú sumir hverjir niður á að bara séu til tvær leiðir er það ógnarjafnvægi umræðunnar sem ríkir milli stjórnarflokkanna í landinu. Af þeim tveimur dregur umræðan dám. Í annarri fylkingunni bregðast menn við eins og óttasleginn strúturinn og vonast til að meðan höfuðið er ofan í þeim sandi að segja að krónan sé og sé og sé, þá muni vandamálið hverfa á meðan. Í hinni fylkingunni er glópurinn sem vonast til að meðan strúturinn truflar þá ekki með sitt höfuð í sandinum takist þeim að skapa óformlega evruvæðingu og þar með jarðveg Evrópusambandsaðildar. Báðir eiga þessir armar ríkisstjórnarinnar og þjóðarumræðunnar sameiginlegt að láta óvart hin raunverulegu efnahagslegu vandamál samtímans lönd og leið enda telja þeir sig hafa mikilvægari málum að sinna!

En hvaða aðrar lausnir eru þá til. Ég mun fjalla lítillega um það í næstu grein og styðjast þar við greinagóðar upplýsingar sem fram komu á Viðskiptaþingi.

Ritað á Viðskiptaþingi og birt í Mbl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Sæll Bjarni. Eitt af því  sem mér finnst skrítið í þessari umræðu. Íslenzka krónan er ALGJÖRLEGA fljótandi í dag. Gengið er 100%
frjálst. Um það var tekin pólitísk ákvörðun á sínum tíma. En er það
rétt að hafa þá skipan mála t.d í dag? Endalaust? Af hverju er þeirri
spurningu ekki velt upp?

Finnst það ALGJÖRLEGA FRÁLEITT að taka upp erlendan gjaldmiðil
SEM VIÐ HEFÐUM ENGA AÐKOMU EÐA ÁHRIF Á.  Gjörsamlega GA GA
hugsun. Þess vegna m.a tökum við ekki upp evru án þess að ganga í ESB fyrst.  Um það eru allflestir sammála.
 

    En hvers vegna þá ekki að tengja frekar krónuna við ákveðna
myntkörfu eða aðra mynt með ákveðnum frávikum líkt og t.d
Danir tengja sína krónu við evru.?  Sem sagt að BYRJA á því.
Fóta okkur áfram þannig. Því alltaf getum við BREYTT þeirri
ákvörðun ef okkur finnst hún ekki henta okkur. VIÐ GÆTUM HINS
VEGAR EKKI BREYTT slíkri ákvörðun værum við búnir að TAKA UPP
ERLENDA MYNT. Þá yrði ekki aftur snúið.  Sætum í súpunni!

   ´Við vitum að það eru ALLT AÐRAR hagsveiflur á Íslandi en á
meginlandinu. Ef við hefðum rekið hér FASTGENGISTEFNU (sem
tenging við erlenda mynt er hluti af) hefðum við t.d ALDREI geta
ráðist í stórframkvæmdirnar fyrir austan. Það er alveg ljóst. Og
það er einmitt að þakka FLJÓTANDI gengi krónunar að ekki varð
hörð lending í efnahagsmálum þrátt fyrir þessa ofurspennu og
mikinn hagvöxt. Á sama hátt værum við ekki að gera þessa
kjarasamninga í dag yfir 30% hækkun launa á 3 árum værum við
með FAST GENGI.  En vegna þess að við erum með EIGIN gjaldmiðil
sem tekur mið af íslenzkum aðstæðum þá er þetta hægt.

   Gleymum svo því ekki að FLJÓTANDI gengi krónunar endur-
speglar efnahagsstjórnina á hverjum tíma. Óstjórn í efnahags-
málum hefur grundvallaráhrif á gengi hennar hverju sinni.
Svo má heldur ekki gleyma því að í öllum óróanum á erlendum
peningarmörkuðum hafa gengi annara þjóða, og það stórþjóða,
sveiflast ekki síður en krónan, sbr dollarinn.

  Þá er eitt MIKILVÆGT atriði sem maður saknar í allri þessari
umræðu. Í heiminum í dag er mikil óvissa á peningamörkuðum.
Ef allt færi á versta veg, og hér skapaðist allt að heimskreppa,
væri þá ekki ÓMETANLEGT að eiga yfir að ráða EIGIN gjaldmiðli
sem við gætum HANDSTÝRT miðað við ÍSLENSKA HAGSMUNI og
ÍSLENZKT EFNAHAGSÁSTAND meðan sú kreppa og krísa er að
ganga yfir? Því íslenzk stjórnvöld geta hvenær sem er GRIPIÐ inní
og ákveðið gengisskráninguna einhliða. Velti þessu oft fyrir mér
varðandi svokölluð jöklabréf. Ef þau yrði innleyst nánast á einum
degi með ófyrirsjáanlegum afleðingum þá gætu íslenzk stjórn-
völd gripið þar inn í t.d til að afstýra gengishruni. Það er eins og
menn átti sig ekki á þessu, hvað við höfum MARGA MÖGULEIKA
með því að hafa EIGIN GJALDMIÐIL.

  Á evrusvæðinu hafa margir fjármálafræðingar áhyggjur af því í
dag að það gæti myndast hættuleg misgengi milli norður- og
suðursvæðisins komi til mikilla erfiðleika á alþjóðlegum peninga-
mörkuðum. Gengi evrunar er ákveðið af Evrópska seðlabanakanum
og miðast alls ekki við efnahagsástand hvers ESB-ríkis fyrir
sig, enda ógjörningur. Þar er litið á HEILDARHAGSMUNINA sem
gætu oftar en ekki farið í berhögg við efnahagsástand sumra
ESB-ríkja. Suðurhlutinn og hin nýju ríki ESB eru þar veikust. Menn
geta rétt ímyndað sér hvaða áhrif Ísland hefur þar að segja í
slíku myntsamstarfi. EKKERT!  Þess vegna hafa þessir evrópsku
fjármálafræðingar áhyggjur af að myntbandalgið gæti hreinlega
sprungið komi til slíks misgengis. Kannski að Bretar sjái þetta
fyrir og vilji af þeim sökum halda í sitt pund.

   Svo í lokin varðandi háa vexti sem krónunni er oftar en ekki
kennt um. Nú er það viðurkennt(sbr sjávarútvegráðherra) að
hefði húsnæðisvísitalan verið haldið utan verðlagsvísitölinni
eins og gert er í ESB hefði verðbólga hérlendis verið á svipuðu
róli og þar á s.l árum. Sem sagt. Háir vextir og verðbólga á
íslandi eru fyrst og fremst af mannavöldum og misvitrum
stjórnmálamönnum.

   Svo er krónu greyinu kennt um allt!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 17.2.2008 kl. 21:00

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég er með aðra hugmynd: EFTA ríkin taki upp sameiginlegan gjaldmiðil.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 17.2.2008 kl. 21:29

3 identicon

,,Það er ekki hollt að ganga mikið því það aðeins slítur skótauinu.'' Hver heilbrigður maður sér að mikið vantar á. Sú evruumræða sem nú á sér stað hefur gleymt miklum sannindum að innganga eða upptaka á evru gæti hækkað 37 tommu sjónvarptækið okkar úr 80.000,-krónum í 300.000,-krónur að minnsta kosti. Þetta fengu hollendingar að reyna þegar þeir tóku upp evruna þá var gjallfelldur þeirra eiginn gjaldmiðill um tugirprósenta. Hvaða áhrif gæti það haft t.d. á afkomu og skuldir heimilanna hér á landi. Evra er ekki allt!! 

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 23:00

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni eg verð að hæla þessari greinagerð Guðmundar Jónasar/þar inni er mikill sanleikur/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 17.2.2008 kl. 23:10

5 identicon

Þó það komi gjaldeyrismálum Íslendinga ekki beint við þá hafa evrópskir gárungar bent á að Norðmenn séu nauðsynlegir í myntbandalagið.  Meðan Noregur er fyrir utan myntbandalagið lafir Svíþjóð sem limur með finnskan pung yfir Evrópu! Það sjá þetta allir sem rýna í evruna.

Ef Norðmenn taka nú á sig rögg og bjarga siðferði Evrópu harðnar heldur á dalnum hjá antievrusinnum.

Bestu kveðjur til þín Bjarni úr Evrópu - það er gaman að fylgjast með þér svona úr fjarska, sérílagi þegar hjólaferðir ber á góma. Styttist vonandi í að við getum komist í góða dakarferð saman.

Hrafnkell Ásólfur 

Hrafnkell Ásólfur (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 22:07

6 identicon

Það er mikið rætt um efnahagsmál í dag og þýðir ekki að vera með neina fordóma í þeim málum. Það varnú ekki minni maður en Björgólfur thor sem lagði til að við tækjum upp Svissneskan franka en það var hlegið að Guðna í Silfri Egils þegar hann sagðist vilja skoða þann möguleika. Við megum ekki einskorða okkur við eitthvað ákveðið heldur skoða alla möguleika. Gleymum því ekki að Björgólfur Thor er viðskiptamaður ársins en ekki Jón Ásgeir. 

Tóti (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband