Engin kreppa hjá okkur þingmönnunum!

Í öllum þeim aragrúa af skilgreiningum hagfræðinnar á hugtakinu „kreppa" er aðeins ein sem stenst tímans tönn. Hún er svona orðuð á Vísindavef HÍ:

„...að viðmiðið eigi að vera að þegar atvinnuleysi eykst, þá teljist það samdráttur nema þú verðir sjálfur atvinnulaus, þá sé það kreppa."

Þetta kom glöggt fram í umræðum Alþingis um stöðu efnahagsmála þar sem loksins gerðust þau undur að talsmenn Samfylkingar tjáðu sig um efnahagsmál án þess að fara einvörðungu með trúarjátningar um Evrópusambandsaðild. Kannski hefði þetta samt betur verið ógert en Samfylkingin situr jú í ríkisstjórn þessa dagana og í þessum flokki er boðskapurinn skýr: Það er engin kreppa á Íslandi. Aðalatriðið er að varast ofþenslu!

Nýjar hagfræðikenningar!

Nokkrir af talsmönnum krataflokksins eyddi líka tíma sínum í að lýsa yfir hollustu við stýrivaxtastefnu Seðlabanka Íslands. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sló óborgarlegar keilur í ræðu sinni þegar hún færði sönnur á að það gæti ekki verið kreppa á Íslandi: Jú þar sem það er verðbólga á Íslandi og háir stýrivextir þá getur ekki verið kreppa!!!

Nokkrir af minni spámönnum sama flokks með Árna af Stóra Hrauni í broddi fylkingar tók síðan upp merkið og skammaði Framsóknarflokkinn fyrir að vilja lækka hér stýrivexti, skipta þannig um hest í miðri á og losa um ofurþenslu og ofurhagvöxt í samfélaginu. Að efna til framkvæmdafylleríis nú væri ekki sjálfbær atvinnustefna. Nú yrði að efla stöðugleikann og standa fast á 15% stýrivöxtum.

Arfur aftan frá allaböllum!

Samfylkingin er vissulega skrýtinn flokkur, samsuða úr Kvennalistanum sem mér fannst nú alltaf mjög falleg hreyfing, Alþýðuflokknum þar sem saman komu í gamla daga alltof margir kaldlyndir gáfumenn og svo hreyfingu sósíalista sem bjó yfir mikilli réttlætiskennd en flestir áttu það líka sammerkt þar að skilja ekki baun í hagfræði. Þetta síðastnefnda held ég stundum að sé hið eina sem Samfylkingin tók í arf úr gamla Alþýðubandalaginu.

Það hefði allt mátt vera okkur meinalaust nema að nú situr hópur þessa fólks að landsstjórninni og skilur ekki að Ísland er að detta inn í alvarlegt kreppuástand. Vita ekki að háir stýrivextir eru við slíkar aðstæður hrein og bein skemmdarverkastarfssemi. Að verðbólga samtímans er ekki vegna þenslu heldur gengisfalli og þessvegna verður þessi verðbólga aldrei barin niður með stýrivöxtum eða öðrum baráttuaðferðum gegn þenslu. Og að engir, ekki einu sinni við Framsóknarmenn, gætum galdrað fram ofþenslu við núverandi aðstæður.

Það að hafa hátt stýrivaxtastig til sanninda um að það sé ekki kreppa er eins og sanna það á mánudagsmorgni að enn sé helgi með því að vakna drukkinn. Já,- og það að trúa því að Ísland geti við núverandi aðstæður lent í framkvæmdafylleríi bendir til einhvers sem ég treysti mér ekki um að tala.

Asnakreppa íhaldsins

Við þessar aðstæður er íhaldið gamalgróna í reglulega asnalegri kreppu og veit vel af því. Það duldist reyndar ekkert í umræðum í þinginu þar sem fleiri en einn af þingmönnum þess tók algerlega undir að auðvitað þyrfti að hefja hér vaxtalækkunarferli.

Og jú,- helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, Illugi Gunnarsson taldi líkt og sá sem hér skrifar að hávaxtastefna við þessar aðstæður stæðist afar illa en sagði að samt sem áður væri ekki hægt að hrófla við Seðlabankanum. Það yrði hreinlega of áberandi út um veröld alla.

Ég varð eiginlega hrærður við þessa hreinskilni. En þetta er svo sannarlega asnaleg staða sem hagstjórnin hjá íhaldinu er lent í. Og með alla Samfylkinguna sér til ráðuneytis!

(Ég veit að einhverjir efast um að þingumræðan hafi verið svona óborganleg en bendi þeim hinum sömu á að skoða vef alþingis, fara þar undir liðnum „þingfundir" inn á fundinn sem haldinn var 2. september og lesa tilvitnaðar ræður - til dæmis þetta hér, hér eða hér og ræða Illuga hér)

Birt í 24 stundum sl. laugardag


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að þetta krepputal komi nú mest frá suður og suðvesturlandi ,það er búið að vera botnlaus þensla á þessu svæði síðustu 10 ár meðan við landsbyggðarfólk höfum verið að lepja dauðan úr skel,,,, en nú eigum við að fara að borga neyslufyllerí ykkar þessu þenslu ár  sveiiiatan. Og vel á minst var það ekki Framsóknarflokkurinn sem skapaði þesa þenslu á sínum tíma með því að nánast gefa sérvöldum flokksgæðingum,,banka,,bifreiðarskoðnanir,,og meira frelsi í viðskiptum sem þið mistuð allgjörlega úr böndunum.

Res (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 21:37

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Klukk Bjarni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 11.9.2008 kl. 23:30

3 Smámynd: Steinn Hafliðason

Hvað jukust útgjöld ríkisins í fyrsta fjárlagafrumvarpi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks frá árinu á undan Hr Arnþór?

Steinn Hafliðason, 11.9.2008 kl. 23:37

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sko Bjarni !!!það er ikt með kúk og skít að þessir flokkar sem stjórna núna eru haldnir sjálfseyðingarhvöt/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 12.9.2008 kl. 17:23

5 identicon

hae hva seiru

bjaggni (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 02:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband