Hvers á æðurinn að gjalda!

Stóri, góði ísbjörninn liggur í æðavarpi Hraunsbónda á Skaga og étur þar egg og æðarunga að vild sinni meðan beðið er eftir dönskum dýragarðsmönnum sem ætla að svæfa dýrið og fara líklega með það heim í dýragarðinn sinn! Nú er vissulega góðra gjalda vert að þyrma lífi ísbjarnar en ef polar%20bearniðurstaðan er sú að björn þessi lendi í dýragarði þá er sú lífgjöf sannkallaður bjarnargreiði við bangsa kallinn. Og það að verja milljónum í skrípaleik sem þennan er vitaskuld óhæfa. Fyrir sama pening mætti til dæmis styrkja Kattholt eða aðra góða dýraverndunarstarfssemi þannig að bjarga mætti tugum ef ekki hundruðum dýra. Að ekki sé talað um allt annað gott sem mætti gera við sömu upphæð í aðstoð við sveltandi manneskjur.

Þegar kemur að fjárlögum mun ég leggja til að bangsareikningurinn sá arna verði skrifaður á kostnað Íslands við hið einstaka framboð okkar til öryggisráðsins. Það hefur nefnilega spurst út að erlendir sendimenn hafi engan áhuga lengur á að býsnast yfir hvalveiðum okkar en haldi varla vatni af hneykslan yfir hvítabirninum sem drepinn var upp af Gönguskörðunum á dögunum.

Öll endileysan einkennist af raunalegri flokkun teiknimyndasamfélagsins á dýraríkinu í góð dýr, minna góð dýr og vond dýr. Minkur, refur, mávur, starri og mús eru mjög vond dýr og þau má drepa hvernig sem er. Hvalurinn, ísbjörninn, örninn og sjálfsagt fleiri stór gráðug rándýr eru mjög góð og aðeins glæpamenn og lífhræddir vesalingar skerða hár á höfði þeirra. Þarna í milli lendir svo æðurinn með stórum hópi dýra sem menn og ísbirnir mega drepa ef þeir vilja enda líf þessara allra frekar ómerkilegt. (Innan sviga má svo setja þá sérstöku siðfræði að það telst nú orðið til dýrafræðidyggða að drepa sama laxinn oft og utan við siði og rétt eru verksmiðjubúskapar dýr sem menn mega kvelja upp til hins óendanlega, hagvextinum í vil.)

Ég mæli með að umhverfisráðuneytið og Novator gefi nú að loknu Hraunsævintýri sínu út handbók um það hvaða dýr eru mikið góð, hvaða dýr eru minna góð og hver eru mjög vond þannig að allir viti sig hér eftir í fullum rétti að tína af sér flærnar...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Bjarni og til hamingju með þjóðhátíðardaginn


Svona eru aflátsbréf nútímans. Það er öllum sama um hvernig dýrinu vegnar í dýragarði poppkorns og kóla. Bara að það hafi sitt umhverfis-aflátsbréf á hreinu og að það hafi gert það sem er pólitískt rétttrúarlegt í umhverfismálasöfnuðinum.

Þetta er náttúrlega skrípaleikur. Þetta er skylt aflátsbréfasölunni með "geitur" og "börn" sem einfaldir vesturlandabúar hafa verið að "kaupa" í Afríku, en sem voru ekki til. Peningarnir eru því að mestu í vasa velhafandi söfnuða, dópsala og herforingja sem nota her sinn eins og VISA-kort til að soga út peninga borgarana til sín í gegnum byssuhlaup - styrkt af kjánum á vesturlöndum.

En núna líður öllum svo vel, því fólk er með bréf uppá hvað það er gott. Það er með kvittun.

Gunnar Rögnvaldsson, 17.6.2008 kl. 11:02

2 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Góður pistill Bjarni þette er eins og musteri fáránleikans

Jón Aðalsteinn Jónsson, 17.6.2008 kl. 12:31

3 Smámynd: Gulli litli

Vitiði hvað .það tekur mörg ár að koma upp æðarvarpi? Hver ætlar að borga Steini bónda skaðann?

Gulli litli, 17.6.2008 kl. 13:44

4 identicon

já ég er sammála þér þarna..;)

Ólína Svæk (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 14:56

5 identicon

Get ekki verið meira sammála, auðvitað átti að skjóta dýrið um leið, komið út fyrir sitt eðlilega svæði og engin veit ástæðuna.

Verði bangsa flogið norður og hent á ísinn, gæti hann orðið fyrir öðrum björnum. Eins gæti verið að bangsi sé illa haldinn og þess vegna að hann kom. Möguleiki að hann sé sýktur, og við með því að setja hann niður á annað svæði en hann kom frá, að breiða út sjúkdóm. Svo gætum við líka verið að fikta í erfðalegum breytileika ísbjarnarstofsnsins með því að setja hann á nýjan stað.

Einfalt, björninn flæktist sjálfur til Íslands og ef að það er ekki hægt að láta hann vera í friði á að aflífa hann.

Hátíðarkveðjur Ingimundur Kjarval

Ingimundur Kjarval (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 15:10

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sælir allir og til hamingju með daginn! Þetta var þörf predikun og margur hefur nú verið höggvinn fyrir minna en það að bera saman umhyggju fyrir hinum ýmsu dýrategundum. en ein dýrasta eign mannsins er nú einu sinni átakalítil fórnaraðferð til friðþægingar.

Kom einu sinni inn í hænsnabú þar sem dauðar hænur í búrum drituðu eggjum niður á færiband. Þessar hænur voru dauðar í þeim skilningi að þær höfðu ekki fæðst til annarar tilveru en þeirrar að standa skrokk við skrokk meðan þær voru að éta sig til varpþroskans. Síðan að standa í búrum svo þröngum að ekki gátu þær snúið sér við, en hausinn var látinn snúa að fóðurtroginu.

Í einu búrinu voru tvær af þessum hænum dauðari en hinar, með því að þær lágu stirðnaðar undir fótunum á þeim sem voru að keppast við að éta og verpa samkvæmt rítuali hagvaxtar.

Af því að það er þessi dagur sleppi ég að minnast á aðbúnað og aflífun svína.

En hafið þið nokkuð heyrt af því að fáni Evrópusambandsins hafi verið viðraður í sólskininu á þessum degi íslenska lýðveldisins?.

Árni Gunnarsson, 17.6.2008 kl. 15:19

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Af heimsóknum mínum til Grænlands, þá veit ég að bjardýr eru skotin, hvar sem til þeirra sést og þykja mikill fengur. Ekkert elsku mamma þar.  Það er valkosturinn gegn því að kvelja blessað dýrið í fangabúðum einhver dýragarðs.

Það er eins og ekkert sé á seyði í þessu landi en heimsókn þessara bangsa og hefur verið svo um einhverjar vikur.  Ég held sveimér að þessi þjóðarsál sé með alvarlegan athyglisbrest, auk þess að hafa djúpa þörf fyrir að auglýsa sjálfmiðaða samhyggð sína á meðan það étur lambaketið samviskulaust. Þetta er ekkert annað en brandari. Auðvitað á að farga dýrinu.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.6.2008 kl. 17:03

8 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Bjarni. Flottur pistill hjá þér. Ég er alveg sammála ykkur hér að ofan. Náttúran er að verða hálfgeld af  inngripum "verndaraflanna"  Mér finnst að verið sé að  hjálpa til við að handsama dýr sem á að pína í búri, markaðsöflunum til framdráttar. Ég hef aldrei skilið það að hafa gaman af að horfa á þannig atriði. Betra að aflífa það strax.

Kolbrún Stefánsdóttir, 17.6.2008 kl. 17:55

9 Smámynd: Haraldur Haraldsson

þarfur og góður pistill þetta Bjarni!!!!Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 17.6.2008 kl. 21:51

10 Smámynd: Arnar Hólm Ármannsson

góður pistill.....:)

Arnar Hólm Ármannsson, 17.6.2008 kl. 22:17

11 Smámynd: Sigurður Árnason

Ég tel eðlilegt að umhverfisráðuneytið greiði þann skaða sem varð af völdum bjarnarins hjá bændum á Hrauni. Legg til að komið verði á margra ára vöktunarverkefni til að meta tjónið því eins og fram hefur komið hjá ábúendum að þá kemur tjón þeirra væntanlega ekki fram fyrr en á næsta ári. Tel að Náttúrustofa Norðurlands vestra geti vel séð um þessa vöktun fyrir ráðuneytið.

Sigurður Árnason, 17.6.2008 kl. 22:48

12 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Jú auðvitað og líka fyrir danska liðið sem kom í ofboði til að bjarga dýrinu. Í minni sveit hefði bóndinn bara skotið dýrið sjálfur til að bjarga sínu. Meiri vitleysan. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 17.6.2008 kl. 23:24

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Á það sem sagt alltaf að vera stefnan að drepa hvern þann ísbjörn sem að landi kemur eins fljótt og hægt er? 

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.6.2008 kl. 23:34

14 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Á það sem sagt alltaf að vera stefnan að drepa hvern þann ísbjörn sem að landi kemur eins fljótt og hægt er?


Það færi sjálfsagt eftir því hvort hann kæmi í land í innri höfninni í Reykjavík, færi inn í Kringluna, Austurstræti eða Alþingi - eða myndi einungis éta upp æðarvarp eins bónda og æti svo kanski börnin hans í eftirrétt. Fjöldi fólks í étanlegri nálægð myndi væntanlega skera úr um byssuhraðann.

Hvort myndir þú kjósa ? Að vera étinn eða ekki?

Það er ekki í eðli ísbjarna að setjast að á Íslandi því þá hefðu þeir fyrir löngu gert það. En þegar þeir sækja að ísbrúninni, til að veiða seli (en hræðilegt), þá skeður það stundum að ísinn brotnar upp og þeim rekur í suður, of lengi. Sumir verða einfaldlega mjög óheppnir. Svo fer ísinn að bráðna undan þeim og flestir þeirra drukkna. Svona er náttúran.

En einn og einn lifir af ferðina til Íslands. Þegar þeir svo koma í land á Íslandi eru þeir nær dauða en lífi. Það er svo aldurinn og staðsetningin sem mun skera úr um hvort þeir nái heilsu aftur. Þeir munu aldrei komast til baka og það veit enginn hvaðan þeir komu - frá hvaða lögsögu.

Það er vel hugsanlegt að þessi ísbjörn sem kom núna í land hafi verið gamall. En hann var örugglega mikið þjakaður og hefði því að líkindum ekki lifað af hvort eð var.

Já - Það sennilega er best að drepa þá eins fljótt og hægt er því það er ekki eftir neinu að bíða. Leiðinlegt, en því miður rétt.

Gunnar Rögnvaldsson, 18.6.2008 kl. 01:17

15 identicon

Auðvitað átti að skjóta bangsan strax þegar færi til þess gafst.     Það fer nú að verða erfitt að elta allar upp á komur svokallarða náttúruverdarsinna ef ekki má einusinni skjóta rándýr sem getur verið stór hættulegt mönnum, búsmala bænda og lífsafkomu þeirra. 

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 08:32

16 identicon

„Ég mæli með að umhverfisráðuneytið og Novator gefi nú að loknu Hraunsævintýri sínu út handbók um það hvaða dýr eru mikið góð, hvaða dýr eru minna góð og hver eru mjög vond þannig að allir viti sig hér eftir í fullum rétti að tína af sér flærnar...“

Það vill svo skemmtilega til að þessi bók er til, samin af Jónasi nokkrum Jónssyni, og heitir Dýrafræði.  Þar eru dýrin flokkuð í vond og góð sem rímar reyndar býsna vel við æt og óæt.  Og með því að Jónas þessi er ekki alveg með öllu ókunnur framsóknarmönnum og þú ert bæði bókamaður og framsóknar- ættirðu nú að grafa hana upp og senda krötunum í umhverfisráðuneytinu.  En kannski kannast þeir við manninn því hann kom víst eitthvað við sögu hjá þeim líka.  En sem sagt; málinu reddað.

Tobbi (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 21:17

17 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ekki hefði ég beðið eftir Þórunni og fylgisveinum ef þess bangsi hefði í mínum bakgarði dvalið, heldur vegið hann sjálfur og það undireins.

Mér er það til efs að nokkur bæti bóndanum skaðan, það eru jú fleiri bændur á íslandi en ísbirnir og þó að þeir séu nánast komnir á lista yfir dýrategundir í útrýmingarhættu, þá er þorra skersbúa slétt sama hvað um þá verður eða það sem þeir hafa tekjur sínar af.

Eiður Ragnarsson, 19.6.2008 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband