Með harðsperrum dögum saman!

gullagangaKom úr þriggja daga göngu um Stafafellsfjöll á miðvikudag og kúrðum okkur svo hjónakornin á eftir í notalegu hótelrúmi á Höfn.

Gangan átti reyndar að vera fimm daga en Steingrímur Hermannsson bjargaði mér frá að fara fyrr en tveir fyrstu göngudagar voru að baki og kannski hefði ég ekki þolað meira. Nógar eru harðsperrurnar enn á föstudegi!

Leiðsögumaður var minn gamli vinur og skólafélagi Gunnlaugur B. Ólafsson frá Stafafelli, mikill snillingur og fjallageit, krati af guðs náð og mjög hugsandi maður. Það var mikil skemmtun að vegast þar á í pólitíkinni innan um stórfenglegar skriður og líparítkletta eins og þann sem hér sést á myndinni og heitir held ég Brenniklettur. Við hjónin erum hér til hægri á myndinni og dóttir mín Eva lengst til vinstri en hinir eru flest kennarar þaðan og héðan, reglulega skemmtilegir og líflegir ferðafélagar. Semsagt Eva, Kristín, Fjóla, Magnús, Kristján, Veiga, Jónína, Sigga, Bjarni, Elín, Bryndís og Sigrún en myndina tók leiðsögumaðurinn Gunnlaugur og myndin tekin (með stöðluðu ESB-leyfi) af hans vef.

hjonabandidTil byggða komin biðu mín þau tíðindi að Jón Ólafsson stórsnillingur væri látinn eftir árlangt stríð við krabbamein. Meira um hann síðar en sunnlenskt menningarlíf og sagnaskemmtan hafa mikils misst. Blessuð sé minning Jóns. Hann er hér á mynd, fyrstur frá vinstri, með hljómsveit sinni Hjónabandinu en myndina tók Sigurður Bogi Sævarsson.

Fór í gærmorgun í morgunkaffi til kollega minna hjá fyrirtækinu Galdri sem hafa gefið út blaðið Eystra Horn á Höfn. Liðlega tuttugu ára blað og mikilvæg kjölfesta í menningarlífi Austur - Skaftfellinga allra. Nú hafa þeir félagar ákveðið að hætta útgáfunni og eiga raunar ekki annarra kosta völ. Rekstrargrundvöllinn vantar og þetta er ekki eina dæmið nú um erfiðleika í rekstri lítilla fyrirtækja. Þeim er ekki hjálpað eins og bönkunum heldur þvert á móti þrautpínd með tilhæfulausu og tilgangslausu vaxtaokri sem sligar allt atvinnulíf.

Endirinn á ferðalaginu var svo að heimsækja Þórbergssetrið sem oftar en Elín var að koma þar í fyrsta sinn. Þar fengum við dýrðlega kjötsúpu en toppurinn í matarmenningu ferðarinnar var að fá á Hótel Höfn heimagerðan ís frá Sæmundi í Árbæ á Mýrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Bjarni.

Já það er sannarlega hugsjónastarf að standa í dreifingu upplýsinga á landsbyggðinni, og með ólíkindum hve illa er staðið að því að styðja við það starf sem þar er innt af hendi, Eystra Horns verður saknað.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 28.6.2008 kl. 03:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband