Krónan, Kjarval og hin óskiljanlega ríkisstjórn

Vegir guðs eru óskiljanlegir og langt síðan við mannanna börn sættum okkur við það. Hitt er nýtt að hafa yfir okkur veraldlega landsfeður sem ganga óskiljanlega vegi.

Þannig hefur forsætisráðherra boðað efnahagsaðgerðir í rúmt ár en gefur svo út yfirlýsingu um það á miðju sumri að það hafi skilað gríðarlegum árangri að gera ekki neitt. Af hverju var þjóðinni þá boðað að ríkisstjórnin væri að undirbúa aðgerðir ef best var að engar yrðu.

Á sömu lund er sú yfirlýsing að ríkisstjórnin muni nú búa þjóðina undir að uppfylla öll skilyrði til Evrópusambandsaðildar og myntbandalags til þess eins að ganga svo í hvorugt!

Kjarvölsk fyndni

Allt minnir þetta mig á fyndnisögu af Jóhannes Kjarval listmálara sem ég heyrði sem barn og einhverjir kunna söguna betur en svona var hún þegar Páll Dungal garðyrkjubóndi sagði okkur strákunum í Laugarási hana fyrir áratugum.

Meistarinn borðaði á Hressingaskálanum á þeim árum og segir einhverntíma þegar hann kemur út á tröppur veitingastaðarins:

- Það er alveg að koma!

Orðin voru sögð hátt og skýrt þannig að vegfarendur um Austurstræti heyrðu og meistarinn löngu orðinn viðurkenndur og þekktur. Því dreif að svolítinn mannfjölda og bjóst nú við að einhver snilldin væri á næsta leyti og enn fjölgaði þegar Kjarval endurtók sömu setningu nokkrum sinnum með drykklangri þögn á milli. Að lokum var þetta orðinn nokkur söfnuður þegar sjöunda andvarp listamannsins kemur úr hans munni og segir nú:

- Það er komið!

Enginn varð reyndar var við að nokkuð hafi gerst en gárungar giskuðu helst á að meistarinn hefði leyst vind að viðstöddu fjölmenni.

Þetta er auðvitað ekki viðeigandi fyndni í umræðu um grafalvarleg efnahagsmál. Staðreyndin er þó að útúrsnúningar stjórnarliða eru hér litlu skárri og Pétur Blöndal bætti reyndar um betur í umræðu um gjaldmiðilsmál þjóðarinnar þegar hann sagði um daginn að þegar og ef að því kemur að íslenska þjóðin nær þeim árangri að uppfylla skilyrði evrópska myntsamstarfsins væri það slíkur árangur að örugglega hefði þá enginn áhuga á að skipta krónunni út.

Aðrir kostir en evra

Þessi fullyrðing Péturs er rétt að nokkru leyti en leysir íslensku þjóðina þó ekki undan þeirri spurningu hvort það sé skynsamlegt að halda hér úti sjálfstæðum fljótandi gjaldmiðli. En hún svarar því að nokkru leyti hvaða leiðir eru færar út úr vandanum og hverjar eru það ekki. Það vita nefnilega allir sem vilja vita að líkurnar á að hið sveiflukennda íslenska hagkerfi uppfylli þau skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu í myntsamstarf evrunnar eru afar litlar. Eiginlega hverfandi eins og staðan er í dag.

Það eru aftur á móti ýmsir aðrir möguleikar í stöðunni og fjöldi hagfræðinga hefur bent á aðrar leiðir sem eru utan við sjónarhring þeirra sem bundnir eru nauðhyggju Evrópusambandsins. Það er ekkert sem segir að Ísland geti ekki leitað hófanna hjá sínum nágranna og samstarfslöndum um myntbandalag. Slíkt samstarf er algengt í henni versu. Við getum líka hreinlega íhugað tilraun með fjölmyntarkerfi sem getur frekar gengið hér en víða vegna mikillar kortanotkunar. Slík kerfi eru þekkt í alþjóðlegum flughöfnum.

Við vitum að minnsta kosti að þessar leiðir myndu ekki ógna sjálfstæði þjóðarinnar með sama hætti og innganga í ESB og því heldur ekki skipta þjóðinni upp í tvær andstæðar fylkingar með sama hætti og ESB - aðild hlýtur að gera.

Engar af þessum hugmyndum hafa verið slegnar út af borðinu með rökum og engin þeirra verið skoðuð ofan í kjölinn. Einhvern veginn hefi ég efasemdir um að núverandi ríkisstjórn komi slíkri skoðun í verk frekar en öðru sem þar liggur fyrir á borðum.

( Birt í 24 stundum laugardaginn 23. ágúst 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Mér finnst þetta athygli vert, þetta með fjölmyntakerfi væri gaman að pæla í og ekki síður þetta með nágranna myntbandalag, hverjir væru nágrannar okkar í þessu tilfelli?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 24.8.2008 kl. 22:53

2 identicon

Kæri Bjarni, þú og fleiri virðist ekki fatta út á hvað EMU gengur og afhverju við eigum ekki að taka einhliða upp aðra gjaldmiðla.
Það sem Ísland skortir er stór og öflugur seðlabanka sem bakhjarl við hagkerfið.
Seðlabanka Íslands er alltof veikur til þess að vera sá bakhjarl sem við þurfum og allar hugmyndir um að taka ofurlán til þess að redda krónunni eru dæmdar dauðar.

Ísland þarf efnahagslegan stöðugleika, sem að aðild að EMU mun byggja upp til lengri tíma litið.
En til þess að þessi efnahagslegi stöðugleiki náist þá þarf einnig pólítískan stöðugleika og hann næst með inngöngu í ESB.

Gunnar Hjaltason (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 18:18

3 identicon

ja hérna Bjarni synd að þú skulir ekki vera öryrki, nei sorry en öryrkjar hafa nú fengið að heyra það frá einum fimm ráðherrum yfir þeirra málaflokki að úrbóta sér að vænta, það er mikið lengri tími en hjá Geir út af fjárhag þjóðarinnar. Eins og hjá Kjarval er þett alltaf alveg að koma, en enginn hefur samt en sagt við mig ,,má ég greiða yður fröken?" það hefði verið kærkomið. Ég er vægast sagt orðin úfin. Nú er Jóhanna fallin í sömu gryfju og allir hinir og staglast á prósentuhækkunum til handa aumingjunum í landinu, Veit hún ekki að það eru prósentur af örfáum krónum sem um er að ræða? Kjarabót my foot! Ég get ekki einu sinni splæst í heiðvirða hvítvínsflösku til heiðurs listagyðjunni þá fæ ég svo miklar efnahagsáhyggjur. Síðasta þjóðarsátt fór alveg með mína kímnigáfu, veit ekki hvað sú næsta tekur frá mér, hafðu það gott hjá Signubrúnum, París er svo dýr borg að ég ferðast bara þangað í huganum, njóttu fyrir mig.

Guðrún Jónína Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband