Mál Cumara fjölskyldunnar leyst!

Mark Cumara þarf ekki að fara úr landi fyrir 16. september heldur fær hann að vera í landinu uns umsókn hans um dvalarleyfi hefur verið afgreidd hjá útlendingastofnun. Fyrirheit um þetta fékk ég staðfest hjá Útlendingastofnun nú á ellefta tímanum. 477450

Það er þó fjarstæða að ég þakki mér þessa lyktir málsins en þrýstingur margra stjórnmálamanna í málinu hafði hér áhrif. Sjálfur heimsótti ég fjölskylduna í gærkvöldi sem vissi þá ekki betur en frestur Marks til að pakka niður og yfirgefa landið væri að renna út á allra næstu dögum. Fjölskyldan var mjög áhyggjufull þar sem ekkert var tryggt að sonurinn fengi að koma aftur heim í Þorlákshöfn.

Mál þetta er allt hið undarlegasta og kallar á fjölmargar spurningar.

Í stuttu máli er saga Filippseyingsins Marks sú að kom til landsins 17 ára ásamt móður sinni. Það var árið 2003. Foreldrar hans og fleiri ættingjar höfðu þá búið hér og starfað frá því laust fyrir aldamót.

Mark sem taldist á barnsaldri þegar þetta var fékk dvalarleyfi sem barn móður sinnar en það leyfi rann út þegar hann var 18 ára.

Mark fékk atvinnu hjá Frostfiski í Þorlákshöfn þar sem hann hefur unnið samfellt í fjögur ár og var algerlega grunlaus um að dvalarleyfi hans hefði runnið út árið 2004. Foreldrar hans fengu á næstu árum ríkisborgararétt á Íslandi enda þá bæði búið hér lengi og orðnir nýtir borgarar í Þorlákshöfn þar sem flestir úr fjölskyldunni starfa við fiskvinnslu.

Mark fékk vitaskuld kennitölu þegar dvalarleyfi var veitt, greiddi staðgreiðslu af launum, greiddi til lífeyrissjóðs og stundaði venjuleg viðskipti við sinn banka eins og aðrir Íslendingar. Hvergi hringdi neinum bjöllum og vinnuveitandi hans var jafn grunlaus um að ekki væru allir pappírar í lagi.

Í ársbyrjun 2008 fór fjölskyldan að kanna hagi Marks þar sem til stóð að öll fjölskyldan færi í heimsókn til Filippseyja þar sem móðuramma Marks býr enn, áttræð að aldri. Þá rak fjölskyldan sig á að ekki var allt með felldu og fékk þau svör hjá útlendingastofnun að Mark gæti ekki verið lengur í landinu og yrði að fara. Hann fékk frest til 16. september og stofnunin gerði á þeim tíma skilyrði að ströngustu lagaskilyrðum yrði fylgt um að Mark færi út áður en nýtt erindi hans um dvalarleyfi yrði afgreitt.

Nú hefur þeirri ákvörðun verið snúið við og er það vel. Það er enn engin trygging fyrir að Mark Cumara fái dvalarleyfi (eða þá ríkisborgararétt) en það verður að teljast vel mögulegt og jafnvel sennilegt. Við hljótum að vona það besta, Marks vegna og íbúa í Þorlákshöfn þar sem lítið samfélag Filippseyinga hefur auðgað mannlífið og stutt dyggilega verðmætasköpun í hinni fornu verstöð.

Ég vil hér í enda þessa pistils þakka Hauki Guðmundssyni forstjóra Útlendingastofnunar fyrir lausn málsins og vona að hann beiti sem oftar og sem oftast þeim mannúðarlegu og mildu taugum sem ég veit að hann á til enda maðurinn af Tjarnarkotsættinni...


mbl.is Kom 17 ára – sendur úr landi 23 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk kærlega fyrir þessar góðu fréttir.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.9.2008 kl. 12:25

2 identicon

Það er varla mikið mál að redda þessu. Er ekki einhver ólofuð blómarós á góðu og gegnu Framsóknarheimili sem getur bundist piltinum tryggðaböndum ? Hann skráir sig síðan til náms í Bretlandi, sækir um ríkisborgararétt til Allsherjarnefndar og málið er leyst. Þetta er þrælprófuð leið og virkar alltaf. Eða þarf annað tengdaforeldrið að vera ráðherra ?...veit ekki....kíki í reglugerðina.

En að allri gráglettinni gamansemi slepptri..það er fáránlegt af þjóð sem vantar ekki neitt til neins nema fleira fólk að vera sífellt að fleigja þeim sem hér vilja setjast að úr landi.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 12:37

3 identicon

Þetta mál ætti ekki að þurfa að koma á óvart. Við erum með mjög stranga löggjöf sem lýtur að útlendingum annarstaðar að en frá Evrópu.  

Nú stendur eiginlega upp á þig Bjarni (og aðra þingmenn) að taka afstöðu til þess hvort þú viljir að löggjöfin séu svona, eða hvort það eigi að breyta þeim. Það er ekki þægilegt til þess að vita að fólk eigi allt sitt undir því hvaða skapi tilteknir embættismenn eru þegar þeir afgreiða þeirra mál.

Síðan mætti spyrja hvaðan stefnan kemur sem Útlendingastofnun fylgir. Það er væntanlega eitthvað svigrúm í lögunum. Ég fór að efast um ágæti þeirrar stofnunar í fyrrasumar, þegar þáverandi forráðamaður lýsti því yfir í Morgunblaðsviðtali að heimasíðan þeirra (einn af fyrstu contactpunktum innflytjenda) væri bara á ensku og íslensku vegna þess að hún tryði ekki á þá stefnu að rétta útlendingum hækjur til að standa á!

Grímur (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 12:52

4 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þakka þér fyrir að upplýsa okkur um þetta Bajrni.  Vegna ummæla hér í athugasemdum vil ég gjalda smá varhug við miklum tilslökunum varðandi innflytjendur. Hins vegar finnst mér, í ljósi mála eins og Pauls og Marks, hvort ekki sé þörf á að Alþjóðahús hafi liggjandi frammi hjá sér vel útfærðar þær reglur sem þarf að fylgja við umsókn um dvalarleyfi hér og að það verði vel kynnt meðal útlendinga á landinu, að hjá Alþjóðahúsi geti þeir fengið gagnlega leiðsögn.

Einhvern veginn sýnist mér af báðum þessum málum, að Álþjóðahús sé ekki alveg að virka sem þjónustu og upplýsingastofnun; eins og ég hélt að það ætti að veera.

Með kveðju, G.J. 

Guðbjörn Jónsson, 9.9.2008 kl. 13:07

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Frábært, frábært, frábært!!! Þetta eru góðar fréttir.

Guðríður Haraldsdóttir, 9.9.2008 kl. 15:28

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bjarni, ertu að segja okkur að geðþóttaákvörðun hafi verið beitt í þessu máli eða að útlendingastofnun hafi nýtt sér lagalega heimild?

Kolbrún Hilmars, 9.9.2008 kl. 15:40

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þetta voru góðar fréttir :)  Þú stóðst þig vel Bjarni.

Óskar Þorkelsson, 9.9.2008 kl. 17:21

8 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Gott mál Bjarni, til hamingju með þetta!  Magnað að þingmaður í stjórnarandstöðu skuli fá þessu áorkað.

Það er ótrúlegt að fólk sem er íslenskir ríkisborgarar og hefur unnið hér á landi kannski í 10 ár þurfi að upplifa það að nánir fjölskyldumeðlimir þeirra séu meðhöndlaðir af hörku í kerfinu á meðan fólk frá ESB löndum sem engan á hér að, jafnvel ekki með hreint sakavottorð getur komið hingað án athugasemda. Það sýnist vera lítið réttlæti í því og það er óréttlátt og óskiljanlegt að núverandi stjórnvöld skuli taka jafn lítið tillit til fjölskyldubanda og dæmin sýna, t.d. líka í Ramses málinu. Það er eins og verklagið sé að breytast í það sem tíðkast hjá milljónasamfélögum þar sem stjórnvöld kæra sig kollótt um hvernig þau koma fram við þegnana og þau haldi að þau þurfi aldrei að standa reikningsskap gjörða sinna og geti hvítþvegið samvisku sína fyrir kosningar.

Vissulega þurfa nýir Íslendingar að sinna skyldum sínum og ég held að enginn telji að þeir eigi að njóta neinna forréttinda, en í svona tilfelli þar sem reglur breytast ár frá ári og þar sem foreldrar eru nýir íbúar í nýju landi þá geta yfirvöld ekki firrt sig allri ábyrgð á upplýsingagjöf og beitt jafnframt töluverðri hörku eins og brottvísun úr landinu en ég held að enginn vilji upplifa brottvísun sem ekki telur sig hafa unnið til hennar. Brottvísun úr landi má líkja við þunga refsingu og er mjög íþyngjandi fyrir þá sem hana þurfa að þola. Við megum ekki gleyma því að fólk sem lendir þannig upp á kant við útlendingalöggjöfina er nánast komið á sakamannabekk ef það hypjar sig ekki úr landi, og það er það sem blasti við að þessi piltur hefði orðið að gera. Hypja sig tafarlaust frá foreldrum sínum sem bæði eru íslenskir ríkisborgarar, ella hefði mátt búast við aðgerðum stjórnvalda.

Í fullkomnum heimi verða aldrei undantekningar og í þannig heimi eru öll lög réttlát eins og þeim er ætlað að vera. En af því að lagasmiðirnir geta ekki séð fyrir öll frávik sem upp geta komið þá eiga lögin að innihalda umboð til handa embættismönnum svo þeir geti metið hvert tilfelli fyrir sig og t.d. gefið nauðsynlega fresti í tilfellum eins og þessu. Til dæmis svo ekki þurfi að koma til sundrun fjölskyldna. Það mætti halda að Útlendingastofnun væri að reyna að reka starfsemi sína í gegnum síður dagblaðanna, þvílíkur hefur klaufaskapurinn verið undanfarnar vikur og mánuði. En svona fer þegar lagabókstafurinn er hafinn á stall og settur yfir fólkið sem hann á að þjóna og vernda.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 9.9.2008 kl. 19:49

9 Smámynd: halkatla

Hjúkk :)

halkatla, 9.9.2008 kl. 20:22

10 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Að sjálfsögðu á að setja í lög að bannað sé að reka Framsóknarmenn úr landi.Þjóðararf ber að varðveita í landinu, framsóknarmenn sem annað.

Sigurgeir Jónsson, 9.9.2008 kl. 21:26

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Bjarni það þarf að fara ofan í saumana á starfssemi útlendingastofnunar, þetta dæmi um filipeysku fjölskylduna er ekki eina dæmið um ótrúleg vinnubrögð.  Ég þekki fleiri dæmi.  Það þarf virkilega að endurskoða þessa starfsemi, og reglurnar sem er farið eftir.  Það stangast illilega á við annað hér í þjóðfélaginu, og hvernig við viljum taka á móti fólki.  Vona að þú beitir þér fyrir því ásamt öðru góðu fólki.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.9.2008 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband