Alvarlegum skilnaði afstýrt...

Það er undarleg líðan að ætla sér raunverulega að segja skilið við þann sem maður ber elsku til. Fyrst í stað fylgir því léttir undan fargi erfiðrar sambúðar. Sigurtilfinning að hafa stigið skref sem oft hefur leitað á hugann.

Hreinsun því aldrei aftur stendur maður frammi fyrir svikum, vonbrigðum og niðurlægjandi uppákomum á almannafæri. Aldrei aftur standandi framan við sína heittelskuðu sótrauður af vonbrigðum og bræði. Aldrei aftur...

Síðan andvökur, sárindi og sálarflækjur. Efasemdir og endurmat. Hinn raunverulegi sigur verður þá fyrst þegar sálartetrinu tekst að hætta við áður boðaða ákvörðun. Játa ístöðuleysið gagnvart ástinni.

IMG_4021

Við fórum á miðvikudaginn á elskunni minni í tveggja daga reisu um fjöllin blá, eiginlega kveðjurúnt. Ég hef verið að undirbúa hana undir þetta í allt sumar með allskonar dekri og snurfusi. Og svo þegar við liðuðumst í skakstri öræfanna, upp og niður endalaust,  ókleifan bratta og niður í óræða gilskorninga, Skælinga og fallísk tákn, bæði Sveinstinds og Gjátinds þá rennur upp fyrir mér að til eru þau verðmæti sem aldrei verða ofmetin. Þær vammir og skammir sem alltaf eiga fyrirgefninguna skilið.

Enda var ferðalagið óborganlegt og fór ekki í baklás fyrir en á hlaðinu heima. Þá allt í einu brást hún við með þvermóðsku og leiðindum sem vörðu næturlangt. Morguninn eftir var allt í lagi eins og bara til að minna á að hún Stóra Rauð var líka með í ferðalaginu. Hafði drepið á sér í innkeyrslunni hér við Sólbakka en var komin í gott skap daginn eftir.

Og ég sem var búinn að auglýsa hana fala. Fyrir litlar 800 þúsundir. Það var að vísu svo hátt verð að enginn hefur hringt ennþá og ef einhver vogar sér þá mun ég svara eins og Jón á Loftsstöðum - með þjósti að þetta séu 800 þúsund - danskar!

Hún Stóra Rauð verður ekki seld. Ekki í þetta skiptið og máske aldrei enda áttum við hjónakornin í henni frábærar stundir sem enginn getur sagt frá,- nema fljúgandi tittlingar inn við Ljónstind og já, hún Stóra Rauð.

Hún stendur nýskoðuð, nýmáluð og stolt á hlaðinu hér á Sólbakka eins og verðlaunahryssa.

(Myndin hér að neðan er af bílnum góða en myndin að ofan er af okkur hjónakornunum uppi á Gjátindi.)

husbill001

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hanna

Skemmtileg færsla :)  Ég myndi nú hvoruga selja!!!

Hanna, 21.7.2008 kl. 11:58

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það er akkúrat ekki nokkur ástæða til, að segja fala eina af svona góðum vinkonum.

Skamm

Eigðu hana lengi og farðu vel með hana.

Það gæti farið svo, að ef þú lætur Stóru Rauðu lausa, gæti losnað um aðra Rauðku,  ha?  Hefur þú spekúlerað í þeim möguleika, þegar þú yrðir rauðkulaus, verði lífið ekki eins fallegt og gott, þá hefðir þú enn minni ástæðu til að vakna á morgnana.

Lengi lifi vinátta manns og þess sem hann ríður, hvort sem er hross eða bíll.

Miðbæjaíhaldið

Er búinn að sansa konu mína á, að selja Ekki Pattann.

Það borgar sig ekki, að láta vin frá sér fyrir rýran pung Gulls.

Miðbæajríhaldið

Bjarni Kjartansson, 21.7.2008 kl. 12:00

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Góð saga, skemmtilega skrifuð. Þessar elskur hafa sálir það er enginn vafi.

Júlíus Valsson, 21.7.2008 kl. 13:14

4 Smámynd: Júlíus Valsson

ps

Salinger, Grisham og Maugham sviku ekki. Allir á 100kall og elskan mín sagði ekki orð.   

Júlíus Valsson, 21.7.2008 kl. 13:49

5 Smámynd: Kolgrima

Úff, hvað mér er létt

Kolgrima, 21.7.2008 kl. 16:07

6 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sé eg tár á hvarmi!!!!/Kveðja til trygglyndra/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 21.7.2008 kl. 17:12

7 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Bjarni. Verulega flott.

Sigurður Þorsteinsson, 21.7.2008 kl. 18:19

8 Smámynd: Hannes Friðriksson

Þetta er einmitt bíllinn sem ég var að leita að. Sumir eru bara alltaf of seinir.Eigðu hann áfram.

Hannes Friðriksson , 21.7.2008 kl. 20:55

9 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Trygglyndi Framsóknarmanna er óviðjafnanlegt.  Þú hlýtur að vera höfðingi heim að sækja og leyfa gestum og gangandi að taka í gripinn.

Vonandi áttu eftir að njóta vel og lengi, en ef þú skyldir skipta um skoðun, þá býð ég 800 peseta eða lírur í rauðu fjallageitina þína.

Ég er að hálfu komin af Framsóknarfólki mann fram af manni en hinn helmingurinn  af mér er rauðari en skrattinn sjálfur eins og bíllin svo ég held að hann færi mér miklu betur en þér.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 21.7.2008 kl. 23:28

10 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Frábær mynd af ykkur hjónakornum! Það er náttúrulega glapræði að selja Stóra-Rauð. Væri það ekki eins og að selja sálina úr sér? Kíkti í kaffi hjá strákunum um daginn. Alltaf gaman að lesa bloggið þitt Bjarni. Kveðja úr Þorlákshöfn.

Sigurlaug B. Gröndal, 24.7.2008 kl. 11:01

11 Smámynd: Lýður Pálsson

Flottur éppi!

Lýður Pálsson, 24.7.2008 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband