Sakleysi Seðlabankans og mýrarljós mannanna!

Þeir dagar eru liðnir að pólitískir valdhafar hér norðan Alpafjalla telji sig óskeikula. En embættismenn eru meira og minna við sama heygarðshornið og sumir svo drýldnir yfir óskeikulleika sínum að yfir flóir. Þannig skrifar einn Seðlabankastjóra þjóðarinnar í Morgunblaðið 9. ágúst sl. í svargrein til til þeirra Einars Benediktssonar og Jónasar Haralz;

„Sé með þessu gefið til kynna að Seðlabankinn hafi látið hjá líða að gera eitthvað sem honum bar að gera þá er misskilningur á ferð..."

Seðlabankastjóri vísar hér til gagnrýni á peningamálastefnu bankans. Ef rétt reynist að til sé stofnun sem alltaf hefur gert allt það sem hún á að gera þá væri það vitaskuld þakkarvert en því fer fjarri þegar Seðlabanki Íslands á í hlut. Staðreyndin er að mikið af þeim óförum sem íslenskt hagkerfi hefur ratað í á undanförnum árum tengist röngum ákvörðunum og aðgerðarleysi sömu stofnunar.

Siðapredikari í fjárglæfrum

Með nýjum lögum um Seðlabankann 2001 var bankanum falið aukið sjálfstæði og bankinn setti sér í framhaldi af þeim lögum verðbólgumarkmið sem miðast við 2,5% verðbólgu. Til þess að fylgja því eftir hefur stofnunin notað stýrivexti sem upphaflega var ætlað að hemja eftirspurn eftir lánsfé. Í upphaflegum markmiðum árið kom hvergi fram að stýrivextir ættu að hafa önnur áhrif s.s. þau að skapa hér peningamaskínu jöklabréfa eða að spenna upp gengi krónunnar.

Stýrivaxtavopn til baráttu gegn þenslu er gamalkunnugt í hagfræðinni en hefur verulega sljóvgast og orðið marklítið í aukinni alþjóðavæðingu peningamarkaðar. Þannig eru hvorki fyrirtæki né einstaklingar bundnir af stýrivöxtum síns Seðlabanka í eðlilegu árferði heldur geta þeir á öllum tímum sótt sér lán og fyrirgreiðslu þar sem best kjör bjóðast. Með stýrivöxtum má hafa lítilsháttar áhrif á skammtímaskuldir og skuldir þeirra sem standa höllum fæti, s.s. í gegnum dráttarvexti o.fl. Þrátt fyrir að þessi þróun hafi mátt vera öllum ljós strax í byrjun 21. aldarinnar og enn betur eftir því sem liðið hefur á eru engin merki um að Seðlabankinn hafi séð ástæðu til að endurskoða aðferðir sínar.

Enda fór svo að stýrivaxtavopnið virkaði tímabundið þó það væri með mjög annkanalegum hætti og líkast því sem það virkar að pissa í skó sinn í miklum kulda. Fyrst í stað hitnar þeim sem það gerir þó fljótt bregði mjög til hins verra. Stýrivextir sem voru miklu mun hærri en gerist í öðrum löndum með sæmilega þróuð hagkerfi urðu til þess að skapa hér óeðlilegar væntingar fjármálaspekúlanta og braskara með íslensku krónuna og eru þannig til komin svokölluð jöklabréf sem hanga nú yfir hagkerfinu eins og fallöxi. Ásakanir Seðlabanka um árásir vondra manna á íslenskt hagkerfi hljóma því eins og vandlætingaræður aflátssala.

Aukin eftirspurn braskara eftir krónunni olli hækkandi gengi langt upp fyrir það sem raunhæft gat talist. Um það er ekki efast í dag, hvorki af talsmönnum Seðlabanka, ríkisstjórnar eða hagfræðingum. Þar með er í raun og veru viðurkennt að það var Seðlabankinn sjálfur sem gerði út á áhættusama fjárglæfra í viðleitni til að fela verðbólgu. Því vitaskuld sífellt þýddi hækkandi gengi að verð á innfluttum varningi lækkaði um leið og útflutningsgreinar og samkeppnisiðnaður fengu sífellt minna í sinn hlut. Þannig var í reynd grafið undan burðarásum hagkerfisins með mjög ófyrirleitnum hætti. Hafi það verið raunveruleg trú þeirra sem stjórna í Seðlabankanum að með þessu hafi verið unnið gegn þenslu þá er ástæða til að efast um hæfni sömu manna til starfa sinna. Staðreyndin er að of hátt gengi í landi sem reiðir sig jafn mikið á innflutning og við gerum hlýtur að stuðla að aukinni neyslu. Innfluttar vörur voru einfaldlega á útsölu sem ferðaþjónusta, fiskvinnsla og önnur gjaldeyrissköpun landsmanna sá um að niðurgreiða.

Niðurgreiðsla á innfluttum varningi, erlendum vöxtum og reyndar erlendum hlutabréfum einnig (útrásin) olli svo vaxandi þenslu og hafði þar mun meiri áhrif heldur en nokkurn tíma Kárahnjúkar eða breytingar á íbúðalánum. Það er því rangt sem Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri segir að Seðlabankinn hafi einn barist við þensluna og allir aðrir borið eld að. Með vaxtastefnu sinni og gengishækkunum framan af niðurgreiddi Seðlabankinn í reynd erlenda vexti og átti þannig ríkan þátt í að kynda þenslubálið  .

Þegar allt frýs!

Stýrivaxtahækkunum í þeim hæðum sem hér eru ástundaðar verður sem fyrr segir helst líkt við það að verjast fótarkali með því að pissa í skó sinn. Sé frostið mikið kemur svo að því að allt frýs saman, maður og skór með öllu sem í milli er. Er þá mjög illa komið og sama má segja um íslenskt hagkerfi um þessar mundir þar sem frostkrumla efnahagskreppu skellur nú yfir. Þar ræður miklu alþjóðleg bankakreppa og niðursveifla á mörkuðum en þrákelkni Seðlabanka á stýrivaxtasvipunni hefur líka mikið að segja.

Sem fyrr segir er það klassísk hagfræði að draga megi úr eftirspurn eftir lánsfé með háum vöxtum. Minna lánsfé dragi síðan úr þenslu sem aftur dregur úr verðbólgu. Ráði sá sem hækkar vexti mjög litlu á markaði hafa slíkar hækkanir mjög lítið að segja og það átti við hér á landi allt fram að bankakreppunni. Nú þegar lokast sífellt meira fyrir vexti á alþjóðamörkuðum gegnir allt öðru máli og skyndilega hefur Seðlabankinn ofurvald yfir íslenskum fyrirtækjum sem hann hefur ekki haft síðan einhvern tíma á síðustu öld.

Ef einhverjir ábyrgir aðilar telja að þensla sé í hið raunverulega vandamál hagkerfisins nú á haustdögum 2008 þá væri hægt að sjá einhverja skynsemi í því að hafa stýrivexti hér hærri en í nágrannalöndum okkar. Það væri samt mikið vafamál að þeir ættu nokkru sinnum að geta farið þrefalt yfir stýrivexti nágrannalanda okkar. Nú eru aftur á móti allir sammála um að vandamál hagkerfisins nú og á komandi vetri sé verulegur samdráttur sem muni leiða til minnkandi atvinnu, gjaldþrota og minni kaupmáttar. Sumt er þegar komið fram, annað ekki. Verðbólgan sem mælist er vegna gengisfellingar og er í raun eðlileg afleiðing af hágengisstefnunni sem Seðlabankinn ýtti undir áður. Þannig er Seðlabankinn höfundur núverandi verðbólgu en ekki vörn gegn henni.

Þrátt fyrir að Seðlabankanum hafi á þenslutíma mistekist svo hrapalega að slá á þenslu bætir hann ekki fyrir það með því að slá hagkerfið niður nú þegar það liggur sérlega vel við höggi. Það sem nú þarf er að auka kraft hagkerfisins og það verður ekki gert með því að okra á þeirri vöru sem öll fyrirtæki þurfa fyrst og síðast til að halda lífi,- lánsfé. Hin alþjóðlega lánakreppa sér um að gera allan atvinnurekstur erfiðan og Seðlabankinn nú hefur það hlutverk að örva hagkerfið. Allt annað getur leitt til þess að íslenskt hagkerfi sigli á erfitt blindsker sem mun svo aftur verða til gengisfellingar og enn meiri verðbólgu.

Hinir óskeikulu

Tilefni þessarar greinar voru öðru fremur orð Eiríks Guðnasonar seðlabankastjóra þar sem hann talar fyrir óskeikulleika sinnar stofnunar. Það er vont mýrarljós að trúa slíku um sjálfan sig og enn verra að trúa á óskeikulleika annarra líkt og sá mæti bankamaður Jónas Haralz virðist nú gera þar sem hann predikar Evrópusambandsaðild.  Þeir Seðlabankamenn virðast ekki hafa skilið það að árangursrík stjórn peningmála og raunar efnahagsmála í yfirleitt byggist á vandlegri skoðun á aðstæðum hvers tíma, en ekki  einföldum þumalfingursreglum sem hannaðar voru fyrir mörgum árum fyrir allt annað hagkerfi en við búum við í dag. Staðreyndin er að efnahagsmál verða aldrei leyst með patentlausnum og mýrarljós eru fyrir grillufangara.

(Birt í Mbl. 11. september 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Las þessa grein, og finnst hún svo mjög athyglisverð/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 14.9.2008 kl. 23:11

2 identicon

Langaði bara að kvitta og bjóða þig velkominn heim.

Kveðja Jenný

Jenný (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 20:11

3 Smámynd: Óðinn af Eyrarbakka

"Þannig er Seðlabankinn höfundur núverandi verðbólgu en ekki vörn gegn henni"- Held að þetta sé nákvæmlega kjarni málsins og rót vandans , eins og við sjáum það hér úti á akrinum.

Óðinn af Eyrarbakka, 23.9.2008 kl. 09:10

4 identicon

Góð greining.  Boltinn fór samt að rúlla með Kárahnjúkavirkun.

Þar stækkaði hagkerfið um ca. 100 miljarða og seðlabankinn "gleymdi" að prenta seðla á móti þeirri stækkun.  Krónan á nefnilega að endurspegla verðmæti hagkerfisins.

Vegna þessarar "gleymsku" þá rauk gengið upp og boltinn fór að rúlla, útrás, hækkaðir vextir, jöklabréf,  erlend lántaka o.sv.frv.

Fín greining hjá þér Bjarni, á því sem við tók.

Það þarf samt að fara fram meiri umræða um orsök eða upphaf vandans, a.m.k. áður en farið er í ný kárahnjúkaæfintýri.

Bjarni G. Bjarnason. 

Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband