Að vera úreltur!

Ekkert er nýtt undir sólinni segir í Predikaranum og hefur svo sannarlega reynst orð að sönnu svo sem hugmyndir, stefnur og straumar ganga aftur staflaust millum okkar, sumt árþúsunda gamalt.

Af öllum þessum draugum er enginn eins þrálátur, hvumleiður og ódrepandi eins og sá armi Bör Börsson í okkur öllum. Hin nýríki, uppskafningslegi spjátrungur sem ævinlega skal trúa því að Predikarinn hafi rangt fyrir sér, allt gamalt sé ónýtt, afar okkar kjánar og allt nýtt sé nýtt. Hann birtist okkur á Íslandi í steypuskrímslum í miðbænum sem hann lét illu heilli reisa í stað gamalla timburkofa. Ætli Bör þessi heiti ekki metrómaður í dag, stífgreiddur og straujaður.

Mætir okkur í dyrunum með útlent skoffínsglott og hrátt fuglaket sunnan úr heimi, búinn að brenna allar þær brýr sem hann fundið gat að baki sér. Og trúir því að síðustu að bæði þjóðríkið sé úrelt og lýðræðið sé prump sem megi míga á með því að láta almúgann kjósa aftur og aftur um sama hlutinn. Já og þjóðleg menning er honum úrelt hugmynd fyrir elliheimilin.

Bör þessi á sér sína draumadaga og hefur átt mörg sældarskeið, bæði með hækjum alþjóðasinnaðra sósíaldemókrata og uppstrílaðra frjálshyggjudrengja sem trúa blint á alþjóðavæðingu og alheimskapítalisma. En á því herrans ári 2008 er hann blessunarlega úreltur!

Det forandres

Á síðasta velsældarskeiði Börs þessa átti ég því láni að fagna að taka þátt í samnorrænu verkefni um grænar fjölskyldur, þ.e. umhverfisvænan lífsstíl við heimilishald. Síðan eru full 15 ár en ég hef eftir megni reynt að viðhalda því sem við lærðum í þessu verkefni, bæði hér heima og í námskeiði suður á Jótlandi. Þaðan er mér jafnan minnisstætt samtal við einn danskan umhverfissinna sem mjög talaði móti því að vörum væri endasent millum heimsálfa að óþörfu. Í því væri fólgin mikil umhverfissóun verðmæta og mengun. Þjóðir og héruð ættu að framleiða allt það sjálf sem þau gætu með viðunandi hagkvæmni og lágmarka flutning á til dæmis landbúnaðarvörum milli landa. Hann var hálfgerður Gandhisinni.

Þó þessi málflutningur hrifi vissulega mitt Framsóknarhjarta þá var ég samt fullur efasemdar um að þessi sjónarmið næðu nokkru sinni máli og hafði þær efasemdir á orði við þennan dana. Taldi sem von var að heimurinn væri að skreppa saman og markaðir hans sömuleiðis. Því myndi það bara aukast að fólk á norðurhveli æti ket af nautum af suðurhveli en klæddist flíkum úr austurálfum. Þetta væri þróun sem yrði varla stöðvuð.

„Det forandres," sagði daninn og glotti. Bætti því við að það yrði frekar fyrr en síðar sem þjóðir heims yrðu að beita skynseminni í þessum efnum í stað þess að trúa blint á markaðslögmálin. Orkuskortur, fæðuöryggi og framtíð jarðar væri hér í húfi. Og þó ég hafi á þeim átt bágt með að trúa svo stórum hlutum í einu hefur þessi sannleikur smám saman síast inn hjá mér og fengið stöðugt öflugri stoðir í umhverfi heimspólitíkurinnar.

Bylur hæst...

Við feikum ekki veröldina og allt eru þetta hliðar á sama peningi. Þjóðræknin, menningarvarðveislan, tungan, viðhald landbúnaðarins í landinu, byggðastefnan og varðveisla sjálfstæðisins. Við getum hent einu og ógnum þá því næsta. Og leyfum hinum íslenska metrómanni að hrópa að þetta sé allt úrelt og hér sé næsta skref að leyfa hömlulausan innflutning á hráu keti, hvað sem líður hreinleika landsins og atvinnuhagsmunum þúsunda Íslendinga. Við Íslendingar erum reyndar þegar í hópi þeirra þjóða sem mest leyfum af tollalausum matvælainnflutningi.

Allt tal um hvað sé úrelt verður broslegt nú þegar stærstu hagsmunir stjórnmálamanna víðast hvar á Vesturlöndum eru einmitt að viðhalda atvinnunni. Á tímum þegar Doha viðræðurnar sigla í strand undan frekju stórfyrirtækjanna. Þessa sama einokunarkapítalisma og ber nú ábyrgð á verstu heimskreppu í manna minnum.

Í öllu þessu er gaman að hlusta á Bör og aðra talsmenn metrómannsins. Þar bylur svo sannarlega hæst í tómri tunnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þennan ágæta og skemmtilega pistil Bjarni


Það hefði kanski ekki verið úr vegi að spyrja herra Mosaskegg Aflátsbréfasölumann Synda Okkar að því hvort hann heldur hafi viljað að danska ríkisstjórnin léti reisa þrælabúðir á hinum Jósku heiðum fyrir innflutta Kínverja sem svo gætu framleitt metrómannavörur ofaní Evrópubúa þaðan? Þá þyrfti nefnilega ekki að flytja neinar vörur, nema hárvörur og úrgang - og svo náttúrlega mengun við að senda alla peninga heim til þeirra Kínverja sem áfram búa í framhaldsmyndaþáttunum Örbyrgð Okkar. Allt væri eins og það ætti að vera og öllum liði vel. Taka svona eins og 20 milljón Kínverja og stafla þeim í búnkera á heiðinni sem Íslendingar misstu af.

Það er eins gott að sá matur sem Danir framleiða á hverjum degi ofaní 15 milljón manns sé allur étinn innanlands. En þeir gráta samt sárt yfir að geta ekki komið íslenskum bændum í rúmið á Íslandi, með afurðum frá landbúnaði þeirra í Austur Evrópu.

Það á náttúrlega að banna öllum sem ekki eru búnir að iðnvæðast að gera það, eingöngu vegna þess að atvinnulausir ESB búar, sem jú eru búnir að iðnvæðast, hafa ekkert annað að gera allann daginn en að bora í nefið á sér og hafa áhyggjur af umhverfi annarra sem sína einu sönnu atvinnu. Að drepa afríska drauminn í fæðingu.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 11.8.2008 kl. 18:33

2 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Sæll kæri Bjarni!

Danskurinn hefur verið að tala um hið svonefnda Rio-samkomulag - sem er samþykkt flestra þjóða um að stuðla að ,,sjálfbærri þróun" og var undirritað í Rio 1992.  Það var Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs, sem var í forystu þeirra sem stuðluðu að samkomulagi þessu.

Samkomulagið skiptist í Agenda 21 og Local agenda - þ.e. að hvert svæði verði eins sjálfbært og því er unnt í skynsamlegri nýtingu náttúru-auðlinda (þannig að afrakstur auðlindarinnar verði sem flestum til handa og að sem mest verði eftir heima í héraði, atvinnusköpun, verndun menningar og  jafnræðis allra.

Það er dulítið fornaldarlegt að fjalla eingöngu um ,,metro-menn" í þessu tilfelli - því konur eru u.þ.b. helmingur mannkyns og aðhyllast allt eins og karlmenn - kenningar Adams Smith - um hina ósýnilegu hönd markaðarins sem öllu ætti að stýra!!!!  Markaðurinn sæi alltaf um að leita jafnvægis.

og...... það er mjög, mjög forvitnilegt að lesa dagbókarskrif Matthíasar Johannessen á mbl.is - en þar má sjá býsna forvitnilegar útskýringar Hannesar Hólmsteins á hinum neikvæðu öflum hins frjálsa markaðar!!!!!

Hafðu það gott á Sunnlenska kaffihúsinu - sem er yndislegt heima að sækja 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 21.8.2008 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband