Von um nýtt heimili fatlaðra á Selfossi

Það sem hæst ber í vikunni eru ekki þingmannsfundirnir – þó margir hafi verið – heldur fundur sem við stjórnarmenn Þroskahjálpar á Suðurlandi áttum með Svæðisskrifstofu og ráðuneyti um möguleika á að opna nýtt nokkurskonar sambýli fatlaðra hér á Selfossi. Ef af verður er um að ræða mikinn áfanga í áratuga baráttu. Allt að fimm fatlaðir einstaklingar gætu þá fengið möguleika á að flytja að heiman í verndað umhverfi sem gæti þá verið fyrsta skref viðkomandi að algerlega sjálfstæðri búsetu.

Ég segi þessvegna nokkurskonar sambýli því vitaskuld eru sambýli fatlaðra að nokkru leyti barn síns tíma. Hafandi starfað í þessum geira í gegnum okkar litla félag, Þroskahjálp á Suðurlandi, hef ég fylgst vel með þeirri þróun og líkað sumt en annað miður. Meðan Eggert Jóhannesson var í forystu þessara mála á Selfossi var mikil uppbygging í sambýlum og annarri þjónustu en síðan hann lét af starfi fyrir meira en áratug hefur þróunin verið vægast sagt hægari. Mannabreytingar í forystu Svæðisskrifstofu tíðar og ekkert sambúðarúrræði bæst við þrátt fyrir að íbúafjöldi á svæðinu hafi nærri tvöfaldast! Okkur er sagt að ástandið sé verra á höfuðborgarsvæðinu. Það kallar á úrbætur þar en ekki að við setjumst með hendur í skauti.

Vitaskuld hafa tímarnir líka breyst að því leyti að mun fleiri fatlaðir flytja nú beint úr foreldrahúsum í svokallaða sjálfstæða búsetu og það getur í mörgum tilvikum verið hárrétt stefna. En eins og með allar stefnur þá eru nýjabrum þeirra gott og alræði þeirra að sama skapi vont. Um mörg undanfarin ár hefur ríkt mikil einstefna í þessum málaflokki.

Við sem störfum í grasrótinni hér á Selfossi höfum séð fjölmörg dæmi um einstaklinga sem þetta hentar mjög illa. Sumir geta ekki tekið þetta skref og búa þessvegna í föðurhúsum mun lengur en ella væri og lengur en var hér almennt á Eggertstímanum. Aðrir missa tökin á lífinu og flytja aftur heim til mömmu. Þriðji hópurinn og það er sá sem verst fer út úr þessari stefnu, einangrast félagslega í lítilli blokkaríbúð þar sem viðkomandi tekst ekki að mynda nein tengsl við umhverfi sitt. (Ekki misskilja mig; meirihlutanum hentar þessi leið prýðilega og fjölmargir eins sumir þeirra sem næst mér standa blómstra algerlega við þær aðstæður að verða eigin herrar.)

Sem hagsmunagæslufélag höfum við í Þroskahjálp lengi þrýst á um úrbætur við lítinn hljómgrunn. En nú er lag. Lambhagi 48 er fallegt timburhús í grónu hverfi sem ríkið hefur í áratugi nýtt fyrir svokallaða skammtímavistun fatlaðra og minn sonur naut þar frábærrar þjónustu í nærri tvo áratugi. Nú hefur sú starfssemi verið flutt í annað hús. Eigandi Lambhagans er félagið okkar Þroskahjálp á Suðurlandi og við höfum nú lagt fyrir ríkið hugmyndir um að þar verði rekið sameiginlegt heimili 5 fatlaðra einstaklinga sem njóta aðstoðar við að feta sig frá hinu verndaða umhverfi foreldra sinna. Margir þeirra geta svo síðar flutt í sjálfstæða búsetu. Úrræði sem þessi eru nokkur í Reykjavík og kölluð áfangastaðir.

Þessa dagana er tvennt í athugun – í fyrsta lagi hvaða einstaklingar kæmu hér helst til greina og sú vinna fer vitaskuld fram á Svæðisskrifstofunni. Þar liggja umsóknir og biðlistar fyrir. Hitt – sem er erfiðari þátturinn - er að berjast í að fá rekstrarfjármagn til verkefnisins sem hleypur vitaskuld á nokkrum ársverkum og kostar sitt…


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Sæll Bjarni,

góður pistill. Það sem ég tel vera aðalatriði varðandi búsetumál fatlaðs fólks er að viðkomandi einstaklingur (og eða hans aðstandendur eftir aðstæðum) hafi raunverulegt val um það hvert hann vill flytja og hvernig hann vill búa. Ég held að enginn hvorki fagmaður, aðstandandi, notandi eða annar geti sagt að eitt úrræði sé það besta. Sem betur fer erum við öll svo ólík og það skapar þann frábæra margbreytileika sem er í okkar samfélagi. Því þurfa að vera ólík úrræði og fólk þarf að eiga raunverulegt val um þau. Eins finnst mér sem manneskju sem starfað hefur að þjónustu við fatlað fólk alltaf gott að muna að það sem maður getur ekki hugsað sér fyrir sjálfan sig eða sína það er ekki boðlegt öðrum. Það eru spennandi tímar framundan og ég til að mynda fylgist spennt með því hvert málin þróast og binda m.a. miklar vonir við "notendastýrða þjónustu" þar sem fjármagnið fylgir einstaklingnum sjálfum og hann ræður til sín starfsfólk (eða fulltrúar hans). Þá er aðskilið það sem oft hefur valdið vandræðum að þjónustan fylgi steypunni heldur eru það tveir aðskildir þættir. Þjónustan er þá eitt en þakið annað.

Bestu kveðjur.

Kristbjörg Þórisdóttir, 12.6.2008 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband