Sinnuleysi stjórnar elur á mótmælum og skrílslátum...

Aðgerðir vörubílstjóra gegn háu olíuverði eru meira en skiljanlegar. Þær eru barátta manna sem hafa margir hverjir engu að tapa. Það er aftur á móti raunalegt að sjá mótmælin snúast upp skrílslæti með eggjakasti ungmenna og almennri vitleysu. Lögreglan lendir hér í raunalegu og leiðinlegu hlutverki sem laganna verðir reyna að gera gott úr. Allt vegna óskiljanlegrar þrákelkni ríkisstjórnarinnar.

Þrákelkni vegna þess að með því að koma til móts við bílstjórana og lækka álögur á bensíni og olíu geta stjórnvöld um leið unnið mikilvægan varnarleik á móti verðbólgunni. En málið er nú komið í þann hnút að ríkisstjórnarmeirihlutinn sterki setur kapp sitt á að láta ekki undan þrýstihópi, jafnvel þó tillaga hans sé bæði réttmæt og skynsamleg. Það er mjög miður að svo barnaleg sjónarmið ráði hjá æðstu valdamönnum þjóðarinnar.

Ábyrgð ráðherra

Hér skal ekki lagt mat á það hversu smekklegir einstakir leikir í þessari baráttu bílstjóranna eru og víst að það er ekki hættulaust að loka þannig mikilvægum umferðaræðum. En eins og jafnan þá veldur ekki einn þá tveir deila. Ábyrgð ráðherra á að aðgerðirnar eru vikum saman í farvegi sem þessum er mikil. Það eitt að kalla bílstjóra að raunverulegu samningaborði væri leið til að binda enda á aðgerðirnar.

Hluti af vanda vörubílstjóra er einmitt algert aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Við Framsóknarmenn höfum þar lagt áherslu á að ríkið komi að þjóðarsáttarborði til þess að ná niður verðbólgu í landinu. Þar gæti skipt miklu að lækka tímabundið álögur á olíu og bensín. Við teljum einnig að ríkið geti spornað verulega við verðbólgu á matvöru með niðurfellingu matarskatts ef samhliða er unnið með kaupmönnum og aðilum vinnumarkaðar.

Viljaleysi stjórnvalda til að skoða reglur um hvíldartíma ökumanna er af sama meiði hins barnalega hroka þess sem telur sig öllu ráða. Íslensk löggjöf og ríkissjóður eiga ekki að vera einkaeign þeirra sem fara með völd hverju sinni.

Þjóðarsátt er lausnin

Það er algerlega fráleitt að heyra þann málflutning stjórnarliða að ríkið geti ekkert gert í verðlagsmálum. Í landi þar sem neysluskattar eru með því hæsta sem gerist, önnur hver króna fer í skatta. Og staða ríkissjóðs er sterk. Ein leiðin til þess er samstillt átak allra, jafnt verslunarinnar sem ríkisins í þá veru að allir gefi nokkuð eftir af sínum hlut.

Eins og staðan er nú kemur efnahagskreppan niður með mjög tilviljanakenndum hætti og verst við þá sem síst skyldi. Láglaunafólk og skuldsetta einyrkja í atvinnurekstri.

Það er von að fólk sé reitt og loki vegum. Það er ráðamanna að hlusta á raddir þessa fólks.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

mjög góð færsla hjá þér Bjarni.. ég hef áhyggjur af því hversu oft ég er sammála þér

Óskar Þorkelsson, 23.4.2008 kl. 15:15

2 Smámynd: Steinn Hafliðason

Ég vildi nú frekar sjá lækkaðan skatt á matvöru en eldsneyti þó að hvoru tveggja væri vel þegið.

Matvara er eitthvað sem ALLIR hagnast í lægra vöruverði en ekki bara þeir sem eiga bíla. Þeir sem eiga minnstan pening eiga væntanlega færri bíla og hlutfall matarnauðsynja er stærra hlutfall af útgjöldum heimilisins. Ef við hugsum um heildarhag neytenda hefur lækkun á skattlagningu matvöru meiri bein áhrif á budduna heldur en eldsneytið.

Þess vegna vil ég frekar þurfa að borga eldsneytisskatt heldur en matarskatt.

Steinn Hafliðason, 23.4.2008 kl. 16:07

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Fínt innlegg eins og svo oft áður.

Yfirstjórn lögreglunnar er óhæf og Björn Bjarna og helstu jábræður hans ættu bara að flytja til Washington, þar eru þeir best geymdir hjá sínum sálufélögum og hugmyndafræðingum. Það laðast ávallt saman sem deilir sameiginlegum gildum, hugmyndafræði og mentalíteti og á alveg endilega að vera saman sem allra mest - í þessu tilfelli í þágu almannahagsmuna.

Baldur Fjölnisson, 23.4.2008 kl. 18:19

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Bjarni minn, ekki setja þetta orð þjóðarsátt í einhvern helgislepjubúning.  Láglaunafólk er ennþá bíða betri kjara, eftir þá kjaraskerðingu sem það tók á sig þegar þessi ósköp voru sett á árið 1986 að mig minnir.

Fyrir síðustu kosningar, var Ísland ein auðugasta þjóð í heimi að sögn ykkar frambjóðenda, og nú væri kominn tími til að leiðrétta kjör hinna ýmsu stétta, sem setið hefðu á hakanum og að skömm væri að.  Nú er lag, þótt í stjórnarandstöðu sért.  Farðu í púltið eins oft og þú getur og minntu fjármálaráðherra á þessi loforð.  Samningar eru lausir við þorra fólks í umönnunar- og uppeldisstéttum!!!

Það verður engin þjóðarsátt, meðan loforð eru endalaust svikin við þessar stéttir!

Hittumst í kröfugngu þann 1. maí.

Sigrún Jónsdóttir, 23.4.2008 kl. 18:21

5 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Bjarni (afsakið að ég ræði viðstaddan í þriðju persónu, sem almennt er argasti dónaskapur en ekki ætlunin hér) er þingmaður og því að vissu leyti háður leikreglum pólitíska rétttrúnaðarsafnaðarins, þeirrar póstmódernísku hugsunar að allt sé afstætt og ekkert sé alveg rangt eða rétt, möo hann er að reyna að laga sig að þessu ruglingslega umhverfi, vel læs maðurinn og hafandi lesið böns af vitrænum bókum - öfugt við hönnuði þess.

Þjóðarsátt er ofurgildishlaðið hugtak og svo hefur það líka greinilegar fasískar tilvísanir. Stétt með stétt er gamalkunnugt slagorð frá Mussólíni og aðrir fasistar hafa gegnum tíðina notað það til að slæva stéttarvitund fólks á einhvern pervers hátt samsama alþýðuna kapítalistunum, gera hagsmuni þessarra andstæðu póla að hinum sömu ef þið skiljið hvað ég á við. Þetta er að sjálfsögðu gjörsamlega vonlaus þvæla - enda alveg í þágu kostenda fasistanna þá og nú - og endar alltaf á endanum með skelfingu. Það er bara spurning um tíma.

Baldur Fjölnisson, 23.4.2008 kl. 19:08

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Nei Gunnar Þór, við getum ekki afgreitt þetta svona.

Þessi mótmæli og óreiða eru merki um yfirhangandi vanda sem hefur safnast upp og ekki hefur verið brugðist við. Síðan eykst þrýstingurinn smám saman. Þetta gerist í áföngum og kallast þróun. Stjórnmálamenn reyna mjög að deyfa skynjun okkar fyrir þessarri þróun og þeir segja okkur að pæla ekki í hinu liðna heldur horfa þess í stað sífellt fram á veginn og það er vegna þess að þeir eru kostaðir af ákveðnum hagsmunaaðilum sem vilja fá að fokka okkur í friði. Beisíkallí.

Baldur Fjölnisson, 23.4.2008 kl. 20:22

7 Smámynd: Magnús Jónsson

Steinn: lækkun á eldsneyti ætti að skila sér í lækkuðu matarverði, það telur allt olían á vélar bóndans og á skip sjómannsins, ásamt olíuverð á vöruflutninga innanlands, að læka eldsneytisverð ætti að minka framleiðslu og flutningskostnað og lækkað matarverð eða er það ekki það sem þú varst að biðja um.... 

Magnús Jónsson, 23.4.2008 kl. 20:41

8 Smámynd: Steinn Hafliðason

Magnús ég held að skattur hins opinbera á eldsneyti sé afar lítill hluti matarverðs og skili því almenningi litlu í lækkuðu matvælaverði. Gunnar Þór bendir réttilega á þá eru bændur undanskildir vegagjaldi. Ég þekki bara ekki hvernig þessu er háttað með útgerðina og sjóflutninga, það getur kannski einhver sem les þetta frætt okkur um það.

Steinn Hafliðason, 23.4.2008 kl. 21:26

9 identicon

Smá innskot við eina af athugasemdunum sem þú fékkst Bjarni. Eldsneytisverð hefur svo sannarlega áhrif á matarverð, verðbólgu og þar með verðbætur á lán m.a. til íbúðarkaupa. Matvara sem öll er flutt með bílum um höfuðborgarsvæðið svo ekki sé nú talað um dreifðar byggðir landsins hækkar vegna hækkandi verðs á eldsneyti. Þó svo að verslun á borð við Bónus bjóði sama verð um allt land þá táknar það bara eitt, verðið þarf að hækka á öllum stöðum, ekki bara á þeim fjarlægustu. Þetta held ég að margir eigi erfitt með að skilja. 

Bjarni nú ert þú á þingi, hvað er eiginlega að gerast í hausnum á þeim sem þar starfa?

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 21:39

10 Smámynd: Magnús Jónsson

Gunnar: kemur ekki mjólkurbíll til að sækja mjólkina, þarf ekki bóndi að láta flytja til sín aðföng, bóndinn þarf einnig að byggja og allt þarf að flytja á einn veg eða annan ,  þarf ekki að aka með fisk um landið þvert og endilangt, reinnið alla veganna að setja allt í rétt samhengi, verðtrygging lána er allt annað og als óskylt mál, allt telur gjald í hvalfjarðargöngin hækkar matarverð á landsbyggðinni og veldur auknum kostnaði fyrir alla á einn veg eða annan, ef flytja þarf eitthvað þá kostar það nóg að fá man til að gera það þó ekki bætist á það að óþörfu.

Magnús Jónsson, 23.4.2008 kl. 22:07

11 Smámynd: Gulli litli

Hefur engum vörubílstjóra dottið í hug að hækka verdid á thjónustunni sem nemur kostnaðaraukanum? Ég bara spyr..

Gulli litli, 23.4.2008 kl. 22:52

12 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Núna hafa stjórnvöld með aðstoð lögreglunnar sagt okkur fólkinu í landinu hvernig þeir leysa málin með valdinu einu saman.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 24.4.2008 kl. 00:32

13 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Meira að segja opinbera verðbólgan (þessi sem er skipulega reiknuð niður, ef lambakjötið hækkar þá bara gefa þeir sér að þú étir eitthvað ódýrara í staðinn osfrv.) er núna 15-20% á ársgrundvelli og stýrivextir seðlabankans eru án efa á leið í 18-20% amk. Það tekur hugsanlega 5-6 ár að koma þeim úr ávaxtalýðveldalevel niður 'a Evrópusambandsstig sem þýðir að við getum í besta falli farið að spá í Evrópusambandsaðild um 2015 og þá er ég að reyna að vera bjartsýnn.

Baldur Fjölnisson, 24.4.2008 kl. 01:07

14 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Allt rétt Bjarni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 24.4.2008 kl. 01:19

15 identicon

Ég vissi ekki að þeir væru að berjast fyrir lækkuðu olíuverði. Þeir tala oftar um bensínverð - þó þeir keyri ekki um á bensín bílum. Svo tala þeir líka um "vökulögin", og svo tala þeir bara um hitt og þetta. Allt eftir því hvaða dagur er. Greyið mitt, Bjarni, farðu ekki að reyna að elta þessa vitleysu í pólitískum hráskinnaleik. Það fer þér ekki. Þú ert merkilegri en það.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 03:09

16 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þegar virðing þjóðar fyrir lögjafarþingi sínu er komið niður í þrjátíu prósent eins og er hér á landi samkvæmt skoðanakönnunum og þegar ráðherrar komast upp með það að brjóta lög eins og að svara hvorki umboðsmanni Alþingis né svara stjórnsýslukærum, þá er einfaldlega hætta á ferðum um að upp úr sjóði.Því miður er Alþingi klúbbur eins og núverandi bæjarstjóri á Dalvík sagði einu sinni.Menn eru orðnir samdauna lygunum og virðingaleysinu fyrir þjóðinni því sem næst um leið og´þeir koma inn um dyrnar á Alþingishúsinu.Logið er að eldri borgurum og öryrkjum logið, er að vörubílstjórum að þeirra mál verði skoðuð eins og Geir Hor.gerði.Síðan gerist ekki neitt í þrjú ár Þá segir Geir Hor. að vörubílstjórar brjóti lög með því að mótmæla.Sjálfur brýtur hann lög með því að að horfa aðgerðarlaus og sem yfirmaður landbúnaðarráðherra á, að landbúnaðarráðherrann svarar hvorki stjórnsýslukærum né umbosmanni Alþingis.

Sigurgeir Jónsson, 24.4.2008 kl. 06:46

17 identicon

Bjarni. Gleðilegt og gott sumar. Kveðja Gissur á Herjólfsstöðum. 

Gissur Jóhannesson k.t.131228 3689. (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 08:09

18 identicon

Ég verð að taka undir málstað Steins, að ef lækka á einhverja skatta ætti að lækka skatta sem vega þyngst á fátækasta hluta þjóðarinnar.

Þróun bílaflota hefur verið í þá áttina undanfarið að fleiri og fleiri kaupa sér þyngri bíla, yfirleitt bara upp á sportið.  Kannski eru Jóhann og Magnús í þeim hópi. Málflutningur þeirra um að matvælaverði megi ná niður með lækkun á eldsneytissköttum er hálf slappur enda er öllum ljóst að með því að lækka skatta á matvörunni sjálfri verði fleiri krónur eftir í vasa þeirra sem minna mega sín. 

Þessu dæmi má líka stilla upp svona: Hvort ætli það sé hagstæðara að lækka skatta á vöru sem m.a. er framleidd hér á landi eða vöru sem er eingöngu framleidd erlendis?

Við hljótum að vilja sporna gegn stærri og stærri bílum á vegum þjóðarinnar, það að lækka skatta á eldsneyti er ekki liður í því.

Gunnar Geir (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 11:29

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kæri bloggvinur: Takk fyrir veturinn og gleðilegt sumar

Sigurður Þórðarson, 24.4.2008 kl. 14:50

20 identicon

Á að breyta skattheimtu vegna þess að nokkrir bílstjórar kunna ekki mannasiði?

Er ekki nær að vona að hærra eldsneytisverð leiði til þess að þungaflutningar færist aftur út á sjó þar sem þeir eiga heima?

Það fer margfalt minna eldsneyti og miklu minni mannafli í að flytja hvert tonn milli Akureyrar og Reykjavíkur í skipi en með vörubíl.

Hvenær kemur að því að almenningur segir hingað og ekki lengra og mótmælir því að okkar mjóu vegir séu meira og minna stíflaðir og víða stórskemmdir af umferð risastórra vörubíla?

Ökumenn sem loka vegum til að mótmæla því að þurfa að hvíla sig við og við svo þeir sofni ekki undir stýri tala digurbarkalega um að almenningur styðji sig. Ég þekki svo sem ekki nema brot af almenningi í landinu en allir sem ég hef talað við eru sammála um að þeir láti eins og bjánar og að með látunum í gær hafi þeir algerlega spilað rassinn úr buxunum.  

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 18:23

21 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þetta að neðan er í gangi á netinu og barst mér á vefsvæði þar sem ég er meðlimur (þarna eru 25 þúsund meðlimir).

"Var beðinn um að koma þessu áfram, þetta er eitthvað sem er verið að auglýsa á live2cruize.com.

það er verið að plana mætmæli á morgun ef nægur fjöldi fólks fæst,,
ekki á bílunum okkar svo að löggan geti ekki hirt þá
hugmyndin er að fara labbandi skilja bílana eftir löglega einhverstaðar í stæði og standa fjöldi fólks á gatnamótunum kringlumýrabraut miklubraut ef við erum þarna nógu mikið af fólki getur löggan ekki gert mikið kannski handtekið nokkra en það er séns sem ég er allavega til í að taka, en þið?

mætum nógu andskoti mörg bara og hittumst klukkan 2 á planinu hjá húsi verslunarinnar"""

Hús verslunnar:
http://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%BAs_verslunarinnar

Baldur Fjölnisson, 24.4.2008 kl. 20:26

22 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er engin ástæða til að lækka neysluskatta, frekar að lækka tekjuskatt enn frekar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.4.2008 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband