Dýrafræði fréttastjórans

Fréttastjóri 24 stunda skrifar ágætan leiðara í blaði sínu fyrir skemmstu þar sem hann gerir að umfjöllunarefni kröfu okkar Framsóknarmanna um bætt siðferði í viðskiptum og aukið eftirlit með þeim hlutafjármarkaði sem hér hefur þróast hratt á undanförnum árum.

Svolítið skriplast leiðarahöfundi þó þegar hann fjallar um meint tengsl Framsóknarflokksins við Samvinnutryggingarnar sálugu og hlutafélög þeim tengd. Það er rétt að Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um samvinnurekstur í landinu. Við sem þeim flokki tilheyrum teljum að samvinnuformið sé gott mótvægi við einkarekstur. En flokkurinn ber enga ábyrgð á viðskiptum þeirra manna sem sýsla með fé innan þeirra félaga, ekki frekar en að Sjálfstæðisflokkurinn beri ábyrgð á öllum sem starfa innan einkahlutafélaga.

Hin nánu tengsl samvinnuhreyfingarnar sálugu við Framsóknarflokkinn voru barn síns tíma og áttu sér samsvörun í tengslum Alþýðuflokksins við ASÍ annarsvegar og Sjálfstæðisflokksins við fjölskyldurnar fjórtán. Ekkert slíkt á við í dag og tilfellið er að fæstir þeirra sem nú koma að umsýslu hinna gömlu SÍS félaga og sjóða þeirra tengjast Framsóknarflokki. Sumir þeirra eru flokksbundnir í Sjálfstæðisflokki og aðrir utan flokka.

Hér skal ekkert mat lagt á ásakanir fréttastjóra 24 stunda í garð þeirra sem sýsla með eignarhaldsfélagið Gift eða önnur félög í landinu en aðeins endurtekið það sem ég hefi fyrr sagt að full ástæða er til að velta við öllum steinum nú þegar fallið er mesta rykið í hlutafjárviðskiptum sem ekki eiga sinn líka í sögu þjóðarinnar.

Ef það er alvara blaðamanna í Hádegismóum að skilgreina sektir og sakleysi í þeim efnum eftir dýrafræði flokkapólitíkur er hætt við að fari um þá tegund sem mest hefur verið ráðandi bæði við ritstjórn Morgunblaðsins og 24 stunda.

(Birt í 24 stundum í september 2008 - umræddur leiðari er birtur hér að neðan í kommenti)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Harðarson

(umræddur leiðari 24 stunda er svohljóðandi:)

Naflaskoðun?Vilji er til þess innan þingflokks Framsóknarflokksins, samkvæmt Bjarna Harðarsyni þingmanni flokksins, að opinber rannsókn fari fram á starfsemi fjármálafyrirtækja og félaga hér á landi. Í viðtali við fréttavefinn Vísi.is 25. júlí sagði Bjarni: „Ég tala fyrir því að þetta [starfsemi fjármálafyrirtækja og félaga, innsk. blm.] verði rannsakað og öllum steinum lyft í þessum efnum því það er brýnt að engum verði hlíft. Í þessum umskiptum er margt eðlilegt en þarna hafa einnig átt sér stað hlutir sem ég hef efasemdir um að standist bæði út frá viðskiptasiðferði og jafnvel út frá lögum.“

 

Ef af þessari hugmynd Bjarna verður er ekki útilokað að óþægileg staða geti komið upp innan Framsóknarflokksins. Tengsl flokksins við Gift fjárfestingarfélag ehf. eru augljós og mikil. Rannsóknin sem Bjarni kallar eftir myndi ná til starfsemi þess félags ef fyllsta jafnræðis á að gæta. Gift var stofnað utan um eignir og skuldir Samvinnutrygginga. Eigið fé félagsins var um þrjátíu milljarðar króna í fyrra.

 

Ólíkt flestum – ef ekki öllum – öðrum íslenskum fjárfestingarfélögum þá sitja stjórnamenn Giftar ekki í umboði eigenda sinna. Vafi leikur á því hvort það stenst lög, eins og Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hefur bent á. Undarlegt er að Fjármálaeftirlitið hafi ekki eytt öllum vafa um hvort sýsl framsóknarmannanna í stjórn Giftar með tugi milljarða sem þeir eiga ekki standist lög. Þau gera ráð fyrir því að stjórnir fyrirtækja og félaga séu skipaðar fulltrúum eigenda þeirra. Enginn eigendafundur hefur verið haldinn hjá Samvinnutryggingum og eigendur félagsins hafa engu ráðið um hvernig fé þeirra hefur verið varið. Ekki verður annað séð en að framsóknarog samvinnumenn hafa yfirtekið fjármuni og nýtt þá í viðskiptum. Eigendur þeirra fjármuna sem Gift hefur notað í viðskiptum á undanförnum árum eru fyrrverandi tryggingartakar hjá Samvinnutryggingum.

 

Þó ákvörðun hafi verið tekin um að slíta Gift og greiða eigendum fé sitt, þá verður ekki annað sagt en að umsýsla framsóknar- og samvinnumannanna með fé sem þeir eiga ekki – og hafa ekki umboð til að fara með – sé góð og gild ástæða til rannsóknar. Hugmynd Bjarna um rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja og félaga er líkleg til þess að vera naflaskoðun Framsóknarflokksins, að minnsta kosti að einhverju leyti. Ef sú stefna verður tekin að hlífa engum í opinberri rannsókn, þá getur það reynst flokknum erfitt. Út frá þessu er ekki hægt að útiloka að innan Samvinnutrygginga og Giftar hafi átt sér stað hlutir sem full ástæða er til að hafa „efasemdir um að standist […] út frá viðskiptasiðferði og jafnvel út frá lögum“, eins og Bjarni nefnir sjálfur.

 

Magnús Halldórsson fréttastjóri, birt 27/8/08

Bjarni Harðarson, 7.9.2008 kl. 20:41

2 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Anna Ragna Alexandersdóttir, 8.9.2008 kl. 12:02

3 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég held að ég skilji ykkur Framsóknarmenn rétt Bjarni, þið viljið umræddar breytingar hvort sem þær snerta einn eða einhvern annan og að þá skipti ekki máli hvort flokkslimur í einum flokki eða öðrum sé einhversstaðar á bak við nú eða flokkurinn allur jafnvel, þið eruð að tala um framtíðina en ekki fortíðina, ekki rétt? Ef ég er að skilja ykkur rétt er ég sammála ykkur og vona að ykkur takist að koma þessari hugmynd í framkvæmd sem fyrst. 

Enn hvaða flokk eiga Framsóknarmenn þá að kjósa næst?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 8.9.2008 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband